Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.2003, Síða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. NÓVEMBER 2003 5
„Ég hef enga altæka skýringu á því. Það er
hugsanlegt að það hafi haft sitt að segja að höf-
undurinn var talinn borgaralegur og hann skrif-
aði í borgaralegt blað. Það hefur hugsanlega
fælt ýmsa ljóðalesendur frá.“
Þú notar hugtakið „borgaralegur“ í titli bók-
arinnar. Hvað lá því að baki?
„Ýmislegt. Það var reyndar algengast að ljóð
af þessu tagi, opin hversdagsljóð, kæmu frá
vinstrisinnuðum skáldum. Menn hrukku því við
þegar þeir sáu þennan titil á bók eftir mig.
En í mínum huga merkir þessi titill að um sé
að ræða ljóðabók eftir skáld sem lifir borgara-
legu lífi, á fjölskyldu, fer í vinnuna og lifir lífi
eins og annað fólk, er ekki í skáldlegum fíla-
beinsturni.
Einnig er ákveðið tvísæi í bókinni. Höfund-
urinn skopast að sjálfum sér. Það er ljóst að
hann á í mestu erfiðleikum með að vera borg-
aralegur.“
Vetrarmegn er síðasta bókin í þríleik sem þú
kennir við Eyrbyggju og hófst með Marlíðend-
um, önnur bókin nefnist Hljóðleikar. Eyr-
byggja er leiðarstef í þessum flokki bóka, einnig
bernska þín eða bernskuslóðir, Snæfellsnes,
sem eru söguslóðir Eyrbyggju. Það er satt að
segja ansi myrkur tónn í þessum bókum.
„Það er rétt. Í heild sinni held ég að flokk-
urinn lýsi djöfulgangi samtímans og ósigri
mannsins.
Eyrbyggja þykir mér vera bók um samtím-
ann. Það eru galdrar og forneskja í henni sem
við erum að kynnast núna líka. Og ef ég ætti að
nota eitthvað eitt orð um hana – og það gæti gilt
um fleiri Íslendinga sögur – þá er það töfra-
raunsæi. Eyrbyggja er í raun mjög prósaísk
bók, hún er ekki mjög ljóðræn. En sé hún sett í
ljóðrænt samhengi eins og ég hef reynt þá hefur
hún flesta eiginleika ljóðsins. Þar skiptir hinn
knappi stíll hennar máli.
Fleiri fornsögur koma fyrir í þessum þremur
bókum mínum, Egilssaga, Laxdæla, Víglund-
arsaga og Heimskringla og það er vísað til
Eddukvæða. Hvað varðar Eyrbyggju er farið
nokkuð frjálslega með.
Það mætti kannski minna á það að þegar ég
hitti Borges þá talaði hann um að skáld ættu að
taka tilvitnanir úr fornsögunum til að minna á
mikilvægi þeirra. Þar held ég að hann hafi haft
rétt fyrir sér. Hann gerði þetta oft sjálfur. Hann
orti um sögurnar og persónur þeirra. Hann orti
um Snorra Sturluson. Þetta var viss lærdómur.
En eins og þú sagðir áðan þá gerist Eyr-
byggja á ættarslóðum mínum. Ég kannast við
þetta landslag. En Eyrbyggja er, að mínu mati,
ekki héraðssaga heldur heimsbókmenntir.“
Bækurnar kallast mikið á?
„Já, ef ég ætti að velja sameiginlegan titil á
þær myndi hann vera Marlíðendur. Það er í
þeirri bók sem djöfulskapurinn byrjar, síðan
eru það Fróðárundrin og reimleikarnir í Hljóð-
leikum og allt í gegnum síðustu bókina er eitt-
hvað sem stefnir manninum í voða. Maðurinn
lendir í göldrum í Marlíðendum. Í Hljóðleikum
verður hann orðlaus, hann lifir eitthvað eða sér
eitthvað sem veldur því að hann verður alger-
lega orðlaus. Í Vetrarmegni leggur firði, menn
komast ekki leiða sinna, þeir eru stöðvaðir af,
þeir eru lokaðir inni, sambandslausir. Og þar er
ekki aðeins verið að lýsa íslenskum vetri heldur
og veikindavetri.
Upphaflega hugsaði ég mér tvær bækur. Ég
hefði getað endað með ljóðinu um fund Vínlands
í Hljóðleikum. Sá fundur er enginn sigur, skip
týnast og menn hrökklast aftur til Íslands og
þar er völva sem spáir ógnum.“
Já, og það er ótti í ljóðunum. Í því fyrsta, Við
ísa brot, er eins og þú sért að búa þig undir átök.
„Maður óttast kannski fyrst og fremst að eld-
ast en einnig hræðist maður veikindin. Þegar
menn fá heilaáfall og krabbamein er mikil ang-
ist í lífinu. Maður er óttasleginn en síðan smám-
saman hverfur óttinn. Það er tilvistarlegur
þráður í öllum bókunum. Glíman við tilveruna
út af fyrir sig er tilgangur.“
Undir lok þessa fyrsta ljóðs í Vetrarmegni
segist þú hlaða skip þitt hlut ljóðs. Er ljóðið gott
vopn í baráttunni?
„Vopn ljóðsins geta fleytt manninum áfram.
Ljóð eru merki um líf. Viljinn til að lifa skiptir
máli í vonlitlum heimi og ljóðið er beittasta vopn
skáldsins til að sýna viljann í verki.“
Í talsvert írónísku ljóði, sem nefnist Eftir á,
segirðu að þú hefðir kannski átt að gera ým-
islegt öðruvísi en þú gerðir. Þetta ljóð hefði
kannski átt að heita Eftirsjá?
„Það hefði verið í lagi að kalla ljóðið Eftirsjá.
En þetta er, eins og þú segir, talsvert írónískt
ljóð, það er gáski í skáldinu, það gerir grín að
sjálfu sér og vali sínu.“
Þú segir meðal annars að þú hefðir ekki átt að
hafa umdeildar skoðanir heldur gerast jábróðir
og að þú hefðir ekki átt að einangra þig heldur
ganga í Rótarý og jafnframt segirðu að þú hefð-
ir ekki átt að drekka of mikið hvítvín heldur
venja þig á myntute.
„Já, þetta eru háskalegir hlutir. Og þarna er
bent á leiðir sem hefðu kannski verið æskilegri
fyrir þennan höfund að feta. Það hefði að
minnsta kosti styrkt hann sem sómakæran
borgara.“
Í bókinni eru fleiri ljóð af þessu tagi þar sem
höfundurinn horfir yfir farinn veg með hæðn-
islegu glotti. Í ljóðinu Frábært er sagt að allt
hið frábæra sem þú sækist eftir verði að end-
ingu tilgangslaust. Þetta er öðrum þræði ansi
svartur boðskapur.
„Og þó. Sjálfhæðnin eykst með aldrinum.
Skáld mega ekki taka sig of alvarlega, þau
verða að geta stundað hæfilega sjálfsgagnrýni.“
En það er heldur ekkert nýtt að þú yrkir um
myrkrið. Bækur eins og Ný lauf, nýtt myrkur
sem kom út 1967 og Ákvörðunarstaður myrkrið
sem kom út 1985 eru ansi dimmar bækur. Er
þunginn í Vetrarmegni af sama meiði og sá sem
var að finna í þessum eldri bókum þínum?
„Myrkrið í Vetrarmegni á ýmislegt skylt með
myrkri eldri bóka minna en það tengist einnig
veikindunum. Bókin fjallar líka um myrkrið í
heiminum nú um stundir. Í henni er til dæmis
ort um atburðina 11. september.“
Ákvörðunarstaður myrkrið kom út eftir sjö
ára þögn sem varð eftir tilraunir þínar með
opna ljóðið á áttunda áratugnum. Hvers vegna
þessi þögn?
„Undirtitill síðasta ljóðsins í ljóðabókinni Líf-
ið er skáldlegt er Lokastef en þá var ég að
hugsa um að hætta að yrkja. Mér þótti ég vera
búinn að yrkja nóg. Bækurnar með opna ljóðinu
höfðu fengið misjafnar viðtökur og mér fannst
ég ekki þurfa að gera meira. Ef til vill var það
myrkrið sem knúði mig síðan til þess að taka
upp á því að yrkja aftur. Ákvörðunarstaður
myrkrið er þung bók og svört. En eins og í öðr-
um bókum mínum er myrkrið ekki bara ógn-
vænlegt, það getur líka verið gott. Við finnum
það sem búum á Íslandi að vetrarmyrkrið getur
stundum verið hlýtt. Og myrkrið nærir stund-
um sköpunina.“
Í síðasta hluta bókarinnar er ljóð sem nefnist
Engin bók í ár og það er vegna þess að ljóðin
eru of tregafull handa heimi sem bíður þess að
gleðjast.
„Já, þetta ljóð segir líka þá sögu að ástandið í
heiminum sé orðið það erfitt og dimmt að ekki
sé á bætandi tregafullum ljóðum. Það væri auð-
vitað æskilegra að fá orð sem geta gert fólk
bjartsýnt.
En ljóðið segir ennfremur frá manni sem hef-
ur orðið fyrir veikindum og finnur eftir þau
mikla angist en getur síðan sigrast á angri sínu
og litið lífið bjartari augum eftir.“
Þú yrkir líka um að þú hafir ekki sagt það
sem hvílir á þér, það er ýmislegt ósagt, það er
hik á þér, og það eru hlutir sem ekki má segja.
Hvers vegna má ekki segja suma hluti?
„Ég vitna þarna í Seamus Heaney sem var að
tala um Ted Hughes. Heaney vildi halda því
fram að það væri ekki hægt að segja allt og átti
þá við að það væru ýmis erfið persónuleg mál
sem ekki ætti að tala um. Í ljóði mínu er hik en
samt nálgast ég þessa erfiðu hluti á vissan hátt.
Það er alltaf spurning hversu nærgöngull mað-
ur á að vera. Skáldið neyðist til þess að vera op-
inskátt, jafnvel þótt það tali af sér og fari með
einhverja fásinnu þá er það hlutverk þess að
vera opinskátt.“
Í ljóðinu Auð síða segirðu að leiðin liggi inn á
við í skáldskapnum og svo aftur út. Er þetta lýs-
ing á skáldskaparfræði þinni?
„Já, og þetta er einnig ljóð um lífið. Það lýsir
gönguferð, hversdagslegri gönguferð en jafn-
framt eins konar örlagaferð. Að lokum verður
maðurinn að ganga gegnum vegginn sem er
hugsun hans, ekki klífa yfir hann. Þetta ljóð
hefði getað verið upphaf flokks um sama efni.
En um aðferðafræðina segir þetta ljóð:
Skáldskapurinn verður ekki sviptur hinu dag-
lega lífi því þá á hann það á hættu að verða að
uppskrift. Þótt leiðin liggi inn á við þá liggur
hún alltaf út aftur til okkar daglegu mála.“
Hvernig byrja ljóð þín? Þú talar um setningu
í þessu ljóði og að hún sé tóm hugsun, byrjun
sem opnist og lokist.
„Ljóð mín byrja oft með setningu eða setn-
ingum. Ég held síðan áfram. Stundum ekki fyrr
en mörgum árum síðar.“
Og formið, hvernig verður það til?
„Það fer eftir hjartslættinum.“
Þú segir í ljóðinu Ljóðastefna að stuðlar séu
bara í bergi nú til dags.
„Já, það er nánast óhugsandi að yrkja í hefð-
bundnu formi nú, en það er samt hægt að yrkja
vel í því. Sjálfum þykir mér fjölbreytnin góð.“
Fjölbreytnin er mikil hjá yngri skáldum.
„Já, og hún er góð, en ég hef á tilfinnngunni
að yngri skáld hafi ekki kynnt sér eldri skáld-
skap nægilega vel, ekki módernistana og heldur
ekki fornskáldin eða eddukvæði.
Annars held ég að það standi íslenskri ljóðlist
fyrir þrifum að við gengum aldrei nægilega hart
fram í módernískum skáldskap og eins súrreal-
isma. Skýringin getur verið sú að undirtektir
lesenda voru litlar. Skáldin mættu frekar andófi
en uppörvun. Þú minntist á það áðan að útgef-
andi minn vildi fá skýringar á ljóðum mínum.
Það var auðvitað vantraust á ljóðin. Menn virt-
ust efast um að ljóðin ættu erindi við lesendur.“
Á það enn erindi?
„Já, við fáa, að því er virðist, en ljóðið er nauð-
synlegt. Meðan maðurinn lendir í lífsháska hef-
ur ljóðið hlutverk.“
throstur@mbl.is
Ég orti raunsæ ljóð.
Þau söfnuðust í hlaða,
rituð á dagblöð og bæklinga
sem lágu frammi á sjúkrahúsinu.
Ég sagði eins og var
án þess að segja neitt,
endurtók, skyggndist um
í eigin veröld
og hélt að ég sæi allan heiminn
á þessu undarlega ferðalagi
sem varð hlutskipti mitt.
Ég sigldi um mörg höf
á voldugu en reikulu skipi,
(um borgir og eyðimerkur sigldi ég líka),
kynntist höfnum og bryggjum
og skuggum manna
sem ég spurði til vegar.
Ég stefndi á nýjan og nýjan áfangastað,
alltaf ókunnan,
og vaknaði síðan hér
á venjulegum morgni,
á raunverulegum degi.
Í mér rumskuðu gamlar ljóðlínur,
skýringar á heiminum,
óleyst dæmi um heiminn,
sem ég játaði en hafnaði jafnóðum.
Orðin söfnuðust saman,
vildu merkja eitthvað
án þess að merkja neitt.
(Ég fargaði öllum orðunum
en að mér sækja
ófullgerðar línur,
myndbreytingar
sem ég reyni að muna.)
Ferðaðist
frá víti til vítis,
sá Dante, sá Virgil,
ekki alveg gleymd skáld,
en enga stjörnu,
ekkert ljós sem sundraði rökkrinu.
Það hét mér trúnaði
og sagði:
„Hingað ertu kominn,
ég fæ þér vængi sem bráðna,
hvort sem þú fylgir mér eða ekki.“
Ég leit á rökkrið sem segl
sem bæri mig yfir höf,
vél sem aldrei stöðvaðist.
Paradís heimti ég ekki
heldur bústað skuggavera
þar sem eldinn dvaldi
en gat skyndilega leyst úr læðingi.
Skýring
bjó að baki.
Hún dokaði enn við.
„Þú slóst í för lifenda
með höfuð sem sneri niður
og fætur í skýjum.“
JÓHANN
HJÁLMARSSON
FERÐ