Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Síða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 10.01.2004, Síða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. JANÚAR 2004 S tofan var eins og leikmynd frá árunum eftir stríð. Þar hafði þá búið fólk sem bersýnilega var meðal íslenskra sigurvegara heimsstyrjaldarinnar síðari. En þetta kvöld hafði nýr sigur tekið sér bólfestu í stofunni um stundarsakir, sigurinn í kalda stríðinu. Sigraði einhver í kalda stríðinu? Þessi eilífa frestun á yfirvofandi sprengjuregni, þessi bið eftir einhverju sem aldrei kom? Já, Guð- mundur Hlíðberg, sem nú var gestkomandi í stofunni, sigraði í kalda stríðinu. Það var í raun einn af mest ríkjandi þáttum í karakter þessa tæplega fimmtuga, grannleita og skarplega manns, sigurinn var jafn einkennandi í fasi hans og brilljantíngreitt, hrafnsvart hárið, eða hvasst nefið, hátt ennið og tignin í svipmóti hans, yfirveguð ró og mildi þess sem veit sig hafa farið með sigur af hólmi þegar hann lítur yfir farinn veg í lífinu, að hugmyndirnar sem hann hefur aðhyllst allt sitt líf hafa haft betur. Sigurinn ríkti í hverju orði. Um Guðmund mætti segja í æviágripi að rétt rúmlega þrítug- ur hafi hann orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að sigra í kalda stríðinu. Um kalda stríðið mætti sem best segja í sögubókum að því hefði lyktað með sigri Guðmundar Hlíðberg, skjalavarðar og hestamanns. Og Guðmundur var þess fullviss að hann myndi einnig sigra fröken Guðríði Makan sem sat andspænis honum í sófanum og hafði ein- mitt boðið honum í stofuna sína sem var eins og leikmynd frá árunum eftir stríð, boðið honum heim að lokinni óvæntri kaffibarsferð fáeinna vina og kunningja sem hittust á frumsýningu kvikmyndahúss á nýrri íslenskri sjónvarps- mynd sem Guðmundur hafði séð auglýsta í síð- degisblaðinu um morguninn. „Viltu ekki fá þér tesopa eða sérrílögg fyrir svefninn?“ Ja, því ekki það. Guðmundur horfði á sokkabuxna- klædd lærin á þessari glæsilegu konu, hún var fimmtán árum yngri en hann sjálfur, þar sem hún krosslagði fætur í sófanum og hagræddi pilsinu. Guðmundur var læs á líkamstjáningu hennar, hann vissi hvað hreyfingin merkti. Hann brosti glettnislega til hennar og hún fliss- aði af þeirri mátulegu kátínu sem vínið hafði blásið henni í brjóst. „Skál,“ sagði Guðmundur og lyfti sérríglasinu. Guðríður lyfti sínu glasi á móti, kinkaði kolli og deplaði augunum. „Skál.“ © Ég neyðist til að stíga fram í öllu mínu veldi þegar hér er komið sögu, ég, höfundur sögunn- ar. Því ég er orðinn efins um hana. Helena – það er eiginkona mín – las yfir þetta upphaf hér að ofan þegar ég hafði skrifað það. Titillinn var ókominn. Hún sagði háðslega: „Og hvað ætlarðu að kalla söguna? Stolið frá höfundi Stolið frá höfundi stafrófsins?“ „Hvað meinarðu?“ sagði ég og var ögn brugð- ið. Hún sagði ósköp blátt áfram: „Fyrstu tvær setningarnar eru orðréttar úr smásögu eftir Davíð Oddsson!“ „Úr sögu eftir Davíð Oddsson? Hvaða dóma- dags vitleysa er þetta í þér, kona?“ „Ekki reyna að segja mér að þú hafir gert þetta óviljandi!“ sagði Helena. „Tókstu bara ekkert tekið eftir þessu? Var þetta bara alveg óvart hjá þér, ha? Vildi þannig til að orðin röð- uðust svona upp, nákvæmlega eins og hjá Dav- íð?“ „Mér þykir þú ansi vel að þér í skáldskap Davíðs Oddssonar,“ sagði ég ringlaður og ergi- legur. „Kanntu bara utanbókar heilu máls- greinarnar úr smásögum hans svo hvergi skeik- ar orði? Og hvaða saga er þetta svo, frú Helena bókmenntafræðingur? Er þetta úr Stolið frá höfundi stafrófsins? Hvernig fór ég að því að stela frá höfundi Stolið frá höfundi stafrófsins þegar ég hef allsekki lesið þá bók?“ Ég hafði í raun og veru ekki lesið hana og hef ekki enn. Það eina sem ég þekki er titillinn, flottur titill, stuðlaður og fínn, léttur leikur í honum, stafrófið á sér höfund (kannski Guð?), allur samsetningur á orðum er nokkurskonar stuldur frá honum. En Stolið frá höfundi Stolið frá höfundi stafrófsins er aftur orðið ansi knos- að, ofstuðlað og tilgerðarlegt. Og eiginlega of flippað fyrir minn smekk. Fannst mér. „Ég veit ekki hvernig þú fórst að því,“ sagði Helena. „En ég veit að þetta er beint upp úr sögu eftir hann. Og að birta þessa sögu þína núna væri það alversta sem þú gætir gert. Akk- úrat núna þegar allt er í háalofti vegna ævisögu Hannesar Hólmsteins og ritstuldarins sem hann er sakaður um. Kemur ekki nema þú ask- vaðandi og stelur blákalt frá Davíð Oddssyni! Þessu yrði tekið sem einhverskonar kommenti á þessi mál öll eða gagnrýni á Davíð og Hannes eða málsvörn fyrir þá; það er ekki minnsti möguleiki á að einhver myndi lesa söguna með opnum huga ...“ Hrollvekjandi hugdettu laust niður í mig. Hvað ef ég birti söguna með þessum titli og Davíð skrifaði aðra sögu sem héti Stolið frá höf- undi Stolið frá höfundi Stolið frá höfundi staf- rófsins? Þetta tæki engan enda, yrði einhvers- konar botnlaus háðslegur sprellileikur, endalaus vitleysa. Við ákváðum að hafa uppi á bókinni og hófum leit í Billy-bókahillunum í stofunni. Þær eru hinsvegar með þeim ósköpum gerðar að svo virðist sem maður finni aldrei neina bók þegar maður hefur einu sinni komið henni fyrir þar. Þær eru hít sem gleypir allt sem í þær er sett, það hverfur sporlaust og spyrst aldrei til þess aftur, líkt og stafir allra bókanna ruglist saman í einn allsherjar graut. Þarna stóðu Billy-hillurn- ar, barmafullar af bókum, en ekki fannst sú sem leitað var að. „Það er bara eins og einhver hafi stolið henni,“ sagði Helena og flissaði einsog fífl. Mér þótti þetta ekki fyndið. © Listin að táldraga. Er hún ekki einskonar leikur með sakleysi? Guðmundur Hlíðberg var kominn með heljarinnar standpínu. Þarna sat Guðríður og hló dátt og barnslega að brönd- urunum hans og heillaðist af mælsku hans um mannkynssöguna, hún dillaði sér eins og létt- fætt meri á skeiði, hann hafði nýlokið við að segja skondna sögu af samskiptum sínum við yfirmennina á Skjalasafni ríkisins þar sem hann hafði starfað sem skjalavörður um áratuga skeið. En var Guðmundur að sigra hana eða hún í raun að táldraga hann? Fólst listin að táld- raga karlmann í því að telja honum trú um að það væri hann sem væri að sigra? Kannski, að hluta til, en það skipti engu máli. Sá sem stefnir ætíð til sigurs fer ávallt með sigur af hólmi, list- in felst í því að trúa því og vita innra með sér að á endanum muni maður sigra, að búa yfir men- talíteti sigurvegarans. Ástæða þess að vinstri menn biðu lægri hlut í sögunni var ekki síst sú að menning þeirra var öðrum þræði aumingja- menning, dekur við tap og ósigur. Sá sem telur sér trú um að hann geti ekki sigrað getur það heldur ekki. Hann sigrar ekki í hugmyndaleg- um átökum og hann sigrar ekki konu. Hann sigrar ekki í lífinu. En málið var auðvitað flóknara. Miklu flókn- ara. Tvö öfl höfðu togast á alla tuttugustu öld- ina, hægri og vinstri, og vinstrið hafði vissulega leitast við að valta yfir einstaklinginn, sköpun- armátt hans og sigurvilja. En samt hafði það tignað og tilbeðið einstaklinga sem voru hvorki meira né minna en morðóðir harðstjórar. Ill- menni höfðu verið sett á stall og persóna þeirra tilbeðin. Einstaklingar höfðu slétt út einstak- lingsframtakið, pyntað og myrt, ritskoðað og vængstíft frelsið. Þýlyndi hafði orðið dagskipun vestrænna menntamanna. Villigatan hafði opn- ast og breikkað og víkkað og orðið að öngstræti. Allan þennan tíma hafði hann, Guðmundur Hlíðberg, og hans líkar staðið eins og klettur í hafi og haggast ekki þangað til kom að skulda- dögum, að reiknisskilum. Árið sem Berlínar- múrinn féll hafði Guðmundur dottið í lukku- pottinn. Honum barst til eyrna eftir krókaleiðum að Magnús Klintón Fólkaskrum, formaður íslenska sósíalistaflokksins, hefði ekki aðeins rekið með ólögmætum hætti aðstoð- arstúlku sína, barnunga stúlku að nafni Söru Siggdal, heldur væri ástæðan í kræsilegra lagi. Magnús var gamall barnaskólafélagi Guðmund- ar og hafði lúskrað á honum óspart af einskærri fólsku og pissað í stígvélin hans. Magnús hafði staðið í ástarsambandi við nánast ólögráða stúlkuna og rekið hana svo án uppsagnarfrests þegar upp úr slitnaði. „Yfirsósíalistinn rekur „aðstoðarstúlkur“ sínar þegar hann fær leið á þeim,“ sagði Guðmundur af þessu tilefni í beittri blaðagrein þar sem hann ýjaði að ýmsu án þess að orða beint og batt þannig enda á feril harðvítugs og ofstækisfulls stjórnmálamanns, varmennis sem þar að auki hafði gert Guðmund hlægilegan í augum þjóðarinnar í opnu viðtali þegar hann hæddist að gamalli kjallaragrein hins ötula greinahöfundar Guðmundar Hlíð- berg þar sem hann hafði notað orðið surtur (það var í gamansömum tilgangi, Guðríður). Hefndin var sæt. Þó var mest um vert að hið rétta sigr- aði. Samfélagið snerist á sveif með Guðmundi, hann hafði haft rétt fyrir sér allan tímann. Ekki veðjað á rangan hest, ekki skipt um hest í miðri á, verið staðfastur og ákveðinn knapi, skeiðað á ritvöllinn með reglulegu millibili, skarpur blaðapenni sem réð yfir öllum gangtegundum hins íslenska stílgæðings og skynjaði hug- myndalegar hreyfingar tímans, þessa villifola sem hann sat og hélt í taumana á þéttingsfast eins og hreppstjóri. Samfélagsumræðan og skrifin, kannski hafði þetta tvennt fyllt líf hans og gert að verkum að hann kvæntist aldrei. Og svo auðvitað hestamennskan. Við lifum á tímum þar sem sannleikurinn hef- ur komið í ljós eftir langa mæðu. Dagsbirtan skín, himinninn er heiður og frískleg golan hef- ur feykt burtu öllum blekkingum. Guðmundur fór á kostum í samræðunni, léttur hneggjandi hlátur þessa sigurgrips í sokkabuxum veitti honum óendanlega gleði. „Þú hefur svo lúmsk- an húmor, Guðmundur,“ sagði Guðríður og sæluhrollur fór um hann. „Þú ert yndislegur maður,“ sagði hún svo lágt. Kannski er ég hé- gómlegur en hvaða karlmaður vill ekki heyra að hann sé yndislegur frá konu sem kann að meta hann? Standpínunni óx ásmegin og honum varð hugsað að ekkert gæti jafnast á við að sitja með slíka stofu að leikmynd á spjalli við greinda og fagra konu og með standpínu í buxunum. Í rauninni hafði hann alltaf verið einstaklega óheppinn í ástamálum. Óheppnin elti hann á röndum. Skömmustulegur roði færðist skyndi- lega yfir andlit hans. Hver veit, kannski yrði eitthvað meira úr þessu, síðbúið hjónaband. „Fröken Guðríður, við skulum dansa.“ © „Hérna sérðu, Stofan var eins og leikmynd frá árunum eftir stríð. Þar hafði þá búið fólk sem bersýnilega var meðal íslenskra sigurveg- ara heimsstyrjaldarinnar síðari.“ Helena hafði fundið bókina. Stolni textinn var ekki í Stolið frá höfundi stafrófsins heldur fyrri bók höfundar, Nokkrir góðir dagar án Guðnýj- ar. Um hana var haft eftir Die Weltwoche á for- síðunni að hún væri sannkallaður happafundur. Fyrir mér var hún enginn happafundur. Við höfðum fundið textann í upphafi sögunnar Er- indi við gamlan vin. Ég sá ekki að sagan ætti neitt skylt við mína sögu og var hulin ráðgáta hvernig brot úr henni hefði ratað úr bók Davíðs, gegnum dulvitund mína og á síður minnar eigin sögu. „Afhverju sleppirðu ekki þessum setning- um?“ spurði Helena. „Vegna þess að þær eru mikilvægar fyrir söguna.“ „En geturðu ekki breytt þeim? Skáletrað þær?“ Skelfilegri hugmynd laust niður í mig á ný. Að Davíð Oddsson myndi boða mig á sinn fund í stjórnarráðinu til að ræða ritstuld minn. „Svona gerir maður ekki,“ myndi hann segja mildilega um leið og hann byði mér kaffi, „já takk,“ segði ég skelfingu lostinn og minntist afskipta hans af Hallgrími Helgasyni rithöfundi. „Ég boðaði þig nú hingað bara til þess að ræða við þig eins og einn rithöfundur við annan.“ Og smám saman myndi andrúmsloftið breytast og verða næstum alúðlegt. Davíð myndi segja mér glottandi að sér þætti nú Hallgrímur satt að segja betri rit- höfundur en ég, á móti segði ég með nokkrum þjósti að mér þætti Hallgrímur líka betri rithöf- undur en Davíð og ég sjálfur talsvert betri en þeir báðir; Davíð myndi brosa við málæði mínu og óskammfeilni og allt yrði með elskulegasta móti á ný og heiðríkja yfir samtalinu. Hann spyrði síðan hreint út hvort í sögu minni fælist gagnrýni á ritstörf hans – nú eða stjórnmála- störf. Ég segði, sannleikanum samkvæmt, að ég vissi það varla, smásagnasafnið væri prýðilegt, ætti hann við hvort ég væri hlynntur því eða andvígur? segði ég og reyndi að setja upp pók- erfés. Davíð yrði einkennilegur á svipinn og svaraði þessu engu. Hvort þetta væri nokkurs- konar heimspekileg úttekt á ritstuldi og höf- undarrétti hjá mér, spyrði Davíð. Tja, segði ég, ég hef nú haft svolítinn áhuga á þannig hlutum, þetta Hannesarmál er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Ætti ekki í rauninni að færa hann til um flokk, hrykki upp úr mér, og veita honum Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldverk fremur en fræðirit? Collage skáldverk? Klippi- verk? Þetta er nú allt gott og blessað, segði Davíð og eyddi þessu tali. Svo segði hann að auðvitað ætti hann höfundarréttinn á þeim orð- um sem ég færði mér í nyt í sögu minni, það væri nú bara staðreyndin málsins, að öllu gamni slepptu. Ég spyrði hann hvort hann hygðist fara í mál við mig. Hann segði að vissulega væri sá flötur til staðar í málinu, ég spyrði hvort það þýddi já, hann segði nei, ekki endilega, hann vildi bara ræða þetta mál yfirvegað og í bróð- erni; ég fyndi þá skyndilega þörf fyrir að játa, óstjórnleg játningarhvöt helltist yfir mig og mér fyndist ég knúinn til að segja eitthvað rót- tækt og ögrandi, ég segði hátt og skýrt: Mér finnst gjörsamlega fáránlegt að ríkisstjórnin hafi stutt Íraksstríðið, ég er ekki hrifinn af virkjuninni, einkavæðingin er dilla, hlutverk stjórnmála á að vera að búa til samfélag sem gott er að búa í, svo einfalt er það; í huganum færi ég yfir smásögu mína til að reyna að finna þessari gagnrýni stað í henni. Davíð segði ekk- ert, kinkaði bara kolli, þyrfti ekki að segja upp- hátt að ég hefði rétt á minni skoðun. Síðan myndu samræður okkar beinast yfir á aðrar og ópólitískari nótur, við ræddum um höfundar- réttinn, hvort hann geti verið heftandi fyrir sköpun listamanna, við töluðum um vísanir og tilvitnanir í bókmenntatextum, um muninn á fræðum og skáldskap, ég myndi vitna í Um- berto Eco sem eitt sinn sagði að munurinn fæl- ist eingöngu í gæsalöppunum, þær skæru úr um hvort texti væri skáldskapur eða fræði, fræðin afmarka aðkomna texta með gæsalöppum, skáldskapurinn ekki; ég segði Davíð frá ýmsum hræringum þar sem aðferðum skáldskapar og fræða er blandað saman. Davíð sýndi þessu svo mikinn áhuga að allt í einu dytti mér í hug að kannski myndi hann gera mig að einhverskonar ráðgjafa sínum eða ríkisstjórnarinnar, eða gefa mér tækifæri til að veita stofnun forstöðu gegn góðum launum, að Helena gæti loksins keypt sér bílinn sem hana hefur dreymt um, allt vegna smásögu minnar; en ég áræddi ekki að orða þessa hugsun að svo stöddu. Þá segði Davíð upp úr eins manns hljóði og nú nokkru hvassari í rómnum: Það mætti hugsa sér að einhver út- leggi sögu þína sem svo að þar hefnir þú fyrir Halldór Laxness með því að stela af vini og samstarfsmanni Hannesar Hólmsteins. Það þyrmdi yfir mig. Hve þau eru djúp, þessi stjórn- málaplott. Ég segði þetta af og frá, sagan ætti þvert á móti að vekja skynsamlega umhugsun um höfundarrétt, skáldskap og fræði, umræður eins og þær sem við hefðum átt, við Davíð ... „ER ALLT Í LAGI MEÐ ÞIG?!?“ Helena hrópaði af lífs og sálar kröftum en í húmorískri tóntegund, draumlyndi eigin- mannsins henni vel kunnugt. „Já, fyrirgefðu, ég datt aðeins út.“ © Og þau dönsuðu í stofunni við sjöunda strengjakvartett Sjostakovits, Lento í F moll. Þvílík hending að hún skyldi hafa svona líkan smekk og hann, Guðmundur hafði einmitt dá- læti á Sjostakovits. Tónlist, staður handan orðanna, staðurinn þar sem öll viðhorf geta mæst. Að sönnu nokkuð drungaleg tónlist til að dansa við, einkum þegar sellóið kemur inn eftir að önnur fiðla hefur klifið sinn tónstiga upp og niður um stund á móti aðallínu fyrstu fiðlu, síð- an tekur sellóið við aðalhlutverki og leiðir yfir í ofsann sem brýst fram í verkinu í næsta kafla þess, Allegro! Þessi tónlist var sennilega ekki vel við hæfi, hún var harmræn fremur en róm- antísk; en einmitt það léði sigri Guðmundar meiri fullnægju og dýpt. Sjostakovits túlkaði allan skala mannlegra tilfinninga. Þessi mikli listamaður sem tókst með einhverju móti að semja sín verk í sátt við harðstjórn Stalíns þrátt fyrir að í tónlist hans fælist gagnrýni, yfirlýsing um ömurleika lífsins í Sovétríkjunum – gat tón- list verið samfélagsgagnrýni, hugsaði Guð- mundur, ef hún vísaði ekki beint til samfélags- ins? Í því fólst kraftaverkið. Á meðan Stalín hringdi í rithöfundinn Búlgakov til að skamma hann fyrir gagnrýnina í bókum rithöfundarins hampaði hann tónskáldinu Sjostakovits enda þótt fólk fyndi í verkum hans samhljóm við þann nöturleika sem það lifði undir ógnar- stjórninni. Guðmundur tók þéttingsfast um rassinn á Guðríði og þau vönguðu í mun hægari takti en tónlistin sagði til um. Þvílíkur happafengur var hún, þessi kona! Hversvegna höfðu leiðir þeirra ekki legið saman fyrr? Guðmundur áttaði sig á að sælan sem hríslaðist um hann átti eitthvað skylt við ást. Gat það verið? Hafði hann rambað á ástina eftir öll þessi ár? Yrði sigur hans nú launaður af örlögunum? STOLIÐ FRÁ HÖFUNDI STOLIÐ FRÁ HÖFUNDI STAFRÓFSINS SMÁSAGA E F T I R H E R M A N N S T E FÁ N S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.