Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.2004, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. MAÍ 2004 13 SÝNING Sigurðar Þóris myndlistarmanns, Úr formheimi, stendur yfir um þessar mund- ir í kjallara Norræna hússins. Þar gefur að líta sterklituð olíumálverk, sem að sögn Sig- urðar eru raunsönn lýsing á huglægum veru- leika. „Hugurinn getur verið sannur, það sem maður hugsar og sér fyrir sér, rétt eins og náttúran eða eitthvað áþreifanlegt,“ segir Sigurður Þórir í samtali við Morgunblaðið. „Og þannig hef ég alltaf unnið, uppúr hug- anum. En svo var ég líka að hugsa um gamla meistara sem höfnuðu því að mála tvívíðar myndir á þrívíðan flöt. Ég fór að skoða hverju þeir voru að hafna og af hverju þeir hefðu misst.“ Hann hefur á undanförnum árum unnið við að þróa liti og samspil þeirra ásamt hinum klassísku frumformum. „Þessi form voru allt- af til staðar, í bakgrunninum við manneskj- una í myndum mínum. Á síðustu sýningu sem ég hélt voru myndirnar farna að bera keim af því, enda kallaði ég hana Tveggja heima sýn. Svo tók ég skrefið alveg til fulls, þar sem bak- grunnurinn kom æðandi fram, og mann- eskjan fór af sviðinu.“ En hvað varð til þess? „Þetta var bara hæg- fara þróun. Eina mynd á sýningunni byrjaði ég að mála fyrir mörgum árum, en skissuna gerði ég árið 1972, áður en ég fór til náms. Þannig að það hefur alltaf verið einhver angi af þessu formskyni til staðar í mér.“ Að mati Sigurðar vantar fegurð í mannlífið og tilveruna. „Mér finnst ákveðin dýrkun á ljótleikanum hafa verið til staðar undafarin ár og fegurðin hafa svolítið gleymst. Það er kannski rómantísk hugmyndafræði, en þann- ig hef ég alltaf verið, hef til dæmis afargam- an af því að lesa ljóð. Nútíminn er svo hraður að slíkir hlutir vilja gleymast, fólk lítur ekki upp og getur ekki notið tilverunnar. Þetta á sér stað um allan heim og kom einmitt í huga mér þegar Ólafur Elíasson var með sýn- inguna sína í Tate í Lundúnum – þar komu allir og göptu yfir sólarlaginu. Ef fólk sér sól- arlagið hins vegar úti í náttúrunni, þá hristir það höfuðið og gengur framhjá. En það sem ég skil ekki er af hverju listamenn þurfa að bæta við ljótleikann í heiminum. Auðvitað geta menn verið að segja eitthvað með því, en mér finnst menn alveg eins geta sagt eitthvað með því að halda fram fegurðinni.“ Finnst þér það vera hlutverk myndlist- armanna? „Ja, það var það að minnsta kosti í gamla daga. Og mér finnst alveg kominn tími til að listamenn fari að huga að því að glíma við fegurðina. Það er fegurð í litum og form- um og út um allt.“ Sýningu Sigurðar Þóris í Norræna húsinu lýkur 13. júní. Morgunblaðið/Ásdís „Mér finnst ákveðin dýrkun á ljótleikanum hafa verið til staðar undanfarin ár og fegurðin hafa svolítið gleymst,“ segir myndlistarmaðurinn Sigurður Þórir, en hann sýnir í Norræna húsinu. Litir og form kallast á GOSPEL eða önnur trúarleg tónlist var ekki aðalverkefni tónleika Gospelsystra Reykjavíkur á tónleikunum í Langholts- kirkju 12. maí sl. undir yfirskriftinni Sól rís. Efnisskráin samanstóð að mestu af söng- leikjatónlist. Mikil sönggleði ríkir í þessum 90 kvenna kór og smitar hún út frá sér til áheyrenda og er það vel. Hljómur kórsins er þéttur og voldugur og tónmyndun er hrein. Kórinn hefur einnig gott vald á styrkbreyt- ingum sem hann notar mikið. Á tónleik- unum söng einnig elsti hópurinn úr Stúlkna- kór Reykjavíkur. Þessi hópur er kominn vel á legg, intónerar vel og syngur hreint en vantar ennþá skerpu og ákveðni. Þau Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jóhann Sigurðarson voru einnig í banastuði og fóru hamförum í sínum einsöngslögum og dúett- um svo og í samsöng með kórnum. Öll 24 verkefni efnisskrárinnar voru vel flutt og öll nema eitt með undirleik. Flutt voru lög úr Fiðlaranum á þakinu, The Music man, Monde Cane, South Pacific, Mary Poppins, West Side Story, The Sound of Music, Tit- anic, Dr. Strangelove, Hárinu, Óperu- draugnum, Porgy and Bess, Funny Face, The Wiz, Trouble in Tahiti, Carousel, The Lion King og þrjú trúarleg ljóð, Lofsöngur til Maríu (Hail holy Queen), I will follow him og Oh, happy day. Ekki er ástæða til að draga eitt fram yfir annað þar sem flutning- urinn var yfirleitt góður og lifandi. Ekki var laust við að undirrituðum þætti yfirborðs- og sýndarmennska stundum ætla að taka völdin en það er smekksatriði og verður hverjum að þykja sitt. Hljómsveitin var góð og mæddi mikið á Agnari Má sem lék á pí- anóið alla tónleikana út í gegn að negra- sálminum Hail holy Queen undanteknum. Margrét sýndi það enn einu sinni að hún er góður stjórnandi og hefur góð tök á kórnum og leyfir söngnum að fljóta óþvinguðum. Árnesingakórinn í Reykjavík Árnesingakórinn í Reykjavík hélt sína ár- legu vortónleika í Langholtskirkju lagar- daginn 15. maí og kom víða við í efnisskrá sinni. Fyrri hluti efnisskrárinnar var helg- aður lögum sem tengja má Árnessýslu eða kórnum á einhvern hátt. Lag Pálmars Þ. Eyjólfssonar Flóinn var fyrst á dagskrá, síðan fylgdu á eftir Fagra veröld eftir Sig- urð Bragason, Með vinarkveðju eftir Ingi- björgu Bergþórsdóttur, Húmljóð Lofts S. Loftssonar og Í dag skein sól eftir Pál Ís- ólfsson sem var allt of hratt og í of stífu tempói og datt því steindautt um sjálft sig fyrir bragðið, Stúlkan mín eftir Björgvin Þ. Valdimarsson, Fuglinn sefur eftir Ísólf Páls- son, Eldgamla Ísafold eftir Sigurð Ágústs- son og Tíminn, spunalag samið af kórnum á æfingum út frá gefnum forsendum. Eftir hlé söng kórinn fyrst Fenja úhra eftir Hjálmar H. Ragnarsson og var það best flutta lagið að mati undirritaðs og eina lagið sem húsið náði að hljóma með. Næst komu fjögur lög eftir Egil Gunnarsson við texta Þórbergs Þórðarsonar. Jón Hjartarson kynnti ljóðin að hætti meistara Þórbergs eins og honum er einum lagið. Lög Egils voru vel sungin en þó vantaði eitthvað og þau voru ekki al- veg hrein. Perla Jóns Nordal Smávinir fagr- ir var mjög vel flutt. Fúgan um hænur Páls á haugnum var nokkuð góð og Næturljóð Taubes var mjög vel sungið. Efnisskránni lauk með belgísku lagi, Sanomi, í raddsetn- ingu kórsins sjálfs, sem var frekar einföld og einhæf. Allur flutningurinn einkennir að Gunnar Ben er að gera virkilega góða hluti með Ár- nesingakórnum og hefur náð gríðarlega góðum árangri. Hljómurinn í kórnum er orðinn býsna góður og á réttri leið, enn vantar samt herslumuninn upp á að láta húsið hljóma með. Kórinn sýndi það þó í Fenja úhra að hann getur hljómað mikið og voldugt og því óþarfi að halda svona mikið aftur af honum þótt kórinn hljómi sérlega vel í veikum söng. Tóntaka kórsins er góð og ekki verið að liggja á upphafshljómnum bara til að eyðileggja stemningu tónleikanna eins og allt of margir kórar gera. Mótun hendinga var mjög góð og vönduð. Píanó- leikur Árna Heiðars Karlssonar var góður og studdi vel við kórinn. Góður kórsöngur Jón Ólafur Sigurðsson TÓNLIST Langholtskirkja KÓRTÓNLEIKAR Gospelsystur Reykjavíkur. Stúlknakór Reykjavíkur. Einsöngvarar Sigrún Hjálmtýsdóttir og Jóhann Sig- urðarson. Stefán S. Stefánsson á slagverk, saxófón og flautu, Agnar Már Magnússon á píanó og Jón Rafnsson á bassa. Stjórnandi Margrét J. Pálmadótt- ir. Miðvikudaginn 12. maí kl. 20.00. Langholtskirkja KÓRTÓNLEIKAR Árnesingakórinn í Reykjavík. Undirleikari Árni Heið- ar Karlsson. Kynnir Jón Hjartarson leikari. Stjórn- andi Gunnar Ben. Laugardaginn 15. maí kl. 15.00. UPPSETNING Benedikts Erlingssonar á Improvisation på slottet (Spuninn í höllinni) með Nemendaleikhúsi Leiklistarháskólans í Malmö sem sýnd var í Teater Fontänen í apríl og maí fékk afar lofsamlega dóma í sænsku dagblöðunum Skånska dagbladet og Kvälls- posten. Í verkinu er unnið með texta úr sjö verkum Molières, en það var Benedikt sem útbjó leikgerðina. Meginuppistaðan í sýning- unni er annars vegar einþáttungur Molières sem nefnist L’Impromptu de Versailles (Spuninn í Versölum) og hins vegar leikrit hans Don Juan, en auk þess má finna búta og vísanir í fjölmörg önnur verk Molières. Ulf Persson, gagnrýnandi hjá Skånska dagbladet, skrifar dóm undir fyrirsögninni „Frábærlega snjöll og bráðskemmtileg.“ Í upphafi umfjöllunar sinnar bendir hann á að sýning Nemendaleikhússins á Spunanum í höllinni sé síðasta uppfærsla þess í núverandi húsnæði því Nemendaleikhúsið flytji í nýtt húsnæði með haustinu. „Það má því segja að hér sé um nokkurs konar kveðjusýningu að ræða. Og þetta er afar verðug kveðjusýning. Hún er bæði hröð og einstaklega skemmtileg. Bravó!“ Að mati Perssons hefur Benedikt í samvinnu við leikhópinn tekið efnivið Molières nýstárlegum tökum og framreitt textann á af- ar frumlegan hátt. „Sýningin virkar mjög gáfuleg, en á sama tíma er hún prýðis skemmtun. Með því að blanda saman einþátt- ungnum Spuninn í höllinni auk textabúta úr öðrum leikverkum Molières tekst á hugvits- samlegan hátt að spegla samtíma okkar og gefa mynd af allri móðursýkinni sem tengd er frægðinni og sjúklegri útlitsdýrkun samtím- ans.“ Brecht sjálfur væri himinlifandi Persson segir leikstjórann greinilega hafa úthugsað hvert einasta smáatriði og að það sé hrein unun að verða vitni að þeim skemmti- legu firringaráhrifum sem birtist í leik per- sónanna með áhorfendur. Og hann segir að Brecht sjálfur hljóti að vera himinlifandi yfir því. Í lok dómsins segir Persson: „Í sýning- unni hefur hin sjúklega áhersla á útlitið fjar- stæðukenndar afleiðingar og draumurinn um Óskarinn verður að martröð. Þetta hljómar kannski ekkert fyndið, en það er það samt. Spuninn í höllinni er framúrskarandi leikhúss- kemmtun og leikurinn er yfir línuna afar góð- ur. Betri og verðugri kveðju til Fontänen er erfitt að hugsa sér.“ Í gagnrýni Martins Lagerholms hjá Kvälls- posten kemur fram að einþáttungur Molières um spunann í Versölum hafi aldrei verið leik- inn áður í Svíþjóð. Að mati Lagerholms eru tengingar leikstjóra og leikhóps milli tilgerðar barokktímans og veraldar hinna frægu í dag bæði þaulhugsaðar og vel útfærðar. „Tekist hefur að skapa virkilega skemmtilega mynd af móðursjúkum og örvæntingarfullum tauga- hrúgum sem eru afrakstur af frægðarmaskínu nútímans. [...] Hin frjálsa túlkun, ásamt með snjallri mótun leiksena, vekur sífellt meiri að- dáun eftir því sem sýningunni vindur fram. Uppsetningin einkennist af ákafa og er taum- laus skemmtun.“ Í lokaorðum sínum segir Lagerholm sýningu Nemendaleikhússins hik- laust eina best heppnuðu leiksýningu sem hann hafi séð hin síðari ár. „Sýningin er bæði hröð og einstaklega skemmtilegt. Bravó!“ segir m.a. í dómi sænskra gagnrýnenda um uppfærslu Bene- dikts Erlingssonar í Malmö. Taumlaus skemmtun

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.