Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Side 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. júlí 2004 | 7
sæmdarmissis fjölskyldunnar. Konurnar bera
ábyrgð einkalífsins á herðunum á meðan karl-
arnir drottna og ákveða örlög, umbun og refs-
ingu. Í umfjöllun á kistan.is, segir Kristín
Pálsdóttir um verk Diamelu Eltit: „Grunn-
táknið í bókum Eltit er kvenlíkaminn sem
tákngervingur þess hernumda, misnotaða og
valdalausa. Þessi líkami er í kreppu, brothætt-
ur, sjúkur, svangur, blæðandi, stundum blind-
ur og/eða heyrnarlaus en þó er hann ekki
endilega sigraður. Þessi líkami er tákn þeirra
sem kúgaðir voru af herstjórninni í Chíle
hvort sem það var efnahags-, félags- eða
menningarlega og hann er líka tákn þjóða
Rómönsku-Ameríku sem kúgaðar hafa verið í
gegnum aldirnar.“
Á sama tíma og verk Eltit hræra upp í chi-
lesku samfélagi og vekja athygli víða um heim
kemur argentínski rithöfundurinn Susana
Silvestre (f. 1950) fram á sjónarsviðið. Skáld-
sögur hennar byggjast á sjálfsævisögulegri
reynslu og þrílógía hennar frá níunda ára-
tugnum hefur vakið verðskuldaða athygli. Við-
fangsefni fyrstu skáldsögunnar, Ef ég dey
fyrst (Si yo muero primero, 1991), eru upp-
vaxtarár ungrar stelpu í fátækrahverfi
Buenos Aires. Hún fjallar um basl fátækrar
innflytjendafjölskyldu, það hvernig er að vaxa
úr grasi sem kona í því umhverfi, drykkju-
skap, um heimilisofbeldi og það hvernig konur
og stúlkur þurfa sífellt að standa vörð um eig-
in líkama. Hún lýsir leit unglingsstelpu að
fyrirmyndum og vaknandi meðvitund um vald
eigin líkama í samskiptum við karla. Í stað
þess að bogna og beygjast undir karlveldið
lærir hún að nota og nýta sér þær leiðir sem
henni eru færar sem kona. Hún afvegaleiðir
og tælir karlana, og án þess að gefa þeim sig
alla kemst hún þangað sem hún ætlar sér og
fær það sem hún vill.
Í skáldsögunni Mikil ást á ensku (Mucho
amor en inglés, 1994) fjallar Silvestre um konu
sem hefur fikrað sig upp þjóðfélagsstigann
með því að giftast upp um stétt, en sem stend-
ur í bókarbyrjun uppi sem einstæð móðir. Hún
er í stöðugri baráttu við afskiptasemi um-
hverfisins sem treystir henni ekki fyrir hlut-
verkinu. Móðir sem kemst af án fulltingis karl-
manns í miðstéttarsamfélagi Argentínu er
bæði ögrun og ógn. Karlveldið ræðst gegn
henni með öllum tiltækum ráðum og Silvestre
afskræmir í hæðni örvæntingarfullar tilraunir
samfélagsins til að brjóta vakandi sjálfsvitund
kvenna á bak aftur. Hjónabandið er kúgunar-
tæki en ekki sá hornsteinn sem því er ætlað að
vera:
En eins og ég sagði er fyrsta hjónabandið eins og
tilkynning um fleiri og þess vegna finnst mér rétt að
taka fram að ég er ekki í neinu hjónabandi um þess-
ar mundir. Ég er án karla eða eiginmanna og móðir
mín talar ekki við mig. Systur mínar hringja sjaldan
og vinina hitti ég ekki oft og ég treysti þeim ekki
fyrir mér. En ég hef sjaldan haft það betra (bls. 21).
Í þriðju skáldsögunni, Ekki gleyma mér
(No te olvides de mí, 1995), kemur fram bein-
skeytt samfélagsgagnrýni á stöðu kvenna.
Aðalpersóna bókarinnar er útivinnandi kona
sem er leiksoppur kynjamisréttis á vinnu-
markaði og nýtur ekki sannmælis fyrir störf
sín. Í verkinu segja konur hver annarri sögur
sínar og til verður margraddaður kór sem
vitnar um óréttlæti, misbeitingu valds og of-
beldi. Kvenpersónur Silvestre taka saman
höndum og snúa vörn í sókn. Þær hafna því að
konur séu konum verstar og sýna fram á hið
gagnstæða. Verk þessara tveggja skáld-
kvenna eru góð dæmi þess hvernig bók-
menntir níunda áratugarins mótast af umfjöll-
un um líkamann sem samastað konunnar. Á
meðan Diamela Eltit fjallar um hann sem hálf-
gerða bölvun fyrir konuna sem í honum býr þá
finnur Silvestre í honum tækifæri og styrkir
þannig baráttustöðu hennar sem líkams-
hulstrið hylur. Báðar spyrja áleitinna spurn-
inga um leið og þær leggja áherslu á ábyrgð
kvenna við úrlausna eigin mála.
Þegar litið er til norðurs ber nafn Ángeles
Mastretta (f. 1949) frá Mexíkó strax á góma.
Hún sló í gegn með fyrstu skáldsögu sinni
Fylltu mig lífi (Arráncame la vida, 1985), sem
þýdd hefur verið á fimmtán tungumál. Mastr-
etta hefur sent frá sér tvö ritgerðarsöfn og tvö
smásagnasöfn, auk skáldsagnanna Engin ei-
lífð eins og mín (Ninguna eternidad como la
mía, 1999) og Ástarillska (Mal de amores,
1996).
Skáldsagan Fylltu mig lífi vakti sérstaka at-
hygli því þar er í fyrsta skipti fjallað um mexí-
kósku byltinguna frá sjónarhóli kvenna og
gerð grein fyrir þeim takmarkaða ávinningi
sem hún færði konum – jafnvel yfirstéttarkon-
unum. Í bókinni lítur ung miðstéttarkona yfir
líf sitt frá því hún er gift háttsettum foringja í
hernum fimmtán ára gömul og fram til þess að
hann fellur frá þegar hún er á miðjum aldri.
Þroskasaga hennar er samofin þroskasögu
Mexíkó þar sem væntingar og vonir alþýð-
unnar verða smám saman að engu um leið og
spilltir og sjálfþjónandi valdsmenn koma sér
betur og betur fyrir við stjórnvölinn. Skáld-
sagan opnar gáttir einkalífsins og segir frá lífi
kvenna í Mexíkó eftirstríðsáranna, þar sem of-
beldi, misrétti, hefndarþorsti og valdníðsla
mótar mannlífið. Rétt eins og í verkum Diam-
elu Eltit þá endurspegla skáld- og smásögur
Mastretta valdapíramíta þar sem herinn kem-
ur fyrstur, landeigendur næst og opinberir
starfsmenn og kerfiskarlar þar fast á eftir.
Allar þessar stéttir eru skipaðar körlum en
eiginkonur, systur og dætur þessara karla
deila ekki með þeim völdum og áhrifum heldur
aðeins efnalegum gæðum. Hins vegar má ekki
gleyma að þær eru samt sem áður valdameiri
en frumbyggjar og þeldökkir íbúar álfunnar.
Þeir reka samfélagslestina, ef svo má segja,
en eiginkonur þeirra, systur og dætur eru yst
út á jaðrinum – næstum utan samfélagsins.
Mastretta fjallar oftast um aðstæður efri-
millistéttarkvenna í verkum sínum, þ.e.
kvenna sem ekki þurfa að fást um það hvort
þær eigi fyrir salti í grautinn á morgun, heldur
hafa efni á því að velta fyrir sér umhverfi sínu
og aðbúnaði. Frásögnin líður fram undir glað-
væru skvaldri, því konur af þessari stétt eru
sjaldan einar. Í kringum þær eru hinar kon-
urnar sem búa við svipaðar aðstæður og drepa
tímann með samræðum, frásögnum og píanó-
leik. Enn fremur eru allt í kringum þær þjón-
ustustúlkur, barnfóstrur, eldabuskur og
saumakonur sem taka þátt í því að skapa sér-
stakt samfélag sem þrífst á eigin forsemdum.
Í valdakerfi einkalífsins ræður sameiginleg
ákvarðanataka þessara kvenna sem byggist á
því að ná samningum á meðan vopnaskakið
sem berst frá opinbera lífinu byggist á boðum
og bönnum.
Mastretta hefur séð ástæðu til þess að taka
fram í viðtölum að skáldsögur hennar séu frá-
sagnir en ekki femínísk ritgerðasöfn, e.t.v.
vegna þess að verk hennar hafa vakið athygli
fyrir kvenlægt sjónarhorn sem sífellt bregður
ljósi á líf kvenna í Mexíkó. Síðasta bók hennar,
smásagnasafnið Himinn ljónanna (El cielo de
los leones, 2003) er þar engin undantekning,
en hugmyndin að verkinu kviknaði fyrir tveim
áratugum þegar dóttir skáldkonunnar lá við
dauðans dyr á gjörgæslu sjúkrahúss í Mexíkó-
borg. Mastretta hefur útskýrt tilurð bókar-
innar með eftirfarandi orðum: „Fólk færði
henni helgað vatn og bænabönd, en í örvænt-
ingu minni fann ég enga betri leið til að hug-
leiða og biðja en að segja henni sögur – mína
sögu og sögur af frænkum mínu og frænkum
hennar. Ég margendurtók að hún væri síðasti
hlekkurinn í langri keðju sterkra kvenna og
hún yrði að lifa til að geta viðhaldið þessari
keðju."
Af þessu má vera ljóst að skáldkonur tíunda
áratugarins í Rómönsku-Ameríku endurmeta
og endurskilgreina borgarumhverfið sem þær
hrærast á sama tíma og þær leggja drög að
endurskipulagningu samfélagsins. Kvenpers-
ónur þeirra hnekkja ímyndinni um konur sem
kúgaðar, fórnfúsar og stilltar, því í verkum
þeirra koma fram konur sem eru ákveðnar,
sjálfstæðar og baráttuglaðar. Þær mótmæla
kynbundnu óréttlæti gegn konum og ákæra
valdhafana fyrir misrétti. Þær ráðast á kerfið
af sjálföryggi og áræði. Verk þeirra eru
ígrunduð út frá hugmyndum femínismans í
þeim skilningi að þær taka þátt í umræðu um
stöðu kvenna í samfélaginu og kynna tillögur
til breytinga og úrbóta.
AP
Herlögreglukonur í Sao Paulo í Brasilíu. Þær eru
nú átta þúsund talsins í borginni og ein
birtingarmynd aldalangrar baráttu kvenna í
landinu fyrir því að fá að taka jafnan þátt í
samfélaginu á við karla.
Höfundur er lektor í spænsku við Háskóla Íslands.