Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Side 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. júlí 2004 Mér finnst ég vera einskonar annálsritari, fréttamaður hjá stofnun sem geymir allar myndir heimsins og það er hlutverk mitt að fella þær saman. Og ef betur er að gáð – vann Rubens eiginlega nokkuð öðruvísi? Hann safn- aði gríðarlegu efni í Róm og hafði ótrúlega marga aðstoðarmenn. Í mínu tilviki eru það mörg hundruð ljósmyndarar, myndasögu- teiknarar, ritstjórar og aðrir sem eru til að- stoðar alla daga. Erró S nemma á sjöunda áratug síðustu aldar gerðist Erró fráhverfur beinni tjáningu – hætti að búa til ný form og nýjar ímyndir en sneri sér þess í stað alfarið að margbreytilegum myndheimi fjölmiðlanna, til þess að geta betur kannað þjóðfélagslegar og menningarlegar mótsagnir sem tilheyra heimi gegndarlausrar neyslu- hyggju. Í fyrstu ferð sinni til New York 1963 komst hann í kynni við bandarísku pop-listina. Þau kynni höfðu afgerandi áhrif á þróun myndlistar hans. Samhliða málverkum sínum hafði hann búið til klippimyndir (collages), þar sem efniviður var sóttur í blöð og tímarit, frá 1958, en nú fór hann að nota klippimyndirnar sem frummyndir málverkanna. Erró er í stöðugri heimildasöfnun í tengslum við list sína. Eykur við og kannar sí- vaxandi ímynda- eða myndabankann, sem hann hefur safnað að sér héðan og þaðan úr veröldinni. Þetta eru myndir eða úrklippur úr dagblöðum, tímaritum, bæklingum, vegg- spjöld, póstkort, auglýsingar og ekki síst myndasögublöð. Þetta ríkulega magn mynd- efnis er uppspretta og efniviður klippimynd- anna sem hann síðan varpar á striga og málar. Erró segir sjálfur: Samklippið er skemmtileg- asti hluti vinnunnar, sá frjálsasti .... hér finnur maður formlegar lausnir á því hvernig maður á að fylla flötinn. Samklippið er frummynd og fyrirmynd í senn. Síðan er bara að loka sig inni á vinnustofunni [og mála] stundum upp í fimmtán tíma í lotu. Þessi aðferð gerir Erró kleift að búa til óvæntar samsetningar sem stundum geta virst fyndnar eða kaldhæðnar – en geta líka, við nánari skoðun, komið óþægi- lega við áhorfandann eða virkað truflandi. Því oft má greina, undir glansandi fáguðu yf- irborði málverka hans, hvassa pólitíska gagn- rýni og flóknar sálfræðilegar vangaveltur. Samsetning myndbrota frá ólíkum tímaskeið- um gefur listamanninum einnig færi á að brjóta upp öll takmörk tíma og rúms í verk- unum. Listamaðurinn Erró lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi og er viðfangsefni verka hans ótrúlega fjölbreytt. Hann er mjög afkastamikill og vinnur yfirleitt verk sín í serí- um eða myndaflokkum. Pólitík og sam- félagsleg málefni hafa löngum verið eitt meg- inviðfangsefni verka hans ásamt tilvísunum í lista- og menningarsöguna. Verkin á sumarsýningu Listasafns Reykja- víkur – Errósafns, tilheyra mörg hver mynda- flokkum um stjórnmál s.s. Kínversku mál- verkin (Chinese paintings), Pólitískar myndir (Political paintings), Bandarískar innréttingar (American Interiours), Framleitt í Japan (Made in Japan). Einnig eru á sýningunni verk úr myndaflokknum um geimfarana Les Portraits des Cosmonautes, ásamt verkum úr myndaflokkunum 1001 nótt og 1002 nótt og fleiri. Í myndaflokknum Kínversku málverkin not- ar Erró myndir af alþýðuhetjum, eins og þær birtust á kínverskum áróðursveggspjöldum, í bland við myndir af velþekktum stöðum og minnismerkjum hins vestræna heims, eins og í verkunum Flórens, 1974, og Heimsókn á Munchsafnið í Osló, 1977. Þessar áferð- arfallegu myndir bjóða upp á margskonar túlkun: það má líta á þær sem erfiljóð eða minningarorð þeirra sem sáu fyrir sér fé- lagslegar eða pólitískar lausnir í hugsunum og orðum Maós formanns – það má kannski líka sjá í þeim martröð eða yfirvofandi ógn um frelsissviptingu Vesturlandabúa sprottna af sömu hugmyndum. Sumar þessara mynda virðast vera raunsæislegar myndir af asískum ferðamönnum á evrópskum túristastöðum. Viðfangsefni þessara málverka má skoða á sama hátt og grafíkverkin í myndaflokknum Bandarískar innréttingar frá 1968, með dálitlu háði í bland við móðursýki. Erró sótti mikið af myndefni til Víetnamstríðsins. Þó svo hann hafi á þeim tíma beinlínis verið að bregðast við samtímaatburðum, er hryllingi stríðsins mjög sjaldan lýst beint, með blóðugum átakamynd- um, heldur er afstaðan grundvölluð á meiri íhygli. Í þessum verkum sem sýna Víetkong- hermenn inni á bandarískum heimilum, bland- ar Erró saman tveimur heimum sem oftast eru aðskildir í tíma og rúmi en um leið má segja að í myndunum birtist einfaldlega raunsönn mynd af hversdagslegum veruleika vestrænna heimila þar sem stöðugt eru á skjánum myndir frá stríðsátökum annars staðar í heiminum. Í Pólitísku myndunum s.s. Ísrael, Allende, og Endurfæðing Nazismans sem gerðar eru á árunum 1974–77 og fjalla um alþjóðleg stjórn- mál, fá ýmsir sinn skerf: Bandaríkin, þáver- andi Sovétríkin, Ísrael, ásamt þeim sem stuðla að uppgangi ný-nazista. Erfitt er að greina viðhorf listamannsins sjálfs í þessum myndum en efniviður verkanna er aðallega fenginn úr sovéska skopmyndatímaritinu Krokodil. Inn- tak þessara málverka er oft mjög ofbeldisfullt en um leið baðað í skoplegu ljósi. Myndir úr Krokodil eru líka uppsprettan að mynda- flokknum Hernaðarlíf (Military Life). Í myndinni Tyrkneska baðið, 1979, er teflt saman fagurfræði mismunandi tíma þegar stefnt er saman í eitt myndrými geimförum 20. aldar, ímynd hetjuskapar og karlmennsku og munúðarfullum, íturvöxnum stúlkum úr málverki Jean-Auguste Dominique Ingres (1780–1867) Verk eins og Ýlfrandi málmur, 1988, Mae West, 1989, og Tölvum kennt, 1990, eru öll úr myndaflokknum 1002 nótt – en sagt hefur ver- ið að hugmyndin að honum sé sú að áhorfand- inn geti haldið áfram að búa til nýjar sögur, einskonar framhald af arabísku sögunum Þús- und og einni nótt. Þó svo að frummerking myndanna sé skýr í huga listmannsins, þá lúta þessar samsetningar sinni eigin innri rök- hyggju og því er túlkunarmöguleikum áhorf- andans lítil sem engin takmörk sett og þekk- ing hans, menning og andagift ræður mestu um hvernig hann túlkar eða les þessar myndir. Í verkinu Desert Storm, eða Eyðimerkurstríð frá árinu 1991 er efniviðurinn sóttur í heim myndasögunnar. Viðfangsefnið er pólitískt; myndin er gerð sama ár og Flóabardagi hófst. Þarna má sjá bandaríska innrásarherinn í skriðdrekum sem minna á hamborgara eða pylsur, grýta vestrænum neysluvarningi til innfæddra um leið og handsprengjum. Þrátt fyrir að vera máluð 1991 hefur þessi mynd sterka skírskotun til samtímaviðburða og það sama má í raun segja um mörg þeirra eldri verka sem eru á sýningunni. Erró hefur alltaf haft næmt auga fyrir menningarlegu samspili og víxlverkun menn- ingartákna. Þessi atriði ásamt staðfastri sam- félagsgagnrýni gera það að verkum að myndir hans eiga alltaf erindi við samtímann.  Við ritun greinarinnar er m.a. stuðst við grein eftir Gunn- ar B. Kvaran: Erró - Critical Visio, Bergen Kunstmuseum, Bergen 2000 og grein eftir Ian Alteveer: Gray Gazette Vol. 7, No 2, New York, 2004. Morgunblaðið/Þorkell Desert Storm „Í verkinu Desert Storm, eða Eyðimerkurstríð frá árinu 1991 er efniviðurinn sóttur í heim myndasögunnar. Viðfangsefnið er pólitískt; myndin er gerð sama ár og Flóabardagi hófst. Þarna má sjá bandaríska innrásarherinn í skriðdrekum, sem minna á hamborgara eða pylsur, grýta vestrænum neysluvarningi til innfæddra um leið og handsprengjum.“ Verkið er í eigu Listasafns Íslands. Fagurfræði og stjórnmál Höfundur er deildarstjóri safnadeildar Listasafns Reykjavíkur. Kínversku málverkin „Í myndaflokknum Kínversku málverkin notar Erró myndir af alþýðuhetjum, eins og þær birtust á kínverskum áróðursveggspjöldum, í bland við myndir af velþekktum stöðum og minnismerkjum hins vestræna heims.“ Um þessar mundir stendur yfir sýning á verkum Erró í Hafnarhúsinu. Í þessari grein er fjallað um tengsl fagurfræði og stjórnmála í list Errós en á sýningunni eru mörg verk sem snerta á heimsmálunum með einhverjum hætti. Eftir Þorbjörgu Br. Gunnarsdóttur thgunn@reykjavik.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.