Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 V ikuna 12.–19. nóvember var al- þjóðleg einleikjahátíð haldin í Kiel í Þýskalandi. Þetta er eina alþjóðlega hátíðin af því tagi í Þýskalandi og ein sú mikilvæg- asta í Evrópu. Hátíðin er skipu- lögð af pólsku leikkonunni Jolöntu Kozak- Sutowicz. Jolanta hefur fámennan en sam- stilltan hóp af fólki með sér sem gerði allt sem þurfti. Jolanta Kozak-Sutowicz Jolanta og maður hennar Leonid Sutowicz flúðu Pólland árið 1986 og komu til Þýskalands slypp og snauð. Þau fengu pólitískt hæli í Kiel og byrjuðu að vinna aftur við leikhús. Tíu árum síðar ferðuðust þau í tvö ár með einleik en upp úr því fengu þau hug- myndina að því að koma á legg alþjóðlegri ein- leikjahátíð í Þýskalandi. Aðeins ári seinna, árið 1999, var Thespis-monodrama festival í Kiel haldið í fyrsta sinn. Einleikjahátíðin stendur og fellur með þessari einstöku konu og manninum hennar. Öllum til mikillar ánægju sýndi forseti Þýska- lands þakklæti og virðingu sína fyrir störfum Jolöntu með því að sæma hana Riddarakross- inum við opnun hátíðarinnar. Dómnefndin Thespis-einleikjahátíðin er einnig leikhúss- amkeppni. Gagnrýnendurnir sem fengu það hlutverk að meta verkin eru allir virtir leik- húsmenn og komu frá Englandi, Þýskalandi, Póllandi, Rússlandi og Ísrael. Tveir þeirra voru leikstjórar, aðrir gagnrýnendur og formenn ITI (International Theatre Institute) í Englandi og Rússlandi en heiðursfélagi nefndarinnar er list- rænn stjórnandi Schauspielhaus í Kiel. Einn gagnrýnandi átti að koma frá Fílabeinsströnd- inni, en vegna stríðsins sem þar geisar komst hvorki gagnrýnandinn né leikhópurinn til Þýskalands. Val inn á hátíðina Það voru um það bil 200 aðilar sem sóttust eftir að komast inn á hátíðina, en úr þeim fjölda voru sextán valdir. Jolanta vildi að einleikjahátíðin sýndi sem mesta fjölbreytni, að áhorfendur fengju að kynnast sem flestum leiðum við að flytja einleik. Hún vildi líka að verkið kæmi á framfæri tilfinningu um þjóðerni þess sem flutti það og að málefnið væri mjög mikilvægt fyrir flytjandann. Af þessu leiðir að verkin voru mjög ólík í stíl og umfjöllunarefni. Allt frá Solo und andere texte, sem er dramatískur ljóðaflutn- ingur frá Bretagne með nánast enga leikmynd, til sýningar Grikkjanna, Go Go Go, sem er „multi media“- eða margmiðlunardans um mis- notkun á konum og hvernig þær eru gjarnan niðurlægðar og markaðssettar. Go Go Go er mjög tæknilegt verk, tónlistin ágeng danstónlist og leikmyndin sjónvarpsskermar sem sýna brot úr ýmsum kvikmyndum, úrklippur úr klám- blöðum og myndum. Dómnefndin átti í erfileikum með að taka ákvörðun enda var hún skipuð mjög ólíku fólki með verulega ólíkar skoðanir á leikhúsi og sýn- ingarnar svo margvíslegar. Niðurstaða þeirra var að gefa fyrstu verðlaun, önnur verðlaun og svo þrenn aukaverðlaun. Síðan gaf Kieler Nach- richten, dagblaðið í Kiel, sérstök fjölmiðlaverð- laun. Í heildina mjög útsjónarsöm niðurstaða dómnefndarinnar. Verk sem eiga erindi á listahátíð í Reykjavík Mig langar að segja frá nokkrum verkum sem ég tel að ættu erindi á listahátíð í Reykjavík. Fyrst er það verkið Grete, eftir Claudiu Wiedemer og Önju Gronau. Claudia leikur en Anja leikstýrir. Þær skrifuðu verkið upp úr Faust Göthes og fjallar það um Grétu og hennar sjónarhorn. Sýningin var mjög öguð með fallegri notkun á myndmáli sem varpað var á vegginn með litskyggnuvél. Claudia bregður sér í ýmis hlutverk, en samt er það Gréta sem segir okkur alla söguna. Í byrjun verksins leikur hún dag- lega rútínu Grétu, að vakna, elda morgunmat- inn, vekja mömmu, biðja bænirnar, ganga frá. Þessi rútína var endurtekin nokkrum sinnum á mismunandi máta, en var mjög gaman að horfa á. Rútínan var leikin á barnslegan hátt, eins og þegar börn sýna manni leikrit sem þau búa til. Þessi barnslegi stíll var eins og rauður þráður í gegnum sýninguna og passaði mjög vel við verk- ið. Það var nýstárlegt að sjá svona barnslegan leik í leikhúsi. Maður fann hversu gaman þeim stöllum hafði þótt að búa til verkið og það er mikilvægur þáttur fyrir áhorfanda að finna. Ég tala ekki þýsku og hef ekki lesið Faust, þó svo að ég ætti náttúrulega í hugum sumra aldrei að við- urkenna það. En ég eins og aðrir áhorfendur gat fylgt sýningunni frá upphafi til enda, hún talaði til okkar, hún hafði sterka hrynjandi og óvæntar uppákomur. Sýning Alexanders Thomas, Throw Pitch- fork, var frábær. Alex skrifaði verkið sjálfur og flutti það fyrst í litlu bílaverkstæði í New York. Þetta er eins konar sjálfsævisaga svarts manns sem á þrjá bræður og drykkfelldan föður. Hver og einn fer sína leið í að bregðast við drykkjunni, kynþáttahatrinu og fordómum innan fjölskyldu og samfélags. Alex hoppar á milli persóna á ein- földu sviði og flytur okkur í tíma og rúmi. Verkið er svartur gamanleikur því það fjallar um mjög erfiðar aðstæður og sársaukafulla atburði með gamansömu ívafi. Höfundi og flytjanda tekst að taka áhorfendur með sér inn í sársaukann og svo rétt á eftir að fá okkur til að skellihlæja. Það var sérstaklega gaman að horfa á þessa sýningu og að hún skyldi vera svona góð, því allir á hátíðinni voru búnir að kynnast Alex, því hann var síð- astur á dagskránni. Alex er mjög ljúf og falleg manneskja og það var gott að sjá hvernig það fær að njóta sín í textanum hans og flutningi. Pauline Goldsmith frá Belfast á Írlandi sýndi verkið sitt Bright Colours Only. Hún skrifaði það sjálf og sá um leikstjórnina í samvinnu við sex vel valda leikhúsmenn. Verkið byrjar á því að hún býður okkur velkomin til líkvöku með faðmlagi og handabandi og tilheyrandi spjalli. Okkur er boðið upp á te, viskí, samlokur og kex. Hún er mjög hress, eins og fólk getur verið þeg- ar það þarf að halda andliti á sorgarstundum. Þessi móttaka breytist svo í kynningu á líkkist- um, hvað maður þarf að hugsa út í, líkkistan verður að vera nógu löng og nógu breið, því við eigum það til að bólgna út, þegar við erum, sem- sagt, þarna ofan í … mikilvægt er að púðinn undir höfuðið sé mjög rakadrægur því við töpum gjarnan miklum vökva þegar við erum, þarna, semsagt, ofan í … Pauline tekur okkur í ferða- lag um þá upplifun að missa nákomna persónu, að vinna við jarðarfara-markaðinn, að eldast, að sakna, að takast á við lífið og dauðann. Í lokin koma á sviðið sex burðarmenn, kistan er borin út og allir áhorfendur fylgja henni eftir út á götu. Þannig tengist upphafið og endirinn, en annars er verkið í nokkrum hlutum. Það er brot- ið upp með teiknimyndum og texta sem fjalla um dauðann. Það sem er sérstakt við þessa sýn- ingu er hvað hún er brotakennd. Það er enginn söguþráður sem slíkur í gegnum verkið, en það skiptir ekki máli, því allt verkið snýst um dauð- ann í ýmsum myndum og Pauline hélt þráð- unum saman. Persónan sem Pauline leikur er létt og hress og kallar ekki allt ömmu sína. Ég er alger aðdáandi þessarar sýningar verð ég að segja. Pauline er frábær leikhúslistamaður og vann Best Actress Award 2004 á Edinburgh Fringe Festival fyrir leik sinn í Not I eftir Beckett. Ísraelski hópurinn sýndi verkið A Kind of Femme Fatale, eftir Yitzhak Ben-Ner í leik- stjórn og leikgerð Issi Mamanov. Hér er á ferð- inni einleikur um konu sem er með krabbamein. Leikkonan Gili Ben Ozilio flutti verkið. Gili gerði það af mikilli færni. Þetta er erfitt hlutverk því það krefst þess að leikkonan vaggi á barmi sárs- aukans og kaldhæðninnar. Verkið fjallar um konu sem beinir reiði sinni út í lífið – eða kannski frekar dauðann – að karlmönnum. Hún nýtur þess að sofa hjá mönnum og hræða þá með því að láta þá halda að hún hafi smitað þá með eyðni. Áhorfendur ferðast aftur í tímann með henni og fá að kynnast sorgum hennar og gleði. Það er langt liðið á verkið þegar maður fær það staðfest að hún er með krabbamein en ekki eyðni sem er kannski óþarflega seint, því hætta er á að áhorf- endur fái andstyggð á persónunni fyrir að vera svona djöfulleg í reiði sinni í byrjun. En Gili tókst að fá okkur með sér í ferðalagið aftur í tím- ann þar sem við fengum að kynnast persónunni áður en reiðin tók yfir. Verkið er fullt af sorg, reiði og ekki síst kaldhæðni eins og titillinn ber með sér. Gili er sjálf með krabbamein sem gerði það að verkum að raunveruleikinn blasti við áhorfendum í leikhúsinu, það var ekki hægt að slaka á í sætinu og hugsa, þetta er bara leikhús. Leikhús já, en raunveruleiki. Þessi leiksýning var með enskum texta sem margir í áhorf- endasal voru þakklátir fyrir. Umræðurnar Á daginn voru leikhúsumræður og fyrirlestrar um einleiki, ljóðlist og leikhús. Það var mikið rætt um hvort leikari í einleik þyrfti á allri tækninni að halda, hvenær er leikari ein-leikari og hvenær ekki? Niðurstaðan var sú að það væri ekki hægt að ákveða það, því hvert einleiksverk er einstakt, þarf ólíka tækni og ólíka nálgun. Þar sem verkin voru oftast flutt á frummáli var gjarnan erfitt að skilja hvað var verið að fjalla um. En það að horfa á leikrit og skilja ekki tungumálið var rætt fram og tilbaka. Það voru mjög ólíkar skoðanir á því hvort ætti að texta sýningarnar eða ekki. Sem dæmi um hversu leikverk orka ólíkt á mann eftir því hvort maður skilur textann eða ekki er sýning á hátíðinni sem fékk 2. verðlaun. Það er pólska verkið Ecce Homo með leikaranum Janusz Stolarski. Hann skrifaði einleikinn upp úr samnefndu verki eftir Nietzche. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum á blaði er þetta róttækt, ákaft, húm- orískt og gáfulega kaldhæðnislegt verk. En þar sem leikarinn var frekar staður á sviðinu – breytti varla um svip og dansaði svo nakinn – var erfitt að finna húmor, kaldhæðni, róttækni eða gáfur, þegar textinn er á tungumáli sem áhorfandinn skilur ekki. Ef uppsetningin sjálf hjálpar ekki áhorfendanum að finna þessa þætti sem honum er sagt að séu þarna, þá týnist hann satt best að segja. En verkið er greinilega mjög gott því hann hefur unnið til margra verðlauna. Þarna hefðu áhorfendur notið þess að skilja textann. Daginn eftir sýningu Pauline urðu mjög erf- iðar umræður um leikhús. Hvað er leikhús, hver er leikstjóri, um hvað má grínast, hvað má? Um- ræðurnar fóru af stað vegna þess hve verkið hennar er óhefðbundið. Þær fóru satt að segja úr böndunum því skoðanirnar voru af svo ger- samlega öndverðum toga og leikhúsmenntun viðstaddra, smekkur og leikhúshefðin af ólíku bergi brotin. Ein af listakonunum sagði að í hennar landi væri aldrei hægt að setja upp gam- anleikrit um dauðann, það yrði aldrei samþykkt. Annar sagði að leikrit um dauðann þyrfti að vera á léttum nótum, því sorgin kemur í gegnum húmorinn. Það var rifist um það hvort hægt sé að setja reglur um hvernig leikhús á að vera eða hvort leikhús þurfi, geti og sé frjálst. Að sjálf- sögðu fékkst engin niðurstaða enda það ekki til- gangur umræðnanna. Stemningin Það mætti halda að Kiel hefði verið full af þung- lyndislegum listamönnum af umfjöllunarefn- unum að dæma, en svo var sem betur fer ekki. Við skemmtum okkur konunglega, einnig þegar við vorum ekki að horfa hvert á annað í leikhús- inu. Þetta var frábær vika þar sem allir voru með hjartað opið. Við hjálpuðum hvert öðru við sýningarnar og fífluðumst þess á milli. Á kvöldin skiptumst við á sögum, söngvum og fíflaskap, þar til okkur varð illt í maganum af hlátri. Sem dæmi um húmorinn, þá vorum við að horfa á verkið Der Trauerzug eftir Nelli Schahnasarjan, leikið af Gretu Medschlumjan og leikstýrt af Wahe Schahwerdjan. Verkið er mjög drama- tískt, um alveg hræðilega sorgarsögu í Armeníu. Um konu drykkjumanns sem yfirgaf hana, átti tvö börn til að fæða en ekkert til að borða og tengdamóðirin alger gribba. Greta lék sitt hlut- verk vel, en uppsetningin er mjög ólík nútíma leikhúsi og á armenísku. Stundum sýndi Greta kómíska takta, en þar sem verkið var leikið á svo dramatískum skala gat áhorfandinn ekki verið viss. Greta var með þungt og mikið reipi um hálsinn alla sýninguna, sem var tákn um kúgun hennar. Þegar hún fór í svartan kjól fyrir jarð- arför tengdamóðurinnar og var að sjálfsögðu enn með reipið um hálsinn sagði sessunautur minn: Kjóllinn er smart en hálsfestinni getur hún sleppt. Það var mjög áhugavert fyrir leikhúsgesti að sjá allar sýningarnar, ekki síst vegna þess að samkvæmt þessari hátíð virðist leikhúsið vera á mjög ólíkum stað og með mjög ólíkan stíl eftir því hvort það kemur frá Austur- eða Vestur- Evrópu. Mesti munurinn liggur í því að sýningar frá vestrinu eru á léttari nótum, fjalla um sorg og erfiðleika af kaldhæðni og húmor, en sýning- arnar úr austri voru þyngri og alvörugefnari í alla staði. Þessi einleikjahátíð var ein af þeim upplif- unum sem maður hugsar til og veit ekki fyrri til en maður er farinn að brosa út að eyrum. 1. verðlaun: Grete eftir Claudia Wiedemer (leikkona) og Anja Gronau (leikstjóri), Þýska- land. 2. verðlaun: Ecce Homo eftir Friedrich Nietzsche, leikgerð/leikstjórn/leikur Janusz Stol- arski, Pólland. Aukaverðlaun: Throw Pitchfork eftir og leikið af Alexander Thomas, Bandaríkin, Der Trauerzug, eftir Nelli Schahnasarjan, leikkona Greta Medschlumjan, leikstjóri Wahe Schahwerdjan, Armenía, A Bat in the Attic, eftir og leikið af Völu Þórsdóttur, leikstjóri Ágústa Skúladóttir. Ísland. Mediaverðlaun frá Kieler Nachrichten: The Bear eftir Anton Chekhov, leikið og leikstýrt af Zijah A. Sokolovic, tónlistarmenn: Primoz Simoncic, Iztok Vidmar, Jelena Zdrale og Marjan Stanic. Slóvenía. Fjölbreytileg einleikjahátíð Vikuna 12.–19. nóvember var alþjóðleg ein- leikjahátíð haldin í Kiel í Þýskalandi. Þetta er eina alþjóðlega hátíðin af því tagi í Þýska- landi og ein sú mikilvægasta í Evrópu. Hér er sagt frá nokkrum af helstu verkunum sem sýnd voru og umræðum um þau. Eftir Völu Þórsdóttur lavateatro@ hotmail.com Ljósmyndari/Marcus Lieberenz Grete eftir Claudiu Wiedemer og Önju Gronau. „Sýningin var mjög öguð með fallegri notkun á mynd- máli sem varpað var á vegginn með litskyggnuvél.“ Höfundur er leikari. Verðlaun

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.