Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 18

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 18
18 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 Þ riðja bindi Byggðasögu Skaga- fjarðar er komið út undir rit- stjórn Hjalta Pálssonar frá Hofi en hann hefur haft veg og vanda af útgáfunni allt frá byrjun. Byggðasagan er mikið verkefni sem Hjalti segir að muni líklega taka 20 ár í vinnslu og þá verði bindin orðin 8 talsins. Þriðja bindið fjallar um hinn gamla Lýtingsstaðahrepp þar sem eru 105 býli alls. Auk þess er ítarleg greinargerð um sveitarfélagið Lýtingsstaðahrepp. Fjallað er í texta og myndmáli um hverja einustu jörð í hreppnum sem verið hefur í ábúð einhvern tímann á árabilinu 1781– 2004. Þá er einnig ítarlegur kafli um týnda þjóðveldisald- arbyggð í Vesturdal. Rík áhersla er lögð á myndefni og er birt litmynd af hverjum bæ eins og hann lítur út í dag, auk mynda af núverandi ábú- endum, ásamt gömlum og nýjum myndum er sýna atvinnuhætti, örnefni eða gamlar byggingar. Bókin er 528 bls. að stærð í stóru broti með rúmlega 600 myndum, kort- um og teikningum. Tímafrekara en nokkurn óraði „Þetta verk hófst árið 1995 þegar héraðs- nefnd Skagafjarðar tók þá ákvörðun að láta hefja ritun byggðasögu héraðsins. Það voru aðallega tveir menn sem áttu frumkvæði að þessu, þeir Jón Guðmundsson á Óslandi og Þorsteinn Ásgrímsson á Varmalandi,“ segir Hjalti Pálsson. „Þá var ég skjalavörður Héraðs- skjalasafns Skagfirðinga og Jón kom að máli við mig og falaðist eftir að ég tæki að mér þetta verk. Það hafði reyndar verið tal- að um það talsvert lengi að Skagfirðingar ættu að láta taka saman svona „búkollu“ en ég hafði satt að segja ekki mikinn áhuga á því.“ – Hvað eru búkollur? „Búkollurnar eru nútíma jarðabækur úr ýmsum sýslum landsins en upplýsingar í þeim eru mjög takmarkaðar. Mig langaði til að gera þetta á miklu víðari grundvelli og mér var sýnt það traust að ég fékk algjört sjálfdæmi til að vinna verkið. Ég var beðinn um áætlun um verkið og gerði hana en vissi í raun ekkert hvað ég var að áætla enda hefur komið á daginn að þetta verk er miklu tímafrekara og kostnaðarsamara en gert var ráð fyrir og í upphafi heyrðust nokkrar efasemdaraddir en eftir að fyrsta bindið kom út 1999 hef ég ekki heyrt neitt slíkt og held að flestir séu mjög áfram um að þessu verði fram haldið og verkinu lokið með fullum sóma. Við reynum að gera þetta á eins myndarlegan hátt og hægt er og mín skoðun er sú að eftir á að hyggja skipti ekki meginmáli hvað þetta tók langan tíma eða hvað það kostaði, heldur fyrst og fremst að vandað sé til verksins.“ – Segðu mér aðeins frá vinnunni við þetta gríðarlega verk. „Fyrstu tvö starfsárin fóru ein-göngu í að safna heimildum og skipa þeim niður og það var ekki fyrr en seint á árinu 1997 sem ég byrjaði að skrifa efni fyrsta bindis. Þá kost- aði það talsverð heilabrot að hanna bókina, hvað átti að vera í svona verki og hverju átti að sleppa. Ég leit helst til verka eins og Sveitir og jarðir í Múlaþingi sem kom út á 8. áratugnum. Þrátt fyrir þá viðmiðun er al- veg ljóst að þarna er farin ný braut í hér- aðssöguritun, því þarna er tekið á svo miklu fleiri þáttum en í öðrum slíkum sambæri- legum.“ Ítarlegra og fjölbreyttara efni Hjalti segir að í hinum almennu byggðasög- um sem gefnar hafa verið út víða um land sé jörðum lítillega lýst og byggingum. Þá fylgja upplýsingar um áhöfn hennar og nú- verandi ábúendur og kannski nokkra fyrri ábúendur. „Í þessu verki er lagt miklu meira upp úr landlýsingum hverrar jarðar og byggingum sem á henni standa. Síðan er eignarhald hverrar jarðar rakið frá öndverðu til dags- ins í dag. Það er auðvitað mjög misjafnt hversu nákvæmar upplýsingar eru um eign- arhald og víða eru göt í þeirri sögu. Sam- fellt ábúendatal hverrar jarðar frá 1781 fylgir einnig en það er yfirleitt frábrugðið eignarhaldinu því allt fram á 20. öld eru ábúendur almennt leiguliðar á jörðunum. Þá er farið í nokkur jarðamöt sem gerð hafa verið á jörðum í Skagafirði. Fyrsta jarðamatið er raunar í Jarðabók Árna og Páls frá 1709 og 1713 í Skaga- firði en ég nota einnig jarðamat frá árinu 1849 sem var aldrei löggilt og ekki prentað en þar er góð lýsing á jörðunum og hvaða áhöfn þær bera. Loks er ég með jarðamat frá 1918. At- hyglisvert er að þessi jarðamöt segja oft ekki það sama um gæði jarðanna og sérstaklega er áberandi í Jarðabókinni frá 1713 hvernig reynt er að gera sem mest úr ágöllum jarðanna. Þetta var sjálfsagt gert í því augnamiði að halda niðri skattlagningu landeigandans. Eftir þetta er farið út í ýmsa sögulega þætti er snerta hverja jörð. Eldri byggingar, söguleg ör- nefni, búskaparhætti og annað er tengist jörðunum. Þessi kafli er mjög mismunandi eftir jörðum; í Skagafirði eru margar jarðir sem eiga sér langa og merka sögu en aðrar koma lítið við heimildir. Umfjöllun um hverja jörð lýkur svo yfirleitt á lýsingu fornra eyðibýla eða selja sem tilheyrt hafa þeirri jörð sem um er rætt. Þau eru öll staðsett með GPS-tæki. Þetta hefur reynst mjög tímafrekt því þó stundum sé vitað hvar eyðibýlin og selin voru þá eru þau í nokkrum tilfellum týnd. Stundum hef ég rekist á slíka staði án þess að nokkur hafi sagt mér frá þeim. Ég fer á allar bújarðir, sumar margsinnis, ræði við ábúendur eða aðra kunnuga og reyni að fá svolitla yfirsýn á landið. Jeppinn minn er auðvitað þarfasti þjónninn en margt fer ég gangandi, jafnvel ríðandi þótt ég sé lítill hestamaður og einn- ig hef ég notað flugvél til að leita fornra mannvistarleifa út lofti. Það tekur oft lang- an tíma að fara fótgangandi til fjalla og leita að seli.“ – Hvernig finnur maður sel? „Maður lærir smám saman af reynslunni að lesa í landið og það tekur mig núna skemmri tíma en fyrstu árin. Ef ég er að leita að seli þá veit ég að það hefur staðið við læk eða vatn. Sel voru aldrei byggð annars staðar. Ef hins vegar er leitað að beitarhúsum voru þau uppi á hólum þar sem snjó hreinsaði frá og ekki nauðsynlega nálægt vatni. Ef leita á að stekk sem var notaður á hverjum einasta bæ þá voru þeir oftast í skjóli í laut eða sunnan undir brekku og yfirleitt staðsettir þannig að þeir sæjust ekki heiman frá bænum. Lömbin áttu ekki að sjá heim að bænum.Yfirleitt voru þeir nokkur hundruð metra frá bæ, jafnvel lengra. Það hefur reynst mér snúið að finna þá suma en ég reyni það. Kvíar hinsvegar voru rétt við bæjarhúsin, helst ekki lengra en 100 metra í burtu. Ég hef líka lagt mig eftir að halda til haga allri hjátrú og hindurvitnum sem tengjast hverri jörð og finna alla álagabletti, staðsetja þá með GPS og segja frá þeim. Það sama á við um örnefni sem eiga sér einhverja sérstaka sögu. Örnefnaskrár eru lykilheimildir í þessu verki og þar var Margeir Jónsson frá Ögmundarstöðum brautryðjandi og skrár hans hafa reynst mér mjög gagnlegar. Það er mjög misjafnt hversu kunnugir ábúendur eru í dag um þessa þætti. Fólk sem komið er á miðjan aldur og þar yfir og hefur kannski alist upp á jörðinni þekkir yfirleitt vel til. En yngra fólk og jafnvel aðflutt á jörðina veit eðlilega minna. Ég hefði í raun- inni þurft að vera 20–30 árum fyrr á ferð- inni með þetta verk til þess að ná í alda- mótakynslóðina sem var í miklu nánari tengslum við landið sitt en fólk almennt í dag. Landið var notað á allt annan hátt af fyrri kynslóðum. Þá þurfti hver laut og hver hóll að heita eitthvað.“ – Hvernig eru skagfirsk örnefni? Það er svolítil fátækt í skagfirskum ör- nefnum. Þetta eru oft sömu eða svipuð ör- nefni frá einni jörð til annarrar og ekki nema einstaka nafn sem sker sig úr hvað þetta varðar. Í sumum öðrum héruðum er eins og meiri auðgi í örnefnum. En þó koma vissulega fyrir falleg örnefni og t.d. Glóða- feykir sem er eitt af þeim tignarlegustu.“ Í bókinni er einnig að finna upplýsingar um fjölda jarða í ábúð á hverjum tíma og einnig fjölda búpenings. Það vekur athygli að í Lýtingsstaðahreppi hefur býlum í raun ekki fækkað frá því sem áður var en þó hafa margar jarðir og kot farið í eyði en í staðinn hefur betri og stærri jörðum verið skipt svo þar eru nú fleiri ábúendur en áð- ur. Samsetning búpenings hefur einnig breyst verulega, sauðfé hefur fækkað mjög og nautgripum einnig en hrossum fjölgað margfalt frá því sem áður var. Þetta end- urspeglar auðvitað gerbreytta búskap- arhætti. „Ég fer ekki mikið í úrvinnslu upplýsinga í þessu verki. Ég lít á þetta sem safn upp- lýsinga sem síðan verður hægt að vinna úr þegar þar að kemur. Það verður annarra að fást við það. Ég hugsa þetta sem uppfletti- rit þar sem leita má allra handa upplýsinga um hverja jörð og landið innan hreppanna sem teknir eru fyrir í hverju bindi. Það tak- markar reyndar notkunargildi bókanna ennþá að ekki verður gefin út nafnaskrá fyrr en að öllu verkinu loknu sem enn er talsvert langt í. Nafnaskrá mannanafna, staðanafna og atriðisorðaskrá verður auðvit- að lykillinn að verkinu til að það nýtist til fulls.“ Auk alls þessa er einnig í bókinni að finna skemmtilega innskotskafla þar sem sagðar eru ýmsar sögur sem tengjast hverri jörð. „Þetta er gert til að afla verkinu meiri hylli, því þetta eru alls konar skemmtisögur af köllum og kellingum, þjóðsögur, vísur og munnmæli og gerir bókina vonandi skemmtilegri fyrir bragðið. Þessir kaflar eru settir inn á síðurnar á bláum grunni svo auðvelt er að átta sig á því að þar er annars konar lesefni á ferðinni en í meginmálinu. Ég nýti einnig myndatexta bókarinnar til að koma á framfæri ýmsum viðbótarupplýs- ingum að svo þeir eru sjálfstætt lesmál í stað endurtekningar á meginmáli.“ Þjóðveldisbyggðin í Vesturdal Forvitnilegastur að mörgu leyti er svo kafl- inn um hina týndu þjóðveldisaldarbyggð í Vesturdal sem Hjalti hefur að hluta til graf- ið upp í bókstaflegum skilningi því hann fór þar um í sumar ásamt fornleifafræðingi og gróf á nokkrum líklegum stöðum til að stað- setja hin fornu býli og upp úr krafsinu hafði hann 12–14 fornbýli sem sum hver voru al- gerlega týnd að öðru en nafninu. „Elsta heimild um eyðibýli Vesturdals er Jarðabókin frá 1713. Næsta heimild er bréf Jóns Magnússonar í Sólheimum í Sæmund- arhlíð er hann ritaði bróður sínum, Árna Magnússyni handritasafnara í Kaupmanna- höfn, árið 1729.“ Í Vesturdal hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir áður og fyrir 20 árum stundaði Guðrún Sveinbjörnsdóttir fornleifafræð- ingur fornleifauppgröft á nokkrum stöðum. „Aldursgreiningar, sem gerðar hafa verið bæði á vegum Guðrúnar og einnig á vegum okkar sem grófum þarna í sumar, benda til þess að byggðin sem þarna var hafi verið á þjóðveldisöld og alveg ljóst að þarna hefur öll byggð verið farin í eyði talsvert fyrir aldamótin 1300. Það staðfesta öskulög í veggjahleðslum. Gróft áætlað má segja það þarna hafi verið byggð á tímabilinu 950– 1200. Hraunþúfuklaustur og fornbyggðin í Vesturdal hefur verið fáum kunn fyrr en síðustu áratugum. Margir hafa fjallað um þessa fornbyggð en að mestu einskorðað sig við Hraunþúfuklaustur. Það er enn fáum kunnugt vegna afskekktar. Þó vil ég leyfa mér að fullyrða að Klaustur og umhverfi þess er einn magnaðasti staður á Íslandi og eitt besta varðveitta náttúruundur í Skaga- firði. Þar helst í hendur dulúðugt sagnaum- hverfi og stórbrotin náttúrufegurð,“ segir Hjalti að lokum en þess má geta að Vest- urdalur er vel aðgengilegur til göngu og sannarlega fyrirhafnarinnar virði að fara þar um og upplifa hina fornu byggð Þjóð- veldisaldar með stuðningi hins einstaka korts sem Hjalti hefur útbúið og sýnir staðsetningu allra hinna fornu býla í daln- um. Er ekki að efa að mörgum þykir hvað mestur fengur að þessum kafla bókarinnar þó öll sé hún hin veglegasta og sannkallaður fræðabrunnur um Lýtingsstaðahrepp í Skagafirði. Hin forna byggð í Vesturdal Eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is Kort sem sýnir hina fornu Þjóðveldisaldarbyggð í Vesturdal í Skagafirði. Hjalti Pálsson ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar. Í 3. bindi Byggðasögu Skagafjarðar, sem fjallar um Lýtingsstaðahrepp, er for- vitnilegur kafli um hina fornu Þjóðveldisald- arbyggð í Vesturdal. Hjalti Pálsson hefur staðsett öll býli dalsins sem áður voru týnd og áætlar að byggð hafi staðið frá ca 950–1200.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.