Morgunblaðið - 28.12.2003, Page 13

Morgunblaðið - 28.12.2003, Page 13
þakkandi á báða bóga. Ég hélt bara ræðu um Strindberg, ég meina af því að ég var í Svíþjóð, og þakkaði honum fyrir það sem hann hefur gert fyrir mig og bókmennt- irnar. Nei, það sem ég er að segja, það er þessi brosmilda harðstjórn sem gildir í dag. Þess vegna eiga þeir sem eiga undir högg að sækja svo erfitt með að ná máli. Þeir eru bara beiskir. Ef þú ert ekki sáttur við kerfið ertu bara bitur og beiskur. Öll gagnrýni er gerð að sérvisku og að endingu sitja kverúlantarnir uppi með hana og hún breytist í það sem að sýstemið vill að hún sé. Það er þess vegna sem mér finnst hreinar og tærar sögur hafa heilmikið að segja og það er lífsviðhorf í sjálfu sér að skrifa og lesa sögur, að miðla. Við þurfum engar póli- tískar hækjur. Þetta tengist líka því að pólitísk orðræða í dag snertir sjaldan tilveru fólks. Það er verið að deila um lagakróka og formsatriði en mér finnst stjórn- málamenn, auðvitað með undantekningum, hafa litla þörf fyrir að finna púls þjóðlífs- ins og orða hvernig fólk hefur það. Þú veist ekkert hvaða lífsviðhorf þeir hafa. Þeir sem ná langt í stjórnmálum eru oft búnir að ganga í gegnum svo mikla valdabaráttu að þeir eru hálfskemmdir.“ Ljóðið Skaplyndi manna birtist í bókinni Í auga óreiðunnar (1995). Segja má að boðskapur ljóðsins sé sú leiðarstjarna sem vísað hefur Einari skáldskaparveginn í gegnum skefjalausa árás frétta og staðreynda. Í Launsonum orðanna sem kom út hjá Bjarti árið 1998, segir hann: „Það hlutverk frásagnarlistarinnar að varðveita andann og miðla „skaplyndi margra manna“ er hollt að hafa í huga nú á tímum tæknihyggju og fjölmiðla, þegar andinn klæðist skikkju staðreynda og sjálf sönggyðjan birtist sem hlutlaus fréttaskýrandi. Á skjánum færir hún okkur ekki lengur fréttir af hinum „víð- förla manni, er hraktist mjög víða“ heldur er sýn hennar, hin ríkjandi heimsmynd, njörvuð við samskipti valdhafanna. Í hinum fréttasjúka heimi nútímans eru frásagn- irnar ekki fólgnar í könnun á „skaplyndi margra manna“ heldur í upplýsingum um hagvöxt, bankamál og milliríkjasambönd. Þannig birtist hinn opinberi hugsunarháttur, sem einkennist af tæknihyggju, ekki aðeins sem skammsýnn og brotakenndur heldur jafnframt án andlegra markmiða. Hann byggist á dýrkun á staðreyndinni, á því tæknilega viðhorfi að heimurinn sé „einsog hann er“. En heimurinn er ekki einsog hann er. Hann er ofinn úr öðrum þráðum en upplýsingarnar einar segja til um. Hann er einnig settur saman úr því sem ekki sést og mælist, verður vigtað eða talið, af anda og menningu, því sem frásagn- arlistin miðlar.“ Andspyrnuhreyfing gegn tómleikanum „Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að komast í ólíka hópa með mín skáldverk og ég styrkist stöðugt í þeirri kenningu að skáldskapurinn skipti máli í lífi fólks. Það vantar oft póesíuna í lífið. Þess vegna álít ég menninguna hafa miklu hlutverki að gegna. Við rithöfundar erum andspyrnuhreyfing hins mannlega í baráttunni gegn tómleikanum. Þess vegna er leiðinlegt hvað mörgum sem starfa í menningargeir- anum tekst að gera menningarumræðuna leiðinlega. Menningin er oft kynnt sem dýrir listviðburðir, eins og einhver sýning á samkvæmiskjólum. Það eru forréttindi að vera rithöfundur á Íslandi. Það er alltaf verið að tala um fá- mennið hér – en í þessu fámenni þrífst mikið menningarlíf. Hér lesa allir og enginn. Þegar maður fer utan til að lesa upp skynjar maður þetta vel. Stór hluti af vandanum, eins og í Suður-Afríku, er ólæsið. Án þess að gera lítið úr læknisfræðinni, finnst mér að skáldskapurinn skipti miklu máli fyrir andlega líðan. Ef meiri áhersla væri lögð á gildi skáldskaparins, þyrfti minna af geðlyfjum.“ Í Launsonum orðanna varparðu fram þeirri skoðun að engin ástæða sé til þess að aðskilja raunsæi og ævintýri í bókmenntum, eins og gert hefur verið. En hefur ekki ævintýrinu verið úthýst í daglegu lífi fólks? „Jú, við erum forrituð inn í kapphlaupið mikla um lífsgæðin. Ég hef oft lesið upp samtal strákanna úr Vængjaslætti í þakrennum þar sem talað er um að vera með vængi á heilanum – það hefur orðið boðskapur minn. Okkur vantar vængi á heilann. Ég held að hver og einn geti fundið ævintýrið í sínu lífi og ég held að það búi í hin- um gráa hversdagsleika, í raunveruleikanum. En það er svo oft að menn líta yfir svið- ið og segja: Hér er ekkert að gerast. En það er misskilningur þegar að er gáð. Eins og þegar menn velta því fyrir sér hvaðan bækur þurfi að koma, þá heyrir mað- ur að helst þurfi að vera borgarastyrjöld í gangi til þess að fá góðar bækur. Þetta er misskilningur. Skáldskapurinn er eins og ástin, menn finna hann alls staðar. Sumum finnst Reykjavík grámuskulegur staður og halda að hér gerist ekkert markvert – en ég er á því að hver maður eigi sér sinn stað og þar sem er maður er mannlíf og eitthvað í frásögur færandi. Þetta er alveg óháð þeim tískusveiflum sem segja að að einn staður sé merkilegri en annar. Eins og þegar litið er á Ameríku og England og stórborgirnar þar sem einhvern miðdepil. Þó er ríkjandi mikil þröngsýni í þessum löndum á meðan við sem komum frá stöðum sem sjónvarpsfréttamönnum finnst ekkert merkilegir, erum oft opnari og upplýstari. Það er mun líklegra að Ís- lendingur sé vel að sér amerískum bókmenntum en Ameríkumaður í íslenskum bók- menntum. Þess vegna eiga Norðurlandaþjóðirnar mikið erindi inn í alþjóðlega bókmennta- umræðu. Á sumum tímum hafa menn litið svo á að ekkert merkilegt komi frá Norð- urlöndum. Þar hafi ekkert stríð átt sér stað um langan aldur, menn hafi verið upp- teknir af því að byggja upp velferðarkefi, en líklega er hin almenna menntun í velferðarkerfinu okkar gæfa. Það er fínt að standa hér í miðju Atlantshafinu og teygja sig í allt sem maður vill ná í.“ Andleg lotugræðgi „Já, það er hluti af kreppu nútímans að menn ná ekki að skynja líf sitt sem sögu og glata þannig töfrum ævintýrisins. Þetta er spurning um að reyna að ná sambandi við heiminn. Sjáðu til dæmis þegar vímuefnavandinn er ræddur er það oft á þeim for- sendum að við þurfum aukna löggæslu, en ein ástæðan fyrir sókninni í vímuefni er skortur á eðlilegri lífsvímu. Hlutadýrkunin er eins og fíkn sem heldur fólki gangandi um hríð en svo kemur í ljós að innihaldið er tómt. Hlutadýrkunin er svona andleg lotugræðgi. Í nútímanum er alltaf verið að búa til eithvað nýtt; nýtt útlit, nýtt fólk, til að halda þjóðfélaginu gangandi. Öll hlutavæðingin tengist þessu. Manneskjan verður stöðugt meiri vara og markhópur. Ég hef engar töfralausnir en reyni að leggja mitt af mörkum með skáldskap. Hann er mitt mál. Í nútímanum er rík tilhneiging til að vanmeta innri verðmæti. Það sést best á því hvernig ljóðlistin virðist skipta stöðugt minna máli. Bókaútgefendum finnst varla taka því að gefa út ljóð, þótt þar liggi grundvöllurinn. Þeir höfundar sem oft eiga eftir að spjara sig, byrja í ljóðinu. Ljóðið er upphafið. Upphaflega sögðu menn sögur í bundnu máli. En þegar alltaf er verið að hugsa um að allt eigi að vera hag- kvæmt, þá hverfa svo mörg gildi sem ekki er hægt að mæla með súluritum – en skipta þó miklu máli þegar til lengdar lætur. Við búum í heimi þar sem flest er hugsað í magni, en stundum er þetta bara of mikið af engu, eins og Dylan söng. Það þarf kjark til að fara sínar eigin leiðir. Í sögum mínum hrífst ég af þeim sem það gera. Ef einhverjum dettur í hug að gera eitthvað sérstakt, er annar sem byrjar að reikna. Samt borgar dirfskan sig. Mér varð þetta ljóst þegar við Friðrik Þór skrifuðum hand- ritið að Börnum náttúrunnar. Það hafði enginn trú að því sem við vorum að gera. Menn þurfa oft að ganga í aðra átt en þangað sem væntingarnar liggja. Í kvik- myndum er alltaf verið að reikna út kostnað og kannski er það þess vegna sem skáld- skapurinn er síðasta vígi frelsisins. Þegar þú lýsir háhýsi í skáldskap, þarftu ekkert að velta því fyrir þér hvað þarf mikla steypu í það. Þú ert að segja sögu og hefur frelsi til að vera með útúrdúra og koma svo aftur að þræðinum. Ég tel ekki að skáldskapurinn eigi undir högg að sækja. Hann er í stöðugri endurnýjun. Sjálft form skáldsögunnar virðist geta drukkið í sig endalausar breytingar, þótt sjálfur kjarninn sé kannski alltaf sá sami.“ Ein ástæða þess að Einar Már var talinn róttækur var vera hans í Fylkingunni, sem talin var alvarlega kommúnískur flokkur ungmenna – en auðvitað átti Fylkingin sín ANDÓF Í SÁLINNI 28.12.2003 | 13

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.