Morgunblaðið - 28.12.2003, Side 17
sé sönn en upprunalega getur hún hafa verið allt öðruvísi. Kannski fóru þeir á Múla-
kaffi. Sögumaður og höfundur vilja sýna vissan veruleika í sögunni og planta henni
þar sem hún virkar.
Það er ríkjandi í okkur að segja sögur um okkar nánasta umhverfi en sú sagnalist er
einmitt efniviðurinn í heimsbókmenntir. Í okkar menningu stöndum við mjög nálægt
heimsbókmenntunum; það eru ekki nema nokkur skref frá sagnalist fólksins yfir í
heimsbókmenntirnar og hlutverk rithöfundanna að stíga þau skref.
Íslenskir höfundar hafa úr mjög góðum efnivið að moða. Skynsemishyggjan er
ekki búin að eyðileggja okkur mjög mikið – en gerir það eflaust þegar við göngum í
Evrópusambandið. Þá hættum við að tala um neitt annað en verð á eggjum og tómöt-
um.“
Nú hafa bækur þínar verið þýddar á fjölda tungumála. Er ekki hægt að segja að ís-
lenskar bókmenntir séu þegar hluti af heimsbókmenntunum?
„Jú, og hafa alltaf verið. Samt hefur mikið gerst á stuttum tíma. Þegar ég var að
byrja að skrifa og gefa út var frekar lítið um að íslenskar bókmenntir væru þýddar á
önnur mál. Ég man, til dæmis, þegar ég flutti til Kaupmannahafnar 1979 að ég las
lærða grein í Politiken þar sem blaðamaður hafði farið til Íslands að kynna sér málin.
Ég vissi að ég var með sögulegt plagg í höndunum, svo ég geymdi greinina og á hana
enn. En tilfinning blaðamannsins var sú að ekkert áhugavert væri að gerast í íslensk-
um bókmenntum – sem var auðvitað kjaftæði. Engu að síður þóttu það tíðindi hér
árið 1980 ef íslensk bók kom út á Norðurlöndum. Í dag þykja það engin tíðindi
þannig að það hefur orðið gífurleg breyting á viðhorfum til okkar bókmennta á rúm-
um tuttugu árum. Það er litið til okkar sem þjóðar sem hefur eitthvað að segja. Það er
litið á okkar bækur sem sterkar sögur sem hafa eitthvað að segja. Menn tala um algert
óttaleysi við heimsbókmenntirnar – enda hafa íslenskir höfundar enga ástæðu til ann-
ars en að hjóla í það besta.
Stuttu eftir að ég flutti til Danmerkur stóð ég einu sinni fyrir íslenskri menningar-
uppákomu i Christianshavn Beboerhus félagsheimilinu. Ég hringdi í Erik Skyum-
Nielsen sem hafði kennt okkur á Íslandi og bauð honum að mæta. Sjálfur las ég
nokkur upp úr fyrstu ljóðunum mínum. Erik kom til mín á eftir og sagði að þetta
væru ljóð sem hann gæti hugsað sér að þýða. Hann sagðist trúa því að hann gæti
fundið útgefanda. Það reyndist rétt og síðan hafa allar mínar bækur komið út hjá
þeim útgefanda í Danmörku.
Þegar bækurnar fóru að koma út í Danmörku var auðvelt að kynna þær fyrir Sví-
um og Norðmönnum. Það er leiðin sem íslenskar bókmenntir fara, í gegnum Skand-
inavíu og þaðan til Þýskalands. Frá Þýskalandi hefur svo alltaf verið útsýni til annarra
landa. Erfiðasti hjallinn fyrir okkur hefur alltaf verið hinn enskumælandi heimur.
Þótt eitthvað hafi komið út og eitt og annað vakið athygli, hefur verið rætt um að
þýddar bækur eigi erfitt uppdráttar þar. Enskumælandi þjóðirnar hafa frekar litið
suður á bóginn til sinna gömlu nýlendna.“
Þjóðríkjahagsmunahátturinn er að brotna upp
„Markmiðið með þýðingum á bókmenntum er að bæta við því sem vantar í bók-
menntir þinnar eigin þjóðar. Við í norðrinu erum mjög opin fyrir straumum annars
staðar frá en enskumælandi þjóðir hafa orð á sér fyrir að vera insular naflaskoðarar.
Við höfum þeirra þátt í okkar menningu en þá vantar okkar í sína.
Annars er þessi þjóðríkjahugsunarháttur dálítið að brotna upp. Hvað varðar út-
gáfu bóka okkar á enskumælandi markaði, er það ekki spurning um hvort, heldur
hvenær. Orðspor okkar er að spyrjast út, ekki síst fyrir tilstilli tónlistarinnar frá Björk,
Sigur Rós og fleirum.
Mín sterkustu vígi hafa verið Norðurlöndin og Þýskaland og af einhverjum ástæð-
um hef ég fengið mjög góð viðbrögð frá Ítalíu. Hvað enskumælandi löndin varðar
segi ég nú bara: Fyrst við sigruðum Breta í tveimur þorskastríðum, hljótum við að
geta kennt þeim að lesa með tíð og tíma.“
Það er óhætt að fullyrða að enginn núlifandi íslenskur höfundur hafi hlotið eins
margar viðurkenningar og verðlaun fyrir verk sín og Einar Már. Árið 1982 hlaut hann
fyrstu verðlaun í bókmenntasamkeppni Almenna bókafélagsins, 1988 Bjartsýnis-
verðlaun Bröstes, var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1991, hlaut
Menningarverðlaun DV 1994 og sama ár Menningarverðlaun VISA Ísland. Svo var
það árið 1995 að Einar Már hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Engla
alheimsins, þá bók sem menn fullyrtu að enginn myndi vilja lesa og tveimur árum
seinna var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 1999 hlaut
Einar Guiseppe Acerbi-bókmenntaverðlaunin á Ítalíu og sama ár Karen Blixen
Medaljen í Danmörku. Ári seinna var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverð-
launanna og hlaut Hina íslensku fálkaorðu 2002. Þegar hann er spurður hvort það
skipti máli fyrir rithöfund að fá slíkar viðurkenningar, játar hann því. „Menn eru að
vinna þetta svo mikið einir að það verður að játast að viðbrögð af þessu tagi eru gleði-
leg – og stundum eru verðlaunin ágætis búbót sem hefur í ákveðnum tilvikum komið
sér vel þegar maður er með stóra fjölskyldu.
Höfundar eru oft að hræsna og segja að viðurkenningar skipti engu máli en þær
skipta máli fyrir höfunda sem verða þekktir. Þessi hræsni stafar líklega af því að á
meðan höfundar eru óþekktir, þrá þeir að verða frægir og þegar þeir eru orðnir
þekktir er alltaf einhver taug í þeim sem saknar þeirra tíma þegar þeir voru óþekktir.“
Góður andi og ánægjuleg tíðindi
Þykir þér vænt um þau verðlaun sem þú hefur hlotið?
„Já. Þegar við Thor Vilhjálmsson fengum Karen Blixen-orðuna frá dönsku aka-
demíunni, þá gladdi það okkur vissulega vegna þess við vorum valdir af miklum
smekkmönnum á bókmenntir sem hafa mikla þekkingu. Karen Blixen-orðan er að-
eins af og til veitt erlendum höfundum og við vorum í góðum félagsskap, því áður
höfðu fengið hana Vaclav Havel, William Heinesen og Astrid Lindgren.
Einnig get ég nefnt Guiseppe Acerbi-verðlaunin á Ítalíu. Þau verðlaun eru veitt í
litlum bæ, Castel del Goffredo, sem er skammt frá Mantova. Í þessum bæ búa um
fjörutíu þúsund manns frá um það bil þrjátíu þjóðum. Þar hafa menn komist að því
að skáldskapur þjóða sé leið til að skilja hver annan, þannig að þeir hafa tekið upp á
því að tilnefna bækur frá ólíkum svæðum. Árið 1999 var ákveðið að veita verðlaunin
höfundi frá Norðurlöndum. Ein bók frá hverju Norðurlandandanna var tilnefnd og
eina skilyrðið var að hún hefði verið þýdd á ítölsku. Síðan var skipuð fimm manna
dómnefnd, auk þess sem bókunum var dreift til íbúa bæjarins sem svo greiddu at-
kvæði þeirri bók sem þeim líkaði best. Kosningin fór fram á torgi bæjarins og þegar
talið var upp úr kössunum vorum við hnífjöfn og skiptum með okkur verðlaununum
við Kirsten Ekman. En hún mætti ekki á afhendinguna – svo ég fékk einn allt fjörið.
Þetta er mjög auðugur bær og byggir sína velmegun á sokkaframleiðslu. Ég held
að hálf Evrópa gangi í sokkum saumuðum þar. Í kringum svona verðlaun er oft góð-
ur andi og ánægjuleg tíðindi.“
En eru það ekki Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs sem skipta mestu máli
þegar upp er staðið?
„Jú, ætli megi ekki segja að þau séu stærstu og áhrifamestu verðlaunin vegna þess
að þau höfðu í för með sér mikinn áhuga á mínum verkum á Norðurlöndum, auk
þess að vekja áhuga utan þeirra. En það er ekki alltaf nóg að hljóta verðlaunin því síð-
an er þetta alltaf spurning um það hvort bókin nái máli.
En Norðurlandaverðlaunin eru vítamínsprauta og síðan er það höfundarins að
fylgja þeim eftir í verkum sínum. Þau þýddu aukinn áhuga á verkum mínum, líka
þeim sem ég hafði skrifað áður. Ég hafði farið mjög víða um Norðurlönd að lesa upp
áður en ég fékk verðlaunin og eftir að ég hlaut þau var fólk að vakna upp í litlum bæj-
um víða um Norðurlönd og segja: Já, þetta er náunginn sem kom hér um árið.
Ég hef sömu afstöðu til þess að breiða út bókmenntir og trúboðinn sem breiðir út
fagnaðarerindið. Það er hluti af starfi mínu að standa fyrir framan fólk, lesa verk mín
og kynna þau og spjalla um lífið og tilveruna. En ég skil líka höfunda sem ekki hafa
þessa afstöðu. Ég hef oft sagt að sá hluti starfs míns sem felst í að miðla bókum mín-
um til fólksins, sé félagslega hliðin á einverunni. Þá upplifi ég augliti til auglitis það
sem ég hef að gefa fólki og það er mín útgáfa af hinu fornkveðna að maður sé manns
gaman. Ég hef lesið upp með Tómasi R. Einarssyni sem samdi tónlist við ljóðin og
komu út á disknum Í draumum var þetta helst. Ég hef lesið undir tónlist hjá Hilmari
Erni og tvisvar sinnum Sigur Rós – en nú er ég kominn í Hljóma“
Það er rétt. Þú átt tvo texta á nýja Hljómadiskinum. Hvað kom til að þú fórst að
semja dægurlagatexta?
„Þeir báðu mig um það, strákarnir í Hljómum. Mér fannst þetta spennandi verk-
efni vegna þess að ég átti að semja texta við lag sem var búið að semja. Það hafði ég
ekki gert áður. Mér finnst reyndar alveg sama hvaða form maður er að fást við. Þetta
er alltaf bara spurning um að leggja sig allan í verkið. Ég hef alltaf verið undir áhrifum
frá rokktónlist og ljóðagerð í tónlist. Dægurlagið býður upp á möguleika til að setja
sig í einhver spor sem hlustandinn verður að ráða í. Það er bara eins og í ljóðlistinni.“
En þykja dægurlagatextar eins merkilegir og ljóðlist?
„Ef ljóð er gott er það gott, það sama gildir um dægurlagatexta. Svo einfalt er það.
Rokkið hefur alltaf verið tjáning á núinu. Þar er mikið af góðri ljóðlist, Bob Dylan,
John Lennon, Megas, bara svo nokkrir toppar séu nefndir. Ljóðlist og tónlist hafa
alltaf verið í góðu sambandi, til dæmis hjá Kurt Weil og Bertold Brecht.
Ljóðagerðin í tónlistinni er löngu búin að sprengja af sér þetta ferskeytlu-dæg-
urlagaform og snýst miklu fremur um sögur eins og sjá má hjá Ray Davis, Leonard
Cohen, Bruce Springsteen og fleirum. Ég býst líka við að sjálfur sé ég meira að nálg-
ast hefðbundna ljóðlist. Ég er eiginlega kominn á bak við mig. Ég hugsa að þetta sé
þroskamerki.
Nei, bókmenntirnar koma ekki alltaf til manns í réttri tímaröð.“
Sem kemur nokkuð heim og saman við heimspekina sem birtist í ljóðinu Skilgrein-
ing úr bókinni Í auga óreiðunnar:
Hvort sem sagan
er línurit eða súlurit
í auga hagfræðingsins
er heimurinn
kartafla í lófa guðs.
ANDÓF Í SÁLINNI
28.12.2003 | 17