Morgunblaðið - 28.12.2003, Blaðsíða 22
22 | 28.12.2003
Skapandi samstarf þeirra Davíðs og Hrafns hófst á opinberum vettvangi í útvarp-
inu með þáttum sem hétu Spunahljóð og Um drykklanga stund, en bæði nöfnin
voru fengin úr ljóði eftir Jóhann Jónsson. Í raun á þó þetta samstarf rætur allt til
þess tíma er þeir voru í Hagaskólanum og léku í Litla ljóta andarunganum undir
stjórn Harðar Bergmann kennara síns. „Ég held að ég hafi leikið ráðgjafa kóngsins
og þú hirðfífl,“ segir Davíð við Hrafn.
„Nei,“ mótmælir Hrafn. „Ég lék mislukkaðan elskhuga sem átti að reyna að
pranga inná prinsessuna og ráðgjafinn, sem þú lékst, var að reyna að koma í veg fyr-
ir þann ráðahag, enda var þessi elskhugi fífl.“
„Svo lékum við í Betlaraóperunni,“ bætir Davíð við, „þú betlarann og ég höf-
undinn.“
KOKKAÐ OG SPUNIÐ YFIR GÚNDAPOTTI En þegar þeir urðu báðir höfundar
að fyrrnefndum útvarpsþáttum spunnu þeir gjarnan saman, yfirleitt í kjallaranum
heima hjá Hrafni. „Við þessi tækifæri steiktum við iðulega kjúkling í svokölluðum
Gúndapotti, sem kostaði 4.000 kall gamlar,“ segir Davíð. „Þetta var afar einföld
matreiðsla. Við settum kjúklinginn í þennan pott, krydduðum rosalega og kveikt-
um á. Svo átum við þetta og drukkum með, sjálfsagt romm í kók eða sénever í kók
enda var léttvínskúltúrinn ekki kominn.“
Því má segja að bæði nöfnin, Spunahljóð og Um drykklanga stund, hafi vísað til
sjálfs sköpunarferlis þáttanna. „Við sátum og átum, drukkum og spunnum sögur og
létum móðan mása fram eftir nóttu,“ heldur Davíð áfram. „Oft kom það svo í hlut
Hrafns, sem er duglegri en ég, að vinna úr spunanum og koma honum niður á blað.
Síðan fórum við aftur yfir textann saman. Þetta varð okkar vinnulag. Konurnar
okkar voru gjarnan ekki langt undan og hlógu á réttum stöðum þannig að við pepp-
uðumst upp og héldum að við værum mjög snjallir. Ég er satt að segja ekki viss um
að þetta hefði gengið ef þær hefðu ekki sýnt okkur slíka aðdáun!“
Uppskeran gat orðið hvort heldur sem var skissur fyrir útvarpsþætti, á borð við
tímamótagrínið Útvarp Matthildur, eða atriði í sviðsrevíur eins og Íslendingaspjöll
sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi. Þórarinn Eldjárn var sem kunnugt er samstarfs-
maður þeirra í Matthildi og einnig leikritinu Ég vil elska mitt land. „Í Matthildi
unnum við hins vegar alveg markvisst undir þrýstingi frá föstum útsendingartíma,“
segir Davíð, „nánast eins og agaðir skrifstofumenn.“
Fyrir utan eina sjónvarpsmynd, æskusöguna Allt gott, sem Davíð sendi frá sér á
bók og þeir sömdu síðan kvikmyndahandrit að saman og Hrafn leikstýrði, hafa
samstarfsverkefnin öll verið samfélagslegar og pólitískar skopádeilur. „Mikil þver-
pólitík,“ segir Hrafn.
„Þessi verk þættu kannski ekki frumleg núna,“ tekur Davíð við, „en á þessum
tíma voru þau eitthvað nýtt í íslensku gríni. Það er eins og með sviðshreyfingar
Presleys; þær voru nýjar, einstakar og hreinlega byltingarkenndar þegar hann kom
fyrst fram. Síðan höfum við séð svo marga tónlistarmenn með alls konar sviðshreyf-
ingar að það gleymist að byltingin var hans.“
„Þegar Presley kom fram í Ed Sullivan Show mátti ekki sýna hann fyrir neðan
mitti,“ segir Hrafn. „Svo ný og ögrandi þótti framkoma hans.“
Davíð: „Matthildur var svo ný og ögrandi að hún var stöðugt til umfjöllunar í út-
varpsráði og í lesendadálkum blaðanna.“
Hrafn: „Íslenskur húmor hafði þar áður mest gengið út á röfl í fullum köllum.
Allt í einu kom húmor sem var samfélagslegur og höfðaði til almennrar reynslu.“
Davíð: „Við vorum líka svo ótrúlega ungir, 18–19 ára, þegar Matthildur var í loft-
inu.“
MINNING ÚR KERFINU Og núna, 35 árum síðar, þegar höfundarnir eru komnir á
miðjan aldur, hefur orðið til skopádeilan Opinberun Hannesar. Smásagan Glæpur
skekur Húsnæðisstofnun á rætur í þeim tíma þegar Davíð var forstjóri Sjúkra-
samlags Reykjavíkur. „Þá gerðist lítill atburður innan stofnunarinnar sem vakti
ákaflega þrungnar tilfinningar meðal starfsfólksins. Það var stolið reiknivél. Af
hlaust gríðarlegt glæpamál sem heltók heiðarlega og samviskusama starfsmenn.
Það kom í minn hlut að reyna að taka á þessum hræðilega glæp af festu og ábyrgð.
Uppúr minningunni um þetta mál þróaðist þessi smásaga, en auðvitað skáldaði ég
upp nýja karaktera sem starfsfólk Sjúkrasamlagsins ber enga ábyrgð á.“
Davíð segir að sér hafi liðið ágætlega í þessu starfi. „Ég var þarna hluti af þessu
eftirlitskerfi með bakveiku fólki, öryrkjum og öðrum þeim sem áttu rétt á dagpen-
ingum, þátttöku í lyfjakostnaði og þess háttar. Ég er undarleg týpa að því leyti að ég
er alltaf sannfærður um að þar sem ég er staddur sé allt það þýðingarmesta að ger-
ast,“ segir hann brosandi, „og allt eins og það á að vera. Til dæmis vil ég aldrei
breyta neinu heima hjá mér. Ef gamall stóll hefur lengi þjónað sínu hlutverki á
ákveðnum stað er ómögulegt að fá mig til að hreyfa við honum.“
„Og helst alls ekki að skipta um úlpu,“ glottir Hrafn.
„Eða skó eða föt,“ tekur Davíð undir. „Þannig að ég er yfirleitt sáttur þar sem ég
er og áhugasamur um það. Og starfið hjá Sjúkrasamlaginu var mjög gott þótt ég liti
ekki á það sem framtíðarstarf. Á sama tíma var ég borgarfulltrúi, að kenna í Versl-
unarskólanum og skrifa leikritin með Hrafni og Þórarni ásamt ýmsu öðru, eins og
að skrifa tveggja opnu viðtal í Vísi við Benny Goodman ásamt Atla Heimi; það við-
tal gekk einkum út á að fá endanlega upplýst í hverju hin eina, sanna sveifla væri
fólgin.“
Glæpur skekur Húsnæðisstofnun birtist í smásagnasafni Davíðs Nokkrir góðir
dagar án Guðnýjar og hann gaf Hrafni eintak í jólagjöf. Tvær sögur í bókinni vöktu
áhuga leikstjórans sem hugsanlegt efni fyrir kvikmynd og hann spurði höfundinn
hvort hann mætti leika sér aðeins með þær. Davíð samþykkti og úr varð að Glæpur
skekur Húsnæðisstofnun fór að mótast í handriti. „Það sem heillaði mig við sög-
una,“ segir Hrafn, „var þessi stofnun sem fór öll á annan endann út af lítilli reikni-
vél. Svo las ég í blöðunum frétt um mann sem tölvu hafði verið stolið frá. Honum
fannst eins og stolið hefði verið af sér höfðinu.“
Það var svo fyrir hvatningu frá Lars Sätström hjá sænska sjónvarpinu, sem séð
hafði um framleiðsluna á Böðlinum og skækjunni, og vildi fá Hrafn til að leikstýra
aftur í Svíþjóð, að Hrafn stakk í staðinn upp á sjónvarpsmynd úr íslenskum veru-
leika. „Ég sagði honum að ég hefði ekki löngun til að leikstýra meira erlendis en
áhuga á að vinna upp úr smásögu eftir vin minn með skemmtilegum persónum.
Hann bað mig að senda sér söguna sem ég gerði. Lars leist vel á söguna sem grunn
en lagði til að ég uppfærði hana til nútímans. Við gerðum svo samning um handrits-
skrifin. Ég reyndi mikið að fá Davíð til að skrifa handritið með mér en hann hafði
lítinn tíma. Það var því ekki fyrr en ég var búinn með fyrstu handritsdrög að hann
kom til leiks.“
„Við hittumst tvisvar, minnir mig,“ segir Davíð, „ég las yfir og kom með hug-
myndir. Ef við hugsum um naglasúpu þá má segja að naglinn hafi komið frá mér en
mestallt kryddið frá Hrafni.“
„Það er nú ekki alveg rétt,“ grípur Hrafn inní. „En ég hefði viljað fá þig miklu
meira inn í vinnuna. Mikið af samtölunum varð hins vegar til í þau fáu skipti sem
við áttum stuttan tíma saman. Davíð þekkir kerfið innanfrá miklu betur en ég og
gat bent mér á atriði í handritinu sem hreinlega stæðust ekki. Hann lagði því til
mikilvægt jarðsamband og fjölmargar replikkur og á mun meira í handritinu en
vinnutími hans við verkið segir til um. Í rauninni er hann annar handritshöfund-
anna þótt í myndinni standi aðeins að hún sé byggð á smásögu eftir Davíð Odds-
son.“
Davíð: „Ég var aldrei að hugsa um að ég þyrfti að gæta höfundarréttar gagnvart
sögunni. Ef sagan væri Hrafni innblástur í annað verk var mér alveg sama hvernig
það yrði. Sagan sjálf mun alltaf standa fyrir sínu; hún verður ekki eyðilögð. Svo
gladdi það mig auðvitað, eftir því sem ég fylgdist með þróun handritsins, að sagan
var að verða að rífandi góðri mynd. Sagan sjálf hefur til að mynda ekki neinn beinan
boðskap; hún er frekar frásögn af tilteknu atviki og hugsunarhætti. En í Opinberun
Hannesar er undirliggjandi boðskapur sem aldrei er uppáþrengjandi og bætir
þannig við söguna.“