Morgunblaðið - 28.12.2003, Side 24
24 | 28.12.2003
Við sendandi bréfsins, Hrafn Gunnlaugsson, veltumst um af hlátri yfir þessari
hremmingu forsætisráðherrans og yfirmanns kerfisins. Og hann heldur áfram graf-
alvarlegur: „Ég hitti reyndar mann sem sagði þegar hann fékk samskonar umslag:
„Djöfulinn hef ég nú gert?!“ Hann var sannfærður um að hann hefði gert ríkinu
eitthvað. Og nú væri Eftirlitsstofnun þess komin á hæla hans.“
„Þorgeir Ástvaldsson útvarpsmaður sagði mér,“ bætir Hrafn við um þessa vel
heppnuðu kynningaraðferð fyrir myndina, „að hann hefði orðið svo reiður þegar
hann fékk þetta bréf frá Eftirlitsstofnun ríkisins að hann henti því körfuna. Ástæðan
var sú að hann var viss um að þetta væri ítrekun; hann hefði fengið fleiri svona bréf
áður! Þannig að Eftirlitsstofnun ríkisins virðist vera blákaldur veruleiki í huga fólks
þótt hún sé í rauninni ekki til.“
SKYLDUNOTKUN TREFILS OG AÐRAR SKYLDUR Þessi áhrifamikla stofnun,
Eftirlitsstofnun ríkisins, sem á að fylgjast með því að við þegnarnir förum eftir öllum
þeim boðum og bönnum, reglugerðum og lögum, sem eiga að ná utanum sem allra,
allra mest af atferli okkar og lífi, fær í Opinberun Hannesar m.a. eftirfarandi mál til
meðferðar:
Beiðni um undanþágu frá reglugerð um ræktun kartaflna og leyfi til að krefjast
gjaldtöku af þeim sem búa í þéttbýli og rækta kartöflur án þess að vera í samtökum
garðyrkjubænda.
Æskulýðssambandið sækir um leyfi til dorgveiða við höfnina utan kvóta.
Flokkur magadansmeyja sækir um und-
anþágu frá reglugerð um 4 metra fjarlægð
frá áhorfendum á vetingastað sem er aðeins
3 metrar á hvora hönd.
Þetta eru tilbúin mál en ekki ýktari en svo
að þau virðast jafn möguleg og þau eru fá-
ránleg?
„Já,“ segir Davíð. „Þau eru ekki nákvæm-
lega eftir reglum dagsins í dag en þegar þú
heyrir þetta finnst þér ekkert óeðlilegt við
að menn séu að sækja um leyfi fyrir þeim.
Og það er svolítið galið.“
„Í þessum atriðum á Davíð mjög mikið,“
segir Hrafn. „Ég var með einar sex eða sjö
tillögur um slík mál en hann bætti þær og
breytti og gerði þær þannig að engu er líkara
en þær eigi sér stoð í núgildandi lögum og
reglugerðum. Í myndinni er t.d. frétt um
gildistöku laga um skyldunotkun skjólfatn-
aðar. Ég spurði Davíð hvort honum þætti
þetta of langt gengið. Hann sagði: Nei,
vegna þess að umræðan myndi snúast um það hvort notkun trefils ætti að miðast við
fimm eða sjö stiga frost! Ekki um það hvort ætti að skylda trefilsnotkun yfirleitt.“
Davíð: „Menn vilja t.d. að bremsur í bíl séu í lagi vegna þess að annars getur öku-
maðurinn valdið öðrum stórkostlegum áverkum og skaða. En hvað hefur skyld-
unotkun öryggisbelta í aftursætum með náungann að gera? Ræð ég því ekki sjálfur
hvort ég nota öryggisbelti í aftursæti eða ekki? Nei, kemur svarið, vegna þess að
meiðist ég eða slasist mun það kosta ríkið mikil fjárútlát; ég gæti t.d. lent á spítala.
Þarna erum við komin býsna nærri úlpuhugsuninni: Það er ekki mitt mál hvort ég
fái lungnabólgu af völdum ónógs skjólfatnaðar vegna þess að ég get valdið ríkinu út-
gjöldum og þá eru rök fyrir skyldunotkun úlpunnar orðin nægileg. Við eigum bara
eftir að setja reglur um þetta. Ég hugsa að þær komi fljótlega.“
SÓL SKAL SKÍNA ÚR SUÐRI Hrafn: „Einna merkilegast finnst mér, eins og þið
rædduð áðan, hversu uppteknir fjölmiðlarnir eru af því að kalla sífellt eftir meiri og
skýrari lögum og reglugerðum. Ég hef verið að velta því fyrir mér síðustu árin, eftir að
ég dró mig að mestu út úr skarkala þjóðfélagsins, hversu mikil forréttindi það hafa
verið að vera Íslendingur. Því meira sem ég ferðast um heiminn þeim mun betur hef
ég sannfærst um þetta. Forréttindin hafa ekki síst legið í því að við höfum verið laus
við margt af því sem stóru þjóðfélögin kalla yfir sig. Ég get nefnt herskylduna, kröf-
una um að fólk gangi með persónuskilríki á sér o.s.frv. En mér finnst að pólitíkusar
og þjóðin sjálf séu í æ vaxandi mæli að telja sjálfum sér trú um að við þurfum að
herma eftir stórþjóðunum: Við þurfum að ganga í Evrópusambandið, stofna her,
taka þátt í herferðinni gegn hermdarverkunum og svona mætti áfram telja. Embætt-
ismannafarganið þrýstir á pólitíkusana um að herma þetta allt saman eftir og alltaf
eru til staðar nógu margir pólitíkusar sem vilja ganga í augun á embættismönnum.
Afleiðingin er sú að við erum að glata þeim forréttindum að vera Íslendingar. Við er-
um að fara fram úr sjálfum okkur. Ég er anarkisti og um leið íhaldsmaður og fyrir mér
er ekkert dýrmætara en einstaklingsfrelsið. Ég man þá tíð þegar kennitölur eða nafn-
númer voru ekki til á Íslandi. Þjóðfélagið er orðið morandi í andlitslausum stofn-
unum sem þurfa að réttlæta tilveru sína; ef slík stofnun er ekki allan liðlangan daginn
að láta fólk fylla út einhver eyðublöð veslast hún upp og deyr. Opinberun Hannesar,
sem þó er fyrst og fremst skemmtun, er að reyna að benda á þessa þróun.“
Davíð tekur upp þráðinn: „Meginréttlæting reglna og takmarkana á frelsi manna
er sú að koma í veg fyrir að þeir gangi á rétt náungans. En sú réttlæting er löngu
horfin í mörgum tilvikum. Ef þú vilt byggja þér hús og ert sérvitur og vilt ekki hafa
stóra glugga í suður þá máttu það ekki; þú verður að hafa ákveðið gluggamagn á
suðurveggnum því sólin á að geta skinið inn. Þetta hlýtur að eiga rætur í þeim tíma
þegar þjóðin bjó í torfbæjum. Og þú spyrð: Af hverju þarf ég að sæta slíkum
reglum? Ég vil ekki alla þessa sól. Ég vil hafa rökkvað inni hjá mér. Og svarið er:
Nei, þetta verður að vera svona og þú setur þá bara upp þykkar gardínur. Ef þér lík-
ar það ekki geturðu selt húsið þitt. Sá sem kaupir af þér verður að geta gengið að
stórum gluggum í suður. Þú svarar á móti: En ef hann vill stóra glugga í suður kaupir
hann ekki húsið heldur eitthvert annað hús. Annað dæmi: Vilji einhver ekki hafa
hátt til lofts hjá sér í stofunni má hann ekki hafa það lægra en 2,40. Ef ég er 1,60 á
hæð finnst mér ég óþægilega lítill með svona mikla lofthæð. Hvers vegna má hún
ekki vera 2,20? Svarið: Ja, við teljum betra að hún sé 2,40.
Af hverju má ég ekki ráða þessu? Staðan er sú að við erum hætt að spyrja þeirrar
eðlilegu og sjálfsögðu spurningar. Við beygjum okkur sjálfkrafa undir þær reglur
sem að okkur er haldið.“
HIÐ MIÐSTÝRÐA SAMRÆMI Ég get
ekki varist þeirri hugsun, þegar þið flytjið
þessar góðu ræður til skiptis, að þú sem
forsætisráðherra til margra ára hljótir að
spyrja sjálfan þig: Hef ég sofnað á verð-
inum? Hvernig hefur þetta eiginlega orðið
svona?
„Jájá, mín ábyrgð er mikil og margra
annarra. Hins vegar er hugsanlegt að af
því ég hef verið í minni stöðu svona lengi
að ástandið sé þó skömminni skárra en
ella hefði verið; slíkt er ekki unnt að úti-
loka, svo öllu sé nú haldið til haga. Þrýst-
ingurinn í þessa veru er gríðarlegur, ekki
síst með allt sem kemur frá Evrópusam-
bandinu og EES; það gengur fyrst og
fremst út á samhæfingu og miðstýringu,
sem er í rauninni fullkomlega óþörf. En
þessi þróun hefur vissulega orðið á öllum
sviðum. Ég er t.d. mikill áhugamaður um
skógrækt. Segjum sem svo að ég hafi
plantað birkitré eða ösp fyrir utan gluggann minn og vilji svo fella tréð. Hvers vegna
stendur þá í byggingareglugerð að ég megi það ekki nema með leyfi bygging-
arnefndar ef tréð er orðið meira en 4 metra hátt og 25 ára gamalt? Ekki snýr málið
að neinum öðrum en mér, sem plantaði trénu, og gengur ekki á rétt nokkurs lifandi
manns. Og hvað geri ég? Ég tek stóran koparnagla og rek inn í tréð þannig að það
deyr.“
Hrafn: „Ég fæ alltaf hálfgerðan hroll þegar ég heyri þessar sífelldu kröfur um
heildstætt útlit og að gæta verði samræmis. Hvað þýðir það? Að allt á að vera eins og
litlir kassar á lækjarbakka.“
Davíð: „Tökum dæmi af kirkjugörðunum. Þar ákveður núna landslagsarkítekt að
á tilteknum reit skuli vera lágvaxin grenitré eða eitthvað slíkt. Það yndislegasta við
gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu er ekki samræmið, heldur óreglan og fjöl-
breytnin. En svona erum við orðin óskaplega reglustikuð. Ég vil að fólk brjóti svona
reglur og planti þeim trjám á leiði ástvina sinna sem því finnst við hæfi en ekki sam-
kvæmt fyrirmælum landslagsarkítekta.“
Hrafn: „Allt mitt líf hef ég stundað það að brjóta svona reglur. Og ég held að
þetta hljóti að fara að breytast. Hér muni koma önnur kynslóð sem snýst gegn þess-
ari miðstýringu og setur einstaklingsfrelsið í öndvegi.“
Hrafn hefur áður nefnt nokkur dæmi um þessa þróun, þessa miðstýringu á mann-
lífinu, eins og vændisfrumvarpið, embætti ríkislögreglustjóra, hugmyndir Björns
Bjarnasonar um þjóðvarðlið, og svo mætti bæta við fyrirhuguðu reykingabanni á veit-
ingastöðum burtséð frá vilja veitingamanna og gesta, umræðum um klámbann sem
reyndar fær skemmtilega útreið í myndinni. „Já,“ segir Hrafn. „Mér stendur dálítill
stuggur af t.d. þeirri miðstýringu alls lögregluvalds í landinu sem felst í embætti rík-
islögreglustjórans þótt við séum heppin að því leyti að ágætur maður gegnir því emb-
ætti núna. Kannski stafar okkur ekki bráð hætta af hugmyndinni um 20 þúsund
manna sérsveitir Björns Bjarnasonar. En viljum við að þær lúti kannski einn daginn
stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur? Vitum við hvað við erum að búa til? Ekkert segir
okkur að slíkt gæti ekki gerst, ef úrslit kosninga skipuðust þannig.“
Kerfismaður undir þrýstingi: Viðar Víkingsson í hlutverki Hannesar H. Aðalsteinssonar.