Morgunblaðið - 28.12.2003, Síða 25
Davíð, hvað segir þú um þessi viðhorf Hrafns?
„Hrafn verður að eiga framangreindar fullyrðingar sjálfur en ég vil aðeins segja
það að of mikil trú er á gildi miðstýringar á of mörgum sviðum. Ég tel að ríkisvaldið
eigi ekki að vera víðfeðmt en sterkt þar sem það er; það ráði því sem því er falið og
eigi ekki að vera gerviríkisvald. En það má ekki vera of víða.“
Hrafn: „Og ekki með nefið ofaní hvers manns koppi.“
HIÐ PÓLITÍSKA LEIÐARLJÓS OKKAR TÍMA Davíð: „Þessi vændisumræða,
sem allt í einu yfirtók þjóðfélagið í vetur, er t.d. óskiljanleg. Engu er líkara en hér sé
vændiskona á hverju horni. Eitt mál hefur verið fyrir dómstólum vegna konu sem
stundaði þetta og hafði uppúr því tíu milljónir á ári. Samkvæmt vændisfrumvarpinu
er þessi kona, sem fékk tíu milljónir á ári, fórnarlambið í málinu, og þessir 60–70
kallar sem stuðluðu að veltunni eiga allir að fara í fangelsi. Það kallaði heldur betur á
byggingu nýs fangelsis. Náttúrulega er þetta allt eins og hver önnur vitleysa, en hel-
tekur samt alla umræðu í þjóðfélaginu. Vandamálið er ekki fyrir hendi. Þessi um-
ræða er innflutt.“
Hrafn: „Þarna erum við Davíð sammála. Við flytjum inn vandamál frá útlöndum,
sem eru ekki til staðar hérlendis, og teljum okkur trú um að við þurfum að bregðast
við þeim með reglugerðum og löggjöfum. Hér hefur ríkt það frelsi að tveir ein-
staklingar, sem komnir eru á lögaldur, hafa getað gert sín viðskipti án afskipta rík-
isvaldsins, enda koma þau ríkisvaldinu ekkert við. Er það vændi ef þú ert að stíga í
vænginn við stelpu og kaupir handa henni kókos-
bollu? Hvar ætlum við að enda? Ætlum við að taka af
fólki brjóstvitið, heilbrigða skynsemi og sjálfsábyrgð-
ina og færa þetta undir forsjá ríkisins?“
Davíð: „Mér finnst t.d. merkilegt að sú hugsun sé
til, þótt ég sé auðvitað hlynntur því að sem fæstir reyki,
að ég megi ekki opna veitingastað og auglýsa að hann
sé bara fyrir þá sem vilja reykja. Jafnvel þótt ég varaði
sérstaklega við skaðsemi reykinga mætti ég þetta ekki,
samkvæmt þeim hugmyndum sem nú eru uppi. Ríkið
græðir heilmikið á sölu tóbaks en þegar einhver kemur
inn í sjoppu til að kaupa sér vindlapakka er engu líkara
en hann sé að kaupa ólöglega klámspólu sem falin er
undir afgreiðsluborðinu! Öll stafar þessi hugsun auð-
vitað af mikilli góðmennsku og umhyggju, eins og við
vorum að tala um áðan. En þetta gengur samt ekki
upp.“
Hrafn: „Frelsið skal verja með boðum og bönnum.
Þessi þversögn er hið pólitíska leiðarljós okkar tíma.
Hún birtist í öllum pólitískum flokkum og kemur úr
öllum áttum.“
Davíð: „Í Noregi hefur sú hugsun ríkt að allt sé bannað sem ekki er leyft. Lengi
vel bjuggum við hins vegar við það viðhorf að hér sé allt leyft sem ekki er bannað.
Við erum að þokast að norsku leiðinni, því miður.“
Er ekki dálítið skrýtið að þú skulir segja þetta, forsætisráðherra til svona langs
tíma?
„Jú, það má vel segja það. En ég hef talað gegn ýmsum málum af þessu tagi innan
ríkisstjórnar og míns þingflokks, eins og þessu reykingafrumvarpi. Mér finnst í
rauninni ótrúlegt að við skulum hafa fest í lög að ekki megi tala vel um tóbak. Ekk-
ert getur réttlætt að bannað sé með lögum að fólk tali vel um það sem það vill tala
vel um. Hallgrímur Pétursson, sem ég ætti kannski ekki að vitna mikið í, talar vel
um tóbak. Eigum við að banna verk hans? Við erum sannarlega komin út að ystu
mörkum í þessum efnum.“
EINSTAKLINGURINN ANDSPÆNIS RÍKISVALDINU Hrafn: „Ein helsta kveikj-
an að Opinberun Hannesar er varnarleysi Jóns Jónssonar gagnvart stofnunum rík-
isvaldsins. Maður fær kannski bréf frá skattinum sem verður að svara innan viku að
viðlögðum rosalegum dráttarvöxtum eða jafnvel stefnu. Skattstofan getur hins veg-
ar dregið að svara erindum manns í hálft ár og þykir sjálfsagt. Og oft veit maður ekk-
ert við hvern er að eiga. Bréfin eru stundum ekki undirrituð af nokkrum manni,
heldur koma bara sem tilkynningar frá andlitslausri stofnun.“
Davíð: „Sem betur fer eru þó komin upplýsingalög og stjórnsýslulög sem styrkja
rétt einstaklinganna í slíkum málum. En hann er þó ekki nógu sterkur. Tökum til að
mynda mál Árna Johnsen. Sjálfur varð hann að ákveða innan fjögurra vikna frests
hvort hann ætlaði að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms á meðan ríkissaksóknari hafði
átta vikur. Þó var allt í húfi fyrir sakborninginn en sáralítið í húfi fyrir ríkið. Hvað
réttlætir slíka mismunun? Ekkert að mínu viti. Við verðum að vinna að breytingum
á þessum málum.“
Af því Hrafn nefndi skattinn: Fyrir sléttum sex árum boðaðir þú að komið yrði á
fót embætti umboðsmanns almennings í skattamálum svo skattgreiðendur ættu sér
málsvara gagnvart skattkerfinu vegna hættu á að það misbeitti valdi sínu og gengi of
hart fram. Þessi hugmynd fékk jákvæð viðbrögð í samfélaginu – nema frá skatt-
yfirvöldum – og fjármálaráðherra, sem þá var Friðrik Sophusson hugðist skipa
nefnd til að gera tillögur í þessum efnum. Síðan hefur ekkert til málsins spurst?
„Já, þetta mál er ekki enn komið á leiðarenda, þótt bæði Friðrik og Geir Haarde
hafi verið að vinna í því. Það hefur ekki náð fram að ganga en er enn til meðferðar í
kerfinu. Þótt margir haldi að ég geti náð því fram sem ég vil þegar ég vil er það nú
ekki svo; ef ég gæti það væri margt öðruvísi. Á endanum næst þetta mál fram. Kost-
urinn við að forsætisráðherra sitji lengi, eins og ég hef gert, er sá að hann hefur tíma
til að vinna málum brautargengi. Menn sem koma og fara á nokkurra ára fresti eiga
erfiðara með það. Sannleikurinn er sá, að mínu viti, að séu sæmilegir menn við völd
fari best á því að þeir séu þar sæmilega lengi.“
Hrafn: „Sjálfur hef ég lent í strangri skattarannsókn og úttekt hjá Ríkisend-
urskoðun, sem báðar fengu sem betur fer jákvæða niðurstöðu fyrir mig, en ég veit
því af reynslu hversu mikilsvert er að staða og réttur einstaklinganna sé tryggður.
Hugmynd Davíðs um embætti umboðsmanns skattgreiðenda finnst mér því afar
þörf, enda er stundum engu líkara en hann sé eini stjórnmálamaðurinn sem stendur
á móti þessari þróun.“
HIN ALGJÖRU TÍMAMÓT Eru kannski listaverk, skáldsögur eða kvikmyndir eins
og Opinberun Hannesar, betri, áhrifameiri farvegur fyrir svona hugmyndir og sam-
félagsgreiningu en lagafrumvörp og ræðuhöld á þingi?
„Ég er ekki frá því,“ svarar Davíð. „Í Opinberun
Hannesar á kerfið málsvara sem fær að lýsa því hversu
frábærar allar reglugerðirnar séu. Hins vegar kveikir
myndin andstæðar hugsanir hjá áhorfandanum án þess
að prédika þær eða jafnvel minnast á þær einu orði.
Einmitt þess vegna gengur myndin svona vel upp. Hún
kemur hugsunum og umræðu af stað án þess að áhorf-
andinn taki eftir því.“
Dálkahöfundur hér í Tímariti Morgunblaðsins skrif-
aði nýlega eftir að hafa séð Opinberun Hannesar að
það sé „eiginlega alveg synd og skömm að höfundur
sögunnar, Davíð Oddsson, skyldi lenda í því að verða
stjórnmálamaður. Hefði orðið svo miklu skemmtilegra
hér ef hann hefði orðið rithöfundur sem rifið hefði
voldugan kjaft, til dæmis um viðfangsefni myndarinnar,
það völundarhús sem opinberar stofnanir eru. Ætli
hann geri sér grein fyrir því að Opinberun Hannesar er
að öllum líkindum eitt helsta raunsæisverk íslenskra
bókmennta?“
„Vel má vera að þetta sé rétt,“ segir Davíð. „Og gam-
an að því ef raunsæisverk getur verið skemmtilegt. Áður fyrr voru slík verk lýsingar
á dapurlegu ástandi sem menn komu frá signir í herðum af vonleysi. Maður gengur
út af Opinberun Hannesar í góðu skapi þótt myndin lýsi því að allt sé hér komið til
andskotans!“
Hrafn: „Í þessu nýt ég okkar samstarfs og reynslunnar af Matthildi. Ég er sam-
mála þessum dálkahöfundi að Davíð hefði orðið meiriháttar rithöfundur hefði hann
kosið þá leið í stað þess að verða meiriháttar stjórnmálamaður. Við eigum sameig-
inlegt upphaf í þessari sköpun en völdum svo ólíkar leiðir þaðan, báðar skapandi á
sinn hátt.“
Í því samhengi, Davíð, næsta haust gerast tíðindi í þínu lífi og starfi. Fela þau í sér
að þú snúir þér frekar að ritstörfunum en áður hefur gefist tími og tóm til?
„Ja, tíðindin eru þau að ég verð ekki lengur forsætisráðherra, í bili a.m.k. En ég
hef ekki tekið ákvörðun um hvort ég hætti þá í ríkisstjórninni og heldur ekki um að
venda mínu kvæði í kross. Það getur vel verið að ég vilji starfa áfram í stjórnmál-
unum. Ég verð þá 56 ára gamall og of ungur, finnst mér, til að setjast í helgan stein.
Auðvitað er freistandi að gefa ritstörfunum meiri tíma en ég er ekki jafn sannfærður
og dálkahöfundurinn, sem þú vitnaðir í, um hæfileika mína í þeim efnum. Það væri
kannski freistandi að prófa þetta í eitt ár eða svo. En ég er ekki á þessum tímapunkti
tilbúinn til að taka ákvörðun um það, þó þetta ungur, að hætta þjóðfélagsstússinu
sem ég hef verið í og vel má vera að ég sé orðinn of seinn með það. Þannig að þetta
er svona að brjótast í mér núna og engra frétta að vænta fyrr en á næsta ári.“
Hrafn: „Lífið er svo óútreiknanlegt. Ég segi fyrir sjálfan mig: Ég er eiginlega hætt-
ur að gera áætlanir um framtíðina.“
„Í hvert sinn sem þú klárar kvikmynd,“ segir Davíð brosandi, „hefurðu sagt við
mig: Nú eru algjör tímamót því þetta er mín síðasta mynd!“
Eru nokkur ný samstarfsverkefni í sigtinu hjá ykkur?
„Neinei,“ svarar Davíð. „Núna eru þau algjöru tímamót að þetta er okkar síðasta
mynd!“
Hrafn: „Þannig að allir möguleikar eru opnir…“ ath@ mbl.is
DAVÍÐ TEKUR UPP ÞRÁÐINN: „MEGIN-
RÉTTLÆTING REGLNA OG TAKMARKANA
Á FRELSI MANNA ER SÚ AÐ KOMA Í VEG
FYRIR AÐ ÞEIR GANGI Á RÉTT NÁUNGANS.
EN SÚ RÉTTLÆTING ER LÖNGU HORFIN Í
MÖRGUM TILVIKUM. EF ÞÚ VILT BYGGJA
ÞÉR HÚS OG ERT SÉRVITUR OG VILT EKKI
HAFA STÓRA GLUGGA Í SUÐUR ÞÁ MÁTTU
ÞAÐ EKKI; ÞÚ VERÐUR AÐ HAFA ÁKVEÐIÐ
GLUGGAMAGN Á SUÐURVEGGNUM ÞVÍ
SÓLIN Á AÐ GETA SKINIÐ INN. ÞETTA
HLÝTUR AÐ EIGA RÆTUR Í ÞEIM TÍMA
ÞEGAR ÞJÓÐIN BJÓ Í TORFBÆJUM. OG ÞÚ
SPYRÐ: AF HVERJU ÞARF ÉG AÐ SÆTA
SLÍKUM REGLUM? ÉG VIL EKKI ALLA
ÞESSA SÓL. ÉG VIL HAFA RÖKKVAÐ INNI
HJÁ MÉR. OG SVARIÐ ER: NEI, ÞETTA
VERÐUR AÐ VERA SVONA OG ÞÚ SETUR ÞÁ
BARA UPP ÞYKKAR GARDÍNUR.“
28.12.2003 | 25
FRELSIÐ SKAL VERJA MEÐ BOÐUM OG BÖNNUM