Morgunblaðið - 28.12.2003, Side 30
30 | 28.12.2003
VOX, NORDICA HÓTEL
Vox fylgir nokkuð klassískri nýfranskri línu með alþjóðlegum áhrifum og gerir það frábærlega. Hvert smáatriði fullkomlega útfært í
réttunum, samsetningarnar skotheldar og öryggið í eldamennskunni algjört. Draumaliðið í eldhúsinu, þeir Hákon Már Örvarsson,
Sigurður F. Gíslason og Gunnar Karl Gíslason, er að taka íslenska veitingahúsamatargerð upp á nýtt stig.
LA PRIMAVERA
Það er eitthvað við La Primavera, sem gerir að verkum að maður leggur leið sína
þangað aftur og aftur. Þetta er eitt af örfáum íslenskum veitingahúsum sem alltaf
standa undir væntingum og yfirleitt meira en það. Það er ekki boðið upp á neinar
flugeldasýningar eða gælt of mikið við tískustrauma í matargerð. Lykillinn að vel-
gengni La Primavera er stöðugleiki, hæg en örugg þróun í matargerðinni og festa
varðandi allt það sem mestu máli skiptir.
SJÁVARKJALLARINN
Sjávarkjallarinn er nútímastaður þar sem innblásturinn er greinilega sóttur til vin-
sælla staða í stórborgum í kringum okkur þar sem blandað er saman klúbbstemn-
ingu og mat. Matargerð Sjávarkjallarans er hrein fusion-matargerð þar sem evr-
ópskum og asískum áhrifum er steypt saman. Og dæmið gengur vel upp hjá Lárusi
Gunnari Jónassyni matreiðslumanni, sem greinilega hefur leitað fanga víða í leit
sinni að nýjum hugmyndum.
EINAR BEN
Það hefur ekki farið mikið fyrir Einari Ben, engar háværar auglýsingaherferðir eða
tilraunir til að blása staðinn upp út á við. Starfið hefur átt sér stað innan veggja eld-
hússins og í veitingasalnum og það hefur greinilega skilað árangri. Þarna er að fæð-
ast veitingahús sem hefur ekki einungis metnað til að gera vel, heldur eldhús sem
stendur undir því.
HUMARHÚSIÐ
Humarhúsið hefur verið starfrækt í fallegu timburhúsi á Amtmannsstíg 11 frá
árinu 1995. Ekki hefur verið farin sú leið að reyna að endurskapa rómantíseraða
útgáfu af nítjándu aldar húsnæði heldur er nýju og gömlu blandað saman með
ágætum árangri. Humarhúsið leggur eins og nafnið gefur til kynna töluverða
áherslu á humarrétti en sjávarréttir almennt eru fyrirferðarmiklir á matseðlinum,
hvort sem er í hádeginu eða kvöldin. Raunar er Humarhúsið einn af bestu hádeg-
isverðarstöðum borgarinnar og er boðið upp á góðan matseðil á hófstilltu verði.
Mikið er lagt upp úr humar og sjávarréttum og þar sýnir Humarhúsið sínar bestu
hliðar og raunar einnig í gómsætum eftirréttunum.
MATUR OG VÍN | STEINGRÍMUR SIGURGEIRSSON
VEITINGAHÚSIN
Árið sem er að líða hefur ekki verið tími
mikilla umbrota í íslensku veitingalífi.
Þó hafa tveir fyrsta flokks nýliðar bæst í
hópinn. Vox og Sjávarkjallarinn.