Morgunblaðið - 29.12.2004, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. DESEMBER 2004 21
MINNSTAÐUR
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
SUÐURNES
Suðurströnd | Vegagerðin hefur
boðið út lagningu nýs vegarkafla á
Suðurstrandarvegi, milli Hrauns og
Ísólfsskála við Grindavík. Er það
vegurinn um Festarfjall sem verið
hefur farartálmi á þessari leið.
Umræddur vegarkafli er tæplega
6 km að lengd. Verkið á að vinna á
næsta og þarnæsta ári og ljúka að
fullu vorið 2006.
Á samgönguáætlun voru áætlað-
ar 500 milljónir í lagfæringar á
Suðurstrandarvegi. Nú er búið að
færa 140 milljónir af fjárveiting-
unni upp á Hellisheiði, til að standa
undir kostnaði við mislæg vegamót
á Þrengslavegamótum. Áætlað er
að um 200 milljónir fari í veginn
um Festarfjall og það sem þá er
eftir af fjárveitingunni verður not-
að til að bæta tengingu Suður-
strandarvegar við Þorlákshöfn, að
sögn Jónasar Snæbjörnssonar, um-
dæmisstjóra Vegagerðarinnar.
Ósabotnavegur boðinn út
Á næstunni, væntanlega í janúar
eða febrúar, verður boðinn út hluti
nýs Ósabotnavegar, kaflinn frá
Hafnavegi og að vegi varnarliðsins
að sorphaugunum. Vegurinn er
nauðsynlegur til að Suðurnesja-
menn geti tekið í notkun nýtt urð-
unarsvæði á Stafnesi, bæði flutt
þangað ösku og óbrennanlegt sorp
og möl til að fergja það. Aðeins
þarf að leggja um 2,5 km kafla til
að komast inn á góðan veg sem
varnarliðið lagði að öskuhaugunum
á sínum tíma.
Fyrirhugað er að leggja veg
Sandgerðismegin út á sorpurðunar-
svæðið en þar vantar aðeins 2,5 km
upp á en að sögn Jónasar er ekki
til fjárveiting til þess verks að
sinni. Þegar sá kafli bætist við opn-
ast ný hringleið á Suðurnesjum og
áhugaverðir staðir komast í vega-
samband eins og til dæmis Bás-
endar.
Nýr vegur lagð-
ur um Festarfjall
Sveigt til strandar Nýi vegurinn endar við Ísólfsskála en þar mun hann
síðar sveigja til strandar, eins og sést á þessari tölvumynd úr umhverfis-
matsskýrslu. Gamli vegurinn sést til vinstri.
Álftanes | Farið verður í form-
legar viðræður við Orkuveitu
Reykjavíkur (OR) um lagningu
ljósleiðarakerfis í hvert hús á
Álftanesi strax eftir áramót, og er
markmiðið að Álftanes verði eitt af
leiðandi sveitarfélögum landsins í
notkun ljósleiðarakerfisins á næstu
árum.
„Við teljum að í samfélagi fram-
tíðarinnar muni þetta vera ein af
kröfum sem íbúarnir gera til síns
sveitarfélags, að hafa aðgang að
þessu eins og að hafa aðgang að út-
varpi og síma,“ segir Gunnar Valur
Gíslason, bæjarstjóri á Álftanesi.
„Við getum búið íbúunum miklu
betri sambandsskilyrði við Inter-
netið, og með því skapast mögu-
leikar til þess að fólk geti í auknum
mæli farið að vinna heima, þegar
menn eru komnir með almenni-
legar tengingar og flutningsgetan
orðin næg,“ segir Gunnar. Í dag er
hefur ljósleiðari verið lagður í nýj-
ustu göturnar á Álftanesi, og því
þarf einungis að leggja í vinnu við
að koma ljósleiðara í eldri götur
bæjarins.
Viðræður um lagningu kerfisins
hefjast milli sveitarfélagins og OR í
byrjun næsta árs, en þar með er
ekki loku fyrir það skotið að mati
Gunnars að verkefnið verði boðið
út. „Við viljum ræða við Orkuveit-
una fyrst því við höfum verið í ýms-
um góðum samskiptum við hana
undanfarin ár, bæði með hitaveitu
og nú seinast með vatnsveitumál.“
Vilja fá ljósleiðara-
kerfi í hvert hús
Sandgerði | Bæjarstjórn Sandgerð-
isbæjar hefur samþykkt að kaupa
Garðveg 3b, Gamla Langahúsið.
Húsið er sambyggt Fræðasetrinu í
Sandgerði og er ætlunin að nýta
það fyrir það og Náttúrustofu
Reykjaness, meðal annars til auk-
inna rannsókna.
Gamla Langahús er gömul fisk-
verkun og hefur verið notuð til
flokkunar á fiski. Húsið var í eigu
Atvinnuþróunarsjóðs og annaðist
Byggðastofnun sölu á því. Söluverð
er liðlega 3,8 milljónir kr.
Bærinn kaupir
Gamla Langahús
Úthluta byggðakvóta | Sand-
gerði fékk 145 þorskígildistonn í
sinn hlut við úthlutun sjávarútvegs-
ráðuneytisins á byggðakvóta fyrir
yfirstandandi fiskveiðiár. Bæjar-
stjórn hefur hug á að úthluta kvót-
anum til fiskiskipa og fiskvinnslufyr-
irtækja í Sandgerði samkvæmt
sömu reglum og undanfarin ár. Er
þá miðað við að viðtakendur kvótans
bæti við kvótann á móti byggðakvót-
anum.
Í samþykkt bæjarstjórnar um
málið kemur fram að óskað verður
eftir upplýsingum um stöðu mála
varðandi úthlutun síðasta árs.
ALLS hafa verið gefin út leyfi
fyrir 17 áramótabrennum á höf-
uðborgarsvæðinu í ár, 10 í
Reykjavík og einni í hverjum af
hinum sveitarfélögunum, auk
brennu á Kjalarnesi. Í gær fóru
þeir sem ætla að hlaða stærstu
brennurnar að hugsa sér til
hreyfings og á næstu dögum
verða stórvirkar vinnuvélar tekn-
ar til handargagns við að hlaða
bálkestina.
Ekki virðist vera mikill breyti-
leiki í brennuhaldi milli ára, og
samkvæmt upplýsingum frá
Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins
eru það sömu 17 aðilarnir og
stóðu fyrir áramótabrennunum á
síðasta ári sem standa fyrir
brennunum í ár.
Ein af stóru brennunum í
Reykjavík verður við Ægisíðu, og
segir Jón Bergvinsson ábyrgðar-
maður brennunnar vissa eftirsjá
að þeim tímum þegar íbúar
hverfanna voru virkari í því að
hjálpa til við að gera brennurnar
sem flottastar með því að leggja
til eldsmat og hjálpa til við að
hlaða.
Slökkt í brennunum
Í dag eru ákveðnar reglur um
hvað má fara á áramótabrennuna,
þar má bara brenna hreinu og
óvörðu timbri. Samkvæmt upplýs-
ingum frá slökkviliði eru brennur
almennt flokkaðar í stórar og litl-
ar brennur, og mega stórar
brennur ekki vera stærri en 450
rúmmetrar, en þær minni ekki
stærri en 200 rúmmetrar. Að auki
er slökkt í brennunum á nýárs-
nótt, í Reykjavík fara starfsmenn
Gatnamálastjóra af stað um kl. 2
eftir miðnætti og hefjast handa
við að slökkva í brennunum.
Byrjað að hlaða áramótabrennur
Morgunblaðið/RAX
Við Ægisíðu Þótt það sé að mestu liðin tíð að íbúar safni í brennur voru þó einhverjir sem lögðu timbur á bálköst-
inn við Ægisíðu í gær og er trúlega enn skemmtilegra að horfa á brennuna fyrir þá sem leggja sitt af mörkum.