Lesbók Morgunblaðsins - 12.02.2005, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 12.02.2005, Blaðsíða 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 12. febrúar 2005 Í Willowstræti 155, Brooklyn, New York City, býr ásamt fjölskyldu sinni eitt frægasta leikritaskáld Bandaríkjanna, Arthur Miller. Sá sem dvalizt hefur á Manhattan um skeið og kynnzt vélrænum óróa þessarar steinborgareyju, þar sem enginn maður hefur tíma til neins nema flýta sér, skilur hvers vegna hið fræga leikritaskáld hefur tekið Brooklyn fram yfir Manhattan. Enda þótt ekki sé meira en svo sem 15 mínútna lestarferð frá hjarta Man- hattan út í íbúðarhverfi Brooklyn, er þarna um að ræða tvo ólíka heima: – annan iðandi af óróa og drepandi hraða, með skýjakljúfum er teygja sig eins og svartir skuggar til himins; hinn friðsælan, með lág- um, gömlum húsum er láta lítið yfir sér, eiga þó sína sögu mörg hver. Í einu slíku húsi býr höfundur meistaraverksins Sölu- maður deyr. Einn sólheitan dag fyrir nær hálfum mánuði var mér tilkynnt, að Arthur Miller ætti von á mér á heimili sínu og væri reiðubúinn að rabba við mig og svara nokkrum spurningum er ég hefði hug á að leggja fyrir hann. Hafði ég þá fyrir nokkru farið þess á leit að fá við hann stutt blaðaviðtal, enda þóttist ég vita, að ís- lenzka lesendur fýsti að kynnast skoðunum hans á ýmsum málum; a. m. k. kunnu þeir að meta „Sölumaður deyr“ á sínum tíma. En hvað um það. Hann beið eftir mér, og það var aðalatriðið. Lítið vissi ég um manninn sjálfan, áður en ég hitti hann að máli, hafði að- eins lesið dálítið eftir hann og um hann, séð „Sölumaður deyr“ og hrifizt. Á leiðinni í neð- anjarðarlestinni reyndi ég því að gera mér nokkra grein fyrir manninum og hugsaði um, hvernig þessi frægi rithöfundur mundi taka óþekktum íslenzkum blaðamanni; fannst alveg eins líklegt, að ég fengi lítið upp úr honum annað en já og nei, ef hann þá á annað borð hefði nokkurn tíma til að rabba við mig eins- lega. Slíku var maður farinn að venjast í þeirri stóru borg New York; það kom ekki lengur á óvart, þótt fólk hefði ekki tíma til að taka það rólega. En ótti minn reyndist ástæðulaus. – Er ég hafði nokkrum sinnum barið að dyrum í Will- owstræti 155, var opnað og innan dyra stóð hár, grannur og myndarlegur maður með dökkt, hrokkið hár. Tindrandi augu. Hann var órakaður og bar mjög á því vegna dökkrar skeggrótar, klæddur köflóttri sportskyrtu og brúnum flauelsbuxum. Hann var heldur þreytulegur að sjá, andlitsdrættirnir þó ákveðnir og skarpir. Andlitið mjóslegið. Þetta var Arthur Miller sjálfur. Hann bauð mig vel- kominn og ég fann, að andspænis mér stóð vin- gjarnlegur maður. Nokkuð alvörugefinn. Hann var frjálslegur í fasi, eins og flestir Banda- ríkjamenn, og tók mér, eins og hann hefði þekkt mig alla ævi. Er Miller hafði boðið mér inn, fór hann fram í eldhúsið á neðstu hæð hússins, fékk sér glas af ískaldri mjólk og bauð mér. Þótti mér þetta heldur undarlegt uppátæki í landi hins ágæta Schlitz-bjórs, en Miller var ekki lengi að svara spyrjandi augnaráði mínu. Kvaðst hann hafa lagt sig þá um morguninn eftir 15 tíma þrot- lausa vinnu og þætti sér því gott að fá sér kaldan mjólkursopa, áður en við byrjuðum að rabba saman. Fórum við síðan upp á skrifstofu hans, en á leiðinni hittum við ungan dreng, sem grét hástöfum: „Sonur minn,“ sagði skáld- ið. „Hann er líklega óánægður yfir því að það skuli enginn blaðamaður vilja tala við hann.“ Þegar við komum upp í skrifstofuna, spurði ég Miller að því, hvort hann ynni alltaf svona lengi. – Já, svaraði hann, ég vinn alltaf mjög lengi í einu, þegar ég byrja á annað borð, þetta 14–15 tíma á sólarhring. Í gærmorgun fannst mér ég endilega þurfa að skrifa smásögu sem ég hef lengi verið með í kollinum, en ætlaði mér þó aldrei að skrifa. En í gær sótti efnið svo ákaft á mig, að ég fékk engan frið, fyrr en ég var setztur við ritvélina og byrjaður að setja það á pappírinn. Hefi ég nú unnið í alla nótt og vélritað milli 40–50 blaðsíður af sög- unni . . . Þetta er mjög undarleg saga. Mjög undarleg. – Og um hvað fjallar hún, ef ég má spyrja? – Ja, í stuttu máli fjallar hún eiginlega um gildi mannsins, gildi mannssálarinnar. Hún er um ungan, brjálaðan listamann sem reynir – þrátt fyrir veikindi sín – að bjarga sál sinni, komast heill í höfn, ef svo mætti segja. Miller virðist ætla að láta þetta nægja, en þá er eins og grípi hann einhver löngun til að segja þessa hálfgerðu sögu. Hann fitlar við rit- vélablöðin, sem liggja á skrifborðinu, hálf- vandræðalegur í fyrstu og eins og dapur yfir eymdarlegum örlögum sögupersónu sinnar. Síðan hefur hann frásögn sína skýrum rómi, ákveðinn, eins og til að leggja áherzlu á, að svona ömurlegt geti mannlífið verið: – Sagan er um ungan mann, ungan listmálara öllu held- ur, 24 ára gamlan, segir hann og lítur á mig, 24 ára gamlan. Hann þjáist af brjálsemi og gerir ítrekaðar tilraunir til að ná tali af frægum rit- höfundi, segist langa mikið til að ræða við hann svo sem fimm mínútur um listmál. Rithöfund- urinn hefur engan áhuga á slíkum viðræðum, vill halda manninum í hæfilegri fjarlægð, en finnur þó til ábyrgðar gagnvart þessum með- bróður sínum og fær hálfgert samvizkubit út af öllu saman. En ungi maðurinn gefst ekki upp, hann er ákveðinn í að leggja ekki árar í bát. Svo er að sjá sem honum sé lífsspursmál að ræða við rithöfundinn, og að því kemur loks, að þeir mæla sér mót. Kemur þá í ljós, að unga málarann langar ekkert til að ræða listmál við rithöfundinn – spyr hann aðeins þeirrar einu spurningar, hvort hann álíti, að einn maður geti náð algjöru áhrifavaldi yfir öðrum. Kveður hann frænku sína eina gamla hafa náð tökum á sér og reyni hún af öllum mætti að eyðileggja líf sitt, koma í veg fyrir, að hann geti náð eðli- legum þroska – og málað. Rithöfundurinn svarar spurningu listmál- arans unga á þá lund, að frænkan hafi ekkert áhrifavald yfir honum, heldur sé það ímyndun hans. Hann hafi sjálfur gefið henni þetta áhrifavald. – Annars er bezt, að menn kynnist sögunni af eigin raun með því að lesa hana sjálfir, en ég vara þó við henni, því að hún er hálfundarleg, eins og ég sagði áðan. Hálfund- arleg. – En þungamiðja hennar er þessi: – Þrátt fyrir brjálsemina reynir ungi maðurinn að bjarga sér í land, óttinn við að bíða algert skipbrot verður jafnvel brjálseminni yfirsterk- ari. Mannssálirnar eru jafn verðmætar heilar sem vanheilar, því líf manna verður ekki vegið eins og gullmolar. Nú á dögum ber því miður talsvert á því, að menn glatist, séu troðnir und- ir, ef svo mætti að orði komast. – Hvar á þessi saga að birtast? Margir hafa áreiðanlega gaman af að kynna sér hana, en hvar geta þeir fundið hana, ef . . . ? – Veit það ekki, svarar Miller nokkuð snögg- ur upp á lagið og hálfkæruleysislega. Kannski vill enginn birta hana á prenti, bætir hann við og ypptir öxlum. – Hafið þér skrifað margar smásögur, Mill- er? – Nei, ekki nema sex, og af þeim er ég að- eins ánægður með eina, Monte St. Angelo, sem fyrst var prentuð í hinu ágæta bókmenntariti Harpers og hlotið hefur mörg verðlaun. Einnig hefur hún birzt í ýmsum smásagnasöfnum, svo að auðvelt er að ná í hana. – Annars hafið þér auðvitað helzt fengizt við leikritagerð. Hvenær var fyrst sýnt eftir yður leikrit? – Það var árið 1945. Leikritið heitir The Man Who Had All The Luck. Það hefur aldrei verið gefið út, vegna þess að mér hefur ekki líkað það alls kostar. Þegar það var frumsýnt á Broadway fyrir níu árum, gekk það aðeins í fjóra daga. Og síðan ekki söguna meir. Það virtist vera dauðadæmt. – Er leikritið hafði fengið þessa hraklegu útreið á Broadway, missti ég alveg kjarkinn og hugðist hætta við leikritagerð; sneri mér þá að skáldsagnagerð og samdi bókina Focus, sem fékk ágæta dóma og varð geysivinsæl. Hún fjallar um Gyð- ingahatur og hefur verið gefin út bæði á dönsku og sænsku, svo að það eru hæg heima- tök fyrir ykkur Norðurlandabúa að komast yfir hana. – En segið mér eitt, ætlið þér aldrei að gefa út The Man Who Had All The Luck? – Jú. Ég hefi nú breytt um skoðun og ákveð- ið að leyfa útgáfu leikritsins. Ástæðan er sú, að Riksteatret í Noregi fór þess á leit við mig ekki alls fyrir löngu að mega sviðsetja leikritið. Eftir talsverðar bollaleggingar lagði ég blessun mína yfir, að það yrði sýnt, og nú er mér sagt, að það hafi hlotið ágæta dóma gagnrýnenda og góðar viðtökur leikhúsgesta. Ég er mjög ánægður með þann árangur, – bætir Miller við, um leið og hann sækir myndir af leiknum í Noregi og blaðaúrklippur sem honum hafa ver- ið sendar. – – Ég get að vísu ekki lesið þetta sjálfur, en hvernig er það annars, eru ekki norskan og íslenzkan lík mál? Kannski þér get- ið þýtt fyrir mig eitthvað af þessum blaðadóm- um? Hann sat hljóður sem barn, á meðan ég las fyrir hann lofsamlegan dóm í Dagbladet; lítillátur, en samt ánægður með þann óvænta sigur, sem hann hafði unnið. – Noregur hlýtur að vera indælt land, sagði hann svo eins og upp úr eins manns hljóði, indælt land. – Á Norð- urlöndum er ágætisfólk, ég hef bæði verið í Svíþjóð og Danmörku og kunni þar ágætlega við mig. Næst ætla ég til Noregs og Íslands, langar mikið að kynnast þessum tveimur Norð- urlöndum, sem ég þekki svo alltof lítið. Síðan röbbuðum við drykklanga stund um Ísland, land og þjóð, og vissi Miller talsvert mikið um hvort tveggja. Einkum hafði hann áhuga á Þjóðleikhúsinu og starfsemi þess og ljómaði allur, er ég sagði honum frá blómlegu leiklistarlífi í Reykjavík. – Dásamlegt, sagði hann, dásamlegt. Ég hefi einmitt barizt fyrir því, að við eignuðumst þjóðleikhús hér í Bandaríkjunum, nokkurs konar leiklist- Rætt við Arthur M Bandaríska leikritaskáldið Arthur Miller lést í fyrradag, 89 ára að aldri. Fyrir ríflega hálfri öld, í október 1954, átti Matthías Johannessen samtal við hann ytra og birtist það í Morg- unblaðinu. Það fer hér á eftir. Þess má geta að þetta samtal var á sínum tíma lagt fyrir óam- erísku nefndina og notað í málsvörn skáldsins þegar McCarthy stefndi honum fyrir nefndina vegna ímyndaðra tengsla við kommúnista í Bandaríkjunum. Deiglan Bandaríska leikritaskáldið Arthur Miller árið 1956. Miller setti á löngum ferli mark sitt á bandarís Eftir Matthías Johannessen

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.