Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. febrúar 2005 | 3 V ið vorum einhvers staðar ná- lægt Barstow á jaðri eyði- merkurinnar þegar eiturlyfin byrjuðu að virka.“ Svona hefst frægasta ritverk Hunt- ers S. Thompson, Fear and Loathing in Las Vegas (Vá og viðbjóður í Las Vegas, 1972), sem er í senn eitt ein- kennilegasta, eftirminnilegasta og fyndn- asta bókmenntaverk und- anfarinna áratuga. Skáldsagan bar öll þau ein- kenni sem gerðu höfund hennar að fánabera nýrrar kynslóðar í blaðamennsku og skriftum á öndverðum áttunda áratugnum. Skrif Hunters Thompson brutu sér leið inn í almenningsvitundina með sprengi- krafti, hann lýsti ekki einvörðungu því sem fyrir augu bar heldur skók hann og end- urmótaði menningar- og fjölmiðlalandslagið. Thompson var rannsóknarblaðamaður og víst má segja að hann hafi ávallt verið með ákveðin og afmörkuð viðfangsefni í sigtinu, líkt og rannsóknarblaðamönnum sæmir. Það sem jafnan kom þó á óvart var að meint viðfangsefni átti það gjarnan til að hverfa snemma út úr myndinni og eftir stóð höf- undurinn sjálfur með sitt hafurtask, en það var einmitt þegar hann var búinn að stinga efnið af sem hafist var handa fyrir alvöru. Þannig varð áðurnefnd bók, Vá og við- bjóður, til sem röð blaðagreina fyrir banda- ríska tónlistartímaritið Rolling Stone um mótorhjólamót í Las Vegas, sem og lýsing á samkundu saksóknara í sömu borg. Þeir sem hafa lesið bókina vita hins vegar mæta vel að hvorugt kemur við sögu svo nokkru nemi. Í endanlegri útgáfu hefur Hunter tekið sér dul- eða listamannsnafnið Raoul Duke og í fylgd með Duke er lögfræðingurinn Dr. Gonzo, en sá síðarnefndi er betur þekktur sem Oscar Zeta Acosta, höfundur hinnar kostulegu Adventures of a Brown Buffalo (Ævintýri brúns buffalós), verks sem að mörgu leyti gefur skrifum Thompsons lítið eftir. Saman ferðast þeir félagar í gegnum frumskóg gleðiborgarinnar með kaldhæðni, eiturlyf og sígarettur að vopni í leit að – hverju? Erfitt er að svara þeirri spurningu. Markmiðið virðist á köflum óljóst í huga þeirra sjálfra. Sennilega mætti þó halda því fram að við- fang leitarinnar sé einhvers konar minn- isvarði eða teikn um sálarlíf þjóðar. Það sem þeir finna hins vegar í Las Vegas er hræ bandaríska draumsins – alls þess sem ung kynslóð áratug fyrr hafði vonað að væri innan seilingar hefur beðið skipbrot, brostnar vonir eru hlutgerðar á af- skræmdan hátt í díónýsku karnívali eyði- merkurborgarinnar. Í raun má segja að Vá og viðbjóður í Las Vegas sé endurgerð harmleiksins um Tít- anik nema í þetta skipti er sviðið þurrblásin eyðimörk. Þannig er bókin uppgjör við drauma ’68-kynslóðarinnar, tregafull upp- talning á gagnslausri arfleifð nýliðins ára- tugar, skrifuð í skugga nixonískrar hugsýki. Enda þótt bókin sé einstaklega fyndin er hún líka tregablandin, í raun er hún eins konar útfararsálmur um tímabil ungæð- islegra hugsjóna. Ný blaðamennska Hunter S. Thompson skrifaði alltaf um sjálfan sig. Í blaðagreinunum var hann allt- af aðalpersónan, engin tilraun var gerð til þess að vera hlutlaus, vitund áhorfandans – sem stundum var líka þátttakandi – var flaggað. En þannig átti Thompson ásamt vini sín- um Tom Wolfe heiðurinn af nýrri tegund blaðamennsku sem síðar einmitt fékk hið ófrumlega nafn „nýja blaðamennskan“. Segja má að Heisenberg-lögmálið hafi feng- ið að leika lausum hala í aðferðafræði þessa nýja skóla í blaðamennsku, en samkvæmt lögmálinu mun atferli rannsóknarinnar, áhorfið eða mælingin, hafa áhrif á sjálfa niðurstöðuna. Þannig störfuðu þessir ágætu menn líka – blönduðu sér í framrás atburða og lýstu þeim síðan á afar huglægan máta. Áhrif Thompsons voru umtalsverð – starf blaðamannsins varð aftur svalt og ný kyn- slóð blaðamanna óx úr grasi sem mætti á borgarnefndarfundi í bermúdabol og með sólgleraugu. Thompson lagði, með öðrum orðum, til atlögu við þá yfirlætislegu hræsni sem víða réð ríkjum í „alvarlegri“ blaða- mennsku. Hræsni sem gerði jafnvel hæf- ustu blaðamönnum fært að leiða hjá sér fíl- inn í herberginu, lýsa allsbera keisaranum sem fullklæddum. Hugleysið sem svo oft dulbýr sig sem hlutleysi. En mikilvægi Thompsons í annálum bandarískrar blaðamennsku er ekki ein- vörðungu reist á grunni hinnar svokölluðu „nýju blaðamennsku“. Framlag hans fólst einnig í að búa til ákveðna undirgrein sem kennd er við „gonzó“-blaðamennsku, og er þar sérstaklega vísað til hneigðar Thomp- sons til að neyta sterkra eiturlyfja, en áhugi hans á slíkum efnum er óumdeildur, og nota þá skekktu skynjun sem af þeim hlýst sem einkonar myndhverfingu fyrir þann an- kannalega veruleika sem hann sá í kringum sig og reyndi eftir bestu getu að miðla. Enginn þarf þó að efast um að Thompson hafi tekið starf sitt og vettvang alvarlega. Bók hans Fear and Loathing on the Campaign Trail ’72 (Vá og viðbjóður í kosn- ingabaráttunni ’72; 1973) er enn einhver mikilfenglegasta lýsing sem völ er á þegar að kosningabaráttu Nixons kemur, og þótti mörgum aðdáendum fyrri bókarinnar um Vá og viðbjóð nóg um smámunasemina, reglufestuna og stafkrókssemina sem ræður ríkjum í þessu verki. Bókin var þó í eðli sínu „gonzó“-blaðamennska og hefur lýsing Thompsons á Nixon sem „varúlfinum í okk- ur öllum“ orðið fleyg. Litríkan blaðamannaferil sinn hóf Thompson þó sem íþróttafréttaritari í flug- hernum. Þetta var á ofanverðum sjöunda áratugnum og getur vart talist vísir að því sem síðar kom, nema kannski því að nú allra síðustu ár starfaði Thompson sem dálkahöfundur fyrir ESPN-íþróttaveldið. Það var hins vegar ekki fyrr en Carey McWilliams, ritstjóri bandaríska tímaritsins The Nation, réð hann til að skrifa greina- flokk um mótorhjólagengið Hell’s Angels um miðjan sjöunda áratuginn að Thompson fann bæði röddina og vettvanginn sem gerði hann frægan. Thompson fannst þetta vera spennandi hugmynd og tók verkefnið að sér á sinn einstaka hátt. Í meira en ár keyrði hann á mótorhjóli með vítisgenginu upp og niður Kaliforníuríki og skrifaði svo grein sem birtist í tímaritinu í maí árið 1965. Greinin lýsti taumlausu líferni mótórhjólaklíkunnar, svakalegum hópfundnum þeirra, orgíum og ofbeldi. Hann lýsti lífsstíl sem á þessum tíma var almenningi ókunnur, og hann gerði það í hálfgerðum dómsdagstón: „Þetta er upphafið að framtíð sem ekkert í sögu okk- ar hefur búið okkur undir,“ vítisenglarnir voru ógnandi en líka spennandi, dálítið eins og prósastíll Thompsons átti eftir að verða. Flestir ummælendur um Thompson halda því fram að „gonzó“-stíllinn hafi ekki verið kominn til sögunnar þegar hann skrifaði greinina, né bókina sem fylgdi á hæla blaðagreinarinnar, Hell’s Angels: A Strange and Terrible Saga (Vítisenglarnir: Ein- kennileg og hræðileg saga, 1966). Bókin náði hins vegar metsölu og varð um alllangt skeið kennslubók í félagsfræði. Thompson var orðinn frægur. Samkvæmt goðsögunni fæddist „gonzó“- stíllinn þegar Thompson var morgun einn staddur inni á hótelherbergi, þurrausinn frá því kvöldið áður, og þurfti að skila inn grein. Ritstjórnin var með blóðbragð í munninum og á hælunum á honum en hann hafði ekkert í höndunum. Í stað þess að skila engu byrjaði hann að rífa blaðsíður úr glósubókinni sinni og faxaði þær til útgef- anda, þess fullviss að þetta væru endalok ferils hans sem blaðamanns. En svo reynd- ist ekki. Þess í stað var um byltingu að ræða – „persónulegur“ stíllinn féll les- endum í geð og höfundurinn hafði fundið sitt persónulega form. Ímyndin og veruleikinn Með krús af brennivíni í annarri hendi og skotvopn í hinni: Þegar árin liðu varð þetta ímyndin sem ríkti um Thompson. Þrátt fyr- ir að hafa skrifað um tuttugu bækur, þar á meðal frábæra sjálfsævisögu, Kingdom of Fear (Konungsríki óttans), yfirbugaði ímyndin inntakið, skilaboðin: sögur af hegð- un, lífi og fleygum setningum Thompsons gengu manna á milli, hann var orðinn goð- sögn í lifanda lífi, en áhuginn fyrir því sem hann skrifaði fór minnkandi. Ýmsar ástæður eru vafalaust fyrir því að hann dró sig smám saman í hlé, en áhugi fyrir Thompson var endurvakinn seint á tí- unda áratugnum þegar Terry Gilliam kvik- myndaði áðurnefnda skáldsögu um Vá og viðbjóð í Las Vegas. Hafði Thompson þá þegar verið lagaður að hvíta tjaldinu, en það var í kvikmyndinni Where the Buffalo Roam (Þar sem buffalóarnir bíta) og túlkaði Bill Murray þar skáldið. Enda þótt sjálfsvíg veki jafnan spurn- ingar kvaddi Thompson heiminn á skáldleg- an máta. Þegar hann var ungur rithöfundur æfði hann sig með því að skrifa upp bækur Ernests Hemingways og líkt og bókmennta- leg fyrirmynd hans dró hann sig í hlé þegar honum fannst stundin vera rétt. Öfgar í Ameríku Bandaríski rithöfundurinn og blaðamað- urinn Hunter S. Thompson svipti sig lífi á sveitabýli sínu fyrir utan Aspen í Colorado- ríki í Bandaríkjunum síðastliðinn sunnudag. Hann var 67 ára gamall og hafði um nokkurt skeið átt við heilsuleysi að stríða. Thomp- sons er nú minnst víða um heim enda um einn litríkasta persónuleika bandarískra bókmennta að ræða. Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@ wisc.edu Höfundur stundar doktorsnám í bókmenntum í Bandaríkjunum. Reuters Hunter S. Thompson „Thompson, með öðrum orðum, lagði til atlögu við þá yfirlætislegu hræsni sem víða réð ríkjum í „alvarlegri“ blaðamennsku. Hræsni sem gerði jafnvel hæfustu blaðamönnum fært að leiða hjá sér fílinn í herberginu, lýsa allsbera keisaranum sem fullklæddum.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.