Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. febrúar 2005 RÓBERT Haraldsson er frjór heimspekingur og leitar víða fanga. Hugleiðingarnar sex sem hann birtir í þessu nýja greinasafni fjalla jöfn- um höndum um skáldskap, stjórnmálaskrif og heimspeki. Þó er það sammerkt með hugleið- ingunum að þær fela allar í sér tilraun til heim- spekilegrar túlkunar. Það er heill þráður í skrifunum þó að viðfangsefnin séu margvísleg. Allar hugleiðingarnar bera með sér viðleitni til að draga fram heilsteypta lífssýn og skerpa skilning lesandans á mikilvægi einfaldrar og hversdagslegrar reynslu. Róbert hefur andúð á orðagjálfri, tilgerð og ósannsögli og sömu sýn á heiminn þykist hann greina í verkum allra höf- undanna sem hann fjallar um, utan hugsanlega eins. Róbert dregur persónulega lærdóma af lestri höfundanna sem hann fjallar um og þeim vill hann vill deila með lesandanum. Það tekst honum oft ágætlega. En það er að mörgu að hyggja í bók sem fer jafn vítt yfir hugsun síð- ustu tveggja alda og Frjálsir andar gera og markmið Róberts eru ekki aðeins persónuleg, bók hans er líka tilraun til að leggja dóm á heimspeki og heimspekilega orðræðu samtím- ans. Tíðarandinn og sniðgöngumenn hans Róbert gefur bók sinni undirtitilinn ótímabær- ar hugleiðingar um sannleika, siðferði og trú en bæði titill og undirtitill fela í sér skírskotun til verka þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche. Hann kemur víða við sögu, þó að engin hugleiðinganna fjalli um hann beint. Það skýrir sig sjálft þegar greinarnar eru lesnar hvers vegna Róbert kýs að kalla þær hugleið- ingar: Þær eru í senn persónuleg yfirvegun og tilraun til að vekja lesandann til umhugsunar. Hvers vegna Róbert telur hugleiðingar sínar ótímabærar þarfnast hinsvegar skýringar. Hann stillir í formála upp sex meginspurn- ingum eða leiðarstefjum sem hvert fyrir sig einkennir eina hugleiðingu og gefur jafnframt stutt svör við þessum spurningum sem hann telur tísku eða tíðaranda hneigjast til að gefa. Svör Róberts eru önnur. Hann telur þau fara á snið við tíðarandann og þessvegna kýs hann að kalla hugleiðingarnar ótímabærar. Spurningar Róberts eru dæmigerðar tilvist- arspurningar nútímans, sumar mætti jafnvel kalla klassískar. Svörin sem hann telur tíð- arandann hvísla að sér eru hinsvegar hin kynd- ugustu. Þannig hafnar tíðarandinn öllu aft- urhvarfi til náttúrunnar, að mati Róberts, sýpur hveljur yfir þeirri firru að trú geti byggst á reynslu, hlær að hugmyndinni um að skáldskapur geti haft siðferðilegan boðskap og telur merkingarlaust að tala um einfaldan hlut- lægan sannleika. Auk þess telur tíðarandinn heimspekilega orðræðu ekki geta verið end- anlega og tengir stórmennskuhugsjón forn- aldar við þrá eftir sterkum foringja (13). Nú verð ég að viðurkenna að þetta eru allt aðrir hlutir en tíðarandinn hvíslar að mér, þó að persónulega hneigist ég til að vera sammála því sem Róbert leggur tíðarandanum í munn um heimspekilega orðræðu og stórmennsku- hugsjónina. Aftur á móti virðist mér til dæmis umhverfishyggja samtímans sannarlega vera hluti tíðarandans og boða lausn úr viðjum margvíslegra samfélagslegra klafa í þágu nátt- úrunnar. Eins fæ ég ekki betur séð en að í öll- um lögum samfélagsins birtist þrá eftir trú sem byggir einmitt á persónulegri reynslu. Hvernig getur tíðarandinn hafnað siðferðilegu inntaki skáldverka á tímum þegar bókmennta- umræða hefur einmitt sterkan siðferðilegan undirtón og hvernig er hægt að halda því fram að tíðarandinn hafni einföldum hlutlægum sannleika? Mér virðist sífellt aukin þekking fólks á vísindum styrkja þá skoðun að einfald- an, hlutlægan sannleika sé að finna í hinu smáa og persónulega, í daglegu lífi og siðferði frekar en í stórbrotnum kenningum vísindanna og því fráleitt að telja tíðarandann hafna einföldum, hlutlægum sannleika. Ef til vill ruglar það Ró- bert í ríminu að því er oft haldið fram nú á dög- um að í umræðum, ekki síst í pólitískum um- ræðum, skipti meira máli að þátttakendur umræðunnar fái tækifæri til að tjá, þroska og rökstyðja skoðanir sínar heldur en að komist sé að einu endanlegu svari um rétt og rangt. Ein sterkasta röksemdin fyrir því að leggja áherslu á umræðu og þátttöku, hvort sem er í heim- speki eða pólitík, er sú staðreynd að allt er í heiminum hverfult og þekking manna er fall- völt. Allar ákvarðanir fela í sér áhættu og því er mikilvægt að stuðla að því með umræðu að áhætta sé sameiginleg og meðvituð en ekki byggð á kennivaldi, loforði valdhafa eða þeirri blekkingu að sú skoðun sem verður ofan á hverju sinni sé ófrávíkjanlega rétt. Þá riðu hetjur um héruð Fyrsta hugleiðing bókarinnar fjallar um bandaríska hugsuðinn Henry David Thoreau sem Róbert hefur miklar mætur á. Greinin ein- kennist af þeirri viðleitni Róberts að sýna fram á að Thoreau sé hvorki einfeldningslegur né feli hugmyndir hans um náttúruna og tengsl mannsins við hana í sér „vonlausa rómantík“ (15). Róbert færir ágæt rök fyrir þessari skoð- un sinni og tiltekur prýðileg dæmi. Það er óhætt að fallast á að Thoreau var merkilegur höfundur og að hugsun hans um samband manns og náttúru á mikið erindi til manna enn þann dag í dag. Hann var ekki sérvitur heims- afneitari, heldur alvarlegur, djúpur og þó um- fram allt ábyrgur hugsuður (sjá t.d. 43-44). Mig grunar þó að andstaða við Thoreau risti ekki djúpt meðal heimspekinga sem hafa áhuga á frjórri hugsun, ekki aðeins skotheldum rök- semdafærslum. Heimspekilega hugsun er miklu víðar að finna en í skólaritgerðum heim- spekinganna og fleiri eru heimspekingar en þeir sem lokið hafa prófi í greininni. Heimspeki er að finna í „ljóðum, leikritum, skáldsögum, dægurlögum, kvikmyndum, ritum nátt- úruspekinga og öðrum þeim sporum sem mannsandinn hefur skilið eftir sig á umliðnum öldum“ (19). Þetta er hárrétt og mér liggur við að segja öldungis óumdeild skoðun og það er einmitt af þessari ástæðu að það er mikilvægt fyrir heimspekinga rétt eins og aðra að lesa verk Thoreaus. Það kann hinsvegar að vera rétt hjá Róberti að stundum hafa skólaheim- spekingarnir verið tregir til að viðurkenna þá heimspeki sem ekki fylgir formúlu lærdóms- ritsins, en það er önnur saga. Meginatriðið í túlkun Róberts á Thoreau er þó annað en vörn hans felur í sér. Róbert held- ur því fram að mikilvægt sé að túlka ein- staklingshyggju Thoreaus og andstöðu hans við siðferðilega einokunarstefnu sem viðleitni til frelsunar frá pólitík (45). Róbert spyr hvort það sé óábyrg afstaða að líta svo á að pólitík sé aðeins einn lífsmáti af mörgum og færir rök fyrir því að það sé ekki óábyrgt. Í framhaldinu tekur hann forvitnileg dæmi um annan höfund sem hafi deilt þessari sýn með Thoreau, en það er rithöfundurinn George Orwell. Það veikir hinsvegar þessa túlkun Róberts að textadæmi hans eru óbein. Hann les fráhvarf frá pólitík inn í skrif Orwells og Thoreaus frekar en að hún birtist þar með beinum eða skýrum hætti. Nærtækara er að skilja báða þessa hugsuði sem einarða andstæðinga ofríkis og vald- stjórnar, en það merkir að lesandinn hneigist fyrst og fremst til að setja skrif þeirra, jafnvel skrif þeirra um náttúruna, í rammpólitískt samhengi. Það má til sanns vegar færa að það er ekki nauðsynlega neitt óábyrgt við þá af- stöðu að siðferðilegt sjálfstæði og jafnvel sjálf- ræði velti meðal annars á því að geta hugsað sig út úr pólitík, en það er ekki þar með sagt að þar sé fundinn kjarninn í hugsun höfunda á borð við Thoreau og Orwell. Mér virðist raunar þvert á móti að sú staðreynd að skrif þeirra hafa vægi og þýðingu enn þann dag í dag komi einmitt til af pólitískri afstöðu þeirra. Náttúru- upphafningin sem birtist hjá báðum er því póli- tísk í innsta kjarna sínum: Hún er andsnúin valdi frekar en pólitík. Í greininni „Endurreisn mikillætis og stór- mennskan“ fjallar Róbert um áhugamál sitt og Kristjáns Kristjánssonar prófessors á Ak- ureyri en það er dygð sú sem Aristóteles og fleiri heimspekingar fornaldar nefndu mikil- læti eða stórmennsku (raunar virðast fleiri möguleikar vera á þýðingu orðsins, þar á meðal göfgi (sjá 55)). Kristján hefur hvatt til þess að dygð stórmennskunnar væri endurvakin í upp- eldi og menntun, að vísu ekki í ómengaðri mynd fornaldar heldur í þeirri mynd sem betur hæfir nútímanum. Róbert tekur röksemdir Kristjáns til athugunar í grein sinni og kemst að þeirri niðurstöðu að meiri mat sé hægt að gera sér úr því beint sem Aristóteles skrifaði um stórmennsku en Kristján virðist halda og sýnir fram á að hugmyndir um stórmennið lík- ar hugmyndum Aristótelesar sé að finna í verk- um margra heimspekinga á síðari tímum, þar á meðal verkum Nietzsches og Emersons. Það er merkilegt þegar umfjöllun Róberts er lesin saman við upphaflega grein Kristjáns hve uppteknir þeir eru af einhverskonar „end- urvakningu“ þessarar dygðar. Hvorugur lætur sér nægja markmið lærdómsmannsins, að skýra hugsunina að baki dygðinni og færa rök fyrir einum skilningi á henni frekar en öðrum. Mig grunar að dulinn fræðaótti valdi þessari endurvakningaráherslu. Hér á landi hefur iðu- lega verið gerð krafa um að heimspeki sé í beinum tengslum við hversdagslíf og þess- vegna virðist mönnum ef til vill að hin hreina fræðilega umræða hafi ekki nægilegt gildi í sjálfri sér. Það er miður því að eins áhugaverð og skrif Róberts eru um hvernig hægt sé að skilja hugmynd Aristótelesar um stór- mennsku, jafn óáhugaverð er sú spurning hvort það sé gott eða vont að byrja að kenna og rækta þessa dygð nú á tímum. Róbert kemst að þeirri mótsagnakenndu niðurstöðu að afar mikilvægt sé að endurreisa dygð stórmennsk- unnar en um leið ómögulegt, því að tíðarandinn leyfi það ekki (83). Sannleikurinn, samfélagið og orðræðan Vörn Róberts fyrir einföldum hlutlægum sann- leika birtir þá afstöðu hans sem ef til vill skiptir mestu máli fyrir meginþráð bókarinnar og kemur fram með skýrum hætti í þeim hugleið- ingum hennar sem fjalla öðrum þræði um bók- menntaverk, annarsvegar um leikrit Henriks Ibsens Þjóðníðing og hinsvegar um Stephan G. Stephansson og skáldskap hans. Þjóðníðingur fjallar sem kunnugt er um lækninn Tómas Stokkmann sem kemst að þeirri niðurstöðu með vísindalegri athugun að heilsulindir sem eru bæjarfélagi hans drjúg tekjulind, séu óheilsusamlegar vegna bakteríugróðurs. Upp- götvun hans mætir stífri andstöðu og þau átök sem af henni skapast afhjúpa spillingu á öllum sviðum samfélagsins. Með því að fjalla lítillega um ákveðinn hluta túlkunarsögu verksins og túlka það með sínum hætti tengir Róbert gagn- rýnina á lækninn (og á leikritið) við efasemdir um sannleikann. Við því sé að búast þegar „sí- fellt fleiri fræðimenn ... telja að allt tal um hlut- lægan sannleika sé einhvers konar þver- móðskuleg tilraun til að berja höfðinu við stein og neita augljósri „staðreynd“ um hlutskipti mannsins“ (104). Þessi afstaða birtist í dálítið annarri mynd í umfjöllun Róberts um Stephan G. þegar hann færir rök fyrir því að orðræða geti verið end- anleg. Með því á hann við að í sumum tilfellum og um suma hluti sé hægt að segja allt sem segja þarf. Dæmin sem hann tekur eru ljóð- línur Stephans G. en þær „virðast fullkomnar, hendingarnar fullgerar, orðin virðast nægja til að lýsa viðfangsefninu, til að tjá hugsun höf- undar, og setningarnar virðast óhagg- anlegar...“ (125). Á móti endanleika í þessum skilningi teflir Róbert meðal annars því sem hann nefnir hugmyndir nokkurra postmódern- ískra höfunda um eðli orðræðunnar – að hún sé í eðli sínu endalaus. Greinarmuninum á hinu endanlega og hinu endalausa lýsir Róbert á nokkra mismunandi vegu, en það er gagnlegt að hafa í huga hversdagslegustu skýringarnar. Þannig lýsir það að hitta naglann á höfuðið í vissum skilningi endanleika orðræðunnar (123), sömuleiðis aðstæður á borð við at- hugasemd barnsins í Nýju fötunum keisarans, þegar einföld athugasemd afhjúpar þvælu, rugl eða sjálfsblekkingu þannig að ekkert meira er að segja (151). Báðar greinarnar eru athyglisverðar og að því að mér virðist um margt frumlegar hugleið- ingar um verk Stephans G. og Ibsens. Hins- vegar skýtur Róbert yfir markið þegar hann tengir einfaldleikann sem hér birtist í því ann- arsvegar að hafa rétt fyrir sér um tiltekið at- riði, hinsvegar að segja allt sem segja þarf um ákveðið viðfangsefni, við þá viðleitni margra nú á tímum að losa fræðilega og pólitíska umræðu úr viðjum hagsmuna, valdatafls og þöggunar. Sú algenga skoðun að allt sem sagt verður um veruleikann sé háð túlkun og hluti af orðræðu og því ekki sannreynanlegt nema í samhengi túlkunar og orðræðu segir Róbert að leiði menn út í að hafna allri hlutlægni: „Við þurfum samkvæmt þessari heimspeki ekki að standa veruleikanum ... reikningsskil á skoðunum okk- ar heldur öðrum mönnum“ (132). Hér virðist mér ruglingur á ferðinni. Það má taka dæmi til að skýra þetta atriði. Það kemur fyrir í ólgandi viðskiptalífi samtímans að starfsmenn fyr- irtækja sem fara óeðlilegar eða ólöglegar leiðir til að ná markaðsárangri komi fram fyrir skjöldu og fletti ofan af starfsháttum eigin fyr- irtækis jafnvel þó að það hafi verstu afleiðingar fyrir þá sjálfa. Í raun minna örlög Stokkmanns í Þjóðníðingi á örlög heiðarlegs og grandvars starfsmanns stórfyrirtækis sem reynir að benda yfirmönnum sínum á misfellur en í stað þess að mark sé tekið á honum er réttmæt gagnrýni hans þögguð niður. Umræða um slík- ar uppljóstranir er augljóslega ekki spurning um eðli sannleikans, þó að aðferðir og að- Frjálsir andar fljúga hátt Róbert H. Haraldsson „Niðurstöður hans hafa því ekki þau áhrif fyrir efasemdir samtímans um sann- leika, endanleika orðræðunnar eða stórmennsku sem hann vill vera láta.“ BÆKUR Heimspeki Eftir Róbert H. Haraldsson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004. 272 bls. Frjálsir andar. Ótímabærar hugleiðingar um sannleika, siðferði og trú.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.