Morgunblaðið - 01.05.2005, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1. MAÍ 2005 11
hef ég stundum verið fyrsta konan til að taka að
mér einhver tiltekin störf og það getur vel verið
að ég sé fyrsta konan sem er forstjóri í svona
fyrirtæki á Íslandi. Ég þekki það ekki nógu vel
en það verður að hafa í huga að þetta er kannski
ekki eins dæmigert karlaumhverfi og virðist við
fyrstu sýn því auk þess sem byggingarvöru-
verslun Byko heyrir undir Byko hf. þá tilheyra
samsteypunni fleiri fyrirtæki líkt og Elko, Int-
ersport, Húsgagnahöllin auk Depo verslana í
Lettlandi og annars konar starfsemi í Evrópu.“
Hefur þér alltaf þótt gaman að stjórna? Eða
að ráða?
Hún hlær.
„Stjórnun felst í því að vinna með fólki, leiða
saman sjónarmið og búa til einhverja sameig-
inlega sýn um það hvert fólk ætlar að fara. Og
að breyta hlutunum, sækja fram með ein-
hverjum hætti. Mér finnst það gaman. Ég er
hins vegar ekkert stjórnunar-frík, ég ræð gt.d.
ekkert rosalega mörgu heima hjá mér!“
Hún hlær aftur og bætir við: „Ég vinn bara
eftir gömlu reglunum! En mér finnst vissulega
gaman að axla ábyrgð, gaman að vera í ein-
hverju sem er ögrandi. Og ég er farin að átta
mig á því eftir öll þessi ár að ég sækist eftir ein-
hvers konar áskorun. Ef hlutirnir verða of nota-
legir fer ég að hugsa mig um; þá færist ókyrrð
yfir mig. “
Talsvert hefur verið talað um það undanfarið
að konum í stjórnun hafi ekki fjölgað nægilega.
Finnst þú vera fyrirmynd sem gæti e.t.v orðið
til þess að þetta breyttist?
„Ég efast ekki um að konum á eftir að fjölga í
forystu í atvinnulífi og stjórnmálum og held að
margt það sem konur hafa til brunns að bera
eigi eftir að verða meira metið í stjórnun. Konur
hafa sótt fram og aflað sér meiri menntunar og
ég held að viðhorfið hljóti að breytast mjög
fljótlega.
Samt verður hver og einn einstaklingur að
forgangsraða og það er algengara að konur en
karlar leggi áherslu á að halda vel utan um fjöl-
skylduna sína. Það er ákveðið val og við verðum
að bera virðingu fyrir því vali; megum ekki gera
lítið úr því ef konur kjósa að vera í hlutastörfum
eða störfum sem gefa þeim tækifæri til þess að
sinna fjölskyldunni.“
Heldurðu að litið verði á ákvörðun þína sem
áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessu tilfelli; eða
áfall fyrir hvaða stjórnmálaflokk sem er þegar
ung og efnileg kona hættir í pólitík og snýr sér
að öðru?
„Ég vona ekki. Ég vona að þetta verði allt
eins hvatning fyrir ungar konur eða unga karl-
menn; að þau sjái að hægt er að fara inn í
flokksstarf og út aftur. Það má ekki líta á
stjórnmál sem einhvers konar svarthol, sem
maður sogast inn í og kemst aldrei út úr aftur.
Ég lít svo á að þegar einhver fer til starfa í
stjórnmálaflokki sé viðkomandi ekki þar með að
taka ákvörðun til lífstíðar. En ég vil taka fram
að mér finnst afar mikilvægt að gott fólk veljist
inn í stjórnmálin í öllum flokkum. Ef svo er ekki
þá erum við í vondum málum. Það skiptir miklu
máli að gott fólk sé á þingi og í ríkisstjórn.“
Hvað er það sem stendur upp úr á þínum
pólitíska ferli; eitthvað sem þú ert sérstaklega
ánægð með?
„Já, það eru nokkur mál sem standa mér
mjög nærri. Ef ég lít til Garðabæjar verð ég að
nefna skólamálin fyrst. Mér fannst spennandi
að fara að vinna í Garðabæ því ég vissi að þar
var víðsýnt fólk sem hefði áhuga á því að sækja
fram í skólamálum. Og við ákváðum að koma
með alveg nýja hugmyndafræði; að leggja
áherslu á valfrelsi og jafnrétti til náms. Það sem
ég er stoltust af er hvernig áherslan á þarfir
hvers og eins einstaklings hefur breyst á und-
anförnum árum í Garðabæ og ekki síður þeirri
fjölbreytni sem orðin er í skólakerfinu; við erum
bæði með opinbera skóla og einkaskóla og
tryggjum það að allir geti valið; að allir geti t.d.
farið í einkaskóla án þess að borga skólagjöld
vegna þess að fjármagnið fylgir nemendum.
Ég er líka mjög ánægð með það hvernig
íþrótta- og æskulýðsmál hafa þróast á þessu
kjörtímabili. Við höfum gert mikið átak á því
sviði og ég held að krakkar ættu aldrei að fara í
gegnum skólakerfið án þess að setja það í sam-
hengi við íþróttir og æskulýðsstarf. Ég held það
ætti að vera nánast skylda að öll börn séu í ein-
hvers konar íþrótta- eða æskulýðsstarfi vegna
félagsþroska og til að þau þroskist í öðru um-
hverfi en innan skólans.
Við höfum líka verið með mjög skemmtileg
og metnaðarfull skipulagsmál í gangi og upp-
byggingin í sveitarfélaginu hefur aldrei verið
meiri. Einnig var mjög gefandi að taka upp nán-
ara samráð við íbúa bæjarins og finna hvað
framlag þeirra til framtíðarsýnar fyrir bæinn er
dýrmætt. Tímabilið í menntamálaráðuneytinu
stendur líka upp úr, þegar við unnum t.d. að
nýjum áherslum í einkarekstri, fjölbreytni á há-
skólasviðinu.
Þá er ég mjög stolt að hafa verið ein af þeim
sem stofnuðu Sjálfstæðar konur og barðist fyrir
því að koma á fæðingarorlofi karla. Það var
mikil gleði þegar það tókst. Sá hópur hefur
haldið áfram að hittast og vinna saman og þar
eru mjög sterkar konur sem hafa sótt fram, t.d.
Þorgerður Katrín og Hanna Birna, konur sem
ég bind miklar vonir við og trúi að eigi eftir að
halda áfram að gera góða hluti fyrir Sjálfstæð-
isflokkinn.
Það var líka mikil áskorun að vera formaður
SUS, níu þúsund manna ungliðahreyfingar, í
tvö ár. Átök voru mikil í aðdraganda formanns-
kjörs og ég kynntist ótrúlegum fjölda fólks alls
staðar á landinu og það er nokkuð sem ég hefði
ekki viljað missa af. Ef ég ætti að nefna eitthvað
eitt sem stendur mest uppúr þá er það að hafa
fengið að eignast svona marga nána vini á und-
anförnum árum. Yndislega vini sem ég á eftir að
eiga áfram þó að ég skipti um starfsvettvang.“
Ertu flinkur smiður?
„Nei.“ Hún hlær hátt. „En mér finnst rosa-
lega gaman að smíða og gerði það í fyrrasumar.
Fór þá í Byko til þess að kaupa spýtur af því að
mig langaði að smíða kofa með yngri stráknum
mínum. Strákarnir í timburdeildinni sáu greini-
lega að ég vissi ekkert hvað ég var að tala um og
bentu mér á að þeir ættu til litla kofa sem hægt
væri að skrúfa saman.“
Ásdís Halla hlær þegar hún rifjar þetta upp.
„En mig langaði ekki að skrúfa saman kofa –
mig langaði að smíða kofa. Ég bað um góð ráð
og strákarnir rissuðu hann upp fyrir mig. Svo
keypti ég bara timbur og nagla, keyrði heim og
við Bragi fórum að smíða. Ég vona að hann lesi
ekki viðtalið – kofinn er nefnilega hræðilega
ljótur; örugglega misheppnaðasti kofi sem
smíðaður hefur verið! En okkur þykir vænt um
hann. Við náðum ekki að klára kofann í fyrra-
sumar og ætlum því að klára hann núna í sum-
ar. Hann er bara tvær hliðar, við eigum eftir þá
þriðju og einhvers konar inngang og þak en við
hlökkum til að fara að vinna aftur úti í garði
þegar hlýnar.“
Var það með kofasmíðina eins og annað; var
ekki nægileg áskorun að skrúfa saman tilbúinn
kofa?
„Nei, mér fannst enginn sjarmi í því. Kannski
er það partur af þeirri framkvæmdagleði og
ögrun sem ég nefndi. Að láta bara á þetta reyna
þó ég viti ekki endilega hvað ég ætla að gera eða
hvernig. Mig langaði bara að smíða kofa með
stráknum mínum. Vissi að það yrði miklu meiri
gleði, bæði fyrir mig og hann, þó við myndum
saga og negla í puttana á okkur, en að vera með
æðislega flottan, samansettan kofa sem við ætt-
um ekki jafnmikið í.“
Varstu ánægð með hvernig karlarnir í BYKO
tóku þér í fyrra?
„Já, þeir voru frábærir. Þeir höfðu svo mikið
umburðarlyndi fyrir því hve vanþekking mín
var mikil. Og ég vona að þeir muni hafa það
áfram þó ég taki við sem forstjóri fyrirtækisins,
því að vanþekking mín á þessu sviði er mjög
mikil.“
Hvernig stjórnandi ertu?
„Ég held maður eigi ekki að setja sjálfan sig í
eitthvert box með því að segjast vera svona
stjórnandi eða hinsegin. Ég held maður verði að
meta aðstæður hverju sinni og stjórna í sam-
ræmi við þær. Vera töffari þegar það á við, ann-
ars lýðræðislegur. Stundum þarf maður að
hlusta en í öðrum tilvikum þarf maður frekar að
geta tekið af skarið.“
Hvaðan ertu?
„Ég er flökkukind. Fæddist í Reykjavík,
flutti fljótlega til Ólafsvíkur, svo aftur til
Reykjavíkur, aftur til Ólafsvíkur, Svíþjóðar,
Noregs, Akraness, enn til Reykjavíkur, loks í
Garðabæ, þaðan til Bandaríkjanna og svo aftur í
Garðabæinn. Ég áttaði mig á því þegar ég flutti
ræðu á Rotaryfundi fyrir stuttu, og rifjaði upp
hvar ég hafði búið, að 35 ára gömul hafði ég flutt
20 sinnum. Það er svolítið mikið.
En það var gaman. Gaf manni tækifæri til
þess að kynnast ólíkum stöðum og ólíku fólki.“
Heldurðu að þú hafir jafnvel haft gott af öll-
um þessum flutningum?
„Já, ég öðlaðist að minnsta kosti þann styrk-
leika að vera fljót að laga mig að aðstæðum. Það
er ekkert mál að skipta um umhverfi; maður
byrjar bara á því að hlusta svolítið og horfa og
reyna að skynja aðstæðurnar og metur síðan
hvernig best er að bregðast við.“
Er alls staðar jafngott að gera?
„Já, alveg frábært alls staðar. Ólafsvík skipar
sérstakan sess; ég bjó þar svo lengi á mótunar-
árunum frá því ég var um eins árs til níu ára;
þegar ég var að átta mig á því að ég væri partur
af einhverri veröld.
Það fólst mikið frelsi í því að vera í svona litlu
samfélagi úti á landi og geta þvælst niðri á
bryggju, farið upp á fjall eða niður að læk eða
verið í frystihúsinu hjá pabba. Ég held að frelsið
hafi gert mig sjálfstæða.“
Synir þínir hafa ekki þetta frelsi í dag, er
það?
„Nei, því miður – og það er kannski það sem
ég myndi helst vilja breyta ef ég gæti. Að leyfa
þeim að alast upp í meira frelsi. Það er miklu
erfiðara hér, en í staðinn verður maður að passa
sig á því að innan veggja heimilisins fái þeir að
minnsta kosti pláss til þess að anda.“
Er það hluti af reglunum?
„Já, hluti af reglunum er að búa ekki til svo
lítil box fyrir börnin að þau fái ekki að gera mis-
tök.
Stóri strákurinn minn hefur stundum hund-
skammað mig vegna þess ég hef leyft honum að
gera mistök. Reiðastur varð hann einu sinni í
Bandaríkjunum; við vorum á göngutúr en hann
á hjólabretti, og þegar við komum að brekku
vissi ég að hann myndi aldrei hafa það niður
brekkuna. Hann var með hjálm en ekki hnéhlíf-
ar, og ég vissi að hann myndi meiða sig. Þegar
hann datt svo og hruflaði sig nokkuð illa á
hnjánum þannig að blæddi úr sagði ég honum
að brekkan væri of brött fyrir svona hjólabretti
og betra hefði verið fyrir hann að halda á brett-
inu niður.
Af hverju bannaðirðu mér það þá ekki, spurði
hann og ég sagði honum að ég vildi að hann
fengi að læra af þessum mistökum. Þá varð
hann reiður!“
Heldurðu að hann sé þakklátur þér fyrir
þetta í dag?
„Ég veit ekki hvort hann er kominn á þann
stað í lífinu, en vona að einhvern tíma kunni
hann að meta það sem ég gerði. Á sama tíma
verður maður auðvitað að axla þá ábyrgð að
vernda börn fyrir stórum hættum; ég hefði auð-
vitað aldrei látið hann slasa sig verulega.
Ég reyni að haga uppeldinu þannig að þau
börnin mín leiðist ekki út á einhverjar daprar
brautir.“
Fékkst þú að hrufla þig á hnjánum þegar þú
varst lítil?
„Já, ég bjó við nánast engar reglur. Það voru
þrjár reglur sem mamma gaf mér í veganesti,
og lét mig hafa þær þegar ég var fimm eða sex
ára.“
Hverjar voru þær?
„Ekki reykja og drekka, ekki ljúga og ekki
stela. Ekkert annað.“
Og það hefur reynst þér vel.
„Já. Mér var aldrei sagt að læra heima, klára
“matinn af disknum, taka til í herberginu, aldrei
sagt klukkan hvað ég ætti að koma inn eða
hvernig ég átti að haga mér. Bara þessar þrjár
reglur og ég held ég hafi reynt að fylgja þeim
samviskusamlega.“
Og þetta hefur reynst þér vel.
„Ég er að minnsta kosti mjög
þakklát. Ég hef gert alls konar mistök; það
eru örugglega tíu atriði í viðbót sem væri hægt
að nefna um hluti sem maður má ekki gera, en
það er gott að hafa einfaldar línur. Ef uppeldið
verður of smámunasamt týnast aðalatriðin í
nöldri hversdagsins sem alla getur ært.
Mamma hefur alltaf og er enn með þessi ein-
földu ráð til mín. Við spjöllum yfirleitt um eitt-
hvað allt annað en vinnu, spjöllum bara eins og
mæður og dætur gera, en þegar verulega reynir
á í mínu lífi þá hringi ég í mömmu. Og það er al-
veg sama hvað það er, ég kem aldrei að tómum
kofunum. Hún segir það sem skiptir máli á því
augnabliki.“
Hefurðu oft þurft að leita til hennar?
„Nei, þau tilvik eru mjög fá. En hennar ráð
hafa gert gæfumuninn og það skiptir máli í
stórum, erfiðum málum, þegar maður er á
krossgötum, að fá góð ráð.“
Spurðirðu mömmu þína um það hvort þú ætt-
ir að verða forstjóri BYKO?
„Nei.“ Nú hlær hún enn. „Ég þurfti þess
ekki. En ég sagði henni að ég ætlaði að taka við
þessu starfi og hún varð voða glöð. Fannst þetta
frábært, sagði að ákvörðun mín væri góð og
þetta yrði örugglega mjög skemmtilegt.“
við nýja hluti
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
skapti@mbl.is