Morgunblaðið - 01.05.2005, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1. MAÍ 2005 27
Fyrir skemmstu var haldinárleg vika bókarinnar.Þarft framtak og gott.Einkum nú, þegar lesturer á undanhaldi og menn
vega bækur í hendi og hugsa: Kemur
þessi ekki bráðum á DVD? Ef ég
hefði á uppvaxtarárunum getað setið
eða legið fyrir framan skjá og látið
endalausar sögur líða yfir sjáöldrin
og framkallast samstundis og
áreynslulaust sem tilbúnar myndir í
heilabúinu, hefði ég án efa gert það.
Ég gerði það líka eftir fremsta
megni. Þáði bíóferðir í hvert sinn sem
slíkt bauðst, sem
var í nokkur
skipti á ári og
glápti af áfergju á
sögur í svarthvítu
sjónvarpi eftir að
það kom á heim-
ilið þegar ég var níu ára. Þegar ég
fermdist má ætla að ég hafi séð tugi
bíómynda og eitthvað meira af sjón-
varpsþáttum, kannski hundrað. Ekki
er það nú mikið miðað við þau býsn af
kvikmyndaefni sem ungmenni sam-
tímans hafa úr að moða.
Það er auðvitað augljóst að vegna
þess hve framboðið á þessari auð-
neyttustu afþreyingu var lítið á sínum
tíma, leituðu ég og jafnaldrar mínir
að frekari afþreyingu og upplýsingu
annars staðar, svo sem í útvarpi og í
bókum, þar sem myndir af því sem
frá er sagt eru alfarið innri sköpun
neytandans og því meiri „vinna“ að
njóta þess heldur en þegar mynd-
irnar renna fullbúnar inn um augun.
Það er enginn vafi á því að þessi
skynjunar- og skilningsvinna þjálfaði
hugann í þeim vinnubrögðum og
gerði þau smám saman ósjálfráð og
áreynslulaus. Því er það ekkert
skrýtið að þau ár sem síðan eru liðin
hef ég notað ómældan tíma í að lesa
sögur eða annan texta af ýmsu tagi,
auk þess að fást svo sjálfur við skrift-
ir sem lifibrauð. Aldrei datt mér sjálf-
um í hug að það væri erfitt eða kost-
aði sérstaka áreynslu að fást við
þennan tjáningarmiðil sem neytandi
(þótt stöku gagnrýnandi hafi gert
mann örlítið hugsi).
En þannig er málið sannarlega
vaxið út frá sjónarhóli ungmenna
samtímans.
Kannanir sýna að lestur minnkar
sífellt og lestrarvandamál virðast sí-
fellt algengari. Vitaskuld liggur skýr-
ingin á auknum fjölda nemenda sem
greinist með ýmis afbrigði lestrar-
vanda að hluta til í betri og skjótari
greiningu.
Það er fagnaðarefni að nú skuli
vera unnt að greina slíkt snemma og
bregðast við. Á sínum tíma var fjöldi
ungs fólks rændur sjálfstrausti og
eðlilegum væntingum til lífsins,
vegna þess eins að hann átti við lestr-
arvanda að stríða.
En ekki er unnt að skýra þann
fjölda tilfella lestrarvandamála sem
nú greinast einungis með því að nú sé
betur fylgst með en áður. Sú stað-
reynd virðist blasa við, að margir
þeirra sem hafa vanist því frá frum-
bernsku að geta skoðað sögur í stað
þess að lesa þær, hafi sig varla í það
„erfiði“ að umbreyta táknum á blaði í
hugmyndir.
Þetta eru vissulega að mörgu leyti
eðlileg viðbrögð, eða aðlögun af hálfu
mannskepnunnar. Eða er ekki eðli-
legt að skynjunin renni, líkt og vatnið
ávallt þá leið þar sem fyrirstaðan er
minnst? Þegar upp er staðið er auð-
vitað heldur engin heilög regla sem
segir að lestur sé eitthvað æðri eða
betri aðferð til að njóta sagna, hug-
leiðinga, eða upplýsinga, heldur en sú
að horfa á myndir á skjá.
En tvennt veldur þó áhyggjum í
þessu samhengi. Meðan allt mennta-
kerfið byggir jafn mikið og raun ber
vitni á bóklestri, er ljóst að lestr-
arvandamál eða „lestraróþol“ geta
reynst ungu fólki þung í skauti við að
fóta sig í tilverunni nú sem fyrr.
Og það sem er enn uggvænlegra.
Getur verið að þessi þróun leiði með
tímanum til vöðvarýrnunar ímynd-
unaraflsins? Þess máttuga hugarafls
sérhverrar manneskju sem um-
breytir skynjun á einu formi í eitt-
hvað annað sem er hennar eigin sköp-
un.
Ímyndunaraflið breytir rittáknum í
myndir, orðum í sýnir, móum í höf,
moldarbörðum í fjöll og garðslöngu í
híbýli guðdómsins. Getur verið að í
framtíðinni verði ástarstjarna yfir
hraundranga til á mynd og enginn
þurfi að ímynda sér hana lengur, bara
að skoða myndina til að „vita“ hvern-
ig hún lítur út?
Smelltu hér til að skoða
mynd af ástarstjörnu
HUGSAÐ
UPPHÁTT
Eftir Sveinbjörn
I. Baldvinsson:
Rannsóknastofnun
fiskiðnaðarins
SEAFOODplus, Rannsóknastofnun
fiskiðnaðarins (Rf), Háskóli Íslands (H.Í.),
og sendiráð Frakklands á Íslandi
boða til opins fundar föstudaginn 6. maí
kl. 13.15-17.00 á Grand Hótel í Reykjavík
um prótein og peptíð í aukafurðum og
uppsjávarfiskum, lífvirkni og vinnslumöguleika
Dagskrá:
13.15. Stutt ávörp: Oliver Tourneau, sendiráði Frakklands og
Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf.
13.30. Yfirlit um SEAFOODplus verkefnið. Dr. Joop Luten frá
Fiskeriforskning í Tromsö í Noregi og Rivo í Hollandi.
13.50. Rf og aukið verðmæti aukahráefnis og uppsjávarfiska.
Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir.
14.10 Næringargildi fisks. YOUNG- verkefnið. Dr. Inga Þórsdóttir, H.Í.
14.30 Kaffihlé.
15.00 Lífvirkni í vatnsrofnum fiskpróteinum.
Dr. Fabienne Guerard University of West Brittanny og
dr. Laurent Picot. University of LaRochelle, Frakklandi.
15.20 Aðferðir til vinnslu á próteinum og peptíðum
til notkunar í matvæli. Dr. Patrick Bourseau, University of
South Brittanny, Frakklandi og Ragnar Jóhannsson, Rf.
15.40 Markfæði úr fiski - Tækifæri, lög og reglur.
Guðjón Þorkelsson, Rf.
16.00 Umræður.
17.00 Fundarlok.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir.
Vinsamlega tilkynnið þátttöku til Rf fyrir 5. maí í síma 530 8600,
eða í netfangið gulla@rf.is