Morgunblaðið - 13.06.2005, Síða 13
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. JÚNÍ 2005 13
ERLENT
RAMMASAMKOMULAGI því sem
náðist milli fjármálaráðherra átta
helstu iðnríkja heims (G-8 ríkjanna)
á laugardag, um að fella niður skuld-
ir 18 af fátækustu ríkjum heims, er
nú fagnað víða, bæði af leiðtogum
landanna sem um ræðir og samtök-
um sem vinna gegn fátækt í þróun-
arríkjum. Viðbrögð við fréttum af
samkomulaginu fela þó einnig í sér
ábendingar um það sem betur megi
fara í viðleitni ríkustu þjóða heims
við að hjálpa þeim fátækustu upp úr
örbirgð sinni og er bent á að ganga
þurfi mun lengra í þeim efnum en nú
stendur til, eigi að uppræta fátækt í
heiminum fyrir fullt og allt.
Heildarupphæðin gæti
orðið 55 milljarðar dollara
Samkomulagið sem náðist milli
fjármálaráðherranna á fundi þeirra í
London á laugardag, felur í sér að
skuldir 18 af fátækustu ríkjum heims
við Alþjóðabankann, Alþjóðagjald-
eyrissjóðinn og Þróunarbanka Afr-
íku verði felldar niður. Sú upphæð
sem um ræðir eru 40 milljarðar
Bandaríkjadollara eða um 2.838
milljarðar króna.
Að sögn Gordons Brown, fjár-
málaráðherra Bretlands, var full
samstaða um þetta meðal fjármála-
ráðherranna enda stæðust ríkin,
sem um ræðir, kröfur um góða
stjórnarhætti og þau skilyrði hefðu
verið sett að sparnaður þeirra færi
til heilsugæslu, mennta- og þróun-
armála en ekki í vasa ráðamanna.
Samkomulagið felur einnig í sér að
20 lönd til viðbótar geti fengið skuld-
ir sínar við sömu lánastofnanir nið-
urfelldar að því gefnu að löndin
standist strangar kröfur um bætta
stjórnarhætti og afnám spillingar. Á
næstu 12–18 mánuðum eiga níu ríki
kost á því að fá skuldir sínar felldar
niður, og þar er um að ræða 11 millj-
arða dollarar til viðbótar. Að því
loknu geta önnur ellefu ríki átt von á
að fá sínar skuldir niðurfelldar, alls
um 4 milljarða dollara. Þannig gæti
heildarupphæðin sem samkomulagið
felur í sér orðið alls 55 milljarðar
dollara, 3.548 milljarðar króna, þeg-
ar upp er staðið.
Nýr samningur milli hinna
ríku og fátæku í heiminum
Grunnur var lagður að samningi
þessum á fundi Tony Blair, forsætis-
ráðherra Bretlands og George W.
Bush forseta Bandaríkjanna í Wash-
ington liðinni viku. Þegar tilkynnt
hafði verið um samkomulagið á laug-
ardag sagði Gordon Brown að G-8
ríkin myndu „mæta kostnaði þess að
fullu“. Ekki var greint nánar frá því
hvernig það yrði útfært en fyrir ligg-
ur að málið verður til umræðu á leið-
togafundi G-8 ríkjanna sem haldinn
verður í Skotlandi í næsta mánuði.
Brown sagði samkomulagið vera
hið umfangsmesta sem fjármálaráð-
herrar hefðu gert á sviði „fátæktar,
þróunar og heilbrigðismála“ og fæli í
sér nýjan samning milli „hinna ríku
og fátæku í heiminum“. John Snow,
fjármálaráðherra Bandaríkjanna,
tók undir með Brown og sagði sam-
komulagið vera „sögulegt afrek.“
Vilja bæta heilsugæslu, mennt-
un og grunngerð samfélagsins
Stjórnvöld í ríkjunum 18 sem fá
skuldir sínar niðurfelldar nú, hafa
sum hver þegar lýst því yfir að þau
hyggist nota tækifærið og bæta lífs-
kjör þeirra sem mest þurfa á því að
halda. „Þessar fréttir færa þjóð okk-
ar mikla von,“ sagði Daudi Balali,
bankastjóri Seðlabankans í Tanzan-
íu. „Við getum eflt heilsugæslu og
menntakerfi okkar með þessari að-
stoð. Við getum einnig eflt grunn-
gerð samfélagsins,“ sagði Balali
einnig. Upplýsingamálaráðherra
Úganda, James Nsaba Butoro, tók í
sama streng og sagði að í Úganda
yrði lögð áhersla á bæta menntun,
heilsugæslu og kjör fátækra. „Við
erum þakklát fyrir þetta frumkvæði.
Það er mikilvæg áskorun fyrir okkur
að nota peningana sem við höfum
hingað til greitt niður skuldir með í
að bæta líf þjóðarinnar.“
Gerir lítið til að hjálpa
fólki í 40 öðrum löndum
Samtök sem berjast fyrir bættum
kjörum fátækra þjóða voru mörg
hver varkár í viðbrögðum sínum við
fréttum af samkomulaginu.
„Skuldasamkomulagið kemur sér
vel fyrir fólkið í löndunum 18 sem
njóta strax góðs af því,“ sagði Rom-
illy Greenhill, talsmaður ActionAid
samtakanna, „en gerir lítið til að
hjálpa milljónum manna í að minnsta
kosti 40 löndum,“ bætti hann við.
Andrea Bohnsted, sem starfar hjá
Global Insight-stofnuninni, sagði
grundvallaratriði að finna leið til að
tryggja að þeir fjármunir sem spar-
ast verði notaðir skynsamlega og
renni til grunnþarfa fólksins í lönd-
unum. „Spilling og vanhæf stjórn-
völd eru risavaxið vandamál og það
eru í raun, að mínu áliti, lykilþættir í
því að þessi ríki skuli haldast fátæk,“
sagði Bohnstedt.
Auknir styrkir og afnám
viðskiptahindrana fylgi
Þá hafa fjölmiðlar í Bretlandi lagt
áherslu á að samkomulagi um aflétt-
ingu skulda verði að fylgja stórfelld
aukning á styrkjum til þróunarríkja
og afnám ýmissa viðskiptahindrana,
eigi að takast að útrýma fátækt.
„Auðvitað getur afnám skulda að-
eins verið hluti – og það mikilvægur
hluti – af alvarlegri viðleitni við að ná
sögulegum árangri í baráttu við fá-
tækt,“ sagði í leiðara Independent
dagblaðsins. Blaðið Observer fagnar
skrefinu sem tekið er með samkomu-
laginu en segist vilja sjá meiri
áherslu lagða á afnám viðskipta-
hindrana. Þar segir í leiðara að land-
búnaðarstefna Evrópuríkja og
Bandaríkjanna geri Afríkuríkjum
mikinn skaða, en verði gerð bylting
þar á geti fátækt í heiminum í raun
orðið úr sögunni.
Mikilvægt skref en
leysir ekki allan vanda
Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur
bab@mbl.is
Reuters
Eþíópískur drengur á dreifingarstöð matvæla í austurhluta landsins. Eþí-
ópía er eitt af löndunum 18 sem nú fær skuldir sínar við Alþjóðabankann,
Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Þróunarbanka Afríku, felldar niður.
Kúveit. AP. | Massouma al-Mubarak,
háskólakennari og baráttukona fyrir
réttindum kvenna, var í gær skipuð
ráðherra skipulags- og þróunarmála
í ríkisstjórn Kúveit.
Al-Mubarak er first kúveiskra
kvenna til að gegna ráðherraemb-
ætti en aðeins
mánuður er síðan
konur fengu
kosningarétt og
kjörgengi í land-
inu. Fyrir viku
tilnefndi rík-
isstjórn Kúveit
tvær konur til
sætis í stjórn
Kúveit-borgar
sem einnig var
sögulegt skref.
Sheik Sabah Al Ahmed Al Sabah,
forsætisráðherra landsins, segir
skipan al-Mubarak vera „draum sem
varð að veruleika“ fyrir ríkisstjórn
sína, sem hafði frumkvæði að því að
færa konum í landinu þessi auknu
réttindi.
„Þessi heiður er ekki aðeins bund-
inn minni persónu, heldur tilheyrir
hann hverri þeirri konu sem hefur
barist fyrir því að sanna að kúveisk-
ar konur séu hæfar,“ sagði hin 54
ára al-Mubarak þegar hún ræddi við
fjölmiðla í gær.
Kona skip-
uð ráðherra
í Kúveit
Massouma al-
Mubarak
VARLA getur það talist auðvelt hlutverk fyrir
afganska konu að ríða á vaðið og verða fyrst til að
gegna embætti héraðsstjóra í múslímalandi þar
sem karlar hafa frá aldaöðli ráðið öllu. En Habiba
Sarabi, sem áður var ráðherra málefna kvenna í
stjórn Hamids Karzais forseta, er nú orðin hér-
aðsstjóri í Bamiyan sem er í miðhluta Afganist-
ans. Karzai þótti sýna mikla dirfsku með valinu.
Sarabi stóð fyrir umtalsverðum endurbótum á
stöðu kvenna í ráðherratíð sinni en landsbyggðin
er býsna ólík Kabúl, þar ríkja enn miðaldir. Út-
nefning Sarabi krefst gagngerrar umbyltingar á
hugarfari íbúanna. En Sarabi er full bjartsýni
þótt hún viðurkenni að erfiðlega hafi gengið í
fyrstu, að sögn BBC.
„Þetta er gott tækifæri fyrir konur og fólk mun
hætta að segja að konur geti ekki gegnt þessu eða
hinu starfinu,“ segir hún. Verið er að kjósa fyrsta
fulltrúaráðið í þorpinu Istheran í Bamiyan sem
helst er þekkt fyrir að vera héraðið þar sem talíb-
anar sprengdu á sínum tíma í trúarofstæki fornar
Búddastyttur. Takist kosningin til ráðsins vel
verður þorpið verðlaunað með þróunaraðstoð sem
nemur 60.000 dollurum, nær fjórum milljónum
króna. Með aðstoð Sarabi taka konur nú þátt í að
velja fulltrúana og henni var vel tekið þegar
þorpsbúar fengu í fyrsta skipti héraðsstjóra í
heimsókn.
„Við erum mjög ánægð,“ segir einn íbúinn, sem
er kona. „Við erum ólæs og frumstæð. Hérna hef-
ur aldrei verið kosið fulltrúaráð fyrr. Venjulega
eru það karlarnir sem taka allar ákvarðanir en
þetta eykur jafnréttið og gefur okkur ný tæki-
færi.“
Vonir bundnar við ferðaþjónustu
Nú eru helst bundnar vonir við að ferðaþjón-
usta geti orðið góð tekjulind í Bamiyan en þar er
mikil náttúrufegurð. Og þegar Sarabi er spurð
hvort hin gamla Búddamenning héraðsins geti
orðið helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn, þótt
stytturnar hafi verið eyðilagðar, svarar hún um-
svifalaust játandi.
Frakkinn Michel, sem er í heimsókn í Bamiyan,
er sammála. Og hann er ekki hræddur þrátt fyrir
ótryggt ástand í landinu. „Hér eru hættur en mað-
ur fer vandlega eftir ráðum sem vinir gefa manni
og þetta er þess virði. Satt að segja held ég að
hættan hérna sé ekki endilega meiri en þegar
maður fer út til að kaupa sér brauð.“
Liðsmenn erlendra hjálparsveita segja að víða
stafi mesta hættan af glæpaflokkum en ekki trú-
arofstækismönnum. Að einu leyti standa íbúarnir
í Bamiyan betur en margir aðrir Afganar. Víða
hefur orðið geysileg aukning á ræktun valmúa til
ópíumframleiðslu í Afganistan með tilheyrandi
glæpastarfsemi og spillingu en það er ekki raunin
í héraðinu. Vandi þess er hins vegar að mest
áhersla er nú lögð á að efla atvinnulífið í Kandah-
ar og öðrum stórum borgum þar sem öryggis-
ástandið hefur verið mun verra og því talin þörf á
að bæta strax kjörin. Bamiyan verður að bíða enn
um sinn eftir því að fá betri vegi og rafmagn.
Sarabi þarf að taka á mörgum málum og vegna
valdastöðu sinnar er hún oft eini embættismað-
urinn í héraðinu sem getur komið málum á hreyf-
ingu eða kveðið upp úrskurð. Langar biðraðir eru
við skrifstofu hennar. Hún þarf að útvega jarð-
næði handa fólki sem hefur hrakist á brott í borg-
arastyrjöldinni löngu, hún þarf að fara yfir skilríki
og leysa harðar deilur milli nágranna. Hvernig
hefur gengið fyrstu mánuðina? Sætta karlarnir
sig við að hún hafi völdin?
„Þetta var mjög erfitt. Þetta er harður heimur
og erfiðleikarnir miklir en við verðum að halda
áfram. Það væri mun auðveldara að fá þá til að
sætta sig við karlmann í embættinu,“ segir Hab-
iba Sarabi, fyrsti afganski héraðsstjórinn úr röð-
um kvenna.
„Þetta er harður heimur“
Konur í Bamiyan-héraði í
Afganistan eru ánægðar með
að kona skuli vera orðin hér-
aðsstjóri en það hefur ekki
gerst fyrr að kona gegni slíku
embætti í landinu.
Habiba Sarabi, héraðsstjóri í Bamiyan.
kjon@mbl.is
Gaza. AFP. AP. | Dauðarefsingar hafa
verið teknar upp að nýju í Palestínu
þar sem fjórir dæmdir morðingjar
voru teknir af lífi í gær. Dauðarefs-
ingu var síðast beitt í Palestínu í
ágúst 2002, en Yasser Arafat, fyrrum
leiðtogi Palestínumanna, gerði þá hlé
á beitingu þeirra vegna þrýstings frá
alþjóðasamfélaginu.
Að sögn Abu Housa, talsmanns
palestínska innanríkisráðuneytisins,
ákvað Mahmud Abbas, núverandi
forseti Palestínumanna, að halda
þessu hléi ekki til streitu og skrifaði
undir skipun um aftökurnar sem fóru
fram í gær. Ástæða þessarar stefnu-
breytingar er sögð auknir glæpir og
hertar aðgerðir gegn glæpamönnum
þykja nauðsynlegar til að auka öryggi
borgaranna. „Aftökurnar eru eitt af
mörgum skrefum sem nú eru tekin
vegna glæpatíðni sem á sér ekki for-
dæmi,“ segir Housa.
Vísað til þess að Bandaríkin
beiti dauðarefsingu
Mannréttindasamtök hafa hvatt
Abbas eindregið til að afnema dauða-
refsingar með öllu úr palestínskum
lögum. Auk þess gagnrýna þau dóm-
stóla harðlega fyrir að fella dauða-
dóma í „óheiðarlegum“ réttarhöldum
þar sem ekki gefst kostur á áfrýjun.
„Aftökur veita okkur hvorki meira
öryggi né leysa þær félagsleg vanda-
mál. [...] Við báðum Mahmud Abbas
að strika dauðarefsingar út úr palest-
ínskum lögum en hann virti kröfur
okkar að vettugi,“ segir Raji al-
Surani, sem stjórnar mannréttinda-
miðstöð Palestínu. Þá segir Sarit
Michaeli, talsmaður ísraelsku mann-
réttindasamtakanna B’Tselem, að
réttarhöldin yfir mönnunum sem
teknir voru af lífi í gær teljist ekki
réttlát samkvæmt þeim kröfum sem
gerðar séu í lýðræðissamfélagi.
Hussain Abu Aasi, yfirsaksóknari í
Palestínu, ver hins vegar aftökurnar
og ítrekar að réttarhöldin yfir mönn-
unum fjórum hafi bæði verið „lögleg
og réttlát“. „Þessir einstaklingar
myrtu saklaust fólk og með því að
taka þá af lífi fórum við að lögum okk-
ar. Meira að segja mesta lýðræðisríki
heims, Bandaríkin, beitir þessari
refsingu,“ segir Aasi.
Þrír mannanna, sem teknir voru af
lífi í gær, voru hengdir, sá fjórði var
skotin af byssusveit.
Dauðarefs-
ingu beitt í
Palestínu
♦♦♦