Morgunblaðið - 15.10.2005, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 15.10.2005, Blaðsíða 12
12 m Á sléttunum í norðurhluta Suður-Afríku vaxa tré sem kölluð eru marula og eru sérstök að því leytinu til að það er ekki hægt að rækta þau. Vilji menn nýta ávöxtinn sem þau bera verða menn því að gjöra svo vel og halda út á slétturnar. Það hafa íbúarnir líka gert í að minnsta kosti tíu þúsund ár að því er talið er. Ávöxturinn hefur notið vinsælda jafnt meðal manna sem dýra í gegnum árþúsundin og oft má sjá hjarðir af fílum í kringum ma- rula-lundina þar sem þeir reyna að hrista trén þannig að ávöxt- urinn falli til jarðar. Innfæddir hafa jafnframt lengi verið sannfærðir um kosti ávaxtarins og þá ekki síst frjósemisgildi hans. Þjóðtrú segir að hægt sé að ráða kyni ófæddra barna með því að snæða börk af trjánum en þau eru jafnframt talin skiptast í karlkyns og kvenkyns tré. Taki börn upp á því að vera ekki af sama kyni og börkurinn sem móðirin neytti er það að sjálfsögðu til marks um styrk þeirra að geta storkað öndunum með slíkum hætti. Tonga-ættbálkurinn nefnir marula „kóngafæði“ og er löng hefð fyrir því að hella marula-safa yfir leiði látinna höfðingja við sérstaka há- tíð. Í Swasilandi gengur ávöxturinn undir nöfnunum manganu og baganu og er haldin sérstök hátíð í konungshöllinni í kjölfar þess að „uppskera“ hefst í febrúar og mars. Eru konungsfjölskyldunni færðar flöskur af bjór sem fólk hefur bruggað á heimilum sínum og má almenningur fyrst neyta bjórsins eftir að þeirri athöfn lýkur. Í fyrstu virðist marula-ávöxturinn vissulega ekki árennilegur. Hann er grjótharður lengi vel en mýkist þegar hann þroskast og verður þá jafnframt gulari. Að auki er risastór steinn í kjarnanum en safa- ríkt ávaxtakjötið bætir það upp. Liggi hann lengi á jörðinni byrjar hann að gerjast og getur það leitt til undarlegrar hegðunar fíla. Marula-ávöxturinn er nýttur á margvíslegan hátt. Úr honum má gera góðar sultur og jafnvel brugga bjór, líkt og áður sagði. Margir neyta hans vegna þess hversu auðugur hann er af C-vítamíni en það mun vera um fjórfalt meira magn af því í marula en í appels- ínum. Þá eru olíur kreistar úr steininum sem notaðar eru í marg- vísleg fegurðarkrem og jafnvel matarolíur. Steinninn hefur einnig verið mikilvæg fæða í gegnum aldirnar því hann er einstaklega rík- ur af próteinum. Á síðari árum er hann líklega hvað þekktastur fyrir að vera uppi- staðan í Amarula-rjómalíkjörnum sem náði miklum vinsældum í Suður-Afríku og síðar í öllum heiminum. Ávöxturinn er látinn liggja í kössum þar til hann nær fullum þroska en þá verður að fjarlægja steinana úr honum. Er það handgert, einn ávöxtur í einu. Þá er marula-ávöxturinn maukaður og safinn látinn gerjast við lágt hitastig, ekki ólíkt því sem tíðkast við víngerð. Marula-vínið er að því búnu eimað og marula-spírinn settur á eik- artunnur þar sem hann er geymdur í tvö ár. Að því búnu er honum blandað saman við rjóma. marula uppáhald fílanna Texti og ljósmyndir Steingrímur Sigurgeirsson. Marula-ávöxturinn nýtur mikilla vinsælda meðal íbúa í norðanverðri Suður-Afríku, enda er ávöxturinn sagður vera sannkölluð kóngafæða. Það er þó ekki heiglum hent að nálgast marula þar sem ekki er hægt að rækta hann. ávextir Sérstakri aðferð er beitt við að ná steininum úr ávextinum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.