Fréttablaðið - 16.02.2004, Síða 2
2 16. febrúar 2004 MÁNUDAGUR
„Alveg örugglega – þetta verður
norðlensk reisn.“
Sigurður Hjartarson er stofnandi og eigandi Hins
íslenska reðasafns. Á næstu vikum flytur hann
norður til Húsavíkur þar sem safninu verður kom-
ið fyrir í stærra og betra húsnæði en verið hefur.
Spurningdagsins
Sigurður, verður meiri reisn yfir reða-
safninu fyrir norðan?
375 þingmálum
Jóhönnu hafnað
Stjórnarandstaðan hefur lagt fram hundruð frumvarpa á undanförnum þingum. Örfá hafa orðið
að lögum. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið iðin við kolann. Flutt 410 þingmál á 18 árum en
aðeins 35 orðið að lögum.
ALÞINGI „Ég missi aldrei móðinn
þótt fá af þeim málum sem ég hef
flutt sem þingmaður nái í gegn og
verði að lögum. Það er af nógu að
taka. Það er mikið óréttlæti í þjóð-
félaginu sem knýr mig og aðra
þingmenn áfram. Þingmannamál
fá mjög litla umfjöllun í nefndum
þingsins. Þau eru send til umsagn-
ar og oftar en ekki sofna þau í
nefnd. En það eru alltaf örfá sem
komast í gegn, þá aðallega þings-
ályktunartillögur,“ segir Jóhanna
Sigurðardóttir, Samfylkingunni.
Þingmenn stjórnarandstöðunn-
ar hafa flutt samtals 611 frum-
vörp á síðastliðnum þremur þing-
um, en nánast er hægt að telja á
fingrum annarrar handar hversu
mörg þeirra náðu í gegn og urðu
að lögum. Samkvæmt upplýsing-
um frá Alþingi hefur Samfylking-
in flutt 284 frumvörp á síðustu
þremur þingum, Vinstri grænir
237 og Frjálslyndi flokkurinn 90.
Á yfirstandandi þingi hefur Sam-
fylkingin lagt fram 86 lagafrum-
vörp, Vinstri grænir 87 og Frjáls-
lyndir hafa flutt 46 mál. Stjórnar-
andstöðuflokkarnir hafa flutt
samtals 115 tillögur til þingsálykt-
unar á yfirstandandi þingi. Þegar
skoðað er hverjir hafa verið flutn-
ingsmenn frumvarpa stjórnar-
andstöðunnar undanfarin ár kem-
ur nafn Jóhönnu Sigurðardóttur
oftar en ekki fyrir. Hún hefur set-
ið á þingi í 25 ár, þar af átta ár sem
ráðherra. Þau átján ár sem hún
hefur gegnt þingmannsstörfum
segist hún hafa flutt að meðaltali
á hverju þingi í kringum 25 frum-
vörp, þingsályktunartillögur og
fyrirspurnir. Það þýðir að hún
hefur lagt fram um 410 þingmál,
en þegar grannt er skoðað kemur
í ljós að einungis 35 af þeim hafa
orðið að lögum.
– Er þinn tími kominn, Jó-
hanna?
„Árangurinn verður ekki
mældur eftir málafjölda,“ segir
Jóhanna.
Jóhanna hefur lagt fram óvenju
mörg mál á yfirstandandi þingi,
eða á milli 50 og 60, en ekkert
þeirra hefur orðið að lögum. Árið
2001 og 2002 náðu fjögur af tugum
mála hennar í gegn. Jóhanna hefur
ekki áhyggjur af þessu.
„Þótt fá mál stjórnarandstöðunn-
ar séu samþykkt þá er ljóst að mörg
þeirra verða til þess að vekja athygli
á tilteknum málum. Þau hreyfa við
þeim og koma umræðu af stað. Þau
verða líka til þess að ýta við ráðherr-
um og framkvæmdavaldinu í ýms-
um málaflokkum þannig að oft
verða stjórnarfrumvörp til úr því í
kjölfarið,“ segir Jóhanna.
bryndis@frettabladid.is
SPILAFÍKN „Ég hef ekki trú á því að
fólk vilji horfa upp á komandi
kynslóð inn í sjoppum fyrir fram-
an spilakassa,“ segir Júlíus Júlí-
usson, formaður Samtaka áhuga-
fólks um spilafíkn. Samtökin
hyggjast beita sér fyrir því að
reglugerð verði komið á sem
banni spilakassa nema í afmörk-
uðu húsnæði. Júlíus segir slíka
reglugerð hafa verið setta árið
1994 yfir spilakassa á vegum Há-
skóla Íslands en hana sé ekki að
finna yfir spilakassa á vegum
Rauða krossins.
„Nái þessi reglugerð fram að
ganga verða kassarnir fjarlægðir
úr öllum sjoppum. Aðgengi ung-
linga að kössunum er of auðvelt.
Rauði krossinn talar um fjarstýr-
ingar sem afgreiðslufólk á að hafa
undir höndum til að slökkva á
kössunum. Við höfum farið í fjölda
verslana og ekki fundið einn af-
greiðslumann sem hefur þessa
fjarstýringu undir höndum.“
Júlíus hrósar framgöngu
Björns Bjarnasonar dómsmálaráð-
herra og segir hann hafa sýnt sam-
tökunum mikinn áhuga. Samtökin
hafi þegar hlotið styrk frá ráðu-
neytinu og búið sé að gefa vilyrði
fyrir styrkjum frá félagsmála- og
heilbrigðisráðuneytinu. „Ég er
bjartsýnn á að aðgengi verði hert.
Spilafíkn er mun alvarlegri en fólk
gerir sér grein fyrir og ungling-
arnir okkar eru í hættu.“ ■
Ég tapaði 800.000 þúsund á ein-um degi og á fimm árum tapaði
ég fimmtán milljónum króna,“ seg-
ir Ahmed Effbiani spilafíkill.
Ahmed flutti hingað til lands
ásamt íslenskri eiginkonu sinni
sumarið 1999. „Þetta byrjaði á
mjög saklausan hátt. Ég vandi
stundum komur mínar á kaffihús
við Grensásveg og átti til að stinga
pening í spilakassana þar. Á mjög
skömmum tíma fór ég að eyða
meira. Einn daginn áttaði ég mig á
að ég hafði eytt 50.000 krónum.
Ahmed vann á þessum tíma
sem múrari og segist hafa notað
hvert tækifæri til að spila í köss-
um. Hann faldi eyðsluna fyrir eig-
inkonu sinni en fljótlega fór allt
úr böndunum. Árið 2000 fór hann
í meðferð á Vogi. Hann skildi lítið
hvað fór fram og ákvað að hætta.
Sama dag féll hann og eyddi þá
átta hundruð þúsund krónum. Eig-
inkona Ahmed þoldi ekki álagið og
brotnaði niður. Stuttu síðar skild-
um þau.
Ahmed segir að líðanin hafi
verið hræðileg. „Ég bjó í her-
bergiskytru í Hafnarfirði og varð
mjög þunglyndur. Ég ákvað að
reyna meðferð aftur í desember á
síðasta ári og í þetta sinn tókst
hún.“ Hann segir það mikinn létti
að þurfa ekki lengur að ljúga að
sínum nánustu og fela skömmina
sem sé einn fylgifiskur spilafíkn-
ar. „Ég er byrjaður að borga niður
lánin sem ég tók á tíma spilafíkn-
innar og sambandið við börnin
mín hefur styrkst. Ég er bjart-
sýnn á framhaldið.“ ■
HÖFUÐSTÖÐVAR AL HURRA
Höfuðstöðvar nýju sjónvarpsstöðvarinnar
eru í Springfield í Virginíu.
Ný sjónvarpsstöð:
Bandaríkin
flytja aröb-
um fréttir
BANDARÍKIN Bandarísk stjórnvöld
hafa sett á laggirnar arabíska
sjónvarpsstöð sem nær til 22 ríkja
í Miðausturlöndum. Stöðin heitir
Al Hurra sem er arabíska og þýð-
ir Hinn frjálsi.
Á Al Hurra verða sýndar frétt-
ir og heimildarþættir fjórtán
klukkustundir á sólarhring. Það
fyrsta sem stöðin sendi frá sér
var viðtal við George W. Bush
Bandaríkjaforseta.
Aðalbækistöðvar Al Hurra eru
í Springfield í Virginíu en stöðin
verður með útibú á nokkrum stöð-
um í Miðausturlöndum, meðal
annars í Bagdad. Flestir starfs-
menn Al Hurra eru af arabískum
uppruna. ■
VIÐ SKÓGAFOSS
Erna Hauksdóttir segir ferðamenn fyrst og
fremst koma til landsins til að njóta
íslenskrar náttúru.
Ferðamönnum fjölgar
um 10% milli ára:
Ísland er í
tísku
FERÐAMÁL Erlendum ferðamönn-
um fjölgaði mikið á milli áranna
2002 og 2003 eða um 13%. Gisti-
nóttum á hótelum fjölgaði um
10% á sama tímabili. Erna Hauks-
dóttir, framkvæmdastjóri Sam-
taka ferðaþjónustunnar, segist
ánægð með niðurstöðuna.
„Aukningin hér er miklu meiri
en þekkist víðast í löndunum í
kringum okkur,“ segir Erna.
„Mörg lönd eru enn að ná sér eft-
ir 11. september og sumstaðar er
enn samdráttur. Við getum því vel
við unað. Ísland er líka í tísku og
hefur verið það lengi. Fólk kemur
hingað til að njóta íslenskrar nátt-
úrufegurðar,“ segir Erna.
„Ég er bjartsýn á að þetta ár
verði líka gott. Það er mikil aukn-
ing í sætaframboði hjá flugfélög-
unum til dæmis verður 20% sæta-
aukning frá Þýskalandi í sumar.
Þá hafa Flugleiðir fjölgað áfanga-
stöðum og Iceland Express
hyggst fjölga ferðum.“ ■
SPILAKASSAR
Samtök áhugafólks um spilafíkn er með aðstöðu í Dugguvogi. Talsmaður þeirra segir að
hópur fólks innan samtakanna sé reiðubúið að leiða þá sem þurfi hjálp áfram til að vinna
bug á fíkninni.
SPILAÐ Í SPILAKÖSSUM
„Ég vil miðla af reynslu minni sem spilafíkill. Í hvert sinn sem ég sé unglinga í spila-
kössum tala ég við þá. Stundum hef ég jafnvel gengið svo langt að kippa kössunum úr
sambandi. Ég hvet foreldra að fylgjast vel með börnunum sínum og alla þá sem eiga við
spilafíkn að etja að leita sér hjálpar,“ segir Ahmed Effbiani.
JÓHANNA SIGURÐARDÓTTIR
Þingmaður Samfylkingarinnar segist ekki missa móðinn þótt aðeins lítið brot af þingmálum stjórnarandstöðunnar verði að lögum. Samtals
hafa Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn lagt fram 611 frumvörp á síðustu þremur þingum, en örfá hafa orðið að lögum.
Samtök áhugafólks um spilafíkn:
Vilja takmarka að-
gengi að spilakössum
FRUMVÖRP Á YFIRSTANDANDI
ÞINGI
Samfylkingin 86
Vinstri grænir 87
Frjálslyndir 46
ÞINGSÁLYKTUNARTILLÖGUR Á
YFIRSTANDANDI ÞINGI
Samfylkingin 56
Vinstri grænir 35
Frjálslyndir 24
Spilafíkill missti eiginkonuna og tapaði aleigunni:
Eyddi 15 milljónum
á fimm árum