Fréttablaðið - 22.07.2006, Blaðsíða 66
46 22. júlí 2006 LAUGARDAGUR
sport@frettabladid.is
Dagur Sigurðsson, fyrrum fyrirliði
íslenska handboltalandsliðsins, er þjálfari
austurríska úrvalsdeildarliðsins Bregenz
en hann hefur einnig leikið með liðinu
undanfarin ár. Síðastliðið vor stýrði hann
liðinu til þriðja meistaratitils félagsins í
röð á jafn mörgum árum og nú stefnir
hann að þeim fjórða.
„Liðið er reyndar mikið breytt
á síðasta ári og þrír lykilmenn
farnir og sjö nýjir komnir,“ sagði
Dagur. „Það er því mikil vinna
framundan við að búa til
nýtt lið.“
Dagur segir að
leikmennirnir þrír
hafi allir farið til
sterkra liða en einn
þeirra samdi við spænska
liðið Ademar Leon. Hann segir að upp-
gangur sé í austurrískum handbolta en
landsliðið hefur ekki komist á stórmót í
handbolta svo árum skiptir. „Þeir voru að
vísu nálægt því í fyrra þegar þeir
töpuðu samtals með einu marki
fyrir Slóvökum en nú í ár töpuðu
þeir frekar stórt fyrir Slóvenum
enda vantaði nokkra sterka
leikmenn sem eru meiddir.“
Kvennahandboltinn í
Austurríki hefur alltaf verið
sterkur og þá segir Dagur
að sínir menn hafi vakið
athygli á sér þegar liðið vann
Magdeburg í Meistaradeild
Evrópu í vetur. „Við bíðum
einmitt spenntir eftir drættin-
um nú en það verður dregið í
lok mánaðarins. Ég held þó að við getum
ekki mætt Fram, því miður.“
Dagur á eitt ár eftir af samningi sínum
og segir að hugur hans stefni heim og
hafi gert lengi. „Það væri ekki nema að
eitt af 6-8 bestu liðum Þýskalands vildi
fá mig að mér myndi snúast hugur. Þegar
ég samdi síðast við Bregenz settu nokkur
lið í þýsku bundesligunni sig í samband
við mig en okkur líður vel hér í Bregenz
og ákváðum að vera hér.“
Dagur mun spila áfram í vetur með
Bregenz en segist frekar búast við því að
leggja skóna á hilluna í sumar. En skyldi
það ekkert kitla að ganga til liðs við Val,
hans gamla félag, ef hann kemur heim
næsta sumar. „Jú, vissulega. Ég er bara
ekki viss hvort það dugi til,“ sagði Dagur
og hló.
DAGUR SIGURÐSSON: GERIR ATLÖGU AÐ FJÓRÐA TITLINUM Í RÖÐ Í AUSTURRÍKI
Aðeins bestu liðin gætu dregið mig frá Íslandi
FÓTBOLTI „Ég ætla ekki að koma
með neinar stórar yfirlýsingar en
er farinn að íhuga það alvarlega að
segja þetta gott eftir sumarið,“
sagði markvörðurinn Kristján
Finnbogason, sem ver mark KR í
Landsbankadeildinni. Kristján er
orðinn 35 ára gamall og er einn
reyndasti markvörður landsins.
Hann segir að KR-ingar þurfi þó
ekkert að óttast þegar hann hættir
því varamarkvörðurinn Atli Jónas-
son sé tilbúinn að taka við stöðunni
milli stangana.
„Maður er orðinn fjörgamall og
þá er kominn rétti arftakinn í
Vesturbæinn. Ég er alveg handviss
um það að Atli sé tilbúinn í þetta.
Ég held að það verði veðjað á hann
og hann verður örugglega tilbúinn
að taka við hönskunum á næsta
ári,“ sagði Kristján en Atli er á átj-
ánda aldursári og spilar með 2.
flokki félagsins. Næsta sumar
verður hann á elsta ári í 2. flokki en
þrátt fyrir það hefur Kristján trú á
því að hann sé tilbúinn að takast á
við þá pressu að verja mark KR.
„Maður byrjaði að spila sjálfur
af krafti strax eftir 2. flokkinn og
var reyndar búinn að fá mína eld-
skírn fyrir þann tíma, þannig að
þetta er alveg rétti tíminn fyrir
Atla,“ sagði Kristján en hann hefur
verið einn allra besti markvörður
úrvalsdeildarinnar síðustu ár en
finnst sjálfum sem hann hafi dalað.
„Mér finnst snerpan og krafturinn
hjá mér hafa minnkað. Samningur
minn er að renna út eftir þetta
tímabil og þá mun ég endurskoða
mín mál.“
Kristján getur þó horft sáttur til
baka á sinn feril en hann hefur
unnið tíu stóra titla hér á landi,
Íslands- og bikarmeistaratitla.
„Það eru allir þessir titlar og svo
hefur maður fengið einhverja
landsleiki. Maður er því bara vel
sáttur ef maður horfir til baka,“
sagði Kristján, sem hefur leikið
tuttugu A-landsleiki og marga leiki
fyrir yngri landsliðin. Hann á enn
möguleika á því að kveðja KR með
titli ef hann hættir eftir þetta tíma-
bil þar sem félagið er komið í átta
liða úrslit bikarkeppninnar og
mætir þar ÍBV á mánudag.
Ekki þurfti Kristján að hugsa
sig lengi um þegar hann var spurð-
ur út í hápunkt ferilsins. „Það var
þegar við í KR unnum tvöfalt 1999,
það var í fyrsta skipti sem KR varð
Íslandsmeistari í heil þrjátíu ár,“
sagði Kristján, sem varði einnig
mark ÍA á sínum tíma. „Það verður
mjög erfitt að slíta sig alveg frá
fótboltanum og það heillar mig
nokkuð að vinna með ungum mark-
vörðum í framtíðinni og þjálfa þá.
Ég hef ekki hugsað út í beina knatt-
spyrnuþjálfun en markmannsþjálf-
un kemur vel til greina.“
Kristján fékk á sig 24 mörk í
Landsbankadeildinni í fyrra en
hefur fengið á sig 22 mörk í ár þó
sjö umferðir séu enn eftir. Hann er
einn af aðeins þremur leikmönnum
KR sem hafa spilað alla leikina í
deildinni á þessu tímabili og ljóst
að það verður sjónarsviptir af
honum þegar hann leggur skóna á
hilluna. Eins og áður sagði telur
hann hápunkt ferils síns hafa verið
tímabilið 1999 þegar KR varð tvö-
faldur meistari og hampaði Íslands-
meistaratitlinum eftir langa bið.
Kristján fór einmitt hamförum á
því tímabili og fékk aðeins á sig
þrettán mörk í leikjunum átján en
KR tapaði einum deildarleik þetta
sumar en vann fjórtán. Hann fékk
smá bragð af atvinnumennskunni á
sínum ferli og átti stutta viðkomu í
Skotlandi og Belgíu.
Atli Jónasson hefur verið vara-
markvöður KR á leiktíðinni ásamt
því að spila með 2. flokki. Hann
hefur leikið marga leiki fyrir yngri
landslið Íslands og er hann óhrædd-
ur við að takast á við það verkefni
að verða hugsanlega aðalmark-
vörður KR á næsta ári. „Að sjálf-
sögðu, ég er klár á því að ég verð
tilbúinn,“ sagði Atli en hann segist
hafa lært mikið af Kristjáni.
„Það kom stuðningsmaður að
mér um daginn eftir að ég hafði
komið inn á gegn Millwall og sagði
við mig að það væri greinilegt af
hverjum ég hefði verið að læra því
ég liti út alveg eins og Kristján á
vellinum. Ég held að það sé mikið til
í því,“ sagði Atli en honum líst vel á
að Kristján sé að íhuga að taka að
sér markmannsþjálfun í framtíð-
inni. „Það er mjög jákvætt. Ég held
að það sé ekki hægt að finna betri
markmannsþjálfara en Stjána.“
elvar@frettabladid.is
Rétti arftakinn kominn í Vesturbæ
Miklar líkur eru á því að Kristján Finnbogason, markvörður KR, leggi knattspyrnuskóna á hilluna eftir
tímabilið. Honum finnst snerpa sín og kraftur hafa minnkað en segir að arftaki sinn sé þegar fundinn.
FÓTBOLTI Garðar Gunnlaugsson
hefur samþykkt tveggja og hálfs
árs samning sem sænska 1. deild-
arliðið Norrköping bauð honum.
Liðið sá Garðar spila vel gegn
Bröndby í Danmörku og hlutirnir
gengu hratt fyrir sig en Garðar
mun skrifa undir samninginn eftir
helgina. Hann fer svo endanlega
út eftir tæpar tvær vikur og miss-
ir því að stórum hluta Íslands-
mótsins með Val.
„Þetta hefur gengið ótrúlega
hratt fyrir sig og við vorum merki-
lega nálægt hvor öðrum í tölum
talið. Þetta er auðvitað Superettan
og því kannski engin stórkostleg
laun, en þetta er vel nóg fyrir mig
og fjölskyldu mína,“ sagði Garðar.
Hjá Norrköping er einn Íslend-
ingur, Stefán Þórðarson. „Ég talaði
við Stefán um daginn og hann sann-
færði mig endanlega um að fara út.
Hann bar þeim söguna mjög vel,“
sagði Garðar en einn aðalframherji
sænska liðsins meiddist illa nýver-
ið og því þurfti liðið á nýjum sókn-
armanni að halda.
Garðar hefur spilað mjög vel
með Val í sumar og hefur skorað
fimm mörk í Landsbankadeildinni
auk þess sem hann skoraði eina
mark Vals gegn Bröndby á úti-
velli. „Þetta er erfitt fyrir þá og
mig að ég sé að fara með svona
skömmum fyrirvara á miðju tíma-
bili. Það er mikið í gangi, til dæmis
Evrópukeppnin og þetta var jafn
erfitt af beggja hálfu en maður
sleppur ekki svona tækifærum.”
Norrköping er í fjórða sæti
sænsku 1. deildarinnar en stefnir
hraðbyri á að komast upp í efstu
deild. „Ég hef heyrt frá mörgum
að þetta sé sofandi risi og eigi
heima í efstu deild. Það er allt kapp
lagt á að komast upp,“ sagði Garð-
ar en Norrköping er fornfrægur
klúbbur sem hefur tólf sinnum
orðið Svíþjóðarmeistari. - hþh
Garðar Gunnlaugsson hefur samið við sænska 1. deildarliðið Norrköpping og mun fara strax til liðsins:
Garðar gengur í raðir sofandi risans í Svíþjóð
GARÐAR Atvinnumennska hans verður mikill missir fyrir Val. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Spilað um bronsið í dag
Íslenska U21 árs landslið kvenna leikur
í dag um bronsið á opna Norðurlanda-
mótinu sem fer fram í Noregi. Segja
má þó að sigurvegarinn úr leiknum
við Svía verði Norðurlandameistari þar
sem Þjóðverjar og Bandaríkin mætast í
úrslitaleiknum.
> Birgir Leifur á góðu skriði
Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur
Hafþórsson lék mjög vel á öðrum degi
Áskorendamóts í Austurríki en hann lék
annan hringinn á þremur höggum undir
pari. Birgir lék á einu höggi undir pari
á fyrsta deginum og er á meðal efstu
manna en sá sem leiðir mótið, Rafael
Bello frá Spáni, er á ellefu höggum
undir pari. Birgir fékk tvo
fugla í gær og einn örn,
en síðasta fuglinn fékk
hann á sinni síðustu
holu. Auk þess
fékk Birgir einn
skolla en hann er nú í
góðri stöðu til að tryggja
stöðu sína enn betur á
styrkleikalista Áskorenda-
mótaraðarinnar. Hann
er nú í 105. sæti og þarf
að hífa sig verulega upp
ef hann ætlar sér að fá
þáttökurétt á Evrópu-
mótaröðinni.
HANDBOLTI Þrátt fyrir að enn séu
nokkrir mánuðir í heimsmeistara-
mótið í handbolta sem fer fram í
Þýskalandi í janúar á næsta ári er
eftirspurn eftir miðum mikil. Alls
fara um 320.000 miðar á sölu en
þegar hafa um 100.000 miðar selst.
„Eftirspurnin er gríðarleg en
hún á bara eftir að aukast. Eftir
heimsmeistaramótið í knattspyrnu
hér í landi tók áhuginn að færast
yfir í handboltann og ég veit að
handboltamótið verður ekki síðra
en fótboltamótið, sem tókst frá-
bærlega,“ sagði Horst Bredemeier,
varaforseti þýska handknattleiks-
sambandsins.
Ísland verður með á mótinu og
spilar sína leiki í Magdeburg en
búast má við nokkrum fjölda
Íslendinga á pöllunum. - hþh
HM í handbolta í Þýskalandi:
Mikil eftirspurn
eftir miðum
ALFREÐ GÍSLASON Verður með íslenska
landsliðið á mótinu þar sem hann verður
nánast á heimavelli. FRÉTTABLAÐIÐ/HARI
FÓTBOLTI Frank Rijkaard, knatt-
spyrnustjóri Barcelona, segir að
Eiður Smári Guðjohnsen hafi ekki
verið keyptur til liðsins til þess að
sitja á bekknum. Rijkaard greindi
frá þessu í einkaviðtali við NFS í
gær en viðtalið verður sýnt í heild
sinni í fréttum NFS í kvöld. Auk
þess verður sýnt viðtal við Eið
sjálfan, sem nýtur lífsins svo sann-
arlega hjá sínu nýja liði.
Rijkaard sagði meðal annars í
viðtalinu að Eiður myndi leika
lykilhlutverk í titilvörn félagsins í
Meistaradeildinni en landsliðs-
fyrirliðinn mun keppa við marga
bestu leikmenn heims um stöður í
liðinu hjá Rijkaard.
Fyrsti leikur Eiðs Smára með
Barcelona verður um næstu helgi
þegar liðið leikur æfingaleik í
Árósum í Danmörku. - hþh
Frank Rijkaard:
Eiður verður
lykilmaður
EIÐUR OG RIJKAARD Skemmtu sér vel í
fyrstu æfingavikunni eftir sumarfrí í vik-
unni. NORDICPHOTOS/AFP
STRÁKURINN OG LÆRIFAÐIRINN Atli og Kristján bera hvor öðrum vel söguna. Kristján segir
Atla vera gríðarlega efnilegan en Atli segir Kristján hafa kennt sér mikið í gegnum tíðina.
FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN