Fréttablaðið - 08.08.2007, Side 18
greinar@frettabladid.is
Það eru undarleg líkindi með því að koma í búðir hinna
fornu „Búskmanna“ Kalahari-
merkurinnar og ferðast um
„verndarsvæði“ indíána Norður-
Ameríku. Hvorir tveggju teljast
til frumbyggja þessara ólíku
meginlanda.
Það sama á við um báða hópa:
Fornir lifnaðarhættir eru aflagðir
en ekkert tekur við. Þeir eru á
menningarlegum strandstað
tveggja tíma og þýðast hvorki
fortíð né nútíð. Þegar maður
ferðaðist um Navahóbyggðirnar í
Arizóna blasti þetta við: Atvinnu-
leysi 80%, alkóhólismi og
félagsleg upplausn, menntun lítil
og firring ríkjandi. Maður ók um
eyðimörkina og börnin báðu um
dollar fyrir mynd, lítil húsræskni
á víð og dreif og kringum þau
sundurleitt drasl. Ég hvarf í
minningunni aftur til sama staðar
um daginn þegar ég sótti heim
frumbyggja Kalahari: San-fólkið.
Tölur um atvinnuleysi eru
marklausar því enginn hefur neitt
að gera, það sést ekki peningur í
byggðunum, ríkið skaffar mat
þegar best lætur og fæst börn
klára skóla, ef þau byrja. Í
Bandaríkjunum fundu menn þá
frumlegu lausn að leyfa frum-
byggjunum að reka spilavíti með
einkaleyfi til að hópurinn fengi
einhverjar tekjur. Örfáir afrísku
frumbyggjanna hafa náð að koma
á legg verndarsvæðum þar sem
útlendir auðkýfingar taka þátt í
annars konar spilamennsku:
Skjóta fíla gegn gjaldi. En þeir
eru löngu hættir að reika um
mörkina á lendaskýlu með boga
og örvar í leit að dýrum eða
jurtum til að eta. Sá lífsstíll entist
þeim til menningarlegs sjálfstæð-
is sem einn merkilegasti mann-
flokkur sem jörðin hefur alið – í
fjörutíu þúsund ár. Síðustu
áratugi hefur þetta líf kvatt fyrir
annað – sem varla telst líf.
Það er skýrt að indíánar Norður-
Ameríku komu á undan hvíta
manninum. Og enginn getur sagst
hafa komið á undan Búskmönnum
til merkurinnar í Suður-Afríku,
Botswana og Namibíu. En líf og
örlög mannflokka ráðast ekki af
rökunum um hver kom fyrstur.
Það eru tvö þúsund ár síðan
hirðingjar hófu mikla sókn suður
um álfu Afríku og komu sér fyrir
á mikilvægum lendum. Þegar
hjarðbúskapur og akuryrkja
reyndust ábatasamari en lifnaðar-
hættir veiðimanna og safnara
hörfuðu þeir einfaldlega undan. Í
dag er ekki nokkur leið að
rökræða málið til lykta með því
að spyrja um tímaröð í aldanna
rás. Allra síst vegna þess að nú er
talið að jörðina byggi tæplega 400
milljónir manna sem á einhvern
hátt teljast frumbyggjar, og það í
70 löndum. Sameinuðu þjóðirnar
stóðu fyrir áratug frumbyggjans,
sem lauk 2004, án þess að takast
mætti að gera alþjóðlegan
sáttmála um stöðu þeirra. Það
mistókst einnig í fyrra, og enn
skal reynt, nú á haustþingi
Sameinuðu þjóðanna, í september
2007.
Reynt er að skilgreina frum-
byggjarétt út frá því sem við
blasir í indíánabyggðunum sem
ég lýsti eða aðkomunni í San-
þorpinu sem ég heimsótti: Út frá
kerfisbundinni efnahagslegri og
félagslegri útskúfun sem útilokar
þetta fólk á sögulegum forsend-
um frá því að aðlagast nútímaleg-
um stjórmálum og efnahagsmál-
um. Menn sjá auðvitað ótal
gildrur í þessu. Þess vegna vakti
gríðarlega athygli í fyrra þegar
hæstiréttur Botswana dæmdi
San-fólki í hag og heimilaði því að
taka búsetu á einu stærsta
verndarsvæði landsins, en áður
hafði ríkið flutt fólkið burt til
„aðlögunar“. Forn réttur til
búsetu var viðurkenndur. Mörg
nýfrjáls Afríkuríki vinna af
skiljanlegum ástæðum gegn
„ættbálkastefnu“. Gömul og ný
dæmi um hörmulegar afleiðingar
deilna ólíkra ættbálka eru næg til
að réttlæta stefnu sem byggir á
sambúð allra án mismununar.
Hugmyndir um „sjálfræði“
einstakra hópa eru því í andstöðu
við pólitísk yfirmarkmið ungra
ríkja, sem nógu erfitt eiga samt
með að fóta sig. Það er líka
vandséð hvernig frumbyggja-
krafan mun breyta bágri stöðu
fólksins ef hún þýðir ekki
efnahagslegar bætur eða jákvæða
mismunun, sem fjöldi annarra
fátæklinga af öðrum uppruna
mun líta á sem ögrun. Þá eru
einnig margar innri mótsagnir í
umræðunni: Er stefnt að félags-
legri og efnahagslegri aðlögun,
sem vinnur gegn menningarlegri
sérstöðu? Eða öfugt: Á að reyna
að viðhalda menningarlegri
sérstöðu sem á sér engar rætur í
nútíma? En engin rökræða
breytir staðreyndum sem við
blasa, um skipbrot hefðbundinna
lifnaðarhátta í samkeppni við
aðra og upplausn menningarhópa.
Hvernig hinum Sameinuðu
þjóðum tekst að leysa úr verður
ein af fréttum ársins.
Sjá frásagnir og myndir af
heimsóknum til San-fólks á
vefnum www.stefanjon.is.
Frumbyggjasáttmáli?
L
öggæslan í landinu er víðast sammála um að liðin helgi
hafi verið með stilltara móti og þakkar það áróðri fyrir
bættri hegðun. Viðmiðin eru fyrri hátíðahöld um þessa
fyrstu helgi ágústmánaðar. Samt kostaði umferðin
mannslíf og orsökin er eins og oft áður glannaakstur þar
sem langþreyttir karlmenn missa stjórn á ökutækjum sínum á
þröngum og bugðóttum vegum.
Víða voru menn hirtir af löggæslunni á ólöglegum hraða og
undir annarlegum áhrifum áfengis eða fíkniefna: Áróðurinn eða
andróðurinn við lífshættulegu háttalagi í þungri umferð nær ekki
lengra en að menn láta lönd og leið dómgreind um aksturshæfni
sína og leggja sitt líf og annarra undir í rússneskri rúllettu. Því
mun ekki veita af hertum áróðri gegn slíkri fífldirfsku.
Og mun vart duga til: Ferðalangur af þjóðvegum í námunda við
helgina mátti hafa sig allan við að komast leiðar sinnar á löglegum
hraða. Framúrakstur á þjóðvegi 1 var frekar regla en undantekning
og með örstuttu millibili mátti oft litlu muna. Hraðakstur yfir
leyfilegum mörkum er almenn regla meðal íslenskra bílstjóra.
Bílarnir hafa stækkað og eru kraftmeiri og menn missa sig
fljótt yfir hundraðið. Jafnvel þeir sem fara um þjóðvegina með
tengivagna af ýmsu tagi, húsvagna, fellihýsi, kerrur undir
farangur og farartæki, fjórhjól, hross eða báta. Þeir skirrast ekki
við að láta hraðann lokka sig og stefna með því háttalagi sjálfum
sér og öðrum í verulega slysahættu. Lítið má út af bera.
Eru skrílslætin í Herjólfsdal, þar sem langdrukkið fólk á
ýmsum aldri svalaði skemmtana- og skemmdarfýsn sinni með
því að bera eld að yfirgefnum tjöldum, eitthvað verri en háttalag
allsgáðra manna undir stýri sem leyfa sér að keyra um þrönga
vegi landsins á ólöglegum hraða? Frekjan og yfirgangssemin
gengur báðum til. Tillitsleysi og hömluleysi er báðum þessum
hópum að því er virðist eðlislægt. Réttlæting þessa háttalags
kann að finnast í hugum þessa fólks, en þá fullið er drukkið,
ölvun skemmda og ofsahraða er náð, verða orð og afsakanir harla
lítilvægar. Og einskis virði verði þessi eftirbreytni saklausu fólki
að fjörtjóni eða örkumlum um lengri eða skemmri tíma.
Margt er rætt um fyrirbyggjandi aðgerðir: menningar- og
siðleysi á opinberum vettvangi hefur um langan aldur verið
þjóðareinkenni okkar og á sér sýnilega djúpar rætur í daglegum
framgangi. Hert eftirlit skilar sýnilega sínu, háar sektir,
réttindasvipting og upptaka eigna: afdrifaríkar opinberar
aðgerðir fyrir brotamenn kunna að reynast þrautalending dugi
almenn uppfræðsla og umvöndun ekki. Stjórnvöld verða að reyna
hvort tveggja, að kosta til látlitlum áróðri og halda þeim skikk
á opinberum vettvangi að allir borgarar geti farið óttalaust um
byggðir og sveitir án ama af ruddaskap og án þess að lifa í stöðugri
ógn af hraðafíklum.
Nema menn hallist frekar að sjónarmiðum sjoppueigenda á
Akureyri sem sjá skrílslæti í samkomuhaldi sem nauðsynlega
tekjulind og við sættumst á það sjónarmið að ólöglegur hraði
á þjóðvegum sé eðlilegur ferðamáti, lögin einskis virði og þær
fórnir sem hraðinn heimtar óumflýjanlegar með öllum sínum
sársauka og sorg.
Slökktir eldar
helgarinnar
Hlauptu til góðs
Reykjavíkurmaraþonið verður haldið í 24. sinn laugardaginn 18. ágúst næst-
komandi. Glitnir er samstarfsaðili maraþ-
onsins sem nú heitir Reykjavíkurmaraþon
Glitnis. Í ár, eins og í fyrra, heitir bankinn
á þá starfsmenn sína sem taka þátt í
hlaupinu og greiðir 3.000 krónur á hvern
hlaupinn kílómetra.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra var
svo lánsamt að nokkur fjöldi starfsmanna Glitnis
hljóp í þess nafni í fyrrasumar. Þannig safnaðist
töluverð fjárhæð sem félagið notaði til uppbygg-
ingar á sjúkra- og iðjuþjálfun fyrir börn og
ungmenni með hreyfifrávik. Auk þess rekur
félagið sumardvöl í Reykjadal fyrir fötluð börn.
Rúmlega 1.200 einstaklingar sækja sjúkra- og
iðjuþjálfun hjá okkur og 200 börn nýta sér
þjónustu Reykjadals. Félagið var stofnað 1952 og
hefur því í 55 ár treyst á stuðning fyrirtækja,
félagasamtaka og einstaklinga. Framtak fyrir-
tækja eins og Glitnis skiptir gríðarmiklu máli fyrir
slíka starfsemi.
Í ár gengur Glitnir skrefinu lengra og munu allir
þátttakendur hafa möguleika á að hlaupa til góðs
með því að safna áheitum sem munu renna
til góðgerðarfélaga. Viðskiptavinir Glitnis
ákveða sjálfir vegalengdina og hvaða
góðgerðarsamtök njóta góðs af þátttökunni
en bankinn greiðir 500 krónur til góðgerð-
armála fyrir hvern kílómetra sem þeir
hlaupa. Vinir og velunnarar þessara
viðskiptavina geta heitið á þá í hlaupinu
með því að skrá áheitin á marathon.is.
Þannig hvetja þeir viðkomandi til dáða og
láta jafnframt gott af sér leiða.
Áheit Glitnis vegna viðskiptavinar sem
hleypur heilt maraþon, 42 kílómetra,
nemur því alls 21.000 krónum. Sá sem hleypur
hálft maraþon, 21 km, fær 10.500 krónur og sá sem
hleypur 10 km fær 5.000 krónur í áheit frá Glitni.
Áheit á starfsmann Glitnis sem hleypur heilt
maraþon, 42 kílómetra, nemur alls 126.000 krónum.
Sá sem hleypur hálft maraþon, 21 km, fær 66.000
krónur og sá sem hleypur 10 km fær 30.000 krónur
í áheit frá Glitni.
Um leið og ég þakka Glitnisfólki frábæran
stuðning, skora ég á starfsmenn og viðskiptavini
að nota sér þetta frábæra tækifæri og velja sér
góðgerðafélag til að styðja. Allir geta tekið þátt!
Höfundur er formaður
Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.