Tíminn - 09.01.1987, Qupperneq 5

Tíminn - 09.01.1987, Qupperneq 5
Föstudagur 9. janúar 1987 ‘ Tíminn 5 Annáll vaxtamálsins: Um hvað snýst okurmálið? Okurmálið, eða vaxtamálið sem svo hefur verið kallað í daglegri umræðu er trúlega með flóknari málum, en um leið þeim mikilvægari, sem upp hafa komið lengi. Eins og við er að búast hefur verið nokkur aðdragandi að þessu máli og ferill þess spannað talsverðan tíma. Hér á eftir verða rakin helstu atriði og dagsetningar í þessu sambandi almcnningi til glöggvunar. 1. I lögum um Seðlabanka frá 1961, sem í gildi voru til 1. nóvember s.i., segir svo í 13. grein: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta, sem innlánsstofnanir .... mega reikna af innlánum og útlánum. Nær þetta vald einnig til að ákveða hámarksvexti samkvæmt lögum nr. 58 1960.“ (Okurlögin). Samkvæmt þessari heimild hefur Seðlabankinn ákveðið hámarks- vexti allt fram til ágústmánaðar 1984. 2. f lögum um bann við okri, drátt- arvexti o.fl. frá 1960, segir m.a. í 2. grein: „Ef skuld er tryggð með veði í fasteign eða með handveði, er heimilt að taka af henni ársvexti, sem séu jafnháir þeim vöxtum, er stjórn Seðlabankans leyfir bönkum og sparisjóðum að taka hæsta...“. 3. Á ríkisstjómarfundi 24. júlí 1984 voru lagðar fram „Tillöguhug- myndir um aðgerðir í peningamál- um“ frá Seðlabanka íslands, dags. daginn áður. Þær tillögur eru unnar í sambandi við efnahagsaðgerðir, sem ríkisstjórnin er þá með í undirbúningi. M.a. er lagt til, að vaxtahækkun verði að lágmarki 2 af hundraði, en auk þess verði veitt svigrúm til sérstakra vaxtahækkana að ákvörðun innlánsstofnana. Jafnframt segir í tillögunum: „Að auki er lagt til, að innláns- stofnanir fái aukið frjálsræði til þess að ákveða vexti af vissum teg- undum lána, annað hvort án tak- mörkunar eða innan vissra rnarka." 4. Tillögur um aðgerðir í efnahags- málum voru samþykktar á ríkis- stjórnarfundi 30. júlí 1984. Mjög er dregið úr tillögum Seðlabanka íslands og allar hugmyndir um frjálsa vexti strikaðar út. Þar segir: „Ríkisstjórnin vill hvetja til auk- ins sparnaðar, og er því samykkt að Seðlabankinn hækki vexti af almennum sparisjóðsbókum tíma- bundið um 2 af hundraði. Jafn- framt veiti Seðlabankinn innláns- stofnunum svigrúm til sjálfstæðrar ákvörðunar annarra innlánsvaxta og útlánsvaxta, en þess verði þó gætt, að þetta leiði ekki til hækkun- ar á vaxtamismun.“ 5. í dagblöðunum næsta dag koma fram nokkuð mismunandi túlkanir á þessari samþykkt. Ráðherrar Framsóknarflokksins töldu, að með samþykktinni væri þess gætt, að vextir yrðu ekki frjálsir. Sjálfstæðismenn túlkuðu hins vegar samþykktina sem frjálsa vexti og á þann veg virðist Seðla- bankinn framkvæma hana. í NT frá 31. júlí 1984 segir Halldór Ásgrímsson: „Til að koma í veg fyrir misskiln- ing, ber að taka fram, að þær breytingar, sem hafa verið gerðar á framkvæmd vaxtaákvarðana, þýða alls ekki að vextir hafi verið gefnir frjálsir. Svigrúm viðskipta- bankanna hefur að vísu aukist eitthvað til að taka eigin ákvarðan- ir, en um þær gildir jafnt sem áður að þær eru háðar reglum Seðla- bankans og eftirliti hans.“ 1 Morgunblaðinu sama dag kveður hins vegar við allt annan tón í viðtali við Þorstein Páisson. Þar segir: „Mikilvægasta atriði í þessum ákvörðunum er sú algera breyting, sem gerð er á vaxtaákvörðunum. Bankarnir hafa nú sjálfstæði til að ákveða vexti af innlánum og útlán- um að öðru leyti en því, að Seðla- bankinn ákveður lágmarksvexti á sparisjóðsinnistæðum. “ f NT er Jóhannes Nordal, seðla- bankastjóri, spurður að því, hvort þetta þýði ekki í raun færa vald frá Seðlabankanum til viðskiptabank- anna í sambandi við vaxtaákvarð- anir. Því svarar hann þannig: „Það er kannske hægt að segja það á vissan hátt, en aðalatriðið er, að verið er að stefna að því að vextir verði í framtíðinni meira markaðsákveðnir." í Alþýðublaðinu 10. ágúst segir Davíð Ólafsson, seðlabankastjóri: „í meginatriðum geta bankarnir ákveðið sjálfir sína hækkun, en aftur á móti hlýtur ákvörðun þeirra að mótast af markaðinum. Við höfum ekki gefið þeim nein fyrir- mæli.“ 6. 2. ágúst 1984 auglýsir Seðla- bankinn nýjar reglur um vexti, sem taka gildi 11. sama mánaðar. Með þeim eru felldar úr gildi fyrri ákvarðanir um hámarksvexti, en viðskiptabönkunum veitt heimild til að ákveða slíkt með samþykki Seðlabankans. 7. 20. desember 1984 auglýsir Seðlabankinn nýjar reglur um vexti, sem taka gildi 1. janúar 1985. Þar er tekið fram, að við- skiptabankarnir skuli auglýsa vaxtakjör sfn á skilmerkilegan hátt, og skuli ákvarðanir innláns- stofnana um vexti á grundvelli þeirrar auglýsingar gilda sem há- marksvextir gagnvart lögum um okur o.fl. Með öðrum orðum, Seðlabankinn framselur til innláns- stofnana ákvörðunarvald um há- marksvexti. 8. í ágúst 1986 kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu, að með aug- lýsingu Seðlabankans frá 2. ágúst 1984 hafi þess ekki verið gætt að ákveða hámarksvexti á fullnægj- andi máta gagnvart lögurn um okur, og vextir þá í raun gefnir frjálsir. 9. 19. desember s.l. staðfestir Hæstiréttur niðurstöðu héraðs- dóms, en úrskurðar jafnframt, að þær reglur, sem tókugildi 1. janúar 1985, hafi heldur ekki fullnægt ákvæðum laga um okur. eða m.ö.o. að Seðlabanki íslands geti ekki framselt heimild þá, sem hann hefur til að ákveða hámarksvexti. 10. Með öllum ákærum í okurmál- inu fylgir útreikningur Seðlabank- ans á því, sem hann telur vera vaxtatöku umfram heimild (eða okur). Seðlabankinn virðist því hafa staðið í þeirri trú, að rcglur þær, sem hann setti um vexti í ágúst 1984 og í janúar 1985, væru fullnægjandi gagnvart okurlögum. 11. 23. descmber 1986 gefur Scðla- bankinn út fréttatilkynningu. Þar er allri skuld skellt á ríkisstjórn og stjórnvöld. Fullyrt er að stefnu- breyting í vaxtamálum sé að frum- kvæði ríkisstjórnar, og rætt er um misgengi stefnu Alþingis og stjórn- valda. 12. Forsætisráðherra hefur verið harðorður um þetta mál, nefnt það hneyksli og vísað algjörlega á bug fullyrðingum Seðlabankans um frumkvæði og ábyrgð stjórnvalda í því sem gerst hefur, enda hafi lögum á engan máta verið breytt á því tímabili, sem hér um ræðir og framkvæmdin eftir sem áður að öllu leyti í höndum Seðlabankans. Jón Helgason landbúnaöarráðherra: “Þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn“ Telur hugmynd Páls Péturssonar um að draga fullvirðisréttar- reglugerð til baka óraunhæfa „Páll lagði fram hugmyndir um breytingar sem í mörgum atriðum eru ekki samhljóða þeirri stefnu sem Stéttarsambandið hefur markað í sambandi við skiptingu á fullvirðis- rétti og farið hefur verið eftir,“ sagði Jón Helgason landbúnaðarráðherra, er Tíminn innti hann álits á þeim hugmyndum sem Páll Pétursson lagði fram á þingflokksfundi fram- sóknarmanna nú í vikunni. Páll leggur til að reglugerð um fullvirðisrétt sauðfjárafurða verði dregin til baka og hún endurnýjuð. Jón var spurður um álit sitt á þessu. Höfuðið í sandinn „Það hefur verið bent á það áður að þessi skipting komi illa við ýmsa sem hafa verið að byrja búskap á síðustu árum. Ég sagði það strax eftir að sú skrá var birt, að það yrði að skoða stöðu þessara manna og jafnframt taldi ég rétt að úthlutunin á liðnu hausti yrði skoðuð í þessu tilliti. Ég held að það sé sú leið sem við munum fara. Það þýddi lítið að afnema reglugerðina og stinga höfð- inu í sandinn og láta skeika að sköpuðu fram á næsta haust, það bætir ekki stöðu bænda. Það verður auðvitað ekki meira fjármagn til úthlutunar með því móti. Það er miklu betra á jákvæðan hátt að vinna sig áfram.“ Útflutningsbótaréttur Páll leggur ennfremur til að út- flutningsbótaréttur yrði hækkaður og tryggt verði að öllu umframkjöti yrði komið úr landi í lok hvers verðlagsárs til þess að skemma ekki fyrir innanlandsmarkaðnum. Jón sagði að þetta væri auðvitað æskilegt en það væri spurning um peninga og þegar búvörulög voru sett hefði ekki náðst samstaða um hærri útflutnings- bótarétt en niðurstaðan varð í lögun- um. „Að sjálfsögðu vill Framsókn- arflokkurinn styðja við bændur eins og kostur er, en ég tel vafasamt að skerða fjármagn til Framleiðnisjóðs til búháttabreytinganna og aðlaga verði bændastéttina að breyttum að- stæðum og verja hana þeim áföllum sem af þeim hefur fylgt. Það er ljóst að með búvörulögunum hefur land- búnaðurinn fengið meira fjármagn heldur en með gömlu lögunum. Ef lagasetningin hefði ekki komið til hefðu bændur orðið fyrir miklu meiri tekjuskerðingu en þeir verða fyrir nú. Er Framsóknarflokkurinn sundraður í land* búnaðarmálum? Þessar hugmyndir Páls vekja spurningar um hvort Framsóknar- flokkurinn sé orðinn sundraður í afstöðu sinni til landbúnaðarmála, er það svo? „Páll sagði á þingflokksfundinum að hann styddi landbúnaðarstefnu flokksins. Mikill meirihluti þeirra atriða sem hann kom með á fundin- um voru ekki beinlínis í sambandi við lögin og fullvirðisréttinn. Það voru ýmsar vangaveltur sem menn eru með, sumar kannski svolítið vafasamar, aðrar sem ekki hefur fengist stuðningur við að fram- kvæma. Ég held að mörg þessi atriði séu einmitt þau atriði sem verið er að vinna að, þannig að þau eru engin nýlunda. T.d. hefur Framleiðnisjóð- ur verið notaður til þess að verja bændur skerðingu og þær ráðstafanir sem gerðar voru í haust munu stuðla mjög. að því að bændur munu fá afurðaverð á næsta hausti“, sagði Jón. „í gangi er athugun á skerðingu bænda“ Þá benti Jón á að síðan um áramót hefði verið í gangi athugun á því hvaða framleiðendur urðu fyrir skerðingu við ársuppgjörið á sl. hausti og jafnframt verið að athuga hvað hægt er að gera til að hlífa þeim sem sfst mega við skerðingunni. Þetta er gert bæði með tilliti til byggðar í landinu og afkomu við- komandi einstaklinga. Það eru starfsmenn Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs sem vinna að athuguninni. „Er reiðubúinn að vinna að framgangi tillagna frá Stéttarsambandinu“ „Ef Stéttarsambandið kemur með breytingatillögur, þá hef ég lýst mig reiðubúinn til þess að vinna að framgangi þeirra eftir því sem tök eru á,“ sagði Jón. Jón bjóst við að ekki liði á löngu uns niðurstaða þeirrar athugunar lægi fyrir. ABS

x

Tíminn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.