Tíminn - 13.11.1987, Blaðsíða 13
Föstudagur 13. nóvember 1987
Tíminn 13
Rússneska prinsessan sem
lifði byltinguna og
hefur síðan verið
kommúnisti!
- áttræð kona í Englandi segir frá fjölskrúðugri ævi
í tilefni 70 ára byltingarafmælis
Nú eru Sovétríkin í óða önn að halda hátíðlegt 70 ára afmæli
byltingarinnar og er mikið um dýrðir. í Bretlandi býr kona sem
nýlega gat minnst áttræðisafmælis síns og er hún sögð ein fárra
núlifandi sem lifði byltingardagana á bernskuheimili sínu í Péturs-
borg, sem nú heitir Leningrad. Það má kannski jafnvel segja að
hún hafi verið ein þeirra sem byltingin snerist um. Hún heitir nú
frú Skipwith og býr á afskekktum stað úti á heiði í Cornwall. Líf
hennar hefur þó ekki verið fábreytt og tilbreytingarlaust, síður en
svo, og hún hefur ekki alltaf holað sér niður á afviknum stöðum
þar sem enginn verður hennar var.
„Klukkan var 10 þegar
byltingin byrjaði“
„Klukkan var 10 þegar byltingin
byrjaði," segir frú Skipwith við
blaðamann sem biður hana að rifja
upp 70 ára gamlar minningar. „Það
gerðist allt í Pétursborg. Ég man
þegar allt varð vitlaust. Ég og mín
kæra ungfrú King kúrðum okkur
við granítmúrinn á brúnni yfir ána
Neva á meðan byssukúlurnar flugu
yfir höfðum okkar.“
Frú Skipwith var meðal ættgöf-
ugustu barna Rússlands og ungfrú
King var enska barnfóstran
hennar. Vinur fjölskyldunnar var
Yusupov, sem skaut Raspútín, og
hann var vanur að koma í heim-
sókn til hennar í barnaíbúðina.
Hún var prinsessa, Sophy Dolgor-
ouky prinsessa, og hin háættaða
fjölskylda hennar hafði öldum
saman verið í nánum tengslum við
keisarahirðina. Einn forfeðra
hennar, Yuri Dolgorouky, er álit-
inn vera stofnandi Moskvu, sem
fyrir aðeins nokkrum vikum hélt
hátíðlegt 840 ára afmæli þess at-
burðar með danssýningum um-
hverfis Rauða torgið og skrúð-
göngum. „Móðir Yuris var dóttir
Haraldar Guðinasonar, sem Vil-
hjálmur bastarður sigraði í orust-
unni við Hasstings 1066. Bróðir
Haraldar var lávarður eða eitthvað
slíkt af Blisland (þorpið þar sem
frú Skipwith býr nú). Svo að ég
finn til náinna tengsla við Harald!“
segir þessi spræka áttræða kona.
Drykkjusvallið í vínkjöllurum
Vetrarhallarinnar
Nú, á tímum glasnoststefnu Gor-
batsjovs, eru Sovétmenn í óða önn
að draga ýmsar rykfallnar sögur
fram í dagsljósið, sem ekki hefur
mátt minnast á áður. Enn sem
kornið er hafa þó rússneskir sagn-
fræðingar ekki fengið sig til að
segja frá drykkjusvallinu sem átti
sér stað í vínkjöllurum Vetrarhall-
arinnar í Leníngrad, þegar bylting-
armenn höfðu gert áhlaup á hana
á hápunkti byltingarinnar. En frú
Skipwith minnist árásar sem gerð
var á heimili fjölskyldu móður
hennar, Bobrinsky höllina, áður.
Hún minnist skothríðarinnar og
söngsins á Marseillaisnum, blóði
drifins snjósins og hins þunga þefs
af rauðvíni í loftinu og allra flaskn-
anna sem lágu á víð og dreif í
húsagarðinum morguninn eftir.
"Það var vínkjallarinn sem þeir
voru að sækjast eftir, ekki húsið
sjálft,“ segir hún.
Haldiðtil Krím
Þegar spennan jókst í landinu
hélt keisaraekkjudrottningin suður
á bóginn. Hún tók með sér aðal-
hirðmey sína, sem jafnframt var
hennar nánasti vinur. Það var
amma Sophy, sem kölluð er Sofka.
„Svo að við fórum líka,“ segir
Sofka. Fyrst um sinn gekk lífið
sinn vanagang á stóru landareign-
unum á Krímskaganum, sem lágu
niður að hafinu. Þar var dögunum
eytt við tennisleik og reiðtúra. En
smám saman færðist byltingin nær.
Rauði herinn kom og fór, það
sama gerðu Þjóðverjar. Sovét voru
sett á fót.
En einn daginn virtist hin ljúfa
og góða ungfrú King hafa misst
vitið. Hún stóð úti á svölum,
veifaði öllum öngum og æpti og
öskraði. Hún hafði komið auga á
breska fánann, „Union Jack“.
Konunglegi breski sjóherinn var
mættur til að bjarga keisaraekkju-
drottningunni. Amma Sofku,
ungfrú King og Sofka sjálf fóru
li'ka. Þannig vildi það til að þegar
núverandi frú Skipwith kom til
Englands með bresku herskipi var
fyrsta fólkið sem tók á móti henni:
í Portsmouth Alexandra drottning,
systir keisaraynj unnar, og á Victor-
iu stöðinni voru Georg V. konung-
ur, María drottning og hinn ungi
prins af Wales.
Nú, 70 árum síðar, er Sophy
Skipwith meðlimur deildar
kommúnistaflokksins í Cornwall
og borgar reglulega félagsgjöldin.
Það þykir mörgum undarlegur
snúningur á sögunni. En Sophy
segir svo frá:
„Litli bolsévikinn“
„Fræjunum var sáð þegar fyrir
70 árum á Krím. Ég var ofurlítið
ólík hinum prinsakrökkunum.
Tveir synir dyravarðarins urðu vin-
ir mínir og þeir voru alltaf að
spyrja af hverju ég ætti að fá
kennslu á hverjum degi hjá einka-
kennslukonu þegar þeir væru betur
gefnir en ég! Og af hverju ætti mín
fjölskylda að eiga fleiri en eina
lystikerru þegar fjölskylda þeirra
ætti enga? Amma mín kallaði mig
„litla bolsévikann“!
í Englandi seldi amma hennar
perlurnar sínar. Sofka getur þess
reyndar að alla sína löngu ævi hafi
amma hennar aldrei klætt sig sjálf
í sokkana eða skóna! Sofka gekk í
fína og dýra skóla í Englandi.
Foreldrar hennar komust líka til
Vestur-Evrópu og faðir hennar átti
hús í Róm. Þegar Sofka var 14 ára
hitti hún rússneskan dreng sem
vann í enska bókasafninu á Piazza
di Spagna. „Ég var að lesa heim-
skulegar bækur eftir Zane Grey.
Strákurinn stöðvaði mig og rétti
mér bókina „Blindur“, sem fjallar
um byltinguna í Rússlandi. Sú bók
opnaði augu mín," segir Sofka.
Síðar, þegar Sophy var orðin 21
árs gömul, varð hún ritari hjá
hertogaynjunni af Hamilton sem
var vinkona móður hennar. Sonur
hertogaynjunnar var Douglas, sem
síðar varð sá hertogi af Hamilton
sem Rudolf Hess ætlaði að hafa
samband við þegar hann kom í
sína óvæntu ferð til Englands í
stríðinu. Hann bauð sig fram í
kosningum í Glasgow 1929 fyrir
íhaldsflokkinn (þá Unionists) en
beið ósigur. Sofka tók þátt í kosn-
ingabaráttunni og fór víða um.
Hún varð skelfingu lostin yfir þeirri
örbirgð sem hún kynntist þá. „Þeg-
ar maður er búinn að sjá fólk
ráfandi á götunum, atvinnulaust
og heimilislaust, eins og kringum-
stæðurnar voru þá, heldur maður
ekki áfram að styðja íhaldsflokk-
inn,“ segir hún einfaldlega.
Gekk í kommúnistaflokkinn
í fangabúðum Þjóðverja
Sophy gerðist síðan meðlimur
kommúnistaflokksins þegar hún
var fangi Þjóðverja í síðari heims-
styrjöldinni. Þá var hún búin að
vera tvígift, fyrst allslausum Rússa
af konungsætt frá Serbíu. Með
honum átti hún tvo syni. Eftir
vinsamlegan skilnað giftist hún svo
1937 Grey Skipwith, af enskum
aðalsættum. Hún hafði á árunum
fyrir stríð komið víða við og m.a.
verið ritari og aðstoðarmaður
Laurence Olivier.
1940 hafði hún „skroppið“ til
Parísar, að hún hélt, til að aðstoða
ættingja sína og lenti þá í klónum
á nasistum sem settu hana í fanga-
búðir f Vittel. Skipwith maður
hennar var drepinn í þjónustu
RAF, konunglega breska flughers-
ins. I fangabúðunum voru meðlim-
ir kommúnistaflokksins eini hópur-
inn að hennar áliti sem vann af viti
gegn Þjóðverjum.
Dag einn var komið með 250
gyðinga frá Póllandi í fangabúðirn-
ar. Þeir höfðu allir orðið sér úti um
suður-amerísk skilríki og þar með
komist hjá því að vera fluttir í
gereyðingarbúðirnar. Þá var kvitt-
ur um þær búðir rétt búinn að ná
til Vittel. Sofka og félagar hennar
þóttust sjá að þessir pappírar væru
einskis virði. En henni datt í hug
að kannski gætu einhverjir utanað-
komandi beitt áhrifum sínum því
að þegar allt kom ti) alls hafði
Rauði krossinn aðgang að Vittel-
búðunum sem voru í and-fasistisku
landi. Sofku tókst að rita niður
nöfn allra gyðinganna á nokkur
sígarettubréf, sem var smyglað út
úr búðunum í hylki sem fanga-
búðalæknirinn útbjó.
Sofku tókst líka að smygla út
bréfum með hjálparbeiðnum, einu
Sophy Dolgorouky prinsessa á , langa og viðburðaríka ævi að baki
en hún minnist enn atburðanna fyrir 70 árum.
þeirra til vinar síns í breska utan-
ríkisráðuneytinu, Jock (síðar Sir
John) Balfour, sem síðar komst í
hans hendur í breska sendiráðinu í
Moskvu.
Var fyrirhöfnin til einskis?
Síðar frétti hún að öll þessi
fyrirhöfn hefði verið til einskis,
gyðingarnir lentu allir í Auschwitz.
Fyrir þrem árum fékk frú Skipwith
heimsókn til Cornwall. Gesturinn
var fræðimaður frá London School
of Economics, A.N. Oppenheim.
Hann hafði verið að grúska í
skjalaskrám utanríkisráðuneytis-
. ins og rekist á bréf frá konu með
nafninu Skipwith og hafði þannig
haft upp á henni. I heimsókninni
hafði hann m.a. í fórum sínum
nöfnin á sígarettubréfunum.
Oppenheim segir engan vafa
leika á því að bréf Sophy hafi borið
mikinn árangur í því að gera bresk-
um yfirvöldum ljóst hvað væri að
gerast í þýskum fangabúðum, þó
að ekki tækist að bjarga pólsku
gyðingunum. Hann segist hafa gert
ísraelskum stjórnvöldum viðvart
um afrek hennar og reikni með að
henni berist einhver viðurkenning
þaðan, þó að seint sé. „Hún er
einstök kona,“ segir hann.
Tók víða til hendinni
eftir stríð
- stofnaði m.a.
Albaníuvinafélag
Eftir stríðið tók Sofka til hend-
inni. Hún varð ritari bæði við
nýstofnað leikhús, Old Vic, þar
sem hún varð aftur samstarfsmaður
Laurence Olivier, og deild
kommúnistaflokksins í Chelsea. Þá
setti hún á stofn og rak ferðaskrif-
stofu, sem flutti ferðamenn til
Sovétríkjanna og Austur-Evrópu.
Hún skrifaði ferðabækling um Al-
baníu og stofnaði Albaníuvinafé-
lagið, sem enn er við lýði.
Þá lágu saman leiðir hennar og
Jacks King, kommúnista sem hafði
ruglast svolítið í trúnni við innrás
Rússa í Ungverjaland og tók sér
því ferð á hendur þangað 1957 með
ferðaskrifstofu Sofka til að ganga
sjálfur úr skugga um hvað væri að
eiga sér stað þar. Upp úr því fór
hann að starfa við ferðaskrifstof-
una og fyrir 25 árum rugluðu þau
saman reytunum, Jack og Sofka,
og keyptu smáhýsið á heiðinni í
Cornwall. „Við höfðum ekki efni á
meiru,“ segir Sofka.
Síðan hafa þau varla farið af bæ.
Þau hafa ekkert farartæki. Sofka
er mikill lestrarhestur, 81 bók úr
ferðabókasafninu 1985-86 er metið
hennar. Hún gefur tveim villikött-
um að éta og dúfunum líka. Jack
dundar í garðinum. í tilefni átt-
ræðisafmælisins fór hún í sjaldgæfa
ferð til London til að vera mið-
punktur veislu sem fjöldinn allur af
fólki sótti, þ.á m. þrjár fyrrverandi
eiginkonur annars sonar hennar og
tvö langömmubörn. En þau eru
ekki alein í sveitinni, margir koma
í heimsókn. Nýlega kom Rússi til
þeirra færandi vodkaflösku. Það
var Gennadi Gerasimov, sem nú er
talsmaður Gorbatsjovs.
„Ég trúi enn á
grundvallaratríðin“
Hvernig líst svo Sophy, fæddri
prinsessu Dolgorouky, á ástandið
nú og atburði liðinna 70 ára? Hún
og Jack borga félagagjöldin sín í
kommúnistaflokknum, njóta að
vísu góðs af afslættinum fyrir eililíf-
eyrisþega, en segjast ekki hafa
tekið neinn þátt í flokksmálum
undanfarin 25 ár og tala ekki eins
og strangtrúaðir flokksmenn.
„Ég trúi enn á grundvallaratrið-
in,“ segir Sofka. „Ég er andsnúin
arðráni og forréttindum sem fólk
fær í arf. En flestir hafa gleymt því
að þegar byltingin var gerð í Rúss-
landi var það 200 til 300 árum á
eftir tímanum. Flestir halda að
ástandið þar hafi verið eins og í
vestræna heiminum.“ Og Sofka
veit um hvað hún er að tala. Hún
segist muna eftir því þegar amma
hennar var að tala um landareign í
Kákasus í eigu fjölskyldunnar. „Ó
já, mig minnir að við eigum eitt-
hvað þar niðurfrá," sagði gamla
konan. í þá daga skipti yfirstéttin
sér lítið af eigum sínum, sérstakir
ráðsmenn voru til þess.
Fyrstu byltingarmennirnir héldu
bara áfram þar sem keisararnir
höfðu hætt. „Trotsky, sem ætti
auðvitað ekki að nefna á nafn,
sagði nokkuð skynsamiegt. Hann
sagði að enginn væri eins íhalds-
samur og byltingarmaður sem
vegnaði vel,“ segir Sofka og bætir
við að Gorbatsjov verði að fara
varlega í sakirnar þar sem gömlu
íhaldsöflin séu rótgróin.
Sophy Skipwith á enn nokkra
muni til minningar um viðburða-
ríka ævi. Keisaraekkjan gaf henni
keisaralegt páskaegg 1918. Sophy
á í eigu sinni eina eða tvær bækur
með skjaldarmerki Dolgorouky
ættarinnar og nokkrar ljósmyndir.
Og hún heldur áfram að fylgjast
með málefnum Albaníuvinafélags-
ins. Hún afhenti einmitt gesti
sínum, blaðamanninum að gjöf
nýjasta tölublað félagsritsins þar
sem var skýrt frá aðstoð Albaníu
við uppreisnarmenn í Afganistan!