Fréttablaðið - 19.02.2009, Side 24

Fréttablaðið - 19.02.2009, Side 24
24 19. febrúar 2009 FIMMTUDAGUR UMRÆÐAN Hjörleifur Hallgríms skrifar um bæjarmál á Akureyri Eftir að hafa verið rekin frá Landsbank- anum hinn 22. október sl. eftir tæplega 30 ára dygga þjónustu, neitaði dugnaðarkonan Margrét Traustadóttir að leggjast í volæði og vonleysi þótt brott- reksturinn hafi vissulega verið sár eftir að hafa þjónað bankan- um svo vel og lengi. Þá datt henni í hug að stofnsetja markað líkt og Kolaportið í Reykjavík, sem hún kallar Norðurport. Hann var opn- aður nýlega á Laufásgötu þar sem áður var Sjóbúðin. Norðurport var opið á öðrum stað til áramóta og var gerður góður rómur að, margt fólk og mikið fjör. Þá var opnað- ur nýlega á Glerártorgi veitinga- staðurinn Kaffi Talía, sem eins og nafnið bendir til selur kaffi og meðlæti, og léttar veitingar í hádeginu. Eigendur og rekstrar- aðilar eru hjónin Júlía Skarphéð- insdóttir og Birgir Torfason. En bæjarstjórnarmeirihlutinn er í vondum málum. Áður hefur komið fram hjá mér í Fréttablað- inu að þó að eitt og hálft ár sé þar til mögulegt er að svokall- að menningarhús verði tekið í notkun, bygging sem mun kosta hátt í fjóra milljarða,þá er búið fyrir mörgum mánuðum að kjósa þriggja manna stjórn fyrir húsið og er formaðurinn með 120 þús. kr. á mánuði og meðstjórnend- urnir hvor kr.60 þús. kr. Einnig var framkvæmdastjóri ráðinn á kr. 700 þús. á mánuði, en það sem verra þykir er að laun hans eru greidd inn á reikning einkahluta- félags, sem viðkomandi á. Viðurkennt er þó að meirihluti bæjarstjórn- ar hafi á sínum tíma af gefnu tilefni samþykkt að viðhafa ekki svona vinnubrögð við starfs- fólk og spyr fólk sig því eðlilega hvers vegna þessi háttur er hafður á nú. Annað furðulegt mál virðist vera látið við- gangast hjá meirihlut- anum en það er að lögmaður bæj- arins, sem er í fullu starfi og launaður samkvæmt því er líka í 50% starfi hjá Háskólanum á Akureyri. Það er álitið að fullt starf lögmanns hjá Akureyrarbæ sé ærið nóg ef því er sinnt af ein- hverju viti. Þá eru það skipulags- málin, sem eru meira og minna í rugli, enda skipulagsnefnd bæj- arins skipuð aðilum, sem sumir hverjir eru búnir að vera tiltölu- lega stutt í bænum og hafa ekki hundsvit á skipulagsmálum á Akureyri, og er bærinn búinn að fá á sig mörg kærumál vegna þessa. Eitthvert mesta hneyksl- ið er þó talið vera þegar aðilum krónuverslananna Kaupási var neitað um að byggja á lausri lóð á horni Glerárgötu og Tryggva- brautar og er það sett í samband við það þegar Kristján Þór Júlíus- son þá bæjarstjóri bauð Jóhann- esi kenndum við Bónus afnot af íþróttavellinum okkar undir verslun, en ekkert varð þó úr því. Sukkið er víðar en í lands- málunum, enda meirihluti bæj- arstjórnar Akureyrar skipaður sömu stjórnmálaflokkum og rík- isstjórnin sem hrökklaðist nýver- ið frá völdum. Höfundur er fyrrverandi ritstjóri. UMRÆÐAN Karl V. Matthíasson skrifar um atvinnumál Eins og ástandið er núna í landinu hljót- um við að íhuga það alvarlega hversu margir gætu fengið atvinnu við það að fara á handfæri. Í landi þar sem 15.000 manns eru atvinnulaus- ir hlýtur það að vera bilun að gefa ekki handfæraveið- ar frjálsar á næsta sumri. Þó þessi atvinnugrein hafi átt undir högg að sækja eru enn margir sem kunna vel til verka og mjög auðvelt er að kenna ungum mönnum að veiða fisk með þessum hætti. Það er líka deginum ljósara að þessar veiðar eru mjög vistvænar og skapa auð- vitað mörg störf í ofanálag og til- kostnaður er margfalt minni en á stórum skipum. Hvað er dapurlegra en að vera atvinnulaus, skuldum vafinn og standa á bryggjusporðinum, horfa út fjörðinn eða flóann og vita að þarna er lífsbjörg en mega ekki veiða einn einasta fisk til þess að skapa sér tekjur. Ég efast um að slík staða sé til í nokkru öðru landi í heiminum en hér. En hér má engu breyta, alls engu. Þeir sem vilja veiða á smábátum skulu hafa kvóta og engar refjar með það og ef þeir eiga engan kvóta þá skulu þeir gera svo vel að borga 10 fiska fyrir að veiða 12. Þetta er auðvitað ömurlegt lénsk- erfi sem neytt hefur verið upp á þjóðina á örfáum árum og keppast nú hag- fræðingar við að segja að sölu- og leigukerfi kvótans sé í rauninni upphafið að efnahagshruni Íslands. Lög stéttaskiptingar Já, það hefur verið eftir- tektarvert að sjá hvernig lögin um stjórn fiskveiða hafa gert þorp og bæi að stéttskipt- um samfélögum. Í rauninni er það þannig, að gjá, sem ekki var fyrir, hefur myndast á milli þeirra, sem hafa veiðiréttinn og hinna, sem engan hafa. Það þarf ekki nema að líta í kring um sig til að sjá þetta og því miður hefur þetta líka leitt til pólitísks ótta hjá mörgu fólki sem ég hef hitt. Og hverjum líður svo vel með þetta. Líður þeim vel sem hafa kvótann undir höndum? Það efast ég um, enda eru marg- ir þeirra líka fórnarlömb kvóta- kerfisins vegna skulda sinna. Eða hinum, líður þeim vel? Ekki held- ur. Við verðum að stíga út úr ótt- anum og taka höndum saman um endurreisn Íslands. Og íslenskir útgerðarmenn verða að taka þátt í því. Ég skora á LÍÚ að fara nú að koma til leiksins á nýjum forsend- um og nýrri hugsun. Og ganga af þeirri braut sem hefur leitt okkur til einhæfni, samþjöppunar og ein- okunar. Við verðum að vakna. Áþreifanleg aðgerð En á meðan við erum vöknum af þessum draumi, sem varð martröð, skulum við segja við ungu dreng- ina okkar og ungu konurnar okkar: „Nú ætlum við að leyfa frjálsar handfæraveiðar eftir skynsamleg- um reglum, við skulum leyfa veið- ar á 15.000 tonnum.“ Það myndi gefa nokkrum þúsundum atvinnu, það myndi gefa von, bjartsýni og gleði. Slíkt er áþreifanleg aðgerð. Við getum séð fyrir okkur til dæmis ung hjón sem eru að koma að landi á trillunni sinni með nokk- ur hundruð kíló af fiski eftir góðan dag. Já, umvafin eru þau gleði og lífstilgangi. Og þetta er hægt að gera með einfaldri lagasetningu, jafnvel reglugerðarbreytingu. Það er ekki eftir neinu að bíða. Tökum okkur á, verum ekki hrædd, sýnum hugrekki og leyfum fólki að bjarga sér landi og lýð til heilla. Vilji er allt sem þarf. Höfundur er alþingismaður. UMRÆÐAN Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir skrifar um velferðarmál Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur á verksviði sínu flest þeirra verkefna sem brýnust eru fram undan um velferð einstakl- inga og fjölskyldna í landinu. Við búum að því að Jóhanna Sigurðardótt- ir, forveri minn í starfi, hrinti í framkvæmd margvíslegum félagslegum úrbótum meðan enn áraði vel í landinu. Breytingar voru gerðar á sviði almannatrygginga, sem hafa komið lífeyrisþegum til góða, einkum þeim tekju- lægstu, ásamt ýmsum öðrum aðgerðum til hagsbóta fyrir fatlaða, aldraða, heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Unnið hefur verið að endurskoðun almanna- tryggingakerfisins og ég mun halda þeirri vinnu áfram. Eitt stærsta verkefnið framundan er þó án efa að styðja við heimilin í landinu og lágmarka fjár- hagslegan og félagslegan skaða fólks af völdum efna- hagsástandsins. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar hef ég nú sett á fót velferðarvakt til að fylgjast með fjárhags- legum og félagslegum afleiðingum bankahrunsins. Þetta er mikilvægt forvarnarstarf enda er vaktinni ætlað að kortleggja erfiðleikana sem líklegir eru til að mæta fólki og gera tillögur um viðbrögð stjórn- valda og samhæfðar aðgerðir þeirra. Heimili varin með öllum ráðum Mikilvægt er að verja heimili fólks, sporna gegn vax- andi atvinnuleysi og bæta aðstæður þeirra sem misst hafa vinnuna. Margt hefur verið gert í þessu skyni. Strax við upphaf bankahrunsins voru heimild- ir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum rýmkaðar, ýmsu í verklagi hans var breytt og innheimtuaðgerðir mildaðar. Tekin var upp greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignalána sem gerir fólki kleift að létta tímabundið greiðslu- byrði af lánum. Þá var lánstími lána sem veitt eru vegna greiðsluerfiðleika lengdur úr 15 árum í 30 og hámarkslánstími lengdur úr 55 árum í 70. Fyrirbyggja þarf að fólk missi húsnæði sitt vegna greiðsluerfiðleika. Ef til þess kemur þarf að tryggja öryggi heimila og fjölskyldna. Í þessum tilgangi var Íbúðalánasjóði veitt heimild til að leigja eða fela öðrum að annast leigumiðlum íbúðarhúsnæðis sem sjóðurinn leysir til sín á nauðungarsölu. Þetta gerir fólki kleift að búa áfram á heimilum sínum gegn leigu. Þá hefur starfsemi Ráðgjafastofa heimilanna verið efld, starfsfólki fjölgað og opnunartími lengdur. Barist gegn atvinnuleysi Vinnumálastofnun hefur verið efld til að mæta vax- andi álagi og bæta þjónustu. Með lagabreytingu var heimilað að greiða fólki sem er í hlutastarfi tekju- tengdar atvinnuleysisbætur í lengri tíma en áður og skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf var felld niður. Þetta hefur hvatt atvinnurekendur til að semja við starfsfólk um lægra starfshlutfall í stað þess að grípa til uppsagna. Einn- ig var fólki sem starfar sjálfstætt veittur rýmri réttur til atvinnuleysisbóta en áður. Nýlega voru settar reglugerðir sem kveða á um nýja lánaflokka Íbúðalánasjóðs, rýmri útlánareglur og heimildir til veðlánaflutn- inga. Veittar voru heimildir til að veita lán til félaga, félagasamtaka og sveitarfélaga vegna endurbóta og viðhalds á leiguíbúð- um. Þetta skapar aukið svigrúm til fram- kvæmda og mun ýta undir aukna atvinnu í byggingariðnaði. Atvinnulausir áfram virkir Velferð einstaklinga og fjölskyldna byggist á mörgum þáttum. Fjárhagsleg staða er undirstöðu- atriði en félagslegar aðstæður vega einnig þungt. Að missa atvinnu sína er ekki síður félagslegt áfall en fjárhagslegt. Því er það stór áskorun að bregðast við vaxandi atvinnuleysi með úrræðum sem gera fólki kleift að halda virkni sinni og takast á við uppbyggj- andi verkefni sem styrkja það til atvinnuþátttöku á ný þegar úr rætist. Hlutverk Vinnumálastofnunar á þessu sviði hefur verið aukið. Stendur hún fyrir fjöl- breyttum verkefnum á borð við ýmiss konar nám og námskeið, atvinnutengda endurhæfingu, starfs- þjálfun, ráðningar til reynslu, frumkvöðlastörf auk sérstakra átaksverkefna sem fólk án atvinnu getur stundað og fengið atvinnuleysisbætur greiddar sam- hliða. Nánari upplýsingar um þessi verkefni má finna á heimasíðu stofnunarinnar. Mikilvæg verkefni fram undan Eitt af hlutverkum félags- og tryggingamála- ráðuneytisins er að vinna að því að úrræði vegna greiðsluerfiðleika sem Íbúðalánasjóður getur boðið viðskiptavinum sínum standi einnig til boða þeim sem sem eru með fasteignaveðlán hjá ríkisbönkun- um. Verið er að útfæra leiðir að þessu marki í við- skiptaráðuneytinu. Starfshópur sem forveri minn skipaði um síðustu áramót til að gera tillögur um aðgerðir gegn atvinnu- leysi skilaði fyrstu tillögum um síðustu mánaðamót og er vinna við að hrinda þeim í framkvæmd þegar hafin. Má sem dæmi nefna rýmri heimildir Íbúða- lánasjóðs til útlána vegna viðhaldsverkefna, áform um að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt vegna vinnu manna á byggingarstað við viðhald og endur- skoðun á lánareglum LÍN og samspil þeirra við regl- ur atvinnuleysistryggingasjóðs með það að markmiði að auðvelda atvinnulausum að stunda nám. Samráð og samvinna Öflugt og gott velferðarkerfi er mikilvæg undir- staða hvers samfélags og mikilvægi þess hefur sjald- an verið meira en nú. Ég hyggst því standa vörð um velferðarkerfið og styrkja þá þætti sem best styðja þá sem minnst bera úr býtum. Verkefnin framundan krefjast samráðs og samvinnu stjórnvalda, stjórn- málamanna, atvinnulífsins, samtaka launafólks, fyr- irtækja, stofnana, félagasamtaka og einstaklinga. Ég legg áherslu á þetta í starfi mínu sem ráðherra og óska eftir góðri samvinnu við alla þá sem geta og vilja leggja gott af mörkum. Höfundur er félagsmálaráðherra. Undirstaða samfélagsins ÁSTA RAGNHEIÐUR JÓHANNESDÓTTIR HJÖRLEIFUR HALLGRÍMS Norðurport á nýjum stað KARL V. MATTHÍASSON Störf handa þúsundum – frjálsar handfæraveiðar Hvað er dapurlegra en að vera atvinnulaus, skuldum vafinn og standa á bryggjusporðinum, horfa út fjörðinn eða flóann og vita að þarna er lífsbjörg en mega ekki veiða einn einasta fisk til þess að skapa sér tekjur.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.