Tíminn - 24.01.1988, Side 8

Tíminn - 24.01.1988, Side 8
8 Tíminn Sunnudagur 24. janúar 1988 Nýbakaðar mæður hafa gjarnan áhyggjur af að spilla börnunum með dekri. Venjulega er vandinn sá að barnið grætur mikið eða heimtar oft mat og móðurinni finnst að hún ætti að taka það upp í hvert sinn sem því þóknast. Á móti segir einhver innri rödd, að þetta eða hitt ætti ekki að gera. Barnið þurfi að læra að það geti ekki fengið allt, hvenær sem það krefst þess. Systur, ömmur og góðar frænkur taka gjarnan undir með innri röddinni og fullvissa ungu móð- urina um að hún sé að binda sér myllustein um háls með að hlaupa alltaf til. Hugsanlega fær hún það ráð að láta barnið bara gráta. Á öðru aldursári barnsins er aftur hætta á ofdekri með undanlátssemi, að áliti margra mæðra. Þá tekur barnið ef til vill að ráðast á önnur börn eða fá æðisköst á almannafæri. Móðirin er ráðalaus og fer að hugsa um, hvort hún láti of mikið eftir afkæminu, þannig að það taki ekkert tillit til annars fólks. Áhyggjurnar vinda upp á sig, því auðvitað er velviljað fólk stöðugt að benda móð- urinni á, hversu vel öll önnur börn haga sér - einkum þess eigin. Á síðustu árum hefur sú skoðun heldur sett ofan, að lítil börn spillist beinlínis á of mikilli athygli og þurfi strangan aga allt frá upphafi. Nú er viðtekið að gefa börnum að drekka og borða, þegar þau vilji, fremur en að fara nákvæmlega eftir klukku í þeim efnum. Hitt er svo annað mál, að hægt er að ganga of langt í öllu og sumir foreldrar þora bókstaflega ekki að segja nei við börn sín. Þeim hefur verið sagt að ungbörn þurfi mikla athygli fullorðinna, ef þau eigi að geta orðið heilsteypt fólk seinna meir. Því hefur þetta beinlínis leitt til þess að foreldrar óttast að vinna börnum sínum andlegt tjón með því að láta þau gráta, eða skamma þau stálpaðri. Hvað á þá að gera? Á móðirin að láta undan löngun sinni til að grípa litla barnið upp úr vöggunni og láta vel að því? Ætti hún heldur að láta það liggja, svo það kynnist „skynsamlegum aga“? Ef til vill hleypur hún að vöggunni í hvert sinn sem þaðan heyrist hljóð og læst ekki sjá, þegar stálpaða barnið hagar sér ruddalega. Hún afsakar allt með því að þetta sé nú einu sinni barn og skilji ekki að annað fólk hafi líka þarfir og tilfinningar. Þú spillir barninu! Hversu oft skyldu velviljaðir ættingjar segja eitthvað í þessa veru, þegar þeim finnst unga móðirin hlaupa of mikið til að sinna afkvæmi sínu? Er hægt að spilla litlum börnum með of mikilli umhyggju? Hvað finnst móðurinni rétt? Iðulega spyrja mæður sjálfar sig sem svo: Á ég að taka barnið upp? Á ég að láta það afskiptalaust? En þær vita oftast svarið fyrirfram. Það eru einkum ungar mæður með fyrsta barn sem hafa áhyggjur af að gera einhverja skyssu í uppeldinu. Þær leita gjarnan til sérfræðinga og reyndra mæðra eða lesa og lesa í bókum um barnauppeldi, sem eru eins misjafnar og (sær eru margar. Eftir mikið af slíkum lestri hættir manni til að álykta, að nánast sé kraftaverk, að hægt skuli að ala upp sæmileg börn. Besta ráðið til að bregðast við kröfum barnsins, er að spyrja sjálfa sig. Hvað langar mig að gera? Ef svarið er, að móðurina sjálfa langi til að taka barnið upp og gefa því, þá á hún að gera það. Bæði henni og barninu líður betur á eftir. Ef hún hugsar sem svo, að barnið geti ekki verið svangt og hana langi til að ganga frá þvottinum eða þvo sér um hárið, á hún að gera það. Ef barnið grætur enn, þegar hún er búin, er sjálfsagt að sinna því, þó líklegast sé að það sé steinsofnað. Móðirin getur líka sett barnið í stól, svo það geti séð hana, meðan hún er að öðrum störfum. Það er mikill misskilningur að móðir sé að gera rangt með því að hugsa fyrst um sjálfa sig. Ekkert barn bíður tjón á sálu sinni af að gráta svolitla stund. Eins má fara að, þegar um stærra barn er að ræða. Ef móðurina langar til að skamma það eða banna því, á hún að gera það. Hún hefur fullan rétt til að hvessa sig líka. Skiptar skoðanir eru á líkamlegri refsingu, en hún getur haft varanleg áhrif á mjög ungt barn. Það getur hins vegar verið til góðs að skella á bossann á tveggja eða þriggja ára barni, ef það skilur ástæðuna og veit að það hefur hagað sér illa. Mæðrum er alveg hcimilt að missa þolinmæð- ina og einmitt með því geta þær komið í veg fyrir að litli engillinn verði ef til vill harðstjóri hinn mesti. Auðvitað á ekki að berja börn og reið manneskja getur slegið fastar en ætlunin var, svo best er að viðhafa alla gát. Ágætt er að fjarlægja barnið af staðnum, þar sem það skemmdi eða kom illa fram og láta það skilja, að það fái ekki að koma þangað aftur um tíma fyrir vikið. Mikilvægt er þó að barnið skilji að móðurinni finnist eitthvað athugavert við hegðan þess. Ef hún lætur í ljós vanþóknun, á barnið að vita, hvernig slíkt lýsir sér. Það á líka að vita, að móðirin á kröfu á að gagnrýna það. Stundum verður móðirin þó að standa með barninu. Slæm hegðun þess getur verið af gildri ástæðu, annaðhvort ögrun eða að barnið sé örþreytt og uppstökkt þess vegna. Þá á að taka tillit til slíks, hvað sem aðrir kunna að segja. Ef barnið er sérstaklega óþægt, er réttast að hafa það ekki lengur viðstatt, en séu ástæður hegðunar- innar augljósar, er ekki „ofdekur“ að tala notalega við barnið og reyna að róa það. Þó móðirin hafi reiðst barninu og skammað það af gefnu tilefni, er nauðsynlegt að hún komi því í skilning um, að hún verði ekki reið áfram. Ef agi og blíðuhót fara saman, lærir barnið betur að taka aga. Aldurinn mikilvægur Auðvitað er búist við meiru af barninu eftir því sem það vex og þroskast. Varla er ætlast til að nýfætt barn tjái sig eins og fimm ára og tveggja ára getur ekki hagað sér eins og ellefu ára. Misbrestur vill þó verða á að mæður skilji þetta. Sumar ætlast til að fárra vikna barn eigi að kunna að bíða, þó þær ættu að geta sagt sér að barnið hefur ekki hugmynd um að til sé klukka eða verk, sem þarf að vinna. Lítið stærri börn eru atyrt fyrir að þakka ekki fyrir sig eða biðja ekki afsökun- ar, þegar það krefst allra hæfileika þeirra og einbeitingar að halda á skeið. Kannske er allra mikilvægast að vita hvað barnið getur og hversu miklar kröfur má gera til þess. Alveg er ljóst að á fyrstu vikunum eða mánuðunum getur barn ekki beðið eftir matnum. Hungur er frumþörf, sem ekki er hægt að beina athyglinni frá. Þegar þau stækka, kynnast þau fleiri hlutum, skoða litadýrð, seilast eftir hringlu og framleiða mismun- andi hljóð. Þá víkur hungrið meira fyrir nýjum áhugamálum og grátur af öðrum orsökum verður öðruvísi en sá af hungrinu. Nýfædd börn þurfa athygli strax, því þau hafa ekki enn hæfileikann til að bíða eða sætta sig við frestun. Að skilja það er ekki dekur, heldur heilbrigð skynsemi. En strax og barnið sýnir að það geti beðið, eða beint athyglinni að öðru um stund, er engin ástæða til að rjúka upp til handa og fóta í hvert sinn sem það gefur frá sér hljóð. Barnið er þá mjög fljótt að átta sig á tíu mínútna bið og hægt verður að koma á nýju skipulagi margra hiuta. Takmark flestra foreldra er að eiga kurteis og vel upp alin börn, sem eru stolt fjölskyldunnar, seinna út á við líka. Allir vilja að börnum þeirra semji vel við annað fólk og mörgum foreldrum er mikilvægt að veita þeim frelsi til að þróa persónu- leika sinn til fulls. Ekki er þó óalgengt að einmitt þetta frelsi verði ágreiningsefni og kemur þar margt til. Láti barn óheftan persónuleika sinn í ljós, finnst öðru fólki það gjarnan hávært, frekt eða hvað það nú kallar það og því þarf að hafa einhvern hemil á. Vera má að beinlínis þurfi að halda meira að barninu til að því veitist auðveldara að umgangast aðra. Foreldri kann að standa á sama um álit annars fólks á því sem það sjálft gerir, en ástæðulaust er að láta barnið haga sér eins og það vill og uppskera óvinsældir fyrir vikið. Venjulega er það óspillt barn, sem hcfur verið alið upp til að virða tilfinningar og þarfir annarra, án þess að gleyma þó sínum eigin. Móðir og manneskja Oft á tíðum sýnist barnauppeldi sáraeinfalt, þegar lesið er um það, en í reyndinni vill verða annað uppi á teningnum. Þó móðir sé skynsöm, umburðarlynd og full ástúðar, koma þær stundir, að hún megnar ekki að láta það í Ijós og finnst hún aumust alls. Allar mæður hafa áhyggjur af börnum sínum, oft gjörsamlega óþarfar, því innst inni vita þær að allt er í lagi. Allar missa þær líka stjórn á skapi sínu, þegar þeim finnst barnið ekki uppfylla vonir þeirra, jafnvel þó þær viti að anginn var niðursokkinn í leik og hugsaði alls ekkert um að taka til eftir sig jafnóðum. Vissulega er erfitt að þurfa að vakna á næturnar, ef til vill vikum saman og freistandi að snúa sér á hina hliðina og þykjast ekki heyra. Allar mæður gera mistök, búast við of litlu eða of miklu af barninu. Alveg er sama hversu aðrar mæður virðast til einstakrar fyrirmyndar, þær gera líka skyssur. Umfram allt er nauðsynlegt fyrir allar mæður að ætlast ekki til of mikils af sjálfum sér. Börn þurfa að skilja, að foreldrar eru ekki full- komnir og getur skjátlast alveg jafn mikið og börnum. Rétt eins og ætlast er til af börnum, eiga foreldrar að geta lært af eigin mistökum.

x

Tíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.