Tíminn - 25.11.1988, Blaðsíða 14

Tíminn - 25.11.1988, Blaðsíða 14
14 „Tíminn . ■ \ ' Monika Helgadóttir Merkigili Monika var fædd að Ánastöðum í Lýtingsstaðahreppi 25. nóvember 1901. í dag hefði hún orðið 87 ára en hún lést í Héraðssjúkrahúsi Skaga- fjarðar 10. júní s.l. Verður hennar minnst nú hér með nokkrum orðum, þótt dregist hafi lengur en skyldi. Monika var dóttir hjónan.ia Helga Björnssonar og Margrétar Sigurðar- dóttur. Helgi var af skagfirskum ættum og ól allan sinn aldur í Lýtingsstaðahreppi. Margrét var sunnlensk, frá Ásmúla í Landssveit og átti ættir að rekja í Rangárvalla- og Árnessýslur. Var hún síðari kona Helga. Fyrri kona hans Steinunn Jónsdóttir frá írafelli dó 1892 frá tveimur ungum börnum þeirrá, Er- lendi, sem lengi var bóndi í Lýtings- staðahreppi og Helgu, húsfreyju á Skíðastöðum og víðar. Helgi og Margrét gengu í hjónaband rúmu ári eftir lát Steinunnar og bjuggu á Ánastöðum til 1914. Margrét var þrekkona til sálar og líkama, dugleg og vel verki farin, úrræðagóð og ákveðin í öllum framkvæmdum. Hún var sviphrein og festuleg, glað- leg í viðmóti og mjög dagfarsprúð. Hún var mikil frfðleikskona. Helgi var einnig fríður sýnum. Hann var hávaxinn og þéttur á velli, talinn afreyndur að afli. Hann var frábær afkastamaður og lagvirkur að sama skapi. Glaðvær var hann og Ijúfur í viðmóti, ekki síst við börn, sem hændust mjög að honum. Hann var nokkuð örgerður og fljótfær stundum. Sambúð þeirra hjóna var hin besta og efnalega komust þau vel af. Börn þeirra urðu tíu og komust öll upp, nema yngsta barnið, Guðmundur, sem dó nýfæddur. Ánastaðasystkin- in urðu öll myndar- og dugnaðar- fólk. Elst var Marta, húsfreyja á Hóli. Hún lést rúmlega tvítug. í>á Sigurjón, bóndi á Nautabúi, Magn- ús, bóndi í Héraðsdal, ísfold, hús- freyja í Reykjavík, Hólmfríður, hús- freyja á Sauðárkróki, Monika á Merkigili, Ófeigur, bóndi á Reykja- borg, Sigríður, húsfreyja á Laugar- bökkum og víðar, og Hjálmar, lengi bílstjóri á Akureyri. Erlendur og Helga ólust upp hjá föður sínum og reyndist Margrét þeim sem eigin börnum. Monika var sú sjötta í aldursröðinni. Um hana skrifaði Guðmundur G. Hagalín bók, eftir viðtölum við hana: „Konan í dalnum og dæturnar sjö“. Kom sú bók út 1954 og verður stuðst mikið við hana í því sem hér verður sagt, svo langt sem hún nær. Glöggt má sjá að Monika hefur verið mjög viðkvæmt barn. Tók hún sér allar aðfinnslur afar nærri og eins ef henni fannst sér hafa orðið eitt- hvað á. Þessi viðkvæmni mun reynd- ar hafa fylgt henni alla ævi. Meðan hún var í foreldrahúsum naut hún ástar og öryggis. En hún var ekki gömul þegar hún fór fyrst að heiman til vandalausra og þótt hún kæmi annað slagið heim, var hún fyrr en varði farin að sjá að mestu leyti fyrir sér sjálf. Fyrst fór hún að heiman þegar hún byrjaði í barnaskóla. Skólaskylda hófst þá við tíu ára aldur, en fyrsta veturinn var Monika heima. Reynt var að kenna börnunum að lesa og skrifa áður en þau fóru í skólann ogvar svo gert á Ánastöðum. Ekki var kennslutíminn nema átta vikur á vetri. Monika átti að sækja skóla á Lýtingsstöðum. Jóhann l'orsteins- son kennari var þá bóndi þar. Kona hans var Ingibjörg Jóhannsdóttir, systir Jóhönnu, sem síðar kom tals- vert við sögu í lífi Moniku. Vorið 1912 var Monika látin fara í Þorsteinsstaðakot og átti að ganga þaðan í skólann, en þáð er stuttur spölur. Var svo um samið við hjónin þar, Elínu Finnbogadóttur og Bjarna Jóhannesson að hún yrði hjá þeim til jafnlengdar næsta vors, ynni heimilinu eftir getu í fjörutíu og fjórar vikur, en sinnti eingöngu nám- inu meðan kennsla stæði yfir. Fyrst var Monika höfð til smásnúninga en þegar heyannir byrjuðu, stóð hún við rakstur. Hún mjólkaði kýrnar með Elínu og stundum ein ef á lá. Eftir mætti hjálpaði hún til við flest störf. Elín og Bjarni áttu tvo syni, Finnboga og Jóhannes. Á engja- slætti voru þau Monika og Jóhannes send ein til að heyja í Teigakoti. Samdi þeim ágætlega og gekk verkið vel. Finnbogi stríddi þeim, kvað þeim vera brátt að byrja búskapinn, bóndinn nýfermdur og húsfreyjan ellefu ára. Monika tók þetta alvar- lega og varð fálát við Jóhannes ef aðrir voru við. En það var í henni óyndi, sem jókst þegar á haustið leið, án nokkurrar sérstakrar ástæðu, því allir voru henni góðir. Hún saknaði foreldra og systkina eins og eðlilegt var. Þegar skólinn hófst undi hún sér vel. Þótti henni gaman að náminu, einkum reikn- ingi. Jóhanna var þá heima á Lýt- ingsstöðum hjá föður sínum, Jó- hanni Lárusi Jónssyni. Var hún Moniku einkar góð, leiðbeindi henni við námið og var henni nánast sem önnur móðir. Festust þá þau tryggðabönd milli þeirra, sem entust út yfir gröf og dauða. Um sumarið var Monika heima og því sannarlega fegin. Hún var orðin stór eftir aldri og þrekmikil, sló og rakaði og fékk hrósfyrirdugnaðinn. Hún vareinnig móður sinni til hjálpar við bæjarverk og barnagæslu. Foreldrar hennar hefðu gjarnan viljað hafa hana heima, hafa eflaust séð hvað henni leið, að hún var óyndisgjörn, en vegna skólans varð að vista hana sem mest á Lýtingsstöðum. Var hún ráðin í Efrakot, rétt hjá skólastaðn- um. Hjónin þar, Sólveig og Stefán, voru einstakargæðamanneskjur. En strax fyrsta kvöldið greip hana svo mikill leiði að hún fór að hágráta. Ekki gat hún sagt hvað að amaði, en hún gat ekki stöðvað grátinn hvernig sem hjónin reyndu að hugga hana. Loks sagði Stefán: „Ég fer og tala við hana Jóhönnu. Ég get ekki vitað til þess að barnið gráti svona hér hjá okkur.“ Sólveig reyndi með öllu móti að telja í hana kjarkinn og Monika fann anda frá henni hlýju og velvild. En nú fór hún að hugsa um að það fréttist að Lýtingsstöðum og bærist síðan um alla sveit, hver vandræða- og vanstillingarkrakki hún væri, og jókst gráturinn enn. Heim yrði hún að komast hvað sem allri skólaskyldu liði. Von bráðar kom Stefán heim og fór hún snökt- andi með honum til Jóhönnu. Var því svo komið í kring að hún yrði á Lýtingsstöðum um veturinn. Þar leið henni mjög vel. Námið stundaði hún af kappi og gerði með ljúfu geði allt, sem hún var beðin um. Hún varð hressari, glaðari og rórri en hún hafði verið frá því hún fór í Þor- steinsstaðakot, hugsaði furðu sjald- an heim og fannst nú að hún gæti unað sér hvar sem væri hjá góðu fólki. Sannarlega átti hún þeim Ingi- björgu og Jóhannesi Þorsteinssyni mikið að þakka, fannst henni. Vorið 1914 fluttu foreldrar hennar frá Ánastöðum. Var Monika ráðin hjá nýju ábúendunum, ungum hjónum, Ragnhildi og Sveinbirni. Var hún hjá þeim um veturinn. Hún gekk til spurninga með jafnöldrum sínum og fékk allan fermingarundir- búning. Fullnaðarpróf tók hún um vorið. En sr. Sigfús Jónsson fékk ekki leyfi til að ferma hana af því að hún var fædd svo seint á ári. Til þess þurfti leýfi frá biskupi. Þótti Moniku þetta mjög leiðinlegt og réð sig þá næsta ár að Silfrastöðum í Akra- hreppi. Nú var Jóhanna frá LýtingSstöð- um komin í Silfrastaði, gift Jóhann- esi Steingrímssyni, sem þar bjó lengi. Hjá þeim var Steingrímur, faðir Jóhannesar, orðinn alblindur. Færði Monika honum oftast mat og kaffi í herbergi hans. Þegar hún kom fyrst upp til hans, bað hann um að fá að sjá hana. Og er hann hafði þreifað um andlit hennar og hendur kvað hann upp þann dóm að hún væri myndarstúlka og ófært væri að hún fengi ekki að fermast. Kvaðst hann verða að nefna þetta við Jó- hannes sinn. Varð það svo eins og Steingrímur vildi, biskupsleyfi fékkst og fermdi sr. Björn Jónsson hana á Miklabæ. Jóhanna saumaði handa henni fermingarfötin og gerði sitt til að gera daginn hátíðlegan. Foreldrar hennar ætluðu að koma en það gat ekki orðið vegna veikinda heima fyrir. Moniku fannst hún því ósköp mikill einstæðingur, þegar hún stóð feimin og uppburðarlítil fyrir altarinu með ókunnugum börn- um og hin hátíðlega athöfn varð henni ekki sá ljósgjafi sem hún hafði vænst. Á Silfrastöðum var Monika í tvö ár, þau ánægjulegustu sem hún átti á unglingsaldrinum. Heimilið var mannmargt, mikill gestagangur og umsvif og oft glatt á hjalla. Heimilisbragur var frjálslegur og góður andi innan veggja og eins og fyrrum, leið Moniku vel hjá Jó- hönnu. Eftir Silfrastaðadvölina var Mon- ika í vinnu hér og hvar, oftast þó í Lýtingsstaðahreppnum. Fékk hún brátt orð fyrir frábæran dugnað og var talin karlmannsígildi við útiverk. Á þessum árum, milli fermingar og tvítugs, var Monika á námskeiði, sem haldið var fyrir ungar stúlkur. Var þeim kennt að sauma og sníða, baldýra og vefa. Lilja Sigurðardóttir á Víðivöllum kenndi að sauma og sníða en Helga og Kristín Sigtryggs- dætur á Framnesi kenndu útsaum, baldýringu og vefnað. Monika varð allleikin í vefnaði, hafði ofið ofurlít- ið heima, en faðir hennar var ágætur vefari. Þessi tilsögn sem Monika fékk á stuttu námskeiði mun hafa notast henni ótrúlega vel og komið henni síðar að góðu gagni. Hún sóttist ekki síður eftir úti- verkum, meðan hún var svona á lausum kili, stóð við slátt og hirti fé. Hún var mjög kappsfull, það var henni metnaðarmál að standa sig sem best í öllu, sem hún tók að sér. Innanhússtörf leysti hún prýðilega af hendi. Hún þótti flestum betri að hjúkra sjúkum og hafði þó ekkert lært til þess. Var hún oft fengin á heimili þar sem veikindi voru. Heppnaðist henni furðuvel að gera það, sem í mannlegu valdi stóð og að fara eftir fyrirmælum frá lækni. Taugaveiki barst í Lýtingsstaða- hreppinn árið 1917 og var síðan að koma upp á bæjum hér og hvar. Var þá leitað til Moniku og var hún yfir taugaveikisjúklingum á nokkrum bæjum. í Merkigarði var hún undir þeim kringumstæðum og sá þá um öll utanbæjarverk líka. Við þetta óx henni þroski og sjálfstraust og hún naut þeirrar gleði að hljóta þakkar- hug og virðingu fyrir vel unnin störf. Sjálf var hún ekki alltaf heilsuhraust á þessum árum. En úr því rættist, oftast með hjálp Jónasar Kristjáns- sonar, sem lengi var læknir í Skaga- firði. Svona liðu árin. Monika var stundum hjá foreldrunum en oftar hjá öðrum. Svo var það haustið 1924 að Monika tók þá ákvörðun að fara til Reykjavíkur, langaði að sjá og reyna eitthvað nýtt. Var hún ráðin í vist fram að áramótum og svo í fisk- vinnslu. Hún fór með Esju frá Sauð- árkróki. Ferðin tók nokkra daga og Monika var svo sjóveik að hún þóttist aldrei hafa í aðra eins raun komist. Óskaði hún þess heitast að hún hefði aldrei lagt í þessa háska- ferð. Reykjavíkurdvölin varð henni þó hin ánægjulegasta. Hún fékk gott kaup og ákvað að vera þar aftur næsta vetur, en heirn fór hún um vorið. Þegar Esja sigldi inn Skagafjörðinn með Moniku á heimleið hlýnaði henni um hjartarætur er hún sá Mælifellshnjúkinn skína við sólu. Hún sá dalsmynnin opnast, Svartár- dalinn. Þar nærri voru Ánastaðir, Vesturdalurinn og hinn grösugi Austurdalur. Þar var bær, sem hét Merkigil. Þangað hafði hún aldrei komið en hafði fengið þaðan bréf um veturinn. Það var frá Jóhannesi Bjarnasyni. Spurði hann hvort hún gæti ekki hugsað sér að koma til sín sem ráðskona í Merkigil, þar sem hann bjó á hálfri jörðinni með foreldrum sínum. Bréfinu var ósvarað. Um sumarið tók Monika að sér að heyja sjötíu hesta á útengi fyrir mann á Sauðárkróki. Lá hún við í tjaldi, fór snemma út að orfmu og hrífunni og gekk stundum seint til hvílu. Ein var hún í verki og gat lokið því á fimm vikum. Um haustið bjó hún sig til suður- ferðar. Meðan hún beið skips á Sauðárkróki kom Gísli Sigurðsson á Víðivöllum þangað. Erindi hans var að biðja Moniku að fara í vetrarvist til gamalla hjóna á Merkigili, Sigur- bjargar Jónatansdóttur og Egils Steingrímssonar. Sigurbjörg var rúmföst, komin á tíræðisaldur og Egill um áttrætt, orðinn lasburða. Monika tók þessu fjarri í fyrstu en Gísli sagðist enga þekkja nema hana, sem gæti tekið að sér að hjúkra þeim og hirða líka um tuttugu kindur, tvær kýr og tvo hesta á húsi. Gísli var manna hjálpsamastur og átti Monika erfitt með að neita honum, fann líka að gömlu hjónin voru sannarlega hjálparþurfi. Á það hefur Gísli líklega treyst því hann hafði komið með fjóra röska reið- hesta og lögðu þau strax af stað. Monika hugsaði margt á leiðinni. það var eins og dulin öfl hefðu tekið af henni ráðin og stjórnuðu þessu óvænta ferðalagi. Undir niðri var svo hugurinn við bréfið. Það var ekki henni líkt að svara því ekki strax. Moniku ofbauð hvað þetta mikið umtalaða Merkigil var hrika- legt. En yfir komust þau slysalaust og þegar heim kom, tók Lilja á Víðivöllum þeim opnum örmum. „Svo það varst þá þú sem áttir að vinna miskunnarverkið hér, Monika mín,“ sagði hún. Monika hristi höfuðið. Henni fannst þetta enn jafn undarlegt. Lilja bar mat fyrir Mon- iku og Gísla og síðan fóru þau systkinin strax heim. Sigurbjörg og Egill tóku Moniku mjög ástúðlega og sýndi gamla hús- freyjan Moniku undir eins fullt traust og lagði allt í hennar hendur. Hún vildi hafa Moniku sem mest hjá sér og láta hana sitja við rúmið og halda í höndina á sér. Sigurbjörg var búin að búa lengi á Merkigili og við mikla reisn að var hún nú komin að leiðarlokum. Hún lést 13. nóvember og var lögð til hinstu hvíldar í Ábæjarkirkjugarði. Jarðarförin var mjög fjölmenn og sá Monika um matar- og kaffiveitingar við hús- kveðju heima. En á Ábæ gáfu þau kaffi Valgerður og Hróflur, sem þar bjuggu þá. Elín, móðir Jóhannesar Bjama- sonar, dó 5. desember og var einnig jörðuð í Ábæ. Síðustu næturnarsem hún lifði var Monika hjá henni, þegar henni gafst tími til. Voru þau Monika og Jóhannes þá heitbundin og blessaði Elín þá ákvörðun áður en hún skildi við. Bjarni var lengst af hjá þeim Moniku og Jóhannesi. Á sumardaginn fyrsta 1926, riðu þau ein úr hlaði á Merkigili, Jóhann- es og Monika. Fóru þau að Reykjum í Tungusveit þar sem foreldrar Mon- iku voru þá og gaf sr. Tryggvi Kvaran þau saman í hjónaband. Morguninn eftir héldu þau svo heim. Þá var Monika alkomin í Merkigil. Upp frá því var hún bundin þeim stað óslítandi böndum. Merkigil er stór jörð, landið að mestu vel gróið og grasgefið, nema gljúfrin við Merkigilið og Jökulsána. Áður fyrr voru talsvert margir bæir í dalnum austan Jökulsár eystri en nú var aðeins Ábær í byggð, framan við Merkigil. Á sumum þessum jörðum voru stórbú meðan búið var á gamla vísu og ekki farið í kaupstað nema tvisvar á ári, en smalamennska var ætíð fólksfrek og aðdrættir æði erfiðir. Merkigilið var og er enginn smáræðis farartálmi. Það er þver- bratt að heita má báðumegin, talinn var a.m.k. hálftíma lestargangur yfir það. Farið er eftir kröppum sneið- ingum báðumegin, að norðanverðu niður melhrygg en að sunnanverðu, þar sem er ennþá brattara, liggur mjó gata fyrir hvert klettahornið af öðru. Eftir þröngum gilbotninum fellur Merkigilsárin, hið mesta forað þegar hún er í vexti. Engin brú var á henni þegar Monika kom frameftir. En þau kviðu engu, ungu hjónin. Eins og áður segir átti Jóhannes hálfa jörðina. Fyrst um sinn var Bjarni sér með sinn búskap en fljótlega komst öll jörðin í eigu Jóhannesar. Það er reglulega gaman að lesa um búskap þeirra og heimili í bók Guðmundar G. Hagalín. Þeim gekk allt í haginn. Þau höfðu mikinn hug á að fjölga fénu og lögðu hart að sér til þess að þurfa ekki að hafa kaupa- fólk. Heimilið var glatt og gesta- gangur talsverður. Samkomulag var hið besta við alla nágranna og marg- vísleg samhjálp. Svo fæddust börnin hvert af öðru og sannaðist það, sem máltækið segir, að búsæld vex með barni hverju. Verða þau talin hér í aldursröð. Elín fædd 1926, Margrét fædd 1928, Jóhanna fædd 1930, Guðrún fædd 1934, Birna fædd 1936, Sigurbjörg fædd 1939, Skarphéðinn fæddur 1942, Jódís fædd 1944. Öll börnin voru efnileg og nutu mikils ástríkis foreldranna. Monika segir að Jóhannes hafi hugsað um barnahópinn af einstæðu ástríki og undursamlegri nærfærni, hafi gælt við börnin, kennt þeim og leiðbeint og skemmt þeim. Hann gerði þau að ábyrgum aðilum í samstarfi fjöl- skyldunnar og í sambúð við dýrin. í þessu uppeldi barnanna voru þau vissulega bæði samtaka eins og þau voru í öllu daglegu lífi. Þess var gætt eftir bestu getu að engin óhöpp hentu bömin. Nú fóru í hönd þeir tímar að ýmsar framfarir og þægindi komu út um land. Vegir voru lagðir og bílar komu til sögunnar. Brú kom á Merkigilsána. Hafði Jóhannes barist fyrir því ásamt öðrum bændum í Ákrahreppi að fá þá vegabót. Það var árið 1939. Sími kom í Merkigil árið 1942. Á þessum árum fór af- koma batnandi. Búið var orðið all- stórt og afurðagott. Eldri dæturnar gátu hjálpað til. Monika hafði oft verið talsvert lasin, með magasár og stundum slæm í nýrum en var með frískasta móti eftir að Skarphéðinn fæddist. Veröldin virtist brosa við fjölskyldunni á Merkigili. En einmitt þá fór að draga blikur á loft. Jóhann- es, sem alltaf hafði verið heilsu- hraustur, fór að fá verkjaköst í maga. Hann vildi sem minnst láta á því bera. Skömmu eftir nýjár 1944 fór hann til læknis með þeim fasta ásetningi að reyna allt, sem hægt væri til að fá heilsubót. Er skemmst frá því að segja að eftir vandlegar rannsóknir margra lækna, var gerður á honum uppskurður á Landspítal- anum um miðjan mars. Monika hringdi daginn eftir að spyrja um líðan hans og var þá sagt á spítalan- um að einskis bata væri að vænta. Moniku brá mjög. Næstu nætur var lítið um svefn. Hún fann að ekkert nema Guðs miskunn gat hjálpað. Hugurinn var bundinn við það ómögulega, bata og líf. Hún gat ekki strax öðlast styrk frá Guði. Síðar fannst henni að betra hefði verið að vita að hverju dró, þó að dánarfregn- in kæmi henni á óvart. Hún hélt að hún ætti eftir að tala við hann og geta ráðfært sig um eitthvað, eða bara kvatt hann. Von var á barni hjá Moniku, og var hún mikið lasin. Kom Ingibjörg á Skatastöðum og var lengi hjá henni. Þann 8. apríl fæddist dóttir. Jóhannes hafði oft skrifað heim og ætíð eins og hann væri viss um bata. Nú héldu honum engin bönd. Hann skrifaði: „Ég vil komast heim til þín, ég veit að þú hefur einhver ráð eins og vant er.“ Þann 24. apríl kom. Jóhannes með flugvél í sjúkrakörfu

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.