Tíminn - 09.10.1990, Blaðsíða 14

Tíminn - 09.10.1990, Blaðsíða 14
14 Timinn Þriðjudagur 9. október 1990 ÁRNAÐ HEILLA Attræður: Halldór Finnur Klemensson bóndi á Dýrastöðum „Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi, því skal hann virður vel. “ (Jónas Hallgrímsson) Þessi orð listaskáldsins góða vildi ég gjarnan gera að mínum, einkanlega á þessum degi, og fínnst þau raunar engan eiga betur við en föður minn, Halldór á Dýrastöðum, sem nú er allt í einu orðinn áttræður maður, eiginlega án þess maður tæki eftir því að hann eltist. Svo stutt finnst mér umliðið, síðan ég var smá- krakki, sem elti hann eftir mætti, bæði úti og inni á æskuheimili mínu. Mér fannst óhugsandi að hann pabbi yrði nokkurntíma gam- all. Enginn er eldri en honum finnst hann vera, segir máltækið, og þeir sem eru ungir í anda og unna lífinu í kringum sig, eins og hann, eru nærtækt dæmi um sannindi þess. Faðir minn fæddist á Dýrastöðum 9. október 1910, og þar hefur hann alið allan sinn aldur. Afi og amma, Klemens Jónsson frá Neðri-Hunda- dal í Miðdölum og Kristín Þorvarð- ardóttir frá Leikskálum í Haukadal, komu suður í Norðurárdal 1908 vestan úr Dölum, þar sem erfitt var orðið að fá jarðnæði, og margir Dalamenn gerðust Borgfirðingar af þeim sökum. Börn þeirra urðu 5 talsins. Elstur var Finnur, bóndi á Hóli í Norðurár- dal, sem þau komu með ungbarn að vestan. Hann lést á síðasta ári. Þá er Ásgerður, sem lengi hefur búið í Reykjavík og unnið ýmis störf, Hall- dór faðir minn, Kristinn Þorvarður, sem langa ævi hefur fengist við smíðar og allt leikur í höndunum á, og yngst er Guðrún, sem einnig hef- ur búið í Reykjavík um árabil. Öll áttu þessi systkin góðar gáfur, sem þó var ekkert verið að flíka í tíma og ótíma. Einnig voru þau og eru dugnaðarfólk hið mesta, enda þurfti þess með. Dýrastaðasystkinin unnu heimili foreldra sinna fram á full- orðinsár, svo sem alsiða var til sveita, meðan mannshöndin innti af höndum alla þá vinnu, sem nú er unnin með vélarafli og þróuðum tækjabúnaði. Börnin okkar horfa á okkur stóreygð og spyrja: Varst þú til í gamla daga, mamma? þegar rifj- aðar eru upp minningar um þessa horfnu búskaparhætti. Þeim þykir eflaust við vera mestu forngripir, sem munum tíma tvenna í þessum skilningi. í þá daga var heyskapur iðulega sóttur upp til fjalla og ómælt erfiði á sig lagt að ná saman þeim heyfeng, sem þurfti fyrir búsmalann. Faðir minn mun fljótt hafa gert sér grein fyrir því, að framtíðin bjó í ræktun og stækkun túns og engja. Hann stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri í tvo vetur og lauk þaðan búfræðiprófi 1936. Það veganesti varð honum giftudrjúgt, og stuðlaði að velgengni í því lífsstarfi, sem hann kaus sér. Ekki lagði hann stund á frekara nám, þótt hann hefði áreiðanlega staðið sig vel við það. Sérstaklega hafði hann og hefur enn mikinn áhuga á grasafræði og grein- ingu plantna. Ef ekki var verið í hey- skap á sunnudögum, gaf hann sér alltaf tíma til að fara með okkur systkinin í göngutúr, eins og við kölluðum það. Þá var hann óþreyt- andi að fræða okkur og kenna um allt það úr náttúrunnar ríki, sem á vegi varð. Þetta mat hann meira en að hvfia sig eftir erfiði vikunnar, þótt svo sannarlega væri honum ekki vanþörf á því, og fyrir þessar sunnu- dagsferðir á ég honum ósegjanlega margt að þakka og bý að þeim enn. Eftir andlát föðurömmu minnar 1946 brá afi minn búi, pabbi keypti Dýrastaðina og hóf búskap. Ekki er nú gott að maðurinn sé einn, og ungi bóndinn réð til sín ráðskonu úr Reykjavík. Ráðskonan flentist, það var hún móðir mín, Áslaug Þorsteinsdóttir, sem nú var komin til sögunnar, og víst er um það að hennar starf var mikið, eins og margar bóndakonur í sveit hafa á sjálfum sér reynt. Hún hafði með sér drengi sína tvo, hálf- bræður mína, og eftir því sem fram liðu stundir, fjölgaði börnunum. Við erum fjögur alsystkini á lífi, en eina dóttur misstu þau mjög unga. Það var og er okkur öllum sárt, sem hana munum, enda þótt vitað væri að henni var ekki lífvænt. í hennar tilfelli var ekki hægt að hjálpa þá, þótt núna sé læknisfræðin komin lengra, sem betur fer. Að öðru leyti skiptust á skin og skúrir í lífi for- eldra minna, eins og gengur, en því fer nú betur, að manneskjunni er gefið að geta gleymt því, sem miður fer en muna hitt. Ég á margar myndir af pabba í hug- skoti mínu. Ein er t.d. af honum að slá með hestasláttuvél og tveim hestum fyrir. Hrossagauksungar eru að vappa í óslægjunni. Hann stöðvar hestana og lætur mig bjarga greyj- unum undan fótum þeirra. Þá eru ótaldar allar stundirnar, sem við átt- um saman við lambféð um sauð- burðinn og hann var ótrúlega hand- laginn, þótt handstór væri með af- brigðum, að koma lambi á spena og hlúa að þessu nýfædda lífi og móð- urinni. Einu dagarnir, sem ég man eftir að væru dálítið „stressandi", eins og nútíminn ber sér í munn, voru dag- ar smalamennsku og aftekningar eða réttadagar á haustin. Þá var nú einboðið að standa sig í stykkinu, því þetta voru einu dagarnir sem annars dagfarsprúðir menn gátu orðið alvitlausir, og það eiginlega út af engu. Núna er nýliðinn leitardagur, svo bjartur og fagur að ekki er hægt að hugsa sér betra veður til þess arna, þótt pantað hefði verið með fyrir- vara hjá himnaföðurnum. Ég varð vitni að því, að pabbi, sem nú er að sjálfsögðu hættur að hlaupa upp í Sátudal, eins og hann átti svo létt með áður fyrr, óskaði sér þess heit- ast að vera kominn upp á fjall að smala. Hann átti líka eðlilega skýr- ingu á því að leitarmönnum seink- aði fram úr hófi. Veðrið væri svo gott og loftið tært, að smalarnir fengju sig ekki til að yfirgefa afrétt- inn, sagði hann og fannst ekkert í heimi eðlilegra en það. Núna er rúmur áratugur liðinn síð- an foreldrar mfnir hættu búskap og bróðir minn og mágkona tóku við. Er til meiri lífsgæfa en sú að sjá af- komendur sína halda áfram af mikl- um myndarskap því verki, sem mað- ur hefúr lagt í alla krafta sína og aila sál sína? Mér finnst að Halldór á Dýrastöð- um hafi verið fæddur til að verða bóndi, og öllu kviku leið vel í hönd- um hans og umsjá. Það er gæfa að eiga hann að föður, og ekki er hon- um síður sýnt um að hæna að sér börn bæði skyld og óskyld. Barna- börnin geta nú best borið um það, hve alltaf var gott fyrir lítinn anga að koma til ömmu og afa, fá að sofa í „millinu“ og heyra sögu, sem hann er ólatur við að láta eftir afkomend- um sínum. Enn minnist ég gamalla daga, þegar þetta er skrifað. Á kvöld- in áður fyrr var það vandi hans að lesa upphátt fyrir okkur ljóð og láta okkur velja, efst til vinstri eða neðst til hægri og alltaf var spennandi að vita, hvaða stað maður lenti á. Síðari árin hefur hann dálítið lagst í ferðalög, ef hægt er að segja sem svo um mann, sem aldrei gaf sér tóm frá störfum sínum til þess arna. Það er heilt ævintýri að ferðast um okkar fagra land með svona full- orðnum manni, og finna þann lif- andi áhuga, sem hann hefur á öllu, sem fyrir augu ber. Því miður hefur móðir mín ekki getað fylgst með honum sakir heilsubrests, en hann ferðast þá aftur í huganum sömu leiðir heimkominn með hjálp korta og handbóka, og þá nýtur hún góðs af. Þann skugga ber nú á þessi merku tímamót að móðir mín liggur á sjúkrahúsi og gerir að verkum að hann ætlar að dvelja að heiman á af- mælisdaginn. Góði pabbi minn. Við óskum þér hjartanlega til hamingju með dag- inn og þökkum þér alla góðu sam- veruna og allt sem þú hefur gefið okkur af sjálfum þér með því að vera sá sem þú ert. Guð gefi mömmu bata og ykkur báðum alla daga góða. í nafni barna ykkar, tengdabarna og barnabarna. Kristín. MINNING Sigurðsson frá Stóra-Fjarðarhorni Jón Fæddur 9. ágúst 1899 Dáinn 23. ágúst 1990 Þegar mér barst fréttin um að Jón Sigurðsson frá Stóra-Fjarðarhorni væri látinn kom hún að vísu ekki á óvart, en þáttaskil gera það að verk- um að maður rifjar upp liðna tíð og atburði. Jón Sigurðsson andaðist þann 23. ágúst 1990 á Heilsuvernd- arstöðinni við Barónsstíg, en þar hafði hann dvalist um nokkurra mánaða skeið. Jón Sigurðsson fæddist 9. ágúst 1899 að Bessastöðum í Hrútafirði. Fluttist með foreldrum sínum, þeim Sigurði Þórðarsyni og Kristínu Ingi- björgu Kristjánsdóttur, að Stóra- Fjarðarhorni árið 1903 er þau hófu búskap þar. Jón ólst upp í föðurhús- unum ásamt sjö systkinum sínum og uppeldissystur. Ekki mun hafa verið mikið um skólagöngu að ræða, varð vinnan að ganga fyrir öllu, enda var bókvitið ekki í askana látið. En hvað um það, í Stóra-Fjarðarhorni Iærðu allir að lesa, skrifa, reikna og ríflega það. Þegar frístund gafst frá vinnu eða leik var tekin bók í hönd og lesin, enda var Sigurður faðir Jóns mjög bókhneigður maður og hélt bókinni að börnum sínum. Árið 1933 hóf Jón búskap í Stóra- Fjarðarhorni á móti Sigríði systur sinni ogAlfreði Halldórssyni, manni hennar. Jón var talinn af sínum samtíðarmönnum góður bóndi. Ávallt átti hann úrvals sauðfé og var glöggur á hvernig mætti rækta það bæði með tilliti til frjósemi og af- urða, enda var hann fljótur að koma sér upp fallegum bústofni eftir að allt fé var skorið niður vegna mæði- veiki. Sömu sögu var einnig hægt að segja þegar hann stundaði refarækt sem aukabúgrein, ávallt átti hann fallega og arðsama silfurrefi. Hvað viðkom ræktunarmálum á jörð sinni gerði hann stórar umbæt- ur, þurrkaði flóa, girti og ræktaði tún. Vélvæðing í sveitum var ekki þekkt á fyrstu búskaparárunum, en um leið og slíkar vélar voru fluttar til landsins var Jón fljótur að tileinka sér nýjustu tækni. Dráttarvél var keypt, sláttuvél, plógur, herfi o.fl. Mun það hafa verið fyrsta dráttarvél- in í sveitinni og reyndar á stóru svæði. Var svo um nokkurra ára skeið. En Jón hafði í fleiru að snúast en búskap. Félagsmálastörf tóku einnig sinn tíma, svo sem stofnun ung- mennafélags, hreppsnefndarstörf, sýslunefnd, stjórn Kaupfélags Stein- grímsfjarðar, stjórn búnaðarsam- bandsins auk margra annarra nefnda- og félagsstarfa. í mörgum þessara félaga og nefnda gegndi hann formennsku. Öll þessi störf rækti Jón af mikilli trúmennsku og festu. Þegar minnst er á félagsstörf Jóns má ekki gleyma störfum hans innan Framsóknarflokksins. Hann var ávallt traustur baráttumaður fyrir málefnum þess flokks og gekk vel fram í því að Hermann Jónasson bauð sig fram til alþingiskosninga í Strandasýslu árið 1934 og stuðlaði að því með ráðum og dáð að Her- mann var kosinn þingmaður Strandasýslu og síðar þingmaður Vestfjarðakjördæmis eftir kjör- dæmabreytinguna. Mjög var gestkvæmt á heimili Jóns og Maríu Samúelsdóttur í Stóra- Fjarðarhorni. Margt kom til að margir sóttu þau heim, bærinn í þjóðbraut, gestrisni mikil. Sagt var að Jón hefði aldrei haft svo mikið að gera við búskapinn að ekki gæfist tími til að sinna góðum gesti. Börn Jóns og Maríu eru fimm: Gísli og Jónas, búsettir í Reykjavík. Sig- urrós búsett á Akureyri. Sigurður býr í Stóra-Fjarðarhorni, og Sigríð- ur býr á Kollafjarðarnesi. Fanney, sem Jón átti áður með Sólveigu Andrésdóttur, búsett í Reykjavík. Öll eru börnin gift og er afkomendahóp- urinn orðinn all stór. Jón og María brugðu búi árið 1975, fluttu til Reykjavíkur og bjuggu þar í Hraunbæ 182. Kom sér nú vel fyrir Jón að vera vel kunnugur í Reykja- vík frá fyrri tíð, enda fór hann allra sinna ferða um borgina, einnig mörg ár eftir að hann varð fyrir því óhappi að verða fyrir bfl og slasast á höfði er leiddi til þess að heyrnin var verulega skert sem hindraði hann í að taka þátt í umræðum þar sem margir voru saman komnir. En ekki heyrðist Jón kvarta undan sínu hlutskifti, það hafði hann aldrei gert og það var svo sem ekki heldur þörf á því nú. Þegar ég nú kveð Jón frænda þá eru margar góðar minningar sem sækja á. Þeirra verður ekki allra getið hér, en minningin lifir um stórbrotinn bónda, bókelskan og vel lesinn bónda sem hafði tíma til að sinna fé- lagsmálum auk annarra embættis- verka sem honum voru falin. Mann sem var eðlilegt að stjórna og hafa forráð. Um leið og ég þakka þér, Jón, fyrir allt gott á mínum uppvaxtarárum, vil ég votta þér, María, mína dýpstu samúð, svo og öllum aðstandend- um. Jón var jarðsettur að Kollafjarðar- nesi 1. september að viðstöddu fjöl- menni. Til sölu Eigum fyrirliggjandi notaðar dráttarvélar. CASE 1594 árg. 1986 4x4 CASE 1394 árg. 1985 4x4 CASE 1394 árg. 1985 4x4 m/ámoksturst. FORD 3000 árg. 1980 2x4 MF 575 árg. 1978 2x4 MF 265 árg. 1983 2x4 I.H. 444 árg. 1977 2x4 m/ámoksturst. mwm&. Járnhálsi 2 Sími 83266 110 Rvk. Pósthólf 10180 Páll Hjartarson.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.