Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Side 5

Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Side 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. mars 2006 | 5 með blóðugar rætur svífandi í fallhlíf milli himins og hafs! Ég er svo heppinn að vera skyldur Hannesi, gat því gengið á hans fund eftir að hann var lentur með sínar blóðugu rætur. Hannes, sem hafði sáralítið fylgst með íslenskum skáldskap, sagði mér að hann hefði farið niður á skrifstofu Rithöfundasambandsins, þar réði ríkjum ein- hver Sigurður Pálsson, „hann er víst skáld“ bætti Hannes við og horfði spyrjandi á mig. Næst þegar ég heimsótti Hannes hafði ég með mér nokkrar af helstu ljóðabókum níunda ára- tugarins, meðal annars eftir Sigurð þennan Pálsson svo Hannes gæti séð að Sigurður væri sannarlega skáld. En það var þó Gyrðir sem fangaði höfund Dymbilvöku, hann las Mar- íuglerið og Blindfuglinn, varð svo hrifinn að hann fór beinustu leið út í búð og keypti báðar bækurnar, hann sem aldrei keypti bækur, og það voru líklega síðustu eintökin af frumútgáf- unni, nú löngu uppurin, en bækurnar voru endurútgefnar saman, ásamt Svarthvítum axlaböndum, undir heitinu Haugrof. Hannes talaði um tök Gyrðis á tungumáli og formi, sagðist ekki hafa ekki séð neitt í líkingu við það síðan Hannes Pétursson kom fram á sjötta áratugnum, það eru svona skáld sem lyfta ljóð- inu upp fyrir okkur hin, sagði hann af hógværð sinni, en svo glaður, eins og maður sem hefur fundið fjársjóð. Og það skemmdi sjálfsagt ekki fyrir að Gyrðir kinkar kolli til Hannesar í upp- hafslínum Blindfuglsins: „Rósemi get ég ekki miðlað,“ og vísar þar til upphafs Dymbilvöku: „Ég sem fæ ekki sofið.“ En hér er ekki bara um virðingarvott að ræða, það ristir dýpra en svo, upphafslínurnar eru lýsingar á ólíkum tímum, ólíkum tíðaranda. Hannes sem gat ekki sofið vegna skáldskaparins, ástandsins í veröldinni, stjórnmála og kjarnorkuvárinnar, en Gyrðir getur ekki miðlað rósemi vegna skáldskaparins og rótleysis tímans. Báðir bálkarnir eru viðbragð við samtíma þeirra, endurspegla það andrúm sem ríkti. Naflaskoð- un, sögðu þeir napurlega sem var uppsigað við aðferð Gyrðis, alveg búnir að gleyma því að hjá góðu skáldi verður sjálfsskoðun að heims- skoðun, það fangar tímann sem umlykur það; samtíminn festist á límbornu veggina sem ort er um í upphafi Blindfuglsins. Dymbilvaka og Blindfuglinn, nær fjörutíu ár á milli bókanna, það gerist talsvert á svo löngum tíma, hér eru líka ólík verk á ferðinni, en bæði skáldin leitast við að koma orðum að óróleikanum innra með sér, og beita einhvers konar órökvísi, hugsunin slitnar á milli erinda, jafnvel lína, og þannig tekst þeim ósjaldan að veiða í net sín það óræða sem býr í okkur. Í báðum bálkunum eru ákveðin stef endurtekin og eftirminnilegar línur rísa upp og festast í minninu, hrynjandin og svimandi falleg ljóð- rænan hjá Hannesi, frumlegt myndmál og hnitmiðaðar lýsingar Gyrðis: sandpokar haldlitlir gegn ógnvekjandi framrás þungvopnaðra daga Eða: Kvíðinn dregur úr mér allan mátt, og þegar ég geng að ferðaritvélinni og kveiki á lampanum, finnst mér sem hendurnar fálmi um rennandi vatn Það er óvíða heimsendastemning í Blind- fuglinum, bæði persónuleg heimsslit Gyrðis, myrkrið sem getur orðið til innra með hverri manneskju og breytt dögum og nóttum í fang- elsisvist, og síðan stóru heimslokin, fiskar grafa um sig í svartri botnleðjunni, eldstormur breytir húsum í rústir. Óttinn við heimsslit er jafngamall vitund mannsins, um það vitna goð- sögur trúarbragða, og eitt af einkennum góðra kvæða er það að nýir tímar lesa nýja merkingu í orðin, og þannig virðist því farið með heims- lokastemningu Blindfuglsins. Þessa dagana vekur hún hugrenningar um gróðurhúsaáhrif, jafnvel fuglaflensu, mörgum árum áður en það rataði á síður dagblaða. En hugurinn reikar víða við lestur bálksins, skáldskapurinn kveik- ir sífellt nýjar myndir í höfðinu; bók sem er dregin undan rúminu er svo þaullesin að letrið hefur máðst, minnir á legstein í „vallgrónum kirkjugarði“, og þetta orð, vallgróinn, ber með sér blæ genginna tíma. Það mætti tína fleiri slík orð til, orð sem virðast einhvern veginn ættuð innan úr sjálfum kjarna málsins, mergnum, orð sem eru okkur – alin upp við „ærandi yfirleik mjölfiðlanna“, eins og Ísak orðar það í Veggfóðruðum óendanleika – ekki ýkja töm, en gefa skáldskap Gyrðis hlýjan blæ, vega upp á móti uggnum, maður sér fyrir sér vinaleg amboð liðins tíma, og kannski er allra best þegar vísanir í yngri fyrirbæri eru í ná- munda við svona orð, í hryllingsmyndir eða þá myndir meistara á borð við Bergman og Tar- kovskí: … legsteinn í vallgrónum kirkjugarði farinn að kvarnast og molna og puntstrá strjúka honum varfærnislega í golunni þar til kirkjudyrnar opnast með marri Þau tilheyra lífinu á bak við lífið Það ríkti talsverð eftirvænting, segi ekki í þjóðfélaginu en í það minnsta meðal bók- menntafólks, þegar Gyrðir sendi frá sér Tvö tungl árið 1989, þremur árum eftir útkomu Blindfuglsins. Þrjú ljóðalaus ár, það er langur tími hjá jafn afkastamiklum höfundi, sem hafði þó ekki slæpst á meðan með hendur í vösum, heldur sent frá sér tvær prósabækur, Gang- andi íkorna og Bréfbátarigninguna, og það er eins og einhver sagði; hvor um sig dugar til að halda nafni hans á lofti. En Tvö tungl er mikil að vöxtum, rúmlega 100 ljóða bók, og breyt- ingin talsverð frá dimmum mælanda Blind- fuglsins, ljóðin opnari, ósjaldan bjartari og kímnin lúrir víða: Auðvitað voru augun í Glámi gamla nokkuð mögnuð en ég fann gleraugu í spaugbúð um daginn sem fara langt með að gera þau brjóstumkennanleg og ég held að Grettir hefði hopp- að fram af í Drangey hefði ég til dæmis gægst upp fyrir bjargbrún um nótt og hann að pissa í grandaleysi 150 metra niður rétt hjá geispandi Það er kannski vitlaust en samt ekki alvit- laust að segja sem svo að Tvö tungl sé meira í ætt við Tvíbreitt (svig)rúm en Maríuglerið og Blindfuglinn. Skáldskapurinn agaðri, meitl- aðri í Tveimur tunglum, en það er mikil ákefð í báðum bókunum, ljóðin streyma, þau flæða, og maður skynjar gleði skáldsins við að yrkja, bílar glápa út í myrkrið eins og drukknir flóð- hestar, pínulítill draugur undir mexíkönskum hatti hleypur skrækjandi til fjalls, það eru ærsl, undarlegt eða þá undravert sambland af hversdagsleika og furðum, en þarna er líka myrkur, líka endalok, en jafnvel þau hafa ekki yfir sér þann dimma, þann niðdimma blæ sem við höfðum kynnst í kvæðum Gyrðis: Gluggi að fuglavatni, sæmilegasta herbergi, og kaffistofa við aðalveginn ekki langt í í burtu. Ég geng áleiðis þangað, stytti mér leið gegnum hraunið og dett ofan í gjótu. Það er franskur ferðamaður sem finnur mig þar, sumarið eftir. En það er svo margt í þokunni býr, ég þori ei einn að ríða, segir í þjóðkvæðinu: „Misjöfn dýr mjög um skóginn skríða.“ Furðudýr og dularfullar verur komu snemma við sögu í skáldskap Gyrðis, en í Tveimur tunglum má segja að tími þeirra renni upp, og þau eru á vappi í ljóðum hans og sögum næstu árin. Sumir hafa undrast og sett út á þessar verur, því hvaðan koma þær og hvað gera þær, hvernig, til að mynda, hjálpa þær okkur að lifa, þreyja dagana, þola nóttina? Okkur hættir til að þrengja lífið. Fækka víddum. Tilveran er víðfeðm og rík af furðum þegar við erum börn, síðan deyja tröllin, Tarsan verður að lofti, Lína og Bob Moran að skáldskap, og við förum að nota orð eins og barnaskapur yfir fávísi. Þó skrifaði frægur hugsuður einu sinni, og til þess ósjaldan vitnað: „Sá listamaður sem hættir aldrei að skynja sem barn, sér heiminn eins og hann er í raun og veru.“ Fremst í Maríuglerinu er vitnað í ljóð eftir Geirlaug Magnússon: „Sendi hraðskeyti/ frá svefni til vöku“, og ef ég ætti að staðsetja skáldskap Gyrðis frá og með þeirri bók, nátt- úrlega út í hött að gera eitthvað í þá veru, háskaleg einföldun, þá myndi ég nefna stund- ina milli svefns og vöku. Þessa stund sem er næstum ekki til en tengir samt saman þá tvo heima sem rúma alla okkar tilveru, svefn og vöku. Á þessum andartökum greinum við tæp- lega mun á draumi og veruleika, jafnvel ekki lífi og dauða, vitundin er fljótandi, og þarna myndi ég staðsetja ljóð Gyrðis. En mér verður líka hugsað til bernskunnar, tímabils sakleys- is, ógna og skrímsla. Sjálfsagt er hægt að lesa kynjadýr Gyrðis sem tákn fyrir eitthvað, en þau geta líka einfaldlega staðið fyrir það sem þau eru, verur sem sveima ósýnilegar í kring- um okkur þar til einhver nær að veiða þau í orð sín, eins og Gyrðir, eða fanga í liti eða tré- ristuna eins og feðgarnir Elías B. Halldórsson og Sigurlaugur Elíasson, nú eða Mogen Zieler, hinn rammdanski eins og Gyrðir kallar hann í ljóði sem hann yrkir til málarans. Af hverju kynjadýr? Það mætti líka spyrja, af hverju sækjumst við í ævintýrin, og þjóðsögur þeirrar ættar sem eru vel á skjön við raunsæið, rök- hyggjuna, vísindin? Þráum við einhvers staðar inni í okkur að heimurinn búi yfir fleiri víddum en við þekkjum, því þá getum við hugsanlega haldið lengur í vonina um líf eftir þetta líf, að það sé einhver glóra með tilvistinni, jafnvel heilagar tilgangur? Heimur barna er stærri en okkar, hann er í fleiri víddum, svo líða árin, við verðum fullorðið, víddunum fækkar, mögu- leikum lífsins fækkar og lífið verður kannski steintré, en þráin eftir hinu óskiljanlega, leyndardómsfulla, er jafnsterk og áður – ég veit ekki hvort kynjadýr Gyrðis séu vaxin af þessari þrá, en mig grunar að þetta sé allavega hluti af þeirri skýringu hvers vegna við, eða sum okkar, hrífumst af þessum kvikindum. Því þau tilheyra lífinu á bak við lífið. Breytir dauðakistu í ferðakoffort Ég geri ráð fyrir að sú von að máttur jurta, steina og gamalla orða geti hjálpað okkur til að lifa, og lifa af, sé sprottin af örvæntingu, og lík- ast til djúpri. Hver hefur ekki einhvern tíma þráð að breyta einhverju, atviki, minningu eða sjálfum örlögunum með þulu, töfrastaf? Þetta er ein elsta og jafnvel átakanlegasta þrá mannsins, Gyrðir fjallar ósjaldan um þessa von, og það er talsverð angurværð í þeim kvæðum, jafnvel þótt hlýju stafi af sjálfum orðunum: Þar er myndin af góða níræða steinkallinum, hann situr í vaðmáls- slopp við borð og mikill ópall fyrir framan hann á dúknum hjá kaffibollanum. Hann veit að það býr afl í þessum steini til að breyta stríði í frið, myrkri í ljós, mold í blóm, þögn í tal og dauðans kistu í ferðakoffort Við erum stödd í ljóðabók frá árinu 1993, Mold í skuggadal, skrímslum, draugum og fjörulöllum hefur fækkað, húmorinn tíma- bundið færst neðar, af yfirborðinu og svamlar í kafi. Og það hefur orðið breyting á stemningu, og raunar formi líka, ljóðin eru einfaldari, og oft dimmari. Mold í skuggadal og Vetraráform um sumarferðalag komu út á árunum 1991 og 1992, og það eru góðar bækur. Gyrðir fágar stílinn, heldur áfram að gernýta umhverfi sitt, sér yrkisefni í öllu, allar stundir verða að ljóði, öll atvik, börn að leik, urrandi hundur, hallandi girðingarstaur, kónguló að erfiða upp stein, ósjaldan atvik sem við tökum ekki eftir, svo hversdagsleg að það þarf næmi og frjóa hugs- un til að sjá skáldskapinn í þeim; Gyrðir er eitt þeirra skálda sem gera hið smáa stórt og veita okkur þannig nýja sýn á umhverfið, á þessa daga sem líða. Ég er hins vegar ekki frá því að síðustu fjórar ljóðabækur hans, Indíánasumar, kom út 1996, Hugarfjallið, Tvífundnaland og loks Upplitað myrkur, sem kom út í fyrra, taki öðrum bókum hans fram, sem er náttúrlega ekki lítið. Það er eitthvað nýtt í þeim, einhver silfurþráður, afar tær ljóðræna, lituð sárs- auka, lágstemmdum húmor, kvíða, og jafnvel ádeilu sem verður hnitmiðaðri með hverri bók. Kannski markaði Indíánasumar viss skil í kveðskap Gyrðis, frá og með henni er eins og hann færist nær daglegu lífi í ljóðum sínum, og þau verða enn persónulegri og nákomnari les- endum. Gyrðir yrkir mikið af ljóðum, þau eru mis- góð, það segir sig sjálft, sum bara hvorki né, en fjandinn hafi það, hin eru allnokkru fleiri sem eru góð eða stórgóð, ég nefni ljóðið í upp- hafi greinarinnar, Kuldinn er bara yfirborð, sem er jafnframt prýðisdæmi um það sem er alveg nýtt í skáldskap Gyrðis, ég kann ekki orðið yfir það en nefni líka titilljóð Tvífundna- lands í því samhengi. Það þykir annars ekki fín latína hér á landi að tala um áhrifavalda í skáldskap, við viljum trúa því að skáld séu sjálfsprottin. Gyrðir er persónulegt og frum- legt skáld, og þegar ég tala um hugsanlega áhrifavalda á ég við skáld sem hafa hjálpað honum að finna sinn heim. Hannes Sigfússon er eitt þessara skálda, og E.E. Cummings framan af, síðan James Wright, sem Gyrðir hefur þýtt, og Grikkinn Yannis Ritsos kemur einstaka sinnum upp í hugann við lestur á Maríuglerinu og Blindfuglinum, einhver and- blær eða þá notkun Ritsos á þriðjupersónu- fornafninu hann. Svo mætti nefna kínversku fornskáldin, sem Wright sótti líka sitthvað til. Þessi upptalning segir annars fjári lítið, fálm- kennd tilraun af minni hálfu; en hvað með Hannes Pétursson? Er ekki þráður á milli hans og Gyrðis, skyldleiki eða áhrif, ég hef ekki hugmynd um hvort er, en jafn ólíkir og þeir eru þykist ég stundum greina einhverja innri hugsum í ljóðum þeirra sem tengir þá saman. Eða er það uppruninn sem ég finn fyr- ir, Skagafjörðurinn, Sauðárkrókur? Saga er til af erlendum málara sem hafði hugsað sér að mála í Skagafirðinum, hann fór upp í fjallshlíð, stillti upp trönum og ætlaði að byrja, en það varð aldrei neitt úr, hann stóð þarna hreyfing- arlaus í nokkra klukkutíma, pakkaði síðan saman og gaf þá skýringu að hann réði einfald- lega ekki við birtuna, þessa einstöku birtu sem er í eða yfir Skagafirðinum. Skáld eru næm, og getur ekki verið að þessi birta sem málarinn gafst upp fyrir hafi á æsku- og mótunar- árunum sytrað inn, andað á skynjun skáld- anna tveggja, og síðan leitað út í skáldskap þeirra? Eins konar niðurlag Það eru sterkar andstæður í kvæðum Gyrðis, við getum til bráðabirgða kallað þær birtu og myrkur, sjálfir höfuðpólar lífsins. Við berum öll þessar andstæður innra með okkur, og verðum vör við þær á hverjum degi, mismikið að vísu eftir einstaklingum, en hjá sumum, eins og Gyrði, virðast andstæðurnar á stund- um svo miklar að tilveran svignar og hótar að gefa sig. Þegar verst lætur er nánast svart- nætti í ljóðunum, þó oftar hálfmyrkur eða þok- an svo þétt að heimurinn virðist týndur, það kemur enginn, himinninn níðþung blýhella, en svo missir einhver blekbyttu á gólfið, blekið ýrist um alla veggi, lekur svo niður, myndar ólæsilega skrift, eins og einhver hafi ætlað sér að senda óendanleikanum bréf; daginn eftir skín sólin inn um gluggann, og hún les: Þetta reynist vera ástarbréf Gyrðir trúir á lífið, skrifar það líka stundum til áréttingar með stórum staf, hann trúir því eða þá vonar, það er stundum ekki nema þunn himna þarna á milli, að lífið sé sjálfur tilgang- urinn og þess vegna heilagt. Þetta virðist nær óbilandi trú, þrátt fyrir að myrkrið og von- leysið smjúgi inn um allar rifur. Gyrðir er því skáld lífsins, skáld örvæntingar og kvíða, skáld togstreitunnar. Hvernig er hægt að lifa, spyr hann, og svarar; með birtu að innan sem breytir gráu í sólgult. Hann bætir síðan við; það tekur margar nætur að finna þessa birtu. En ég ætla ekki að reyna að lýsa þessu frek- ar, ekki skáldskapnum, ekki lífinu, ekki and- stæðunum – gjöfulli togstreitunni; það síðasta sem ég hugsa núna er eitthvað um starana sem sitja í röð á gráa grindverkinu, framan við gráa húsið í þokunni: Þeir hefja sig til flugs Upp úr þokunni, á svörtum vængjum inn í ljósið Höfundur er rithöfundur Morgunblaðið/Einar Falur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.