Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Blaðsíða 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. mars 2006 | 11 Ádögunum var haldið misheppnað mál-þing á vegum Leiklistarsambands Ís-lands og Fræðsludeildar Þjóðleik-hússins um hlutverk leikhússins í umræðu líðandi stundar. Yfirskriftin var Hvað kemur þetta okkur við? Málþingið var misheppnað að því leyti að enginn mætti og með hæfilegum hálfkæringi má segja að leikhúsfólk hafi svarað ofan- greindri spurningu með fjar- veru sinni. Það er þó alls ekki sanngjarnt að draga þessa ályktun því leikhúsfólk hefur með þátttöku sinni í stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu af ýmsu tagi sýnt að það telur að hvaðeina í umræðunni komi því sannarlega við. Það má hins vegar velta því fyrir sér á hvaða hátt leikhúsið er best fallið til að taka þátt í umræðum um málefni líðandi stundar; leiksýn- ing með öllum þeim umbúnaði sem hún út- heimtir er jafnvel fullþunglamalegur miðill og seinn í svifum fyrir innlegg af því tagi. Vilji leikhúsfólk leggja eitthvað til málanna í dæg- urumræðuna er einfaldlega fljótlegra og áhrifa- ríkara að tjá sig beint og segja sína persónu- legu skoðun umbúðalaust fremur en klæða hana í listrænan búning með táknrænu yfirbragði og ætlast til að þess að áhorfandinn lesi skilaboðin óbeint af vörum leikhússins. Vandinn er nefni- lega sá að ef skilaboðin eru of beinskeytt verð- ur umgjörðin áróðurskennd og slíkt leikhús á ekki upp á pallborðið í dag. Styrkur leikhússins liggur hins vegar í því að fjalla um siðferðilegar og pólitískar spurningar utan hins dagbundna samhengis; tengja þær spurningar við persónulega reynslu og/eða að- stæður sem hægt er að sviðsetja og áhorfand- inn getur dregið sínar sjálfstæðu ályktanir af. Á hinn bóginn er ljóst að leiksýningar eru al- mennt of ragar við að ögra áhorfendum eða þá að þær ögra þeim á einhvern þann hátt að skiptir engu máli. Enn verra er þó ef leikhúsið þykist ögra og gefur sig út fyrir að vera djarf- ara en það í rauninni er. Dæmi um slíkt er að finna í sýningu Þjóðleikhússins á Túskild- ingsóperunni þar sem hæðst er að markaðs- hyggju samfélagsins með því að ramma öll at- riði sýningarinnar inn í vörumerki helstu stórfyrirtækja landsins. Þetta er snjöll hug- mynd og áhrifarík en verður máttlaus þegar vitað er að leitað var samþykkis fyrirtækjanna áður en sýningin var frumsýnd. Með þessu verður sýningin einfaldlega hluti af markaðs- samfélaginu, hluti af ímyndarsköpun fyrirtækj- anna sem áttu í raun síðasta orðið. Þarna af- hjúpar Þjóðleikhúsið kjarkleysi sitt til að taka fullkomlega sjálfstæða og gagnrýna afstöðu til þess samfélags sem það fjallar um. Sýningin Mindcamp sem sýnd var í Hafn- arfjarðarleikhúsinu á dögunum og hlaut þá óverðskulduðu umsögn eins gagnrýnanda að vera „ekki leikhús“ er ein athyglisverðasta til- raun íslensks leikhúsfólks í langan tíma til að fjalla samtímis um sitt eigið umhverfi, leik- húsið, og samfélagið sem leikhúsið er hluti af. Kannski var þeirri sýningu ekki ætlað að „slá í gegn“ í hefðbundnum skilningi þeirra orða, en hún sló þó alveg rækilega í gegnum þann vaðal hugmynda sem margir virðast gera sér um hvað sé leikhús og hvað ekki. Máttlaus samfélagsrýni ’Vilji leikhúsfólk leggja eitthvað til málanna í dægur-umræðuna er einfaldlega fljótlegra og áhrifaríkara að tjá sig beint og segja sína persónulegu skoðun umbúðalaust fremur en klæða hana í listrænan búning með táknrænu yfirbragði og ætlast til að þess að áhorfandinn lesi skilaboðin óbeint af vörum leikhússins.‘ Erindi eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is Æviminningar John Burnside fágóða dóma hjá gagnrýnanda Guardian. Bókin nefnist A Lie About My Father og segir gagnrýnandinn hér um að ræða virkilega frum- lega bók sem skeri sig um margt úr þeim fjölda frásagna af óhamingjusamri æsku sem svo mikið ber á þessa dagana. Faðir Burnside var erf- iður maður – grimmur, drykkfeng- inn, fálátur, ófyrirsjáanlegur og of- beldishneigður og árum saman kúgaði hann konu sínu, son og dóttur og vakti jafnt ótta sem viðbjóð meðal ættingja og ná- granna. Í stað þess hins vegar að beina athygli sinni ein- göngu að grimmdinni tekst Burnside áhrifameira og gjafmildara verk á hendur í bók sem grefur dýpra og eykur m.a. skilning lesandans á föð- urnum með því t.d. að afhjúpa lyg- arnar sem faðirinn kallaði fram til að dylja eigin sársaukafullu æsku.    Nýjasta skáldsaga James Patter-son nefnist The 5th Horsem- an, og er hún skrifuð í félagi við Maxine Paetro. Í þessari sögu rannsakar leyni- lögreglan Lindsay Boxer ásamt Kvenna- morðklúbbinum óútskýrð dauðs- föll á sjúkrahúsi nokkru í San Francisco. En fregnir berast af ákærum um vanrækslu gegn sjúkra- húsinu og óútskýrð dauðsföll sjúk- linga er virtust á góðum batavegi. Móðir vinkonu Boxer liggur á sjúkrahúsinu og spurningar vakna hjá félagsskapnum hvort henni sé óhætt þar inni.    Það er rangnefni hjá Hovedland-forlaginu að kalla Spændtrøjen eftir sænska höfundinn Aino Trosell glæpaspennusögu segir gagnrýn- andi danska blaðsins Information. Bókin sé þess í stað gagnrýni á sam- tímann, samfélagið og jafnvel sál- fræðileg stúdía á hálftaugaveiklaðri verkamannastétt sænsks smábæjar. Því þótt dauðsfall setji vissulega svip sinn á bókina eigi ekki að lesa hana spennunnar vegna heldur fyrir bók- menntalegu gæðin sem hún geymir sem og lýsingarnar á sænsku smá- bæjarlífi.    Súrrealisminn setur svip sinn ábók Olga Grushin, The Dream Life of Sukhanov. En samnefnd söguhetja Anatoly Palovich Sukha- nov er mikilsmetinn sovéskur list- gagnrýnandi og ritstjóri ríkisstýrðs listtímarits sem er hvað harðast í gagnrýni sinni á súrrealisma. Sukha- nov á fagra konu, er ekið um af einkabílstjóra, er kumpánlegur við fjölda ráðherra og er boðið í öll bestu boð Moskvu. Allt þetta prjál er af- rakstur þess að Sukhanov sjálfur bældi niður með sér allar hneigðir í átt til framúrstefnulegra liststrauma í því skyni að komast áfram í heimi andsnúnum sköpunargleði og feg- urð. Fortíð Sukhanovs kemur hon- um þó í koll og á tímabili nokkru í ágúst 1985 upplifir hann þá martröð að lifa súrrelalísku lífi fullu af of- skynjunum og fortíðarhvörfum.    Söguleg skáldsaga Sarah Dunn-ant, In the Company of the Co- urtesan, er látin gerast á endurreisnartímanum í Feneyjum og er fóðruð með vænum skammti af listasögu. Söguhetjan, hirðmærin Fiammetta Bianchini, er enda gerð að fyrirsætu Titians í því fræga verki Venus frá Úrbínó. Hún er þó langt í frá einhver engill og lífið við hirðina uppfullt af svikum og ráðabruggi sem Dunnant gerir skil í skáldsögu sem nýtur góðs af ítarlegri þekkingu höfundarins á Titian sem og fen- eyskri pólitík tímabilsins. John Burnside James Patterson Erlendar bækur K ristján G. Arngrímsson skrifar um Atviksbókina „Að sjá meira“ í sunnudagsútgáfu Morg- unblaðsins 5. mars. Í bókinni eru fimm ritgerðir eftir Susan Sontag sem spanna feril hennar sem essayista í stórum dráttum; elsta ritgerðin „Gegn túlkun“ var skrifuð snemma á sjöunda áratugnum en sú yngsta „Varðandi pyntingar annarra“ birtist í New York Times í maí 2004. Tvær ritgerðanna, „Hellir Platóns“ og „Mynd- heimurinn“, eru frá miðjum áttunda áratugnum og fjalla um ljósmyndir, fimmtu rit- gerðina skrifaði Sontag 1978 en hún fjallar um þýska fræðimanninn Walter Benjamin. Sá sem hér skrifar valdi þessar rit- gerðir, þýddi eina þeirra og skrifaði formála. Það segir sig sjálft að ég hefði ekki gert það nema vegna þess að ég taldi að Sontag hefði eitthvað merkilegt fram að færa. Kristján er hins vegar ekki á því og fer hörðum orðum um skrif Susan Sontag. Það er reyndar engin ástæða til að hlífa Sontag við hörðum orðum því sjálf átti hún til að nota stór og hörð orð. Það sem mér finnst verra er að Kristján virðist eng- an áhuga hafa á þeim fagurfræðilegu og sið- fræðilegu spurningum sem Sontag glímdi við, heldur les hann ritgerðirnar (hann minnist reyndar aðeins á þrjár þeirra) út frá afar þröngu sjónarhorni og einbeitir sér að því að af- hjúpa mótsagnir. Til að ná því markmiði einfald- ar hann það sem Sontag hefur að segja og snýr stundum út úr orðum hennar á býsna rætinn og ósvífinn hátt. Það er reyndar auðvelt að finna mótsagnir í skrifum Susan Sontag. Ritgerðum hennar og greinum er ekki ætlað að sanna eitt eða neitt, né heldur að byggja smátt og smátt upp aka- demíska kenningu um veruleikann. Þeim er miklu fremur ætlað að opna augu lesendanna fyrir margbreytileika tilverunnar, fegurð lista- verka og siðferðilegum vanda mannsins á of- anverðri tuttugustu öld. Þær fjalla um bók- menntir, bíómyndir, hommakúltúr, klám, eiturlyf, stríð, fagurfræði fasismans, ljósmyndir, krabbamein, AIDS, þjóðernishreinsanir, sárs- auka annarra og pyntingar svo það helsta sé nefnt. Þær eru barn síns tíma í þeim skilningi að þær standa ekki utan við samtímann eða ofan hans heldur takast þær á við hann. Engu að síð- ur ná sumar þeirra að vísa langt út fyrir sinn þrönga samtíma og eru nú klassískt lesefni í listfræði og fleiri greinum. Það á ekki síst við greinina „Gegn túlkun“ og ritgerðirnar um ljós- myndir. Kristján G. Arngrímsson heldur því fram að það sem Sontag skrifar á áttunda áratugnum um ljósmyndir sé í mótsögn við það sem hún heldur fram í ritgerðinni „Gegn túlkun“ sem birtist fyrst í tímariti í New York rúmum áratug áður. Því er til að svara að hún er ekki að tala um sama hlutinn. „Gegn túlkun“ er fag- urfræðileg stefnuyfirlýsing ungrar menntakonu sem snýst fyrst og fremst gegn listtúlkunum, til að mynda í anda Marx og Freud, í Bandaríkj- unum í kringum 1960. Boðskapur hennar er sá að það sé ófrjótt að leita sífellt að einhverri merkingu bak við listaverk, það verði til þess að fólk hætti að geta notið þeirrar fegurðar sem verkin búa yfir. Þeir sem geri ekkert nema túlka verði blindir og daufdumbir gagnvart hljómfalli orðanna, já einkennilegri fegurð setn- inganna í góðu skáldverki, svo dæmi sé tekið. Að sjálfsögðu er Sontag að tala um túlkun sem meðvitaða aðferð gagnrýnenda, listfræðinga og bókmenntafræðinga en ekki um túlkun sem óhjákvæmilegan þátt í skynjun okkar á heim- inum yfirleitt. Hún segir það sjálf beinum orð- um. Kristján heldur því hins vegar fram að Son- tag „virðist skírskota til greinarmunarins á meðvitaðri og ómeðvitaðri túlkun“ en hún segi það ekki beint. Það er eins og hann vilji gefa í skyn að Sontag viti ekki almennilega hvað hún er að tala um. Sontag slær líka þann varnagla að túlkunaraðferðin geti vissulega verið „frels- andi gjörð“ í sumum menningarsamfélögum en í öðrum sé hún „heftandi“. Einhverra hluta vegna hefur Kristján engan áhuga á þessum varnagla. Sennilega hentar það ekki mótsagnaafhjúp- uninni. Ljósmyndagreinarnar frá áttunda áratugnum, sem Sontag tók saman 1977 í ritgerðasafninu On Photography, eru af öðrum toga. Þar skoðar hún hvernig vitund okkar og skynjun mótast í æ ríkari mæli af gríðarlegri myndframleiðslu í nú- tímasamfélagi og hugleiðir hvaða hlutverki allar ljósmyndirnar gegna í þessu samfélagi. Það vak- ir ekki síst fyrir henni að gera sér grein fyrir hvaða áhrif „alnánd ljósmyndanna“ hefur á sið- ferðilegt næmi okkar. Kristjáni finnst þær pæl- ingar bæði neikvæðar og klisjukenndar. Hann talar um rassvasasálfræði, sjófuglagarg og skort á rökstuðningi og klykkir síðan út með því að fullyrða að skilningur manna á ljósmyndum auk- ist ekki „þótt maður tali um þær, skrifi um þær eða túlki þær“. „Til að skilja ljósmyndir“ skrifar Kristján „þarf maður ekki að gera annað en að horfa á þær“. Síðan bætir hann því við að með því að horfa eitt andartak á ljósmynd sem var nýverið valin Fréttamynd heimsins (World Press Photo) öðlist maður „meiri innsýn í innsta eðli ljósmyndunar en fæst með því að lesa alla þessa bók Sontags hundrað sinnum“. Mér finnst það einkennileg afstaða blaðamanns að hafa svo litla trú á tilgangi þess að skrifa, tala og túlka. Ef Kristján sér enga ástæðu til að fólk sé að skrifa um ljósmyndir, vegna þess að það sé nóg að horfa á þær, er ekki von að ljósmyndapæl- ingar Susan Sontag hafi vakið áhuga hans. Son- tag heldur því hins vegar fram að samfélagslegt hlutverk ljósmyndanna sem við horfum á dag- lega sé okkur oft dulið. Hvað á hún við? Tökum dæmi um magnaðar svarthvítar ljósmyndir sem birtast öðru hvoru í Morgunblaðinu af neyðar- ástandi einhvers staðar í heiminum. Ég var einu sinni viðstaddur, í boði Rauða krossins, þegar slík mynd var tekin í Mósambík. Þetta var sann- kölluð world-press-photo-ljósmynd um flóð í borginni Maputo: Kornabarn í forgrunni, ógn- andi vatn og fátækleg móðirin að hengja upp einhverjar dulur, of langt frá barninu til að bjarga því. Þessi mynd sagði svo sannarlega miklu meira en mörg orð, eða hvað. Það sem ekki fylgdi sögunni var að við vorum hálfan dag í fylgd rauðakrossfulltrúa að leita að einhverju hamfaralegu fyrir fjölmiðla og fundum það aldr- ei. En einhvers staðar í útjaðri borgarinnar sáum við stóran vatnspoll, rauðleita jörð, ber- rassað barn að hjala í sólinni, nokkra húskofa og fallega unga konu í tandurhreinum skræpóttum kjól að hengja föt af barninu sínu á snúru. Þetta var falleg sjón en í svarthvítu hörmungamynd- málinu fengu aðstæðurnar allt annan svip: Fá- tækt, eymd og flóðvatnið um það bil að drekkja bjargarlausu barni. Ég hef stundum spurt mig síðan: Hverjum vorum við að þjóna, nákvæm- lega hverjum gagnaðist það að birta þessa svart- hvítu mynd flennistóra í Mogganum? Ég nefni þetta hér vegna þess að það eru einmitt svona pælingar sem Susan Sontag tekur upp aftur og aftur í ritgerðum sínum um ljósmyndir. Hvaða hlutverki gegna allar þessar ljósmyndir í sam- félaginu, hvaða áhrif hafa þær á skynjun okkar og hugsun? Að hve miklu leyti víkka ljósmyndir skynjun okkar á veruleikanum, að hve miklu leyti þrengja þær hana? Getur verið að enda- lausar myndir af hörmungum séu okkur ekki bara til upplýsingar og áminningar, heldur festi þær um leið ákveðin hlutverk þjóða og ákveðna heimsskipan í sessi? Susan Sontag gefur sér það ekki, hún glímir bara við spurninguna. Ég held að það sé býsna gagnlegt að lesa hana. Er ástæða til að skrifa um ljósmyndir? Eftir Hjálmar Sveinsson hjalmars@hive.is Sontag heldur því hins vegar fram að samfélagslegt hlutverk ljósmyndanna sem við horfum á daglega sé okkur oft dulið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.