Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 11.03.2006, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. mars 2006 M eð fyrri heimsstyrj- öld, sem segja má að væri fyrsta stórslys síðustu aldar, liðu fjögur heimsveldi undir lok. Mann- fallið er talið hafa verið hálf níunda milljón hermanna að viðbættum einhverjum milljónum óbreyttra borgara. Efnahagslegar afleiðingar urðu þær að botninn datt úr hag- kerfi heimsins. Samtíðis hafði styrjöldin í för með sér fullkomið hrun hefðbundinna vest- rænna gilda. Sjaldan hafði heimsbyggðin orðið vitni að verra andlegu gjaldþroti. Afleiðingarnar urðu meðal annars þær, að listamenn fengu óslökkvandi löngun til að gefa borgarastéttinni rækilega á kjaftinn. Uppúr siðgæðislegum sorphaugum og rústum styrj- aldarinnar óx framúrstefnuhreyfing sem kallaði sig súrrealisma. Hún lifir enn góðu lífi. Alla síð- ustu öld hélt hún áfram að skjóta öngum á gríð- armiklum baðmi bókmennta, heimspeki, kvik- myndagerðar og myndlistar. Með eigin stefnuyfirlýsingu Stofnandi, hugmyndafræðingur og ákaflega umdeildur leiðtogi súrrealismans var André Breton (1896–1966). Hann hóf að þróa hug- myndir sínar í fyrstu súrrealísku stefnuyfirlýs- ingunni sem birt var í París 1924. Hún fjallar nálega eingöngu um ljóðlist og hugmyndaríkar bókmenntir. Árið 1928 kom síðan mikilvægt verk hans, Súrrealisminn og myndlistin. Tveimur árum síðar birtist önnur súrrealíska stefnuyfirlýsingin sem einnig fjallar að mestu um bókmenntir. Sjálft heitið súrrealismi, „ofur- raunsæi“, er reyndar fengið að láni úr leikriti eftir Guillaume Apollinaire, Brjóstin á Tíresíasi – súrrealískt drama (1917). Fjórði áratugur síð- ustu aldar var mesti blómatími hreyfingar- innar. Ef gera ætti skrá yfir þá rithöfunda og mynd- listarmenn sem tengja má súrrealismanum, yrði hann yfrið langur. Meðal þekktra mynd- listarmanna má nefna Max Ernest, Salvador Dali, René Magritte, Joán Miró, Alberto Giaco- metti, Marcel Duchamp, Hans Arp, Yves Tanguy og Alexander Calder. Meðal þekktra rithöfunda eru Paul Éluard, Louis Aragon, Robert Desnos og Philippe Sou- pault. Meðal kvikmyndagerðarmanna þeir René Clair, Man Ray (sem líka var ljósmyndari og málari), Hans Richter, Jean Cocteau og Lou- is Buñuel. Fyrstu kvikmyndir þess síðast- nefnda, Un Chien andalou (1929) og L’Age d’or (1930), báðar gerðar í samvinnu við Dali, eru fyrstu og frægustu kvikmyndaverk súrreal- ismans. Hvað var það sem súrrealistar voru á hött- unum eftir? Með hvaða móti væri hægt að leysa úr læðingi sköpunarmátt listarinnar þannig að hugmyndaflugið fengi frítt spil? Hafa ekki lista- menn á öllum öldum fengist við tilraunir til að ríða andagiftinni berbakt? Hefur hugarflugið nokkurntíma verið bundið? Lítum bara á tvo mikla undanfara súrrealismans, Hieronymus Bosch og Giuseppe Arcimboldo á 15. og 16. öld. Málverk eftir Bosch gegndu hlutverki mynda- bóka fyrir miðaldamanninn. Og hvílíkar mynd- ir! Þar getur maður til dæmis á Fíflaskipinu séð vitfirringa og afskræmislegar verur sem stíga uppúr allra myrkustu fylgsnum sálarinnar – tákn sjálfselskunnar. Allar tilvísanir og tákn sem dreift er um málverkin voru samtíðar- mönnum hans auðskilin. Þegar þessi hefð var týnd og tröllum gefin, hófu menn tuttugustu aldar að túlka og útskýra umrædd verk með hjálp draumgreiningar. Þau endurspegla að sjálfsögðu dulvitundina, sögðu menn. Skringilegir og táknrænir hausar Arcim- boldos, sem hann setti saman úr velþekktum hlutum – ávöxtum, blómum, fuglum, grænmeti, bókum, fiskum, vopnum – áttu eftir að veita súrrealistum mikinn innblástur. En með þessa tvo herra, og reyndar fleiri, í bakspeglinum gátu súrrealistarnir trauðla fullyrt – einsog þeir þó gerðu – að þeir væru að skapa listaverk sem engan hefði órað fyrir að mundu líta dagsins ljós! Draumnum gefinn laus taumur André Breton var læknir að mennt. Hann hafði um skeið unnið sem geðlæknir í hernum á stríðsárunum; síðan heimsótt Sigmund Freud í Vínarborg. Í sálgreiningarkenningum og lækn- ingaraðferðum Freuds, sem Breton hafði kynnt sér, átti súrrealisminn hugmyndalegan upp- runa sinn. Menn vildu losa vitsmunina undan meðvitaðri stjórn, draga fram fjársjóð dulvit- undarinnar af draumum, hálfdraumum og vökudraumum, svo myndirnar gætu fyr- irstöðulaust flotið uppá yfirborðið. Það vakti ekki síst fyrir súrrealistum að aflétta hverskyns bönnum og bannhelgi á sviði kynlífs. Já, menn voru jafnvel fúsir til að gera sér í hugarlund efni úr fjarlægri framtíð sem enn væri bara draum- ur. „Súrrealisminn byggir á trúnni á þann æðri veruleik hjá vissum hugmyndatengslum sem hingaðtil hefur verið vanræktur, á almætti draumsins, á óeigingjarnt svigrúm hugsunar- innar,“ sagði Breton. Burt með skynsemina, burt með allar fag- urfræðilegar og siðgæðislegar efasemdir. Takmarkið var skaprór samruni, end- ursköpun hins „algjöra veruleika“ þarsem þátt- um einsog draumsamfellum, tilviljunum og því sem undursamlegt er í hvunndagslífinu væri slegið saman. Kjörorð súrrealista, sem þeir tóku úr Söngvum Maldorors eftir Lautréamont, segir heilmikið: „Fagurt einsog óvæntur sam- fundur saumavélar og regnhlífar á skurð- arborði.“ Slíkar samtengingar og árekstrar skapa nýja veruleikakennd, ef maður svo að segja bíður eftir sjálfum sér, sínum eigin við- brögðum. Sumsé er um gera að vera kyrrlátur og bíða með „frjálslega fljótandi athygli“, svo vitnað sé í fræg orð Freuds. Skáld og eiturlyf Í ljóðlistinni leiddi allt þetta til einskonar end- urlausnar tungunnar sem hún hefur aldrei fylli- lega jafnað sig á. Skáldin lögðu stund á kerf- isbundnar tilraunir á sjálfum sér, sem í sumum tilvikum fólu í sér eiturlyfjanotkun. Jafnvel var stundum notast við eitur gleraugnaslöngunnar í afarsmáum skömmtum. Mjög umtalaðar eru til- raunir með meskalín (eitur sem vekur svipaðar ofskynjanir og LSD) sem Henri Michaux gerði á sjötta áratug aldarinnar í viðleitni sinni við að víkka reynsluheiminn og höndla veruleik sem lýtur ekki lögmálum skynseminnar. Eiturlyfjanotkun var engin nýlunda. Seið- menn í Síberíu hafa frá örófi alda komið sér í leiðslu með því að neyta berserkjasveppa. Með eða án eiturlyfja vörpuðu súrrealísku skáldin af sér fjötrum rökfestunnar og virkjuðu eðlislæga möguleika leiksins til að varpa nýju og óvæntu ljósi á mótsagnakennda návist hlutanna. Og það gat gerst með draumsögum, í dásvefni, með hjálp hópskriftar og ekki síst með ósjálfráðri skrift. Það er einsog súrrealistarnir vilji segja: Við skulum skynja og lifa, en ekki látlaust vera að greina og útskýra. Ósjálfráð skrift merkir reyndar ekki að mað- ur setjist niður og beri pennann að pappírnum til að sjá hvað komi í ljós. Samkvæmt Breton verður þrennt að gerast samtímis. Nefnilega skilningur sálfræðinnar á lausn undan sálræn- um bælingum, líkindareikningur stærðfræð- innar um handahófskenndan samslátt orða, og véfréttarhlutverk skáldsins eða miðilsins, svo vísað sé til spíritismans. Ósjálfráð skrift er sumsé annað og meira en tækni við dulvituð skrif, og síst af öllu er hún samkvæmisleikur – jafnvel þó gaman geti verið að dunda við leik- inn. Freud greindi Breton frá því að hann hefði orðið þess áskynja, að ósjálfráð skrift hefði vak- ið jafnmikla almenna athygli og skráning drauma. Og um súrrealismann má í stórum dráttum segja, að hann sé fremur lífsskoðun en fagurfræði. Í rauninni var það ekki ljóðið eða listin sem súrrealistar vildu umskapa, heldur manneskjan. Næstum einsog djass Sjálfvirkni (automatism) – hugtak sem á við bæði um bókmenntir og myndlist – er „fyr- irmæli hugans án eftirlits skynseminnar“, sagði Breton. Hún er virk viðleitni við að leysa upp andstæður hins meðvitaða og ómeðvitaða, at- hafnar og draums. Það mikilvæga er samt, að ekki er fyrir hendi neitt áþreifanlegt innihald sem ganga má útfrá. Næstum einsog í djass- inum, sem margir telja reyndar vera tónlistarlega versjón af súrrealisma. Kenndirnar, myndirnar öðl- ast form eftir því sem þeim skýtur upp í hugann. Tón- listarmaðurinn veit ekki, já, maður hefur á tilfinningunni að hann fái ekki að vita, hvernig næsti tónn eða næsta hending hljómar. Í þessu samhengi er samt við hæfi að taka fram, að með sárafáum undantekningum voru fyrstu súrrealistarnir ýmist fjandsamlegir tónlist eða í öllu falli áhugalausir um hana. Súrrealíska tón- smiði er torvelt að benda á. Breton og félagar hans vildu losna undan þreyttri hrynjandi og forpokuðum lögum sem áttu upptök sín á ríku- legu veisluborði symbólismans. Enga afganga af því borði, takk! Í staðinn grafarþögn og enga setustofuléttúð! Þeim stóð jafnvel hjartanlega á sama um annan eins nýskapara og Erik Satie. Samt átti Breton síðar eftir að tala um „dul- arfullan vind djassins“ vegna þess að til lengdar var ekki viðlit að halda djassi og súrrealisma að- skildum. Að fanga regnbogann Samt er það í myndlistinni sem við sjáum hvað greinilegast, að súrrealískir listamenn vildu ekki halda áfram að standa í réttstöðu á æf- ingasvæði eigin meðvitundar. Á regnboginn virkilega að hvíla á traustum endastöplum? Nei, þá var skárra að reyna að flækja regnboganum um fætur sér og finna fyrir honum. Burt með glamur og rifrildi og endalausar röksemda- færslur lærdómsmanna! Hugsunin á sér engar upprunalegar röksemdir, hversu mjög sem við reynum að eigna henni þær, sögðu súrrealistar. Við verðum að stunda frjáls hugrenningatengsl! Joán Miró byggir tækni sína á sálrænni sjálf- virkni. Úr dýpstu lögum dulvitundarinnar sæk- ir hann fullkomlega sjálfkrafa tákn og lífræn form, jafnvel töfraform sem innbyrðis geta stöðugt skipst á sjálfsímyndum. Persónurnar breytast fyrir augunum á okkur: „Ég byrja að mála,“ sagði hann, „og meðan ég mála byrjar myndin að hafa sig í frammi eða gefa sjálfa sig í skyn undir pensli mínum. Formið verður tákn fyrir konu eða fugl meðan ég er að vinna.“ Um René Magritte gegnir öðru máli. Mál- verk hans virðast vera yfirmáta raunsæ, en þráttfyrir að hitt og þetta sýnist vera full- komlega eðlilegt, má hvarvetna finna mótsagnir og fáránleik. Vonlaust er að reyna að „útskýra“ þau. Hinsvegar má vel túlka þau. Titlar á mál- verkunum eru oft furðulegir, en sambandið milli málverks og titils er nálega alltaf tvírætt. Málverkið „Le viol“ (Nauðgunin) sýndir kven- mannsbúk með blygðunarbarma á reðurlíkum hálsi. Hætt er við að við fyrsta tillit þyki það klúrt, en þegar Magritte nefnir það „Nauðgun“ fer maður að velta málinu fyrir sér. Titillinn virðist ekki eiga sér neinar forsendur, en samt er einsog skapist dulræð merking sem kannski er ekki fyrir hendi. Ég held að ákveðnar gátur verði að vera óráðnar; að öðrum kosti skiljum við þær ekki. Salvador Dali málar líka óraunveruleikann af vandvirku raunsæi. Málverk hans „Varanleiki minnisins“, með bráðnandi klukkum og af- skræmdu andliti fyrir miðju, sem kynni að vera sjálfsmynd – um það er ekki gott að segja – ork- ar einkennilega sterkt á mann. Tíminn stendur kyrr, klukkurnar hafa endanlega stöðvast alveg einsog í tímalausum og dulvituðum heimi Freuds. Tíminn er svo grafkyrr að klukkurnar bráðna og andráin verður móðir aldanna. Klukkurnar taka á sig lífræn form og eru nán- ast í rotnunarástandi, úrþví þær laða til sín skordýr. Dali gekk lengra en margir aðrir súr- realistar þegar hann hyllti varanlega ringulreið og brjálsemi. Samt sagði hann að það eina sem skildi hann frá brjálæðingi væri að hann væri ekki brjálaður! Smátt og smátt urðu síendurteknar auglýs- ingabrellur Dalis þreytandi: málverk hans orkuðu bæði fjálgleg og uppskrúfuð. Breton bannfærði hann fyrir að vera í senn kaldrifjaður og gegnsýrður af gróðahyggju. Í upphafi var dada André Breton var merkilegri prósahöfundur en ljóðskáld. Það var fyrst og fremst gagnrýnin, en ekki ljóðagerðin, sem skapaði honum áhrifa- vald. Framað þessu hefur ekki verið minnst á dadaismann, en sú hreyfing kom fram í Zurich 1916 og var beinn undanfari súrrealismans. Flestir þeirra rithöfunda og myndlistarmanna, sem nokkrum árum seinna söfnuðust kringum Breton í París, komu úr hópi dadaista (bullorðið „dada“ hafði verið valið af handahófi, kannski með vísun í barnamál). Formælandi dadaismans, rúmensk-franska ljóðskáldið Tristan Tzara (1896–1963), lagði ríka áherslu á stjórnleysis- og níhilistaeðli hreyfingarinnar. Hann afneitaði meiraðsegja gildi lista yfirleitt. Þessvegna lagði dadaisminn áherslu á and-list. Undir lokin afneituðu dada- istar líka sjálfum sér. „Sannur“ dadaisti er and- vígur dadaismanum. Vissulega var súrrealisminn andborg- aralegur svo um munaði, en bjó samt ekki yfir sjálfvöktum stjórnleysisanda dadaismans. Ef menn vildu valda breytingum, umturna hefðum listsköpunar, urðu þeir að áliti dadaista að beita eyðingaröflunum. Viðhorf þeirra var eitthvað á þá leið, að með mynd eyðileggingar í bakgrunni öðlaðist sálin nýtt fjaðurmagn. Breton snerist öndverður gegn þessum áleitnu eyðingarhneigðum. Þráttfyrir allt hvíldi afstaða hans til myndlistar og bókmennta frem- ur á jákvæðri tjáningu. Þessvegna sleit hann sambandinu við Tristan Tzara árið 1922. Það gerðist þráttfyrir að í augum Tristans var ljóð- listin í enn ríkara mæli en fyrir Breton sálræn starfsemi, sköpunarathöfn sem lesandanum var boðið að taka þátt í. Vísast þoldi Breton ekki samkeppnina: það kann ekki góðri lukku að stýra, að tveir hanar tylli sér á sama fjóshaug. Bannfærðir áhangendur Í hreyfingunni varð mikið um umbrot, meðþví Breton var fágætlega þrjóskur, einráður og kreddufastur gaur. Einn af öðrum voru gamlir áhangendur útilokaðir vegna fagurfræðilegrar eða pólitískrar trúvillu. Þegar öll kurl koma til grafar var það eiginlega bara hann sjálfur sem hann lét ógert að bannfæra. Flestir súrreal- istanna höfðu gengið marxisma á hönd – sjálfur var Breton félagi í kommúnistaflokknum fram- til 1933. En þegar beygja átti skáldskap og myndlist undir pólitík og kenningar um sósíal- realisma, sló Breton rösklega afturundan sér. Þegar sólin kemur upp eru draugar vanir að draga sig til baka inní dulvituð fylgsni sín. Með samhljómandi bergmál af fjarlægum sviðum hefur súrrealisminn kennt okkur að hræðast ekki draugagang eigin ímyndana, heldur miklu fremur kannast óttalaust við þær, þó sálrænt jafnvægi kunni að verða fyrir einhverju raski. Hugmyndin sem að baki liggur er sú, að við fáum endurtengt okkur sjálf við hefðina. Kannski má segja að súrrealisminn vilji ljá því sem óþekkt er andlit og finna upp það sem þeg- ar er fyrir hendi. Því hvernig á annars að skýra þá staðreynd, að oftlega finnum við fyrir heimþrá til hins óþekkta? Ofar daglegum veruleika Varir Mae West: sófi súrrealistans Salvador Dali. André Breton: Upphafsmaður súrrealismans. Eftir Sigurð A. Magnússon Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.