Lesbók Morgunblaðsins - 13.05.2006, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 13.05.2006, Blaðsíða 7
hann.“ Í Norðanfara segir, að Sigurður Bjarnason hafi verið „bráðþroska og gjörfu- legur, hugljúfi hvers manns sem þektu hann, gáfaður vel og skáld og hefði orðið með hin- um beztu skáldum þá aldur og reynzla hefði færst yfir hann.“ Þarna fórust níu manns; fimm karlar og fjórar konur, en þremur varð bjargað. Kom- ust þeir á kjöl eftir að skipinu hvolfdi og bar svo um nóttina norður og austur á móts við bæinn Skarð. Mannlaust rak skipið svo áfram norður eftir og sást til þess að áliðnum degi frá Bergsstöðum. Helga, unnusta Sigurðar, og afi hennar fóru í fjöru og sannfærðust þá um, „að þarna var skipið, sem daginn áður hafði innanborðs nánustu ástvini þeirra.“ Móðir Helgu fórst í slysinu, en faðir hennar var einn þriggja sem komust af og var þetta annað sjóslysið sem hann upplifði, en í fyrra skiptið komst hann einn af. Helga Eiríksdóttir hafði alla tíð sinn harm fyrir sig. Hún orti innileg erfiljóð eftir Sig- urð, sem hún lifði í fjörutíu og tvö ár án þess að vera við karlmann kennd. Hún var lengi ráðskona hjá föðurbróður sínum, Guðmundi Arasyni á Ytri-Völlum. Til þess var tekið, að það var vandi Helgu, þegar færi gafst á sunnudegi, að setjast við skrifpúltið sem hún átti eftir Sigurð og „dvelja þar í ljóðum þeirra og minningum.“ Helga lézt á Ytri- Völlum 1907. Að henni látinni brenndi Guð- mundur Arason margt með hennar hendi, en ýmislegt hefur samt varðveitzt af kveðskap hennar, því hún var vel hagmælt og orti margt. Mikið af hreinum skáldskap og fegurð Fyrsta ríma Sigurðar á prent voru Rímur af Bæringi fagra, Bæringsrímur, sem komu út á Akureyri 1859. Rímurnar orti Sigurður sautján ára. Hjálmarskviða – Ríma af Hjálm- ari og Ingibjörgu, 232 erindi frá hendi höf- undar, kom fyrst út í Reykjavík1865; árið sem Sigurður fórst, aftur 1890 og í Vest- urheimi 1911. Rímur af Án bogsveigi voru gefnar út í Winnipeg 1919 og voru það skyld- menni Sigurðar vestanhafs sem stóðu að út- gáfunni. Rímurnar geymdust ekki í handriti, heldur hafði Samson bróðir Sigurðar lært þær í æsku og skrifað niður upphaf hverrar vísu til þess að minna sig á röðina. Rímurnar voru svo skrifaðar upp eftir minni hans til út- gáfu og segir Snæbjörn Jónsson allt benda til þess, að rétt sé munað. Snæbjörn gaf svo Hjálmarskviðu út í fjórða sinni 1934 með 230 erindum, en þegar prentun var lokið hafðizt upp á eiginhandarriti Sigurðar af rímunni og getur Snæbjörn þess í eftirmála og þar í þeirra tveggja erinda sem upp á vantar. Sjö árum síðar komu Ljóðmæli Sigurðar Bjarna- sonar út. Eiginhandarrit Sigurðar af Hjálmarskviðu og af Sörla-rímum, sem hann orti 1859, varð- veitti systir Helgu, Ögn húsfreyja á Ásbjarn- arstöðum. Önnur systir Helgu, Guðbjörg, húsfreyja á Kálfshamri, varðveitti tvær kvæðasyrpur; hina fyrri skrifaði Sigurður sjálfur og er þar í m.a. ríma, sem hann orti á átjánda ári út af sögunni um Pýramus og Thisbe. Sigurður skrifaði einnig framan af hinni kvæðasyrpunni, en Eggert hreppstjóri Helgason í Helguhvammi síðari hlutann að beiðni Helgu Eiríksdóttur eftir lausum blöð- um, sem Sigurður lét eftir sig. Talið er að Guðmundur Arason hafi eitthvað brennt með hendi Sigurðar, þegar hann fargaði flestu úr púlti Helgu, en kvæðasyrpur Sigurðar, sem hann ánafnaði Helgu eftir sinn dag, lét Guð- mundur heilar og komust þær í eigu Guð- bjargar. Theodór Arnbjörnsson segir, að eitt sinn hafi stúlka á Blönduósskóla skrifað Guð- björgu og falazt eftir ljóðahandritum Sig- urðar til láns og hafi hún ætlað að verða við þeirri bón. En áður en til þess kom, dreymdi hana Sigurð, sem sagði með alvörusvip: „Ætlar þú að láta brenna mig?“ Hún skildi drauminn svo, að Sigurði væri á móti skapi að hún lánaði handritin og hætti við. Síðar um veturinn brann Blönduósskólinn. Guð- björg fól sonum sínum að koma handritum Sigurðar á Landsbókasafn að sér látinni og efndu þeir það. Snæbjörn Jónsson segir, að skáldfrægð Sigurðar Bjarnasonar hafi öðru fremur byggzt á rímunni af Hjálmari og Ingibjörgu, sem í munni almennings hlaut nafnið Hjálm- arskviða, og hafi þjóðin ekki öðru sinni fengið slíkar mætur á annarri rímu. Snæbjörn hikar ekki við að nefna rímu Sigurðar Bjarnasonar listaverk. Út af fyrir sig er hinn dýri og fagri háttur það, hring- hendan, þegar hún er svo vel og dýrt kveðin, sem hjer er gert.“ Ekki leynir Snæbjörn þó því, að vísurnar séu ekki allar lýtalausar. En hann segir mál- inu hvergi beinlínis misboðið og smekkleysur mjög fáar og í raun varla teljandi. Og Snæbjörn tekur dýpra í árinni, þegar hann lofar rímuna. „Í henni er svo mikið af hreinum skáldskap og fegurð, að sá, sem ekkert slíkt finnur þar, hann er annaðhvort það, sem dr. Jón Þorkelsson kallaði gikkur fyrir guði, eða þá að hann er heimskari en þær skepnur hafa leyfi til að vera, sem ganga á tveim fótum og enga hafa vængina.“ Björn K. Þórólfsson ritar Ritsjá í Eimreið- inni 1934 um fjórðu útgáfu Hjálmarskviðu og segir rímuna og annað eftir höfund, sem prentað er í útgáfunni, bera vott um „lipra skáldgáfu, þó að engan veginn sé ríman laus við galla, sem óprýddu rímnagerð öldum saman.“ Hjálmarskviða hafi notið vinsælda alþýðu svo mannsöldrum skipti, „sem að lík- indum lætur, þegar saman fer hugðnæmt söguefni og bragarháttur, sem vel er til þess fallinn að geðblær frásagnarinnar njóti sín.“ Og ritdóminum lýkur Björn með þökkum til útgefandans „fyrir að halda á lofti minn- ingu skálds, sem dó ungt og nú er farið að gleymast, en lét eftir sig ljóð, sem lengi eftir dauða höfundarins voru þjóðinni kærri en skáldskapur margra þeirra, sem ort höfðu langa æfi.“ Snæbjörn Jónsson segir Sigurði ekki hafa skjátlast í valinu, „þegar hann valdi sjer að yrkisefni söguna um ástir Hjálmars og Ingi- bjargar og fundinn á Sámsey. Efnið er eitt hinna skáldlegustu atriða í öllum fornald- arsögum Norðurlanda.“ Þögnin rýrist róms um veg, raddir skírist háu; kvæði stýra í vil eg æfintýri smáu. Svo byrjar Sigurður rímuna. Snæbjörn segir efnið hafa orðið Íslend- ingum mjög hugstætt og ekki færri en tíu skáld ortu um þetta sama efni. Sigurður vísar til þess í annarri vísunni: Efnið fjáð af fegurð mjer fræða tjáðu vinir; margir áður um það hjer Íslands kváðu synir. Sveinbjörn segir, að af öllu hafi ríma Sig- urðar orðið vinsælust og komi næstar henni rímur Bólu-Hjálmars og Brynjólfs Odds- sonar, „en þó varla svo nálægt, að saman verði borið, enda þótt báðum takist vel.“ K. Þórólfsson segir efnið að vísu komið úr Örv- ar-Odds sögu og Hervararsögu, en ríman sé að hluta ósamhljóða þeim sögum báðum og getur Björn sér til að Sigurður hafi kveðið rímuna eftir þætti, sem soðinn hafi verið upp úr sögunum og frásögn beggja spillzt við. Theodór Ásbjörnsson segir hafið yfir allan efa, að Sigurður hafi haft Helgu í huga, er hann orti Hjálmarskviðu. „Þó var Helgu búin þyngri þraut en Ingibjörgu, sem fékk að fylgja Hjálmari í dauðann.“ Augun geta engu leynt eðlisfari hugar Þegar ég var að vinna að þessari grein um rímnaskáldið góða, átti ég símtal við Agnar J. Leví í Hrísakoti á Vatnsnesi. Agnar er félagi í kvæðamannafélaginu Vatnsnesingi og þótt kveðskapur Sigurðar Bjarnasonar liggi lengra aftur en Vatnsnesingar kveða nú um daga, þá er Agnar honum handgenginn og segir Sigurð í sínum huga sennilega bezta skáld þjóðarinnar. „Það sem hann var búinn að yrkja ungur maðurinn. Ég þekki ekki til að aðrir hafi ort neitt þessu líkt á þeim aldri. Og það sem eftir hann liggur er ekki mikið hnoð. Það er allur þessi dýrasti kveðskapur.“ Botninn í þessa samantekt skal sleginn með tveimur vísum Sigurðar Bjarnasonar: Innra-manninn ef að sjá ertu fast í sólginn, augun skoða áttu þá, andinn þar er fólginn. Til að þekkja þankann hreint þetta eina dugar; augun geta engu leynt eðlisfari hugar.  Heimildir: Agnar J. Leví: Samtal marz 2006. Björn K. Þórólfsson: Ritsjá. Eimreiðin 1934. Um skiptapa á Vatnsnesi 28. júní 1865 og nokkrar vísur um formanninn. Norðanfari, fimmti árgangur. 13. tölu- blað. Snæbjörn Jónsson: Hjálmar og Ingibjörg(Hjálmarskviða). Reykjavík 1934. Theodór Arnbjörnsson frá Ósi: Sagnaþættir úr Húnaþingi. Ísafoldarprentsmiðja hf. Reykjavík 1941. Lesbók Morgunblaðsins ˜ 13. maí 2006 | 7 Í ár er hálf önnur öld liðin frá því að tónskáldið Robert Schumann lést á sjúkrastofnun nálægt Bonn í Þýska- landi aðeins 46 ára að aldri, rúinn andlegri og líkamlegri heilsu. Þrennir Schumann-tónleikar verða haldnir á Listahátíð í Reykjavík nú í maí og þar munu fimm af fremstu píanóleikurum þjóðarinnar leika sex af þekktustu píanóverk- um Schumanns. Það má svo sem segja að tilefni tónleikanna sé áð- urnefnd tímamót, en ástæða þess að tónlist tónskáldsins er gert svo hátt undir höfði á dagskrá hátíðarinnar er auðvitað miklu fremur sú að hún er einstök í sinni röð. Píanóverkasafn Schumanns er ein af merkustu vörðum píanósögunnar og um leið ómetanlegur hluti af arfleifð rómantísku stefnunnar í Þýskalandi á nítjándu öld. Verkin sem leikin verða á tónleikunum í tónlistarhúsinu Ými sunnudagana 14., 21. og 28. maí voru öll samin á árunum 1834–38. Á þessum árum, og reyndar allan fjórða áratug- inn, einbeitti Schumann sér að píanótónlist og samdi þá bróðurpartinn af verkum sínum fyrir hljóðfærið. Ungur ól hann í brjósti sér drauma um að verða píanósnillingur, en draumarnir urðu að engu þegar óskilgreindur dofi eða stirðleiki í löngutöng hægri handar ágerðist smám saman og kom í veg fyrir að hann gæti beitt sér við píanóið. Ekki er vitað fyrir víst hver ástæðan fyrir þessum kvilla var. Lengi var talið að notkun Schumanns á æfingatæki sem var til þess ætlað að gera fingurna sjálf- stæðari hefði haft þessar afleiðingar, en þó ljóst sé að hún hafi sannarlega gert illt verra, telja sumir að rót vandans hafi í raun verið aukaverkun af kvikasilfursmeðferð sem Schu- mann hafi gengist undir vegna sárasóttarsýk- ingar. Schumann varð því ekki frægur túlk- andi eigin verka eins og margir kollegar hans og vinir, menn á borð við Mendelssohn, Chop- in, Liszt og Brahms, heldur kom það í hlut eiginkonu hans að gera verkin þekkt víða um heim. Clara Schumann, fædd Wieck, var einn af fremstu píanósnillingum 19. aldar og í of- análag frambærilegt tónskáld, þó hún hafi sjálf haft efasemdir um að konur ættu að stunda tónsmíðar. Þau Robert kynntust í Leipzig á heimili föður hennar, Ferdinands Wiecks, sem var píanókennari Roberts. Clara var þá barnung en þegar orðin framúrskar- andi píanóleikari. Samband þeirra þróaðist með tímanum úr vináttu og gagnkvæmri virð- ingu yfir í ást sem átti eftir að setja mark sitt á líf þeirra beggja upp frá því. Þessi ástarsaga er einhver sú frægasta sem tónlistarsagan hermir og hefur orðið efni í margar bækur. Hægt er að gera sér góða mynd af henni með því að lesa bréf þeirra hjóna, en þau skipta hundruðum. Í einu af fyrstu bréfum sínum til Clöru skrifar hinn rúmlega tvítugi Robert: „Ég hugsa oft um þig, ekki eins og bróðir hugsar um systur, eða eins og unnusti hugsar til kær- ustu sinnar, heldur frekar eins og pílagrímur hugsar um fjarlægan helgidóm. Á meðan þú varst í burtu skaust ég til Arabíu svo ég gæti sagt þér fullt af ævintýrum sem þú myndir kunna að meta – sex nýjar tvífarasögur, 101 látbragðsgátu, 8 gríngátur og svo nokkrar yndislega hræðilegar ræningjasögur og eina um hvítan draug – úúú, ég skelf af hræðslu!“ Nokkrum árum síðar er kominn annar tónn í bréfin, ástríðufyllri og alvarlegri. 13. febrúar 1836 skrifar Robert frá fæðingarstað sínum Zwickau, þangað sem hann hafði farið vegna andláts móður sinnar: „Það fyrsta sem ég þarf að gera þegar ég kem til Leipzig er að koma veraldlegum málum mínum á hreint; ég er bú- inn að greiða úr tilfinningaflækjunum; kannski mun faðir þinn ekki neita mér um hönd þína. Auðvitað er enn margt sem þarf að hugsa um og útkljá. Í millitíðinni treysti ég verndarengli okkar. Örlögin hafa ætlað okkur að vera saman; ég hef vitað það lengi, en ég þorði ekki að vona að þú myndir skilja það ef ég talaði við þig um það.“ Vonin um að Ferdinand Wieck gæfi sam- þykki sitt fyrir ráðahagnum reyndist svo sannarlega úr lausu lofti gripin. Andstaða hans var svo mikil og hatrömm að elskend- urnir ungu ákváðu loks að leita til dómstóla til að knýja fram leyfi til að giftast, enda Clara ekki orðin lögráða. Þau höfðu sigur í málinu, en þurftu þó að ganga í gegnum löng og lýj- andi réttarhöld, þar sem Wieck gerði allt sem í valdi hans stóð til að sverta mannorð Schu- manns og sakaði hann um andlegt ójafnvægi og ofdrykkju. Ástarlíf Schumanns var honum endalaus uppspretta innblásturs við tónsmíðarnar, jafnt í gleði sem sorg. Clara var ekki bara stóra ástin í lífi hans heldur líka listgyðjan sem stöðugt kom ímyndunarafli hans á flug. En það var fleira sem hafði áhrif á verk Schu- manns. Hann skrifaði í bréfi til Clöru árið 1838: „Allt sem gerist hér í heiminum orkar á mig … stjórnmál, bókmenntir og fólk, og ég finn hjá mér þörf til að tjá tilfinningar mínar og finna þeim útrás í tónlist … allt merkilegt sem gerist hefur áhrif á mig og knýr mig til að tjá það í tónlist.“ Auðvitað hefur umhverfi og lífsreynsla listamanna alla tíð haft mikið að segja um listsköpun þeirra, en Schumann var framarlega í flokki þeirra listamanna róm- antísku stefnunnar á öndverðri nítjándu öld sem leituðust gagngert við að svara áreiti raunveruleikans og áhrifum frá ýmsum list- greinum í verkum sínum með persónulegu tungutaki. Þess vegna eru píanóverk Schu- manns ekki einungis stórkostlega fallegar og vel samdar tónsmíðar, heldur líka heillandi spegill næmrar og hrifgjarnrar sálar. Verkin sem leikin verða á Schumann- tónleikum Listahátíðar í Reykjavík eru Dav- idsbündlertänze op. 6, Carnaval op. 9, Sinfón- ískar etýður op. 13, Fantasiestücke op. 12, fantasía í C-dúr op. 17 og Kreisleriana op. 16. Píanistarnir sem leika eru Miklós Dalmay, Helga Bryndís Magnúsdóttir, Ástríður Alda Sigurðardóttir, Richard Simm og Kristín Jón- ína Taylor. Tónleikatíminn er óvenjulegur og áhugaverður, sunnudagsmorgnar kl. 11. Auk píanóverkanna óviðjafnanlegu verður lesið upp úr bréfum Roberts og Clöru á tónleik- unum og þannig reynt að draga upp mynd af sambandi þeirra og um leið af samspili lífs og listar. Robert Schumann á Listahátíð Þrennir Schumann-tónleikar verða haldnir á Listahátíð í Reykjavík nú í maí og þar munu fimm af fremstu píanóleikurum þjóðarinnar leika sex af þekktustu píanóverkum Schu- manns. Höfundur mun fjalla um líf og list Schumanns á tónleikunum þrennum í Ými. Eftir Halldór Hauksson h.hauks@mi.is Robert Schumann „Píanóverkasafn Schumanns er ein af merkustu vörðum píanósögunnar og um leið ómetanlegur hluti af arfleifð rómantísku stefnunnar í Þýskalandi á nítjándu öld.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.