Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Side 10
10 LAUGARDAGUR 2. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók É g var eiginlega á leið út úr hinni dásamlegu bókabúð Mcnally Robinson í Saskatoon þegar ég rak aug- un í bók með gylltum lím- miða. Á honum stóð meðal annars: „Winner – The GG’s“. Þetta er reynd- ar fangamark konunnar minnar og vissulega hefði ég tekið mark á meðmælum frá henni. En þar sem ég hafði þýtt bók eftir höfund sem fékk þessi verðlaun í fyrra vissi ég að þetta voru virtustu bókmenntaverðlaun Kanada, Governor General-verðlaunin eða land- stjóraverðlaunin. Ég ákvað því að taka bókina með mér yfir á kaffihús bókabúðarinnar og kíkja betur á hana enda titillinn flottur: A Per- fect Night to Go to China. Um höfundinn, Dav- id Gilmour, hafði ég aldrei heyrt en á bók- arkápu var hann sagður þekktur sjónvarps- maður í Kanada. Ég keypti bókina. Kínaferð Gilmours Ég hef ekki lesið bækurnar sem bók Davids Gilmours keppti við en í þetta sinn var ég nokkuð ánægður með að hafa keypt verð- launabók og seinna gerði ég mér aftur ferð í bókabúð og keypti þá aðra bók eftir Gilmour, Sparrow Nights, sem mér fannst ekki síðri þótt engin hlyti hún verðlaunin. Efnisval Gilmours í A Perfect Night to Go to China kom mér á óvart og ekki af því það væri nýstárlegt, heldur vegna þess að bókin tekur fyrir svipað viðfangsefni og þekkt bók eftir Ian McEwan sem nýlega kom út í íslenskri þýð- ingu Árna Óskarssonar undir heitinu Barnið og tíminn (The Child in Time). Bækurnar fjalla báðar um barn sem týnist. Þetta þótti mér satt að segja talsverð dirfska af David Gilmour, því þó að hér sé um martröð allra for- eldra að ræða vilja menn ekki endilega bjóða upp á samanburð við höfund á borð við Ian McEwan. Hjá Gilmour er atburðarásin á þann veg að Roman, faðir sex ára drengs, verður ber að dómgreindarbresti. Hann hafði sofið lítið og illa nóttina áður, verið rotinpúrulegur allan daginn og þegar hann er búinn að koma stráknum í háttinn um kvöldið heyrir hann tónlist frá nálægum bar. Roman er mikið fyrir lifandi tónlist og stenst ekki mátið að kíkja að- eins á barinn. Þar stendur hann einungis við í korter eða svo, en þó nógu lengi til þess að sloka í sig tvo bjóra. Þegar hann kemur heim aftur er sonurinn horfinn. Ætli við gætum ekki flest verið sammála um að manninum hafi orðið á í messunni. Þó hafa flestir foreldrar eitthvað svipað á samviskunni, því enginn er fullkominn og rétt ákvörðun er afstætt hugtak, háð ótal breytum. Með smá- heppni hefði Roman sloppið með skrekkinn eins og við höfum mörg hver komist upp með að syndga aðeins upp á náðina og sum miklu hressilegar en þetta. Og það gerir þessa at- burðarás enn áhrifameiri; við fáum þarna tækifæri til þess að upplifa sammannlega mar- tröð. Gilmour dvelur í sjálfu sér ekki sérstaklega við hin veraldlegu eftirmál hvarfsins, leitina og samskiptin við lögregluna, heldur fjallar bókin að mestu leyti um þær sálrænu afleiðingar sem barnshvarfið hefur og þær eru umtals- verðar eins og vænta mátti. Um leið vakna spurningar um það hvers virði börnin eru okk- ur og hvaða hlutverki þau gegna í lífi okkar. Sonartorrek A Perfect Night to Go to China er lítil bók, ein- ungis 179 síður í litlu broti, og hún virðist við fyrstu sýn vera fremur blátt áfram enda skrif- ar höfundurinn sérlega tæran og læsilegan stíl sem minnir einna helst á J.M. Coetzee. En þegar betur er að gáð má sjá að Gilmour notar óbeinar og allt að því lævíslegar aðferðir til þess að koma margslungnu sambandi föður og sonar til skila í þessari stuttu frásögn. Í stað þess að freista þess að lýsa tilfinn- ingum Romans á raunsæjan hátt, segja okkur hvernig honum líður, sýnir Gilmour okkur söknuð hans með því að notast við hliðstæður, vísanir og umfram allt drauma. Sagan er sögð frá sjónarhóli Romans og fjallar öðru fremur um barnsmissinn sem slíkan, ekki um þetta til- tekna barn, sem er í rauninni afar óljós per- sóna, heldur um það að verða á og missa son sinn fyrir vikið. Við sjáum Roman berjast við að ná tökum á sínu daglega lífi í kjölfar missisins. Hann snýr aftur til vinnu sinnar sem þáttastjórnandi í sjónvarpi í þeirri von að vinnan beini huganum frá sonarmissinum. Sú ósk rætist ekki, hann breytist í eins konar spurningavél sem spyr tíu fyrirframsaminna spurninga og kveður gesti sína að því búnu. Barnsmóðir hans, sem er að- eins kölluð M. eins og hún sé ein af persónum Franz Kafka, getur ekki hugsað sér að finna lyktina af honum framar, hvað þá meira, og rekur hann á dyr, segist aldrei vilja heyra frá honum aftur og aldrei munu sýna honum neina hluttekningu. Frá hennar bæjardyrum séð er þessi yfirsjón ófyrirgefanleg. Stuttu síðar er Roman svo sagt upp störfum hjá sjónvarps- stöðinni. Nokkrum vikum eftir hvarf sonarins er hin borgaralega umgjörð því öll komin á usl og busl og Roman tekur sér bólfestu á átjándu hæð á hóteli, rétt eins og hann sé ferðalangur í eigin lífi. Ekki nóg með það, hann gefur við- miðum samfélagsins langt nef, kýlir mann á kjaftinn og rænir banka. Maðurinn sem var ein af táknmyndum hins borgaralega samfélags, maðurinn sem spurði spurninganna sem brunnu á vörum sjónvarps- áhorfenda, er því farinn að hrærast í óræðri vídd. Þar hjálpa reyndar til morfíntöflur sem hann nælir sér í. Stóra ástin Í öðrum kafla bókarinnar, þegar gerð hefur verið grein fyrir hvarfi drengsins, uppgötvar Roman að gömul hjásvæfa hans, Claire Eng- lish, er látin. Af einhverjum ástæðum, sem honum eru huldar, ákveður hann að fara í jarð- arför hennar. Þessi atburðarás vekur óneit- anlega spurningar og þegar rýnt er í textann koma úr kafinu lúmskar tengingar milli Claire og Simons, sonar Romans. Claire er m.a. sögð barnsleg í útliti og einhvern veginn læðist að manni sá grunur að útför Claire sé í ein- hverjum skilningi útför Simons. Umhugs- unarverðasta atriðið í þessum kafla er þó upp- rifjun Romans á þeim ummælum Claire að hún hafi notið ásta með honum án þess að elska hann. Aftar í bókinni kemst Roman að þeirri niðurstöðu að sonurinn hafi verið stóra ástin í lífi hans. Það er athyglisverð nið- urstaða, ekki síst ef tekið er mið af áðurnefnd- um ummælum Claire um ástina. Eftir jarðarförina er eins og von Romans um að finna Simon dofni. Við tekur sorgarferli þar sem hann dreymir móður sína og Simon hvað eftir annað. Draumarnir eru freudískir að því leyti að þeir uppfylla vonir Romans um að hitta son sinn á ný. Hann veltir því fyrir sér hvort hann eigi að stytta sér aldur til þess að geta verið samvistum við Simon en drengurinn telur hann af því í fyrstu, hann muni hvort eð er koma þangað. Í draumunum er Simon æv- inlega staddur í Karíbahafinu og þess vegna lýkur bókinni á því að draumar og veruleiki renna saman með því að Roman gerir sér ferð þangað, þá orðinn hálförvinglaður og vart með réttu ráði, já það má segja að hann sé horfinn sjálfum sér. Af þessari bók mætti ráða að börnin séu for- eldrum hjartfólgnari en sjálfur makinn. Þar eð barnið í þessari sögu hefur engin sérkenni geta menn velt því fyrir sér hvort hér sé átt við barnið almennt og jafnvel barnið í okkur sjálf- um; við séum glötuð ef við glötum því. Ástarsorg Missir er David Gilmour afar hugleikinn því bókin Sparrow Nights, sem kom næst á undan verðlaunabókinni, fjallar líka um missi. Þar tekur hann fyrir viðfangsefni sem margir höf- undar hafa gert góð skil og er líklega miðlæg- ara í menningunni en barnsmissirinn: sam- band miðaldra karls og ungrar konu. Fimmtíu og eins árs prófessor í frönskum bókmenntum fellur fyrir stúdínu sem fer svo frá honum eftir tveggja ára sambúð. Bókinni fylgir tilvitnun í Marcel Proust þar sem hann segist ekki geta vanist því sem tekur enda. Þau orð eiga sann- arlega vel við söguhetju þessarar bókar sem kemst aldrei yfir þessa ástarsorg sína. Lung- inn úr bókinni fer í að lýsa því hvernig þessi fágaði maður brotnar smátt og smátt niður. Eins og Roman í A Perfect Night to Go to China tekur hann að virða borgaraleg viðmið að vettugi og dregst inn í veröld kláms og glæpa. Sparrow Nights er afar vel stíluð og í henni eru fjölmargar vísanir í heimsbókmenntir sem hægt er að gera sér mat úr. Titillinn er m.a. sóttur í eina af smásögum Tsjekhovs og á við um stormasamar nætur. Ástkonan unga heitir líka Emma sem minnir á hina frægu skáldsögu Gustaves Flaubert um Emmu Bovary. Í bók- inni er svartur húmor og viss leikur sem gerir hana skemmtilega aflestrar. Þessar tvær bækur Gilmours eru þó helsti líkar. Aðalpersónurnar eru ótrúlega áþekkar og báðar rakna þær upp á svipaðan hátt þegar þær verða fyrir missi. Það er engu líkara en bækurnar séu eins konar rannsókn á við- brögðum miðaldra karla við missi og ef marka má sjónvarpsmanninn og prófessorinn er það lífshættuleg reynsla. Jafnframt beinist athygl- in að því sem skiptir okkur mestu máli í lífinu, samskiptum okkar við ástvini. Missir á missi ofan Kanadíski rithöfundurinn David Gilmour vann nýverið landstjóraverðlaunin fyrir sjöttu skáldsögu sína, A Perfect Night to Go to China. Þar segir af sjónvarpsmanni sem verður fyrir því að sex ára sonur hans hverf- ur sporlaust. Eftir Rúnar Helga Vignisson rhv@simnet.is David Gilmor „A Perfect Night to Go to China er lítil bók, einungis 179 síður í litlu broti, og hún virðist við fyrstu sýn vera fremur blátt áfram enda skrifar höfundurinn sérlega tæran og læsilegan stíl sem minnir einna helst á J.M. Coetzee.“ Höfundur er rithöfundur. Ég fór einu sinni sem oftar að velta fyrir mér sjálfstæði lesandans eða kannskiöllu heldur meintu ósjálfstæði hans. Þarna hafði ég enn og aftur látið verðlaunfreista mín. Ég næ reyndar ekki alltaf sambandi við þessar verðlaunabækur enþað gerist þó æði oft sem er auðvitað ástæðan fyrir því að ég gef bókum sem hafa unnið til verðlauna sérstakan gaum. Samt veit ég að dómnefndir eru börn síns tíma og spegla oftar en ekki tískustrauma (og tískustraumar fara stundum í taugarnar á mér), fyrir nú utan að vera hluti af bókmenntastofnuninni svokölluðu sem er mörgum þyrnir í augum. Þar sem ég hef sjálfur setið í dómnefndum veit ég líka að óvæntir atburðir geta gerst í slíku starfi eins og öðru félagsstarfi. Ég veit jafnframt að þessar verðlaunabækur, eins og bækur Nóbelsverðlaunahöfunda, veðrast misvel. En er eitthvað að því? Er ekki eðlilegt að sumar bækur séu bundnari tíma sínum en aðrar? Og hvað vitum við svo sem hvað framtíðin ber í skauti sér? „Þessi er voða vinsæll,“ sagði ísskápssölumaður við mig um daginn. Sams konar hjarðsölutrix eru notuð í bóksölu og margir taka mið af met- sölulistum þegar þeir velja sér bækur. Ef marka má bókabúðir á Íslandi eru þessir listar mjög öflugt sölutæki því sumar þeirra skarta metsöluhillum á áberandi stöðum. En hvort sem við tökum mið af verðlaunum eða metsölulistum við val á bókum, ráð- leggingum vina eða bóksala, mennskra eða rafrænna, nú eða auglýsingum, þá erum við háð áliti annarra, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hversu oft kaupir maður bók sem maður hefur ekki heyrt neinn tala um? Hitt er svo annað að það er ekki endilega talað mest um bækurnar sem höfða mest til manns. Það er sjálfsagt að reyna að brjótast úr þessum viðjum annað slagið. Fyrir þá sem lesa á ensku má t.d. benda á vefinn www.whichbook.net þar sem leita má að áhugaverðum bókum með því að gefa til kynna hvers konar bók maður vill, fyndna eða alvarlega, fyr- irsjáanlega eða ófyrirsjáanlega, fallega eða ógeðslega, hefðbundna eða óhefðbundna, stutta eða langa og þar fram eftir götunum. Upp koma óvæntir titlar sem maður hefði kannski seint ratað á að öðrum kosti. Útúrdúr um sjálf- stæði lesandans

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.