Lesbók Morgunblaðsins - 30.09.2006, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 30. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Um vit
fram
Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur
akj@hi.is
Hversu margir flettu pappírsblaði ímorgun? Örfáir réttu upp hönd.Hversu margir hafa kíkt á net-miðla í dag? Svo til allir. Hve
margir vilja helst af öllu vinna á netmiðli?
Þeirri spurningu svarar kannski einn eða
tveir játandi og stundum enginn. Hverjir
ætla sér að vinna á blaði? Það vilja nær allir.
Þessa litlu sögu af fyrsta tíma í blaða-
mennskuskóla sagði norskur kollegi minn á
samkomu norrænna kennara í blaðamennsku
sem ég sótti nýlega í Stafangri. Og margir,
sem þar voru staddir, virtust kannast við
þessa frásögn og þó ekki sé það án und-
antekninga höfðu flestir af þessu áhyggjur.
Fyrsta erindið sem flutt var á þessari mætu
samkomu bar reyndar svip af norrænni „pro-
blematík“. Mætti jafnvel segja að örlaði á
angist kennaranna, og beinum áhyggjum af
atvinnuöryggi. Erindið hét hvorki meira né
minna en: „Hvernig gerum við okkur ómiss-
andi?“ Væntingar, markmið og raunveruleiki,
menntum við rétta tegund af blaðamönnum
eða erum við að mennta fólk fyrir fag sem
ekki er til?“
Og það var stutt í áhyggjur hjá kenn-
urunum vegna misræmis milli væntinganna
og þess raunveruleika sem bíður stúdentanna
að loknu námi. Ekki hughreysti það heldur
þá sem eru uggandi um framtíð blaða-
mennskunnar og blaðamennskuskólanna – og
á þeim var enginn hörgull á þessari samkomu
– þegar ritstjóri netútgáfu norska blaðsins
VG, sem áður hét Verdens Gang, sagðist hafa
verið kominn á fremsta hlunn með að segja
ungum frænda sínum að gera hvað sem væri
annað en að sækja um í hefðbundnum blaða-
mennskuskóla, langaði hann til að leggja fyr-
ir sig blaðamennsku. Ritstjórinn var ekki
sáttur við það sem menn lærðu í hefðbundnu
blaðamennskunámi. Blaðamennina verðandi
þyrfti að hans dómi að fræða betur um það
hvernig almenningur ber sig eftir fréttum,
hvað, hvenær og hvar væri lesið, hversu lengi
í einu og svo framvegis. Blaðamenn þyrftu að
kunna skil á dreifingu og gangast við því að
auglýsingar væru ekki bara af hinu illu, held-
ur heiðarleg tekjulind.
Stúdentarnir ætla svo til allir að helga sig
djúpum og ítarlegum greinaskrifum. Þeir
ætla að skrifa frásagnir þar sem reynir á stíl-
snilldina. Yfirlýst markmið þeirra er að
stinga á kýlum samfélagsins með ötulli rann-
sóknarblaðamennsku og helst þannig að af-
raksturinn verði greinaflokkur, opna eftir
opnu þar sem ný sannindi opinberast áhuga-
sömum lesendum. En þeir virtust ekki alveg
jafn sólgnir í að lesa þessar löngu og ítarlegu
úttektir og þá þyrsti í að skrifa þær. Að vísu
bentu einhverjir á að þessi vitnisburður væri
fenginn svo til á fyrsta degi. Stúdentarnir
ættu að hafa háleitar hugmyndir um hlutverk
blaðamanna og fjölmiðla yfirhöfuð, og þeir
væru líka frá upphafi undir áhrifum af því
sem væri viðtekið sem fínni blaðamennska,
og skárra væri það nú ef menn ætluðu sér
bara að þjóna markaðnum.
Það hristu reyndar margir höfuðið undir
lestri netritstjórans, en fyrir utan það að
skamma blaðamennskukennarana fyrir að
rækta grillur og ranghugmyndir hjá stúd-
entum, kom hann til að tala um stefnubreyt-
ingarnar sem orðið hafa á fjölmiðluninni. Það
væri ekki lengur svo að lesendurnir tækju
bara við þeim fréttum sem blöðin færðu þeim
og skrifuðu í mesta lagi lesendabréf til að
gera athugasemdir við fréttaflutninginn. Nú
ætti efni frá lesendum miklu greiðari leið inn
á síðurnar, þá sérstaklega vefsíðurnar og
sambandið við þá væri alltaf að verða meira
og meira virði fyrir útgáfuna. Það gæti skipt
sköpum, ekki síst þegar stóratburðir yrðu,
eða hörmungar dyndu yfir. Því til sönnunar
benti hann á að í Noregi hefðu fyrstu fréttir
og myndir frá flóðbylgjunni sem skall á Phu-
ket-strönd í Taílandi um jólin 2004 birst á
vefútgáfu VG. Þær komu úr farsíma lesanda
sem sendi þær löngu áður en fréttir eða
myndir bárust frá hefðbundnum fréttaveit-
um.
Og bloggsíður lesenda væru líka gjöfular
uppsprettur efnis fyrir VG á Netinu. Lesend-
urnir eiga sér sitt svæði, Læsernes VG en
með því fylgjast blaðamenn, tína upp fréttir
úr blogginu, eða finna umræður sem eiga er-
indi til almennra lesenda.
En í allri þessari „problematík“ er samt
líklega ástæða til að hafa áhyggjur, að
minnsta kosti fyrir þá stéttvísu, sem velta
vöngum yfir því hvort blaðamennskan sé að
hverfa. Þeir eru fleiri, sem lesa VG á Netinu
en prentað á pappír, en það vinna miklu færri
á netritstjórninni en ritstjórn pappírsútgáf-
unnar. Og þó að menn sem aðhyllast pappír
haldi að netinnlit og -lestur geti vakið les-
endum þorsta eftir meiri og íhugulli umfjöll-
un í pappírsútgáfunum virðist það ekki raun-
in. Að minnsta kosti fannst ekki eitt einasta
tilfelli í nýlegri danskri rannsókn á lestr-
arvenjum, þar sem lesandi sagðist hafa rokið
til og keypt sér blaðið eftir að hafa lesið
stuttu fréttirnar á tölvuskjánum sínum.
Morgunblaðið/Ásdís
Hverfandi „Ritstjórinn var ekki sáttur við það sem menn lærðu í hefðbundnu blaðamennskunámi. Blaðamennina verðandi þyrfti að hans dómi
að fræða betur um það hvernig almenningur ber sig eftir fréttum, hvað, hvenær og hvar væri lesið, hversu lengi í einu og svo framvegis.“
Er blaðamennska að hverfa?
»Erindið hét hvorki meira
né minna en: „Hvernig
gerum við okkur ómissandi?“
Væntingar, markmið og
raunveruleiki, menntum við
rétta tegund af blaðamönnum
eða erum við að mennta fólk
fyrir fag sem ekki er til?“
FJÖLMIÐLAR
Anna Kristín Jónsdóttir er nýr höfundur
Fjölmiðlapistla í Lesbók. Hún er verkefnis-
stjóri MA-náms í blaða- og fréttamennsku,
félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
I Í Morgunblaðinu í gær birtust tvær fréttirsem kölluðust skemmtilega á. Á síðu 2 var
annars vegar sagt frá nýjum samningi til fimm
ára á milli menntamálaráðuneytisins og RÚV
um að stórauka framboð á íslensku efni í Sjón-
varpinu. Samkvæmt samningnum verður Rík-
isútvarpinu gert að styrkja og efla sjónvarps-
þátta-, kvikmynda- og
heimildamyndagerð með
því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum
framleiðendum. „RÚV skuldbindur sig til að
gerast kaupandi eða meðframleiðandi að
leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimild-
armyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til
þess að lágmarki 150 milljónum kr. á ári frá og
með árinu 2008. Árið 2009 hækkar upphæðin í
200 millj. kr. og verður 250 millj. kr. eftir fimm
ár,“ sagði í fréttinni. Þorgerður Katrín Gunn-
arsdóttir menntamálaráðherra og Páll Magn-
ússon útvarpsstjóri lýstu mikilli ánægju með
samninginn og sögðu hann marka tímamót. Og
Ágúst Guðmundsson, forseti Bandalags ís-
lenskra listamanna (BÍL), tók undir það og
sagði að lengi hefði verið beðið eftir breyt-
ingum í þessa átt.
II En á síðu 19 birtist síðan frétt undir fyr-irsögninni: „Hvar er íslenskt sjónvarp?“
Þar boðar BÍL með Ágúst Guðmundsson í far-
arbroddi til fundar í Norræna húsinu í dag,
laugardag, en markmið fundarins er að „vekja
fólk til vitundar um innlenda dagskrárstefnu í
sjónvarpi“, eins og segir í fréttinni. Fríður
hópur fyrirlesara ætlar að taka til máls á fund-
inum og væntanlega býsnast mikið yfir hörm-
ungarástandinu í „íslensku“ sjónvarpi þar sem
útlenskt efni, einkum amerískt og enskt, hefur
tröllriðið dagskránni. Það er auðvitað alveg
hárrétt en nú virðast menntamálaráðherra og
útvarpsstjóri hafa orðið fyrri til, og spurningin
er hvort samningurinn sem þau undirrituðu
muni ekki hafa áhrif á málflutning þeirra sem
tala á fundinum í dag. Líklega verður þessum
ánægjulega áfanga fagnað en kannski er ólík-
legt að fundurinn breytist í einhverja halelúja-
samkomu, það eru fleiri sjónvarpsstöðvar á Ís-
landi en Ríkissjónvarpið. Reyndar hafa sumar
þeirra sýnt ákveðið frumkvæði í íslenskri dag-
skrárgerð, bæði Stöð 2 og Skjár einn hleyptu
svolitlu lífi í íslenskt sjónvarp á sínum tíma. En
það sem þó einkennir íslenska dagskrárgerð
þessara sjónvarpsstöðva nú um stundir og síð-
ustu ár reyndar er að hún er ekki íslensk, hún
er umfram allt endurvinnsla eða eins konar
þýðingar á erlendu sjónvarpsefni, nægir þar
að nefna raunveruleikaþættina alla. Það sem
ekki hefur tekist í fjörutíu ára sögu íslensks
sjónvarps er að búa til íslenska sjónvarpshefð
með svipuðum hætti og það hefur orðið til ís-
lensk útvarpshefð á Gufunni.
Neðanmáls
Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs-
ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins
Eftir Ólaf Pál Jónsson
opj@khi.is
!
Þegar Ísland birtist á lista yfir
hinar viljugu þjóðir sem studdu
innrás Bandaríkjanna í Írak voru
Davíð og Halldór gagnrýndir
harðlega. Ákvörðunin var þeirra,
hér birtust athafnastjórnmál í
hnotskurn, knúin áfram af sterk-
um leiðtogum. Þegar Halldór dró
sig í hlé sagði hann að ákvörðunin hefði
verið afdrifarík en að auðvelt væri að vera
vitur eftirá.
Á Íslandi hafa orðið framfarir í löggjöf
um umhverfismál á síðustu árum, einkum
með lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Nú má ekki hefja framkvæmdir sem hafa
meiriháttar áhrif á umhverfið nema að
undangengnu mati á umhverfisáhrifum.
En stundum mega lögin sín lítils. Fyrir
rúmu ári felldi Hæstiréttur Íslands úr
gildi úrskurð umhverfisráðherra um að
bygging álvers Alcoa við Reyðarfjörð
þyrfti ekki sérstakt umhverfismat heldur
mætti nota eldra mat fyrir annarskonar ál-
ver. Þann tíma sem ekkert umhverfismat
var til fyrir álverið var þó hvergi slegið af
framkvæmdum. Því var borið við að í gildi
væri framkvæmdaleyfi frá Fjarðarbyggð
og starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, en
lögmætt umhverfismat er þó forsenda
hvoru tveggja. Og ráðamenn – þeir sömu
og höfðu samþykkt lög um mat á umhverf-
isáhrifum – blessuðu gang mála. Þegar
Skipulagsstofnun gaf jákvætt álit um
matsskýrslu Alcoa, sögðu menn: „Sko, það
var engin ástæða til að dvelja yfir form-
legheitunum.“ Þarna voru athafnastjórn-
málin aftur komin. Menn voru glaðir yfir
því að sjá verkin tala og vera vitrir eftirá.
Stutt álit Gríms Björnssonar jarðeðlis-
fræðings rataði að vel athuguðu máli ekki
inn á borð alþingismanna þegar frumvarp
til laga um Kárahnjúkavirkjun var til um-
ræðu. Athugasemdir Gríms voru óþægi-
legar fyrir Landsvirkjun sem vildi drífa í
virkjuninni, og einnig fyrir ríkisstjórnina
sem var enn áfjáðari í framkvæmdina.
Grímur færði rök fyrir því að framkvæmd-
in væri slælega undirbúin og sagði m.a.:
„Minnt er á að til stendur að bora jarð-
göng virkjunarinnar með bortækni sem er
óþekkt og óreynd hér á landi. Rætt er um
leka til jarðganganna og leka úr sjálfu
Hálslóni, og áhrif þessa á verktíma, kostn-
að og ársafköst virkjunar.“ Athugasemd-
um Gríms var svarað á lokuðum fundi hjá
Landsvirkjun (og engin fundargerð).
Nú er borunin langt á eftir áætlun og
kostnaðurinn hefur farið milljarða fram úr
áætlun. Einnig hefur þurft að leggja mikla
vinnu og kostnað í þéttingu lónsins. Grím-
ur sagði að sér virtist verkefnið „illa und-
irbúið og alls ekki tækt til ákvarðanatöku“,
en ákvörðunin var tekin og verkefnið rekið
áfram. Athafnastjórnmálin voru enn ljós-
lifandi komin. Nú lesa ráðamenn at-
hugasemdir Gríms og yppta öxlum yfir
þeim milljörðum sem verkið hefur farið
fram úr kostnaðaráætlun og tuldra: „Það
er auðvelt að vera vitur eftirá.“
Aðalsmerki athafnastjórnmála er að
láta athafnirnar tala en dvelja ekki yfir
rökræðum. Í athafnastjórnmálum gegnir
rökræðan fátæklegu hlutverki, það sem
skiptir máli er meirihluti. En rökræðan,
opin og lýðræðisleg rökræða, er ekki bara
forsenda þess að ákvarðanir séu teknar í
betri sátt við þá sem í hlut eiga heldur er
hún leið til að taka betri ákvarðanir – vit-
urlegri ákvarðanir. Goethe sagði að vart
væri til verri löstur í fari manna en at-
hafnasemi um vit fram. Athafnastjórn-
málin hefja þennan löst til vegs á sviði
stjórnmálanna. Það er rétt sem Halldór
Ásgrímsson og fleiri ráðamenn hafa bent á
að það er auðvelt að vera vitur eftir á. Og
það er sínu auðveldara ef menn rækta lest-
ina og leggja sig fram um að vera heimskir
fyrirfram.
Höfundur er lektor í heimspeki og stjórnarmaður
í Náttúruverndarsamtökum Íslands.