Lesbók Morgunblaðsins - 30.09.2006, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 30.09.2006, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 30. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gunnar Hrafn Jónsson gunnarh@gmail.com H inn 9. september síðastliðinn birtist grein eftir Má Jóns- son í Lesbók Morgunblaðs- ins undir fyrirsögninni „Gamli sáttmáli – er hann ekki til?“ Þar fjallar Már um skrif brasilíska fræðimannsins Patriciu Pires Boulhosa en Sögufélagið hefur nýlega gefið út þýðingu Más á úttekt hennar: „Gamli sáttmáli. Tilurð og tilgangur“. Boul- hosa hefur komist að þeirri niðurstöðu að texti Gamla sáttmála sé alls ekki frá 13. öld, heldur eigi hann sér rætur í pólitísku umróti 15. aldar og sem liður í sjálfstæðisbaráttu Ís- lendinga. Fyrir því færir hún ýmis rök sem menn hafa tekið misvel – en af því tilefni ræddi blaðamaður við Sigurð Líndal lagapró- fessor og Helga Þorláksson, prófessor í sagnfræði, um meginatriði þessarar nýju kenningar. Aldur handritanna Það hefur lengi verið ljóst að elstu heimildir um Gamla sáttmála eru töluvert yngri en sáttmálinn sjálfur og segja má að sú stað- reynd sé byrjunarreitur Boulhosa í þessu máli. Helgi Þorláksson segir að vissulega gæti ungur aldur handritanna gert sáttmál- ann tortryggilegan við fyrstu sýn: „Það er al- veg rétt að Gamli sáttmáli frá 1302 er bara til í handritum frá seinni hluta 15. aldar og síðar. Gissurarsáttmáli 1262 er að sama skapi aðeins varðveittur í handritum frá sex- tándu öld og síðar. Þetta virðist kannski tor- tryggilegt en því miður er þetta bara mjög algengt vandamál með miðaldaheimildir. Þær eru oft ekki til nema sem miklu yngri afrit. Þetta er ekkert nýtt í sjálfu sér. Sem dæmi má nefna að elsta útgáfan sem við eigum af Íslendingabók er frá 17. öld en margir telja að hún sé rituð eftir forriti frá árinu 1200 eða þar um bil. Þeir sem skoðað hafa Giss- urarsáttmála og lagaumhverfi miðalda sjá al- mennt ekki ástæðu til að ætla að mikil brenglun hafi átt sér stað við endurritun. Al- mennt er talið að hann hafi varðveist nokkuð vel. Auðvitað eru þó til mörg ákaflega brengluð handrit og sumir textar frá þessum tíma eru illa varðveittir. En í þessu tilviki virðist því ekki til að dreifa.“ Sigurður Líndal var að ljúka við að lesa ritgerð Boulhosa um Gamla sáttmála þegar blaðamann bar að garði og spurði hann álits á því hvort tiltölulega ungur aldur umræddra handrita gæfi ástæðu til að efast um sögu- legt gildi sáttmálans. „Boulhosa spyr sig hvers vegna ekki séu til eldri handrit af sátt- málanum en frá 15. og 16. öld,“ segir Sig- urður. „Sérstaklega í ljósi þess að mikið er til af lagalegum textum sem geta ekki um ákvæði hans. Ég myndi svara því til að sátt- málinn hefði hreinlega ekki talist hafa laga- legt gildi á borð við Jónsbók, Járnsíðu og önnur lög. Vissulega er til urmull af mik- ilvægum sáttmálum konunga við þegna sína frá miðöldum. Frægasta dæmið er líklegast Magna Carta frá 1215. Eins má nefna yf- irlýsingu eða handfestu Danakonungs frá 1282. Í þeim tilvikum var þó um að ræða beina yfirlýsingu frá konungi, loforð um að tryggja þegnum ákveðin réttindi. Gamli sátt- máli er hins vegar saminn á Íslandi án ná- vistar konungs og það er ekki einu sinni ljóst hvort konungur samþykkti hann nokkurn tímann. Þó að margt sé efnislega líkt með honum og öðrum sáttmálum frá þessum tíma er hann því ekki sambærilegur við fyrr- nefnda sáttmála. Enn fremur ber að nefna að þar til um miðja 15. öld gætti konungsvalds fremur lítið á Íslandi og það mætti eins ímynda sér að ástæða þess að sáttmálans er fyrst getið í heimildum þess tíma sé sú að þá hafi talist þörf á að minna á ákvæði hans. Fram að þeim tíma hafi líklega ekki reynt sérlega mikið á sáttmálann meðan afskipti konungs voru í lágmarki.“ 15. aldar pólitík? Að sögn Helga Þorlákssonar er Boulhosa fyrst og fremst að spyrja sig hvort eitthvað í stjórnmálaástandi 15. aldar, þegar [elstu varðveittar gerðir af Gamla sáttmála voru ritaðar], gæti útskýrt texta hans betur en meintur 13. [og 14. ] aldar uppruni. „Hún telur grunnspurninguna hljóta að vera þá hvort [] eitthvað hafi verið að gerast á þeim tíma [þegar] handritin urðu til sem varpað gæti ljósi á þau og jafnvel skýrt að þau [hafi verið búin til þá]. Þetta er í sjálfu sér ágæt spurning en mér finnst henni ekki ganga alveg nógu vel að sýna fram á sam- ræmi milli hagsmuna Íslendinga á 15. öld og texta sáttmálans. Til að mynda finnst mér mjög ólíklegt að svokölluð sex-skipa regla – ákvæði í sáttmálanum þess efnis að sex skip komi til landsins ár hvert – hafi verið 15. ald- ar uppfinning og raunar heyrist mér hún að- eins hafa dregið í land hvað það atriði varð- ar. Boulhosa segir líka að Íslendingum hafi verið illa við hirðstjórann Hannes Pálsson sem sendur var hingað frá Noregi. Almenn óánægja með störf hans hafi valdið því að menn fundu upp þetta ákvæði um að lög- menn og sýslumenn hér á landi ættu að vera íslenskir. Hannes var hins vegar hvorki lög- maður né sýslumaður, heldur var hann í frekar formlegu embætti hirðstjóra. Ég sé því ekki að þetta eigi mjög vel við. Mér finnst kannski að [Boulhosa] þyrfti að kafa aðeins dýpra í aðstæður hér á landi á 13. öld og í blábyrjun 14. aldar. Mér finnst gríð- arlega margt við aðstæður hér á landi 1302 [styðja] að Gamli sáttmáli þess tíma sé rétt tímasettur.“ Sigurður Líndal segist heldur ekki sjá margt óeðlilegt við þá staðhæfingu að sátt- málinn sé frá 13. öld. „Við sjáum það út í gegn að Íslendingar hafa alltaf viljað eiga hlut að lagasetningu, það kemur meðal ann- ars fram við lögfestingu Jónsbókar 1281. Ákvæðið um að ná íslenskum lögum í Gamla sáttmála er því fullkomlega eðlilegt. Eins má segja að bann við utanstefningum nema þeirra manna sem dæmdir séu á Alþingi burt af landinu sé dæmigert hagsmunamál, jafn- vel mannréttindamál, miðaldanna – í Magna Carta er meðal annars talað um að menn eigi rétt á að vera dæmdir af jafningjum sínum áður en þeir séu settir í dýflissu. Noregskon- ungur hafði ítrekað stefnt Íslendingum utan, við litla hrifningu landans. Hvað varðar það ákvæði að lögmenn og sýslumenn skyldu vera Íslendingar þá finnst mér það ákaflega skiljanlegt í ljósi þess að konungur hafði komið hér að norskum sýslumönnum og lög- mönnum seint á þrettándu öld. Af hverju ættu íslenskir höfðingjar að sætta sig við að útlendingar taki öll helstu embætti landsins? Þetta var ekki þjóðernismál, heldur hreint og beint hagsmunamál valdamikilla manna hér á landi. Menn vildu, almennt séð, tryggja sig gegn hugsanlegu geðþóttavaldi konungs og tryggja sér og sínum embætti.“ Sigurður sagðist hissa á því að Boulhousa skyldi ekki rannsaka nánar það ákvæði Gamla sáttmála sem varðar mótstöðuréttinn. „Þetta ákvæði þýðir í raun að sáttmálinn telst fallinn úr gildi ef konungur, að ’bestu manna yfirsýn’, telst hafa gerst brotlegur við hann. Konungur á semsagt ekki að dæma um slíkt sjálfur, heldur hinir beztu menn þó um það megi svosem deila hverjir þeir voru.“ Samrýmist 13. aldar hagsmunum Sigurður Líndal segir að rök megi færa fyrir því að öll meginatriði sáttmálans séu efn- islega frá 13. öld og byrjun 14. aldar. „Það sem bætist við í byrjun 14. aldar eru ákvæðin um að lögmenn og sýslumenn séu innlendir menn og utanstefningar, bannaðar hvort tveggja að gefnu tilefni. Íslendingar voru í miklum deilum við Hákon konung 5. á þeim tíma, enda stefndi hann markvisst að eflingu konungsvalds, og það tók þrjú ár þar til hann var loks hylltur hér á landi. Við lok þeirrar deilu, árið 1302, var seinni útgáfa Gamla sáttmála gerð. Ákvæðið um utanstefn- ingar var einnig mjög mikilvægt þá í ljósi þess að Hákon hafði nýtt sér það vopn mikið í baráttu sinni við Íslendinga. Ég held sem sagt að það sé ekki mikil ástæða til að efast um að meginatriði sáttmálans séu efnislega frá þessum tíma, þótt vissulega sé einhver seinni tíma búningur á orðalagi. Það má geta sér til um, að sú 15. aldar pólitík sem Boul- housa talar um hafi orðið til þess að menn hafi þá nálgast aðstæður öðru vísi og haft einhverjar aðrar áherslur en við gerð sátt- málans á 13. öld þótt öll meginákvæði hans megi rekja þangað. Á seinni hluta 15. aldar er konungsvaldið að aukast og Íslendingar höfðu vissulega hagsmuna að gæta en ekki endilega nákvæmlega þeirra sömu og á 13. öld, sem gæti væntanlega skýrt orðalag og einhverjar áherslubreytingar. En þegar hér var komið hafa eldri gerðir orðið úreltar og það skýrt þá staðreynd að upprunalegu skjölin eru hvergi til.“ Helgi Þorláksson sagði blaðamanni að lok- um að hann fagnaði þeirri umræðu sem skrif Boulhousa og Más Jónssonar hafa [hrundið] af stað. „Það veitir ekkert af því að endur- skoða rök með og á móti svona hlutum. Þessar hugmyndir sem flestir aðhyllast varðandi Gissurarsáttmála og Gamla sátt- mála eru orðnar ansi gamlar og þær komu flestar fram á tímum sjálfstæðisbaráttunnar. Sá sem skrifaði síðast um þetta af ein- hverjum krafti var Jón Jóhannesson og [skrif hans eru ] frá 1956. Okkur veitir því ekkert af því að endurskoða mál af þessu tagi. Þetta er mál sem var á sínum tíma skoðað í ljósi sjálfstæðisbaráttunnar þegar menn voru í frelsisbaráttuham. Þegar grunur leikur á um að hug- myndafræði hafi mótað skýringar manna er mikilvægt að endurskoða málin í nýju ljósi.“ Legg ek hönd á helga bók Brasilíska fræðikonan Patricia Pires Boul- hosa heldur því fram í nýrri bók að texti Gamla sáttmála sé alls ekki frá 13. öld, heldur eigi hann sér rætur í pólitísku umróti 15. ald- ar og sem liður í sjálfstæðisbaráttu Íslend- inga. Kenningar Boulhosa voru kynntar í Lesbók fyrir skömmu og hér bregðast tveir íslenskir fræðimenn við, Sigurður Líndal og Helgi Þorláksson. Sigurður „Ég held sem sagt að það sé ekki mikil ástæða til að efast um að meginatriði sáttmálans séu efnislega frá þessum tíma.“ Helgi „Þegar grunur leikur á um að hug- myndafræði hafi mótað skýringar manna er mikilvægt að endurskoða málin í nýju ljósi.“ Höfundur er sjálfstætt starfandi blaðamaður. Patricia Pires Boulhosa lauk sagnfræði- og lögfræðinámi við kaþólska há-skólann í Sao Paulo en því loknu starfaði hún sem lögmaður í Brasilíu, ensneri sér síðan að Íslandssögu. Hún kom tvisvar til Íslands og nam við Há-skóla Íslands; fyrst 1993–94 og aftur veturinn 1996–97. Síðan hélt hún til Englands, þar sem hún lauk doktorsprófi frá Cambridge-háskóla 2003 og heitir doktorsritgerð hennar; Íslendingar og Noregskonungar í ljósi sagna og lagatexta. Hún kennir nú við Cambridge-háskóla norræn fræði víkingaaldar. Freystein Jóhannsson ræddi við Boulhosa um kenningar hennar í Lesbók 25. júní á síðasta ári. Þar sagði hún meðal annars: „Til doktorsritgerðarinnar tók ég fyrir lög frá 13. og 14. öld og las úr þeim tengslin milli Íslendinga og Noregskonunga. Ég hafði áður fengið þá viðteknu mynd af málunum, að Íslendingar hefðu gengið nauðugir Noregskonungi á hönd og staðfest það með Gamla sáttmála 1262. Þessi mynd breyttist heldur betur þegar ég fór að rannsaka málið og þá sér- staklega Gamla sáttmála því niðurstöður mínar urðu þær að sá Gamli sáttmáli, sem við þekkjum, sé alls ekki frá 13. öld, heldur saminn tveimur öldum síðar og efni hans þá byggt á minnum og því sem menn vildu að hefði verið í slíkum samningi! Gamli sáttmáli er ekki samhljóma ástandinu á Íslandi á 13. öld. Af honum mætti ráða að Íslendingar hefðu verið fátækir og þurfandi og má í því sambandi benda á þá grein, sem segir að Noregskonungur skuli sjá til þess að sex skip gangi af Nor- egi til Íslands. Ekki er nú beðið um mikið fyrir landið allt! En Sturlunga gefur allt aðra mynd af Íslandi þessa tíma; Íslendingar voru ekki fátækir, heldur í góðum efnum og djarfhuga. Hins vegar smellpassar Gamli sáttmáli við Ísland á 15. öld. Þá ríkti fátækt í land- inu og menn vildu meðal annars opna fyrir viðskipti við Englendinga. Það hefur ábyggilega verið vopn í þeirri baráttu að draga fram Gamla sáttmála og segja við Noregskonung að hann hafi ekki uppfyllt samninginn, hvað skipin sex snerti! Í lagatextum frá 13. og 14. öld er hvergi minnzt á Gamla sáttmála, það er ekki fyrr en á þeirri fimmtándu sem hann stekkur allt í einu alskapaður fram í dags- ljósið. Það er mjög erfitt að benda á einhvern einn tímapunkt og segja, að þá hafi Ís- lendingar gengizt Noregskonungi á hönd. Þetta var löng þróun; að íslenzkir höfð- ingjar sóttu styrk til Noregskonungs og hétu honum tryggð í staðinn. Þannig færð- ist Ísland smám saman undir Noregskonung. Gamli sáttmáli er ekki sprottinn upp úr þessum jarðvegi. En þegar við lítum til 15. aldarinnar, þá kemur allt heim og saman! Og hann er algjörlega í stíl við lenzku þess tíma að skrifa niður lög og hvaðeina og koma þeim texta á handrit. Ég hef tamið mér að nota orðið tilbúningur um Gamla sáttmála, ekki kallað hann fölsun. En hann er skilgetið afkvæmi spunameistara fimmtándu aldarinnar, sem kölluðu allt gamalt til þess að gefa því meira vægi!“ Gamli sáttmáli tilbúningur Leikur einhver vafi á tilurð Gamla sáttmála?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.