Lesbók Morgunblaðsins - 28.10.2006, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 28.10.2006, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 28. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gunnar Hersvein gunnars@hi.is S á sem sest á árbakkann og gefur sér tíma til að horfa lengi í ána nemur rytma í lífinu: verðandi. Það sem er … er á örskotsstund orðið eitthvað annað. Lífið virðist ekki vera neitt sem hönd festir á. En sá sem situr við þar til vitundin og vatnið renna saman í tíma skynjar festuna. Fyrst tap- ast þó fótfestan og einhver gæti horfið í ána en svo rennur reglan upp fyrir manni sem gerir tilraun til að tjá hana á strigann. Ætli það sé hægt? Ég er áhorfandi. Hann er aftur á móti veiðimaður, stendur lengi við á eða vatn og veiðir fiska. Hann er einnig listamaður sem stendur tímunum saman við strigann og málar strauminn til að höndla lögmál. Gerir tilraun til að grípa það sem hann dáist að, birtuna og formið. Hann umbreytist og áin sjálf bætir striganum við farveg sinn. Málverkið er jafn óútreiknanlegt og veðrið. Málarar og veðurfræðingar gera mælingar, bera saman og fá niðurstöður en fólkið skynjar veðrabrigðin og listina. Vísindamenn gera um- hverfismat en áhorfandinn stendur orðlaus gagnvart hrikafegurð. Hann þarf ekki að fá að vita um kílóvattstundir eða hvort það er fiskur. Hann gæti þó langað til að vera veiðimaður og stökkva í vöðlur og vaða út í ána með stöng. Maðurinn er þversögn og það er sitthvað að trúa og vita, skynja og hins vegar að reikna. Efinn um gildið býr í hjörtunum en síhreyf- ingin í umhverfinu skapar hrynjanda sem lista- maðurinn leitast við að grípa og miðla gegn ef- anum. Næmið á hrynjanda náttúrunnar vex og brátt ber á umhyggjusemi gagnvart henni – samhljómi. Listamaðurinn túlkar landið milli- liðalaust á strigann. Hann situr undrandi við hyl og endurspeglar eitthvað sem býr milli náttúru og mannlífs. Hann veit að það er ekki rökrétt en gerir það samt. „Ég trúi því að málverkið sé náttúruafl eða frumafl,“ segir Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður. „Veiðihvötin er frumhvötin, þegar ég geng til veiða og vaktin hefst og sjálf- ur veiðiskapurinn fer í gang breytist skynjunin mjög róttækt, maður breytir um eðli. Nátt- úrusjónin verður einbeitt, allur líkaminn tekur þátt. Maginn, nefið, eyrun, húðin. Markmiðið er einfalt og skýrt. Eðlisávísunin er virkjuð í botn.“ Sigtryggur Bjarni er með vinnustofu á heim- ili sínu Englaborg þar sem hærra er til lofts en í öðrum húsum. Litatúpurnar í skúffunum á vinnustofunni minna mig á flugur í fluguboxi. Ætli hann hugsi: „Hvaða liti skal nota á þennan striga í þessa mynd á þessum tíma til að veiða karakterinn í þessari á?“ Ég spyr hann ekki út í það, þó segir hann: „Þegar best lætur upplifi ég það að mála eins og veiði. Ég reyni að koma undirbúningi og for- vinnu málverksins þannig fyrir að þetta al- gleymi og sú einbeiting sem einkennir veiði- mann verði til. Ef það tekst, verður niðurstaðan, málverkið oftast gott. Ef það tekst skerpist náttúrusjónin og maður öðlast eigin náttúrusýn,“ segir Sigtryggur Bjarni. Rómantík eða kaldhæðnin ein Áin rennur áfram, smáár og lækir falla í hana, allt streymir í fögrum tóni, ekki mishljómi heldur samhljómi. Náttúrufegurðin er ekki af- stæð, hún er heilbrigð og vekur sífellda undr- un. Orð sem áður voru notuð til að lýsa nátt- úrufegurð eins og stórfengleg eru nú notuð í auglýsingum um vöruúrval í verslunum. Fjöll voru áður stórfengleg og klettótt og ár voru kátar eða fúlar og jafnvel seigfljótandi. Ætli sá sem myndar tengsl við náttúruna unni henni þótt hún geti verið ógnvænleg? Ég er áhorfandi í eirðarlausum heimi. Þó þykist ég greina tón í fjarska, Sigtryggur nem- ur litinn. Tónninn er handan skarkalans og lit- urinn hulinn í þokunni. Fæstir búast lengur við að heyra eða sjá eitthvað markvert, enda róm- antíkin löngu liðin undir lok – tröllum gefin. Nú ríkir kaldhæðnin ein. Sigtryggur andmælir áhorfandanum: „Ég er ekki sammála því, rómantíkin er blússandi lif- andi hjá fjölda af frábæru listafólki. Helftin af þjóðinni er bergnumin af náttúrunni sem hverfur. Fólk hefur fundið sér eitthvað heilagt. Og það er rómantískt.“ Málverkið er þá ekki blekking. Málaður him- inn speglast í vatni. Hann er líka hylur sem lokkar. Málverkið er náttúrufyrirbrigði. Pens- ilfarið er einn af grunnþáttum málverksins og getur falið í sér allt frá dýpstu sálarangist til innhaldslauss skreytis. „Ég sækist eftir því að vinnsla málverkanna, hin físíska nálgun við strigann með málning- unni, málunin sjálf, verði einhvers konar rennsli,“ segir Sigtryggur. „Blanda eins sam- viskulega og ég get grunnlitina í verkinu sem geta verið til dæmis sjö bláir tónar. Áður hef ég markað fyrir helstu birtuskilum, litabreyt- ingum og straumhvörfum á strigann. Þá getur rennslið hafist. Ég leitast við að sameinast hrynjandi vatnsins og mála verkið í einni lotu. Til þess að þetta takist þarf ég að halda einbeit- ingu allt ferlið sem getur tekið upp í sólar- hring.“ Það er sitthvað að trúa og vita. Málverkið er ekki blekking þrátt fyrir efann sem nagar lista- manninn. Þetta snýst um úthald, þrek og næmi. „Efanum léttir skyndilega og það sem ég hrærði saman í eymd og volæði fyrir viku er orðið af einhverju haldbæru. Ég hef gengið það oft í gegnum þetta ferli að jafnvel á botninum veit ég að ég er að ganga í gegnum ferli.“ Málverkið hefur alltaf fylgt manninum og hverfur um leið og hann. Málverkið hefur gagnvirk áhrif á vitundina óháð rómantík og kaldhæðni. Sjálfhverfur áhorfandi Eftir gönguferðir um landið, þar sem ár renna í aðrar ár, fljót, vötn eða til sjávar. Eftir að hafa gengið með ám upp eða niður, vaðið yfir þær, kastað steinum út í þær og jafnvel gert smá- stíflur. Eftir að hafa lært nöfnin, veitt silung, tekið sundsprett. Eftir að hafa lagst á magann, bergt af vatninu, sest við bakkann og samein- ast straumnum, horft á spegilmynd mína renna burtu, bjóst ég ekki við nýrri reynslu. Fyrst beygði ég mig eins og Narkissos niður að tærri lind til að svala þorsta mínum. Sá sem það gerir verður víst umsvifalaust ástfanginn af sjálfum sér. „Nú skil ég,“ hvíslar maður þá, „hvers vegna aðrir hafa þjáðst af mínum völd- um, því ég blátt áfram brenn af ást til sjálfs mín.“ Fegurðin er þá ekki í vatninu, hún um- lykur ekki fjöllin og dvelur ekki í dölunum, heldur speglast aðeins í augum hins sjálfhverfa áhorfanda sem sér aðeins eigin mynd. Sér ekki ána, nemur ekki óræða lögmálið, heldur lætur það allt fara fram hjá sér. En svo rataði ég inn í vinnustofu Sigtryggs og sá botnlaus litbrigði í vatninu á striganum og yfirborð sem speglar heiminn. Sá náttúru og striga renna saman. „Hlutverk mitt er að finna sjónarhorn eða glugga þar sem þau meintu grundvallarsann- indi sem ég leita að endurspeglast og setja þau svo fram á þann hátt að þau veki forvitni fólks og vonandi opni eitthvað fyrir því,“ segir Sig- tryggur. Málverk í umhverfismati Listmálarinn er miðill. Ég sökk inn í málverkið, horfði þangað til vatnið tók að renna. Eftir að hafa numið festuna sem umvefur strauminn, þá opnaðist eitthvað og ég sá það sem ég hafði ekki séð áður. Það sem opnaðist var þekking þótt henni væri ekki miðlað á hefðbundinn hátt. „Ég tel að rannsókn listmálara sé meira í ætt við trúarlega leit en vísindalega rannsókn. Mér finnst það aukna vægi sem náttúran í sínu hreina og óspillta formi virðist hafa, réttlæta slíka rannsókn. Vaxandi tilfinning fyrir landinu veitir lífsfyllingu í heimi efahyggju,“ segir Sig- tryggur. Áhorfandinn andmælir Sigtryggi: „Mér finnst vinna listmálarans vera leit að þekkingu sem er jafnmikils virði og t.a.m. leit líffræð- inga.“ Hugtakinu þekking er of þröngur stakkur búinn og það getur haft vafasamar afleiðingar, því ákveðnir hópar sækja vald sitt til við- urkenndrar þekkingar. Listmálari getur miðl- að þekkingu á landslagi, þekkingu sem annars yrði ekki numin. Tíðarandinn gerir það að verkum að mjög brýnt er að landslaginu verði sinnt á ný af alúð: málverkið sem náttúra. Eftir að ég nam þekkinguna sem býr í mál- verkum Sigtryggs og hélt aftur á vit landsins, gekk með ám og yfir ár, skynjaði ég fleira en áður. Ég tók með mér myndavél og myndaði lifandi vatn sem aldrei nemur staðar, ár sem sprikla af gleði eins og Brúará, ár sem voru brúnaþyngri og fljót sem mér tókst engan veg- inn að skilja. Ég á afbragðs bók um þetta fljót: Lagarfljót – mesta vatnsfall Íslands eftir Helga Hallgrímsson, en mig skortir þá þekkingu um það sem Sigtryggur gæti mögulega miðlað með list sinni. Ef þær myndir væru til gætu þær vegið þungt í umhverfismati um Fljótið. Skrif- uð skýrsla um Fljótið er ágæt, einnig ljós- myndir en ef ég væri umhverfisráðherra myndi ég biðja um mörg málverk af því til að verða dómbær á gildi fljótsins. Ástæðan er einfaldlega sú að málverk miðlar þekkingu, dýpt og túlkun sem fæst ekki annars staðar. Seigfljótandi sogið Þekkingin er verðmæt og efinn hverfur aldrei. En það er undrunin sem gerir okkur að lifandi fólki. Undrun barnsins er hjartnæm, einnig undrun annarra lífvera; kettlinga, hvolpa, kálfa, jafnvel fuglsunga. Undrunin yfir hátterni hlutanna er upphafið að nýrri hugsun í huga sérhvers einstaklings. Slík undrun er á und- anhaldi í skilvirkum nútímaborgum. Til að forðast firringuna og öðlast sýn þarf borg- arbúinn að hverfa á vit náttúrunnar því það er dapurlegt að vera ævinlega í skipulögðu rými. Hann þarf að undrast utan mannvirkja. Slíka undrun þarf að sækja í regluna sem náttúran býr til og finna má í verkum Sigtryggs. Áhorfandinn undrast andspænis málverkum Sigtryggs af Soginu. Hann hefur séð þessa á renna en er ef til vill hættur að taka eftir henni. Hann hefur einnig lesið um Sogið og heyrt sög- ur og ljóð en nú hefur hann öðlast nýja sýn. „Mig hefur lengi langað til að mála Sogið,“ segir Sigtryggur. „Ég las eitt sinn skáldsögu eftir Steinunni Sigurðardóttur þar sem birt er skálduð minningargrein um mann sem átti sumarbústað í Þrastarskógi og birt er ljóðræn lýsing á seigfljótandi Soginu. Mér finnst orðið „seigfljótandi“ rétt karakterlýsing á Soginu.“ Sigtryggur hefur málað svo lengi að hann hefur losnað undan hefðinni og þroskast á eigin forsendum. Listamaðurinn fer í ham og þegar hann málar verður einbeitingin að algleymi líkt og hjá veiðimanni sem stendur við á. En hver er munurinn á reiðubúnum listmálara gagn- vart striganum og reiðubúnum veiðimanni gagnvart ánni? „Samband myndast við ána og verkefnið er að höndla karakterinn. Ég hef áhuga á fís- ískum eiginleikum vatnsins: hvernig vatnið rennur og hvernig það lætur. Brúará býr yfir gáska en Sogið er eðlisþyngra,“ segir Sig- tryggur. Áhorfandinn einbeitir sér enn, öðlast al- gleymi og undrast að málverkið er ekki aðeins mynd af vatni, ekki dauft endurkast, heldur eins konar náttúra í sjálfu sér. Málverkið dýpk- ar þekkingu hans á náttúrunni. Málverkið hreyfði við áhorfandanum sem breyttist. Sogið í farvegi strigans Áhorfandi stendur frammi fyrir málverki og gæti orðið fyrir áhrifum. Í þetta sinn mætast verkið og áhorfandinn í seigfljótandi á og náttúran og málverkið renna saman í huga hans. Sýning Sigtryggs Bjarna Baldvins- sonar, sem nefnd er Sog, var opnuð í gær í Listasafni Reykjanesbæjar. Morgunblaðið/Einar Falur Kaldhæðni? „Ég er ekki sammála því, rómantíkin er blússandi lifandi hjá fjölda af frábæru listafólki. Helftin af þjóðinni er bergnumin af nátt- úrunni sem hverfur. Fólk hefur fundið sér eitthvað heilagt. Og það er rómantískt.“ Höfundur er rithöfundur. Áhorfandi og listmálari mætast í eirðarlausum heimi » Til að forðast firringuna og öðlast sýn þarf borgarbúinn að hverfa á vit náttúrunnar því það er dapurlegt að vera æv- inlega í skipulögðu rými. Hann þarf að undrast utan mann- virkja. Slíka undrun þarf að sækja í regluna sem náttúran býr til og finna má í verkum Sigtryggs.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.