Lesbók Morgunblaðsins - 23.12.2006, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 23.12.2006, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. DESEMBER 2006 7 lesbók Eftir Sigríði Þorgeirsdóttur sigrthor@hi.is I H ér á síðum Lesbókar höfum við Eyjólfur Kjalar Emils- son á undanförnum vikum átt í ritdeilu um heimspeki Platons og mannskilning vestrænnar heimspeki. Út- gangspunkturinn er túlkun á tveimur atriðum í heimspeki Platons, dauðastund Sókratesar og hellislíkingunni svonefndu. Á yfirborðinu lætur Eyjólfur líta út fyrir að meginástæðan fyrir því að hann skrifar tvær greinar í Lesbók til höfuðs ræðu sem ég flutti um kynjafræði og svars sem ég samdi fyrir Vísindavefinn um hugmyndir Platons um kynin sé fyrst og fremst sú að honum hafi runnið til rifja að sjá ekki hárrétt farið með tilvitnanir. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta er yfirskin og deilan snýst í reynd um annað og meira; nefni- lega um þá skoðun að í forngrískri heimspeki hafi verið settur fram mannskilningur sem er kvenfjandsamlegur og að hann hafi verið að miklu leyti ráðandi í heimspekisögunni í meira en 2000 ár. Um þetta snýst deilan, þótt Eyjólf- ur vilji helst ekki ræða það, heldur kjósi að fela sig á bak við yfirkennarann með rauða penn- ann sem sér sig knúinn til að leiðrétta texta- fræðilega ónákvæmni. Í fyrri Lesbókargrein sinni rekur Eyjólfur af mikilli smásmygli hvað sagt er orðrétt um dauðastund Sókratesar og hvað ekki er sagt í texta Platons og ávítar mig fyrir lesa inn í text- ann hluti sem þar er ekki að finna. Raunar þverbrýtur Eyjólfur sín textafræðilegu prin- sipp sjálfur og les inn í textann að Xanþippa og Sókrates hljóti að hafa gert upp sín mál áður en hún er leidd burt og hann deyr („… má fast- lega gera ráð fyrir að þau hafi talað margt, þótt ekki séu þær samræður raktar í Faí- doni“). Á hverju byggir textafræðingurinn Eyjólfur þessa staðhæfingu? Svo virðist sem hún þjóni einkum þeim tilgangi að renna stoð- um undir þá túlkun að Xanþippa hafi vart syrgt mann sinn sem kona af holdi og blóði sem ber til hans mannlegar tilfinningar, held- ur einkum rökhugsunarinnar vegna, því dauð- ur Sókrates geti ekki rökrætt framar við fé- laga sína. Til frekari stuðnings gefur Eyjólfur til kynna að Xanþippa hafi væntanlega ekki haft ástæðu til að syrgja hann, enda hafi hún átt vísan öruggan lífeyri og barnapössun að auki. Að mínum dómi er þessi túlkun Eyjólfs sjálf órækur vitnisburður um það hve lífseigur hinn hefðbundni, karlhverfi mannskilningur er. Túlkun hans byggir á hugmynd um hina nægjusömu, undirgefnu, hliðhollu konu og karlinn sem þarf að ræða málin við vini sína, ótruflaður af konum. Textafræði Eyjólfs er mun gildishlaðnari en hann er meðvitaður um. Málið snýst nefnilega í reynd ekki fyrst og fremst um texta og gæsalappir, eins og hann lætur að liggja. Um hvað snýst það þá? Málið snýst um túlkanir. II Umrædd umfjöllun mín um platonska heim- speki er ekki af toga ritskýringar, heldur rýni ég í táknræna þætti. Ég tengi niðursetningu hins kvenlega og göfgun hins karllega í þessari heimspeki á táknrænan hátt við þá afstöðu til kvenna sem birtist í lýsingu á Xanþippu á dauðastund Sókratesar. Lestur minn á tákn- heimi textanna á þó einkum við um vísun mína til túlkunar Luce Irigaray á hellislíkingunni, sem Eyjólfur afgreiðir sem rakalaust bull og segir alla alvörufræðimenn á sviði forngrískr- ar heimspeki hundsa. Satt að segja hélt ég að svo sveitalegir sleggjudómar um aðrar túlk- unarhefðir en þær sem maður sjálfur aðhyllist heyrðu sögunni til. Irigaray er í hópi víðlesn- ustu heimspekinga samtímans. Túlkanir henn- ar eru umdeilanlegar. Fjölbreytilegar túlkanir eru engu að síður lífæð heimspekinnar, þær halda spurningum hennar lifandi. Auk þess er það langt í frá rétt að þeir fræðimenn sem Eyj- ólfur hefur velþóknun á hundsi túlkun Iri- garay. Charlotte Witt er í þeirra hópi, en svo skemmtilega vill til að hún er jafnframt höfundur kafla um femíníska heimspeki í Stan- ford Encyclopaedia of Philosophy. Þar segir hún að Irigaray fari óhefðbundnar leiðir í túlk- un sinni á heimspekihefðinni og noti m.a. húm- or, satíru, óbeinar tilvitnanir og aðferðafræði sálgreiningar til að afhjúpa hið „óhugsaða“ í textum heimspekinga fyrri tíma. Í fyrri svar- grein minni vakti ég athygli á þessum skrifum Witt. En í stað þess að viðurkenna að hún sé kannski ekki sá trausti bandamaður sem Eyj- ólfur telur hana vera svarar hann því til með þrjósku að Witt taki texta eftir Irigaray inn í textasöfn sem hún ritstýri bara „af kurteisi“. Raunin er önnur. Witt fjallar um Irigaray vegna þess að hún telur hana vera mikilvægan og áhrifamikinn heimspeking á sviði femín- ískrar heimspeki. Vissulega er það svo að margir fræðimenn á sviði forngrískrar heim- speki sem beita hefðbundnum aðferðum rit- skýringar fjalla lítt um túlkanir höfunda á borð við Irigaray. Það er algengt að ástunda af- markaðar textaskýringar án þess að taka tillit til stærri spurninga. Túlkanir Irigaray eiga heima í hefð verka um sögu heimspekinnar sem fjalla um grófu línurnar í uppdráttum af heimspekisögunni. Í hópi slíkra verka eru Heimspeki og spegill náttúrunnar eftir Rich- ard Rorty, Saga heimspekinnar eftir Bertrand Russel, skrif Friedrichs Nietzsches og Mart- ins Heideggers um forsókratíska heimspeki og Platon og Aristóteles, svo fátt eitt sé nefnt. Kannski er helsta skýringin á því hvers vegna heimspekingar sem leggja stund á þröng textafræði og ritskýringar sækja ekki í slík verk sú að þeir telja þau gagnast lítt til að varpa ljósi á textafræðileg vandamál. Slíkar nálganir ættu engu að síður að vera athygl- isverðar fyrir textasérfræðinga vegna þess að þær opna fyrir nýja heimspekilega sýn með óhefðbundnum lestri á textum hefðarinnar. Þetta gerir einmitt Irigaray með túlkunum sínum á textum Platons. Þótt stíll hennar, sem er býsna viðtekinn innan meginlandshefðar heimspekinnar, sé Eyjólfi framandi eru það auðvitað engin rök í málinu. En það er eitt að láta stílinn aftra sér. Annað er að það þarf al- vörufræðimennsku, svo ég vitni í Eyjólf, til að takast á við efnið sjálft. Að mínum dómi varpar túlkun Irigaray ljósi á hellislíkinguna sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar hún er kennd. Hellislíkingin er einn af mikilvægustu textunum í vestrænum menningararfi sem flestir heimspekinemar kynnast í upphafi náms. Með túlkun sinni bendir Irigaray á hvernig hellislíkingin kann að leggja línurnar fyrir kenningar um tví- hyggju sálar og líkama sem ganga eins og rauður þráður gegnum sögu vestrænnar heim- speki allt fram á okkar daga. Í öðru lagi af- hjúpar Irigaray hvernig líkingamál Platons, sem tekur til hvort tveggja verufræði og þekk- ingarfræði hans, er ekki hlutlaust gagnvart kyni heldur gegnsýrt hugmyndum um mis- munandi stöðu, eiginleika og samskipti kynjanna. Til þess að ná þessu tvíþætta túlk- unarmarkmiði dregur hún fram hið „óhugs- aða“ í hellislíkingunni með því að lýsa hellinum sem móðurlífi. Túlkun hennar er hins vegar ekki úr lausu lofti gripin. Sú staðreynd að myndmál getn- aðar og fæðingar er víða að finna í skrifum Platons leiðir hana til þess að myndgera hell- inn á þennan hátt. Í texta má sjá hluti sem höf- undur hans gerði ekki ráð fyrir að mætti lesa úr honum, hugmyndir sem höfundurinn gerði sér e.t.v. ekki grein fyrir sjálfur. Þar má sjá leifar hugmynda sem sveima um í þeirri menn- ingu sem höfundur er hluti af og myndmál höf- undar getur sagt margt um viðhorf hans til annarra hluta en þeirra sem textinn fjallar beint um. Þótt Platon sjálfur hafi ekki séð hell- inn fyrir sér sem móðurlíf, þá sér Irigaray vís- bendingar um að hellirinn tákni heim sem í platonskri heimspeki er tengdur við kvenleik- ann, heim sem einkennist m.a. af rökleysu og myrkri. Það er flóknara mál að gera grein fyrir 150 blaðsíðna langri túlkun Irigaray á hellislík- ingunni en svo að hægt sé að gera það af gagni í stuttri blaðagrein. Með mikilli einföldun má segja að hún leitist við að sýna með hellislík- ingunni hvernig hið andlega og vitsmunalega, sem er tengt körlum, er upphafið á kostnað hins jarðneska og líkamlega, sem er tengt kon- um. Irigaray snýr kenningu Platons á hvolf og afhjúpar hana sem karllægan heim vits- munadýrkunar, sem hina einu leið ein- staklingsins til guðdómlegs lífs. Samkvæmt hefðbundnum túlkunum er hell- irinn staður þar sem menn eru fangar blekk- inga skuggamynda. Heimspekingurinn verður því að komast upp úr skuggaheimi hellisins á vit sólarljóssins þar sem hrein þekking er möguleg. Þegar fanginn kemur fram í dags- ljósið frelsast hann úr ánauð líkamlegrar skyn- reynslu. Hann á síðan að hverfa aftur ofan í hellinn til þess að frelsa hina fangana og segja þeim að það sem þeir sjái í hellinum séu aðeins skuggamyndir af hinum raunverulega heimi sem er fyrir aftan þá. Þannig á hellislíkingin að lýsa þroskasögu einstaklingsins frá fáfræði til þekkingar. Samkvæmt túlkun Irigaray frels- ast heimspekingurinn á táknrænan hátt frá móðurinni og verður fær um að beita skynsem- inni einni, að hætti föðurins. Þess vegna heldur hún því fram að helliskenningin lýsi hug- myndum um þekkingu sem hæfi körlum og úti- loki konur. Vestræn menningarsaga hefur gert þessar hugmyndir að sínum með því að telja konur skorta eiginleika sem karlar hafi til að bera og á grundvelli þess bannað konum lengst af að taka þátt í stjórnmálum og tala í kirkjum og útilokað þær frá menntun og fræð- um. Samkvæmt túlkun Irigaray hefur það ekki síður verið afdrifaríkt að verufræði og þekk- ingarfræði hellislíkingarinnar hafa leitt til ein- sýni um þekkingu og sannleika. Irigaray lýsir þessu með skírskotun til þversagnakenndrar náttúru sólarinnar sem bæði birtir auganu myndir en getur einnig blindað það. Á sama hátt telur Irigaray þá sem horfa beint inn í hinn endanlega sannleik, sem sólin stendur fyrir hjá Platoni, geta beðið tjón á sálinni. Lífið í hellinum er að hennar dómi ekki bara föl eft- irmynd sannleikans. Það er lífið sjálft vegna þess að hinn eini stóri sannleikur er ekki höndlanlegur og sannleikur sem slíkur getur bara birst mönnum „sem brot og í böndum“, svo vitnað sé í gamla vísu. Irigaray staðhæfir einnig að afkvæmi þeirrar andlegu fæðingar sem hinn karllægi skynsemiheimur getur af sér verði varla frjósamt, því fjölgun geti ekki orðið nema fyrir tilstuðlan beggja kynja. Þannig dregur Irigaray fram greinarmuninn sem hellislíkingin felur í sér á líkamlegri og andlegri fæðingu, þar sem hið fyrrnefnda fer fram í hellinum en hið síðarnefnda í dagsljós- inu. Til að ögra enn frekar fullyrðir hún að mynd móðurlífsins sem hellirinn birtir sé einn- ig á að líta eins og innsnúið typpi. Með þessu myndmáli andmælir Irigaray kynjalitaðri tví- hyggju líkama og sálar, vitsmuna og tilfinn- inga sem hellislíkingin festir í sessi og hefur gegnsýrt vestræna heimspeki. Eyjólfi hefði verið nær að fjalla um gagnrýni á tvíhyggjuna, fremur en að festast í yfirborðinu með því að neita að ræða viðfangsefni Irigaray vegna þess að hann segist ekki skilja stílinn. III Cynthia Freeland er dæmi um sérfræðing á sviði forngrískrar heimspeki sem skirrast ekki við að ræða málefnið. Í nýlegri grein um Ti- mæos í greinasafni sem Witt ritstýrir ræðir hún femíníska afbyggingu Irigaray, Judith Butler og fleiri höfunda. Freeland beitir hefð- bundnum aðferðum við að gagnrýna í senn kenningar þessara fræðimanna sem og hefð- bundnari nálganir. Í annarri nýlegri grein um forngríska heimspeki og hugmyndafræði sam- tímans gagnrýnir Freeland einnig hefð- bundnar aðferðir kollega sinna með hliðsjón af femínisma. Eyjólfur gæti kannski kynnt sér umfjallanir á borð við þessar áður en hann full- yrðir að kollegar sínir í fræðunum láti sér hin- ar óhefðbundnu aðferðir sem vind um eyru þjóta. Eyjólfur sér í Lesbókargreinum sínum ástæðu til að taka sérstaklega fram hvað hann sé sjálfur mikill jafnréttissinni. Ef verkin eiga að tala þá sér þess ekki stað í skrifum hans hér í Lesbók. Vilji hann „rétta hlut kvenna“ í heim- spekisögunni, eins og hann skrifar, gæti hann tekið mið af rannsóknum á hugmyndum um kyn og mismun í heimspekikennslu sinni. Rannsóknir femínískra heimspekinga hafa á undanförnum áratugum ekki aðeins falist í að afhjúpa karlhverfan mannskilning og kven- fyrirlitningu í kenningum heimspekinga, og að reyna að hefja sig upp yfir slíkt með því að gera mannskilning heimspekinnar fjölbreyti- legri í ljósi þess að „maðurinn“ er bæði karl og kona, eins og heimspeki Irigaray er dæmi um. Rannsóknir femínískra heimspekinga hafa einnig beinst að því að grafa upp „gleymda“ kvenheimspekinga. Þá kemur m.a. í ljós að á tímum Forngrikkja voru til kvenheimspek- ingar sem hafa ekki notið sannmælis. Þöggun kvenheimspekinga á við um öll tímabil heim- spekisögunnar. Í kennslu nokkurra námskeiða við Háskóla Íslands hefur verið tekið mið af þessum nýju rannsóknum. Textum eftir kven- heimspekinga nýaldar hefur t.d. verið bætt inn í lesefni í nýaldarheimspeki. Heimspeki nýald- arkvenna varpar oft nýstárlegu sjónarhorni á vandamál heimspekinnar út frá þeirra tíma forsendum. Bréfaskipti sem Descartes átti við Elísabetu prinsessu og skrif frænku hans, Cat- herine Descartes, eru ekki aðeins til marks um ólíkt sjónarhorn kvenna á samband sálar og líkama, vitsmuna og tilfinninga. Þær sýna einnig heimspeki Descartes í nýju ljósi og draga fram að ráðandi túlkanir geta verið ein- sýnar og fyrirbyggt möguleika á fjölbreyti- legri mannskilningi sem jafnvel er unnt að finna vísi að í kenningum Descartes – þegar vel er gáð. Áhrifa femínískra rannsókna gætir víðar í kennslu við heimspekiskor. Sú ný- breytni hefur verið tekin upp að kenna reglu- lega námskeið um heimspeki kyns og mis- munar þar sem er m.a. fjallað um viðhorf heimspekinga til kynja, kynþátta og annars mismunar. Í stjórnmálaheimspeki er einnig gerð grein fyrir stjórnspekikenningum sem taka tillit til kynja og mismunar. Það væri for- vitnilegt að vita hvort Eyjólfur gæti gert grein fyrir því hvernig hann tekur mið af gagnrýni í þessum anda í sinni kennslu. Heimspeki Iri- garay er aðeins ein leið til að sýna hversu kynjahugmyndir geta verið samofnar veru- og þekkingarfræði í forngrískri heimspeki. Að blindast af ljósi sólar Stylus Greinarhöfundi þætti forvitnilegt að vita hvort Eyjólfur gæti gert grein fyrir hvernig hann tekur mið af feminískri gagnrýni í sinni heimspekikennslu. Forn rómversk freska. Ef verkin eiga að tala þá sér þess ekki stað í skrifum Eyjólfs Kjalars Emilssonar hér í Les- bók, segir greinarhöfundur sem hefur undan- farnar vikur staðið í deilum við Eyjólf Kjalar um femíníska heimspeki og kvenfyrirlitningu í verkum Platons. Höfundur er dósent í heimspeki við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.