Morgunblaðið - 06.03.2006, Síða 30
30 MÁNUDAGUR 6. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Baldvin Skær-ingsson var
fæddur á Rauðafelli
undir Austur-Eyja-
fjöllum 30. ágúst
1915. Hann lést á
Landspítalanum við
Hringbraut aðfara-
nótt 22. febrúar síð-
astliðins. Foreldrar
hans voru Skæring-
ur Sigurðsson frá
Rauðafelli og Krist-
ín Ámundadóttir frá
Bjólu í Rangárvalla-
sýslu. Þau eignuðust
14 börn, þar af létust þrjú ung.
Börnin sem komust á legg voru í
aldursröð: Sigurþór, Aðalbjörg,
Einar, tvíburarnir Baldvin, sem
hér er minnst, og Georg, Ásta,
Jakob, Anna, Rútur, Guðmann og
Kristinn. Eru nú aðeins tveir
yngstu bræðurnir á lífi.
Hinn 16. maí 1937 kvæntist
Baldvin Þórunni Elíasdóttur frá
Bala í Þykkvabæ, f. 1. desember
1916, d. 29. júlí 1990. Foreldrar
Þórunnar voru Elías Nikulásson
og Kristín Mensaldersdóttir. Bald-
vin og Þórunn eignuðust níu börn.
Þau eru: 1) Kristín Elísa, f. 19.
f. 15. janúar 1952, maki Halldóra
N. Björnsdóttir, börn þeirra eru
Kjartan Þór, Sigríður Þóra, Hall-
dóra Þóra og Kristín Þóra. 7)
Hrefna, f. 23. janúar 1954, maki
Snorri Þ. Rútsson, sonur þeirra er
Rútur og á hann einn son. 8) Bald-
vin Gústaf, f. 30. ágúst 1957, maki
Anna Gunnlaugsdóttir, börn
þeirra eru Lára Dögg, Salka, Orri
og Hrefna. 9) Hörður, f. 25. nóv-
ember 1961, maki Bjarney Magn-
úsdóttir, dætur þeirra eru Rúna
Sif og Herdís. Baldvin hafði eign-
ast 98 afkomendur þegar hann
lést, og eru 96 þeirra á lífi.
Baldvin vann öll almenn sveita-
störf til 14 ára aldurs en þá fór
hann í fyrsta skipti á vertíð til
Vestmannaeyja. Hann fór til Eyja
margar vertíðir þar til hann settist
þar að 1936. Hann gerðist sjómað-
ur og stundaði sjóinn fram yfir ár-
ið 1960 samhliða báta- og húsa-
smíði en þá fór hann í land og
fékkst eingöngu við smíðar fram
að gosi 1973. Eftir gos settist hann
að í Mosfellssveit og starfaði í
áhaldahúsi Mosfellshrepps og síð-
ar við íþróttahúsið á Varmá, þar til
hann lét af störfum kominn á átt-
ræðisaldur. Síðustu tvo áratugina
ferðaðist Baldvin mikið, bæði um
Evrópu og Ameríku sem og innan-
lands.
Útför Baldvins verður gerð frá
Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag
og hefst athöfnin klukkan 14.
ágúst 1936, d. 19. júlí
2003, maki Hörður
Runólfsson, þeirra
börn eru Baldvin
Þór, Sólrún Unnur og
Smári Kristinn,
barnabörnin eru átta
og barnabarnabörnin
þrjú. 2) Elías, f. 1.
júní 1938, d. 16. sept-
ember 2003, maki
Halla Guðmundsdótt-
ir, þeirra börn eru
Þórunn Lind, Unnur
Lilja, Kristín Elfa,
Guðmundur, Sigrún,
Eygló, Elísa og Baldvin, barna-
börnin eru 22 og barnabarnabörn-
in þrjú. 3) Baldur Þór, f. 19. júní
1941, maki Hugrún Hlín Ingólfs-
dóttir sem er látin, börn hans eru
Steinþór og Unnur, barnabörnin
eru fimm. 4) Kristinn Skæringur,
f. 29. júní 1942, maki Sigríður Mín-
erva Jensdóttir, synir þeirra eru
Sigurjón, Þórir og Baldvin, barna-
börnin eru níu og eitt barnabarna-
barn. 5) Ragnar Þór, f. 31. desem-
ber 1945, maki Anna Jóhanns-
dóttir, þeirra börn eru Jóhann
Freyr, Hlíf, Þórunn og Ragna,
barnabörnin eru sex. 6) Birgir Þór,
Þá er pabbi búinn að kveðja eftir
langa og hamingjusama ævi fyrir ut-
an að missa mömmu og tvö elstu
börnin sín. Við vorum níu systkinin
svo það var í nógu að snúast á heim-
ilinu, bæði að afla viðurværis og þjóna
heimilinu. Við áttum yndislega for-
eldra, væntumþykjan mikil og aldrei
sagt eitt styggðaryrði þótt bægsla-
gangurinn væri stundum í hámarki.
Pabbi var einstaklega laghentur og
vinnusamur enda varð hann að halda
vel á spöðunum til að framfleyta þess-
ari stóru fjölskyldu og tókst honum
það frábærlega.
Þegar við Anna fórum að búa
reyndist hann fjölskyldu okkar betri
en enginn, bæði við byggingu á hús-
inu okkar og allan stuðning og hlýju
við krakkana okkar.
Svo komu öll ferðalögin bæði inn-
anlands og utan sem voru eitt ævin-
týri. Við systkinin og makar fórum
með gamla manninn á æskuslóðir
hans undir Eyjafjöllum þegar hann
varð níræður nú í sumar. Það var
stórkostlegur dagur og gaman að
fylgjast með honum með hópinn sinn
á þeim stað.
Eins var að ganga með þér öll þessi
ár sem við áttum saman, þau voru
yndisleg. Betri pabba var ekki hægt
að hugsa sér.
Það verður tekið á móti þér með
opnum örmum þegar mamma, Stína
og Addi leiða þig um nýja heima.
Þinn sonur,
Ragnar Þór.
Elsku Baldvin. Nú er komið að
kveðjustund í bili. Þegar ég kom inn í
fjölskylduna fyrir 45 árum tókst þú
mér einstaklega vel. Með okkur tókst
vinátta sem aldrei bar skugga á. Sam-
an gátum við spjallað um alla hluti, þú
sagðir mér margar sögur úr æsku
þinni sem mér fannst alltaf jafngam-
an að hlusta á. Síðan voru dægurmál-
in rædd fram og aftur og síðast en
ekki síst dreymdi okkur bæði drauma
um ferðalög. Mörg ferðalögin fórum
við saman, en einn staður varð eftir
sem við ákváðum að skoða, það eru
Feneyjar. Við töluðum um það árið
1963 en ekki komum við því í verk í
þessu lífi. Þú varst ótrúlega mikill
flakkari í þér, þú þurftir ekki mikla
hvatningu til þess að fara í einhvern
flæking eins og við sögðum.
Þú hefur verið stór hluti af okkar
lífi í gegnum árin og erum við Raggi
ánægð með að börnin okkar og barna-
börn hafa notið þess að kynnast þér
og vera með þér á meðan þau voru að
alast upp. Þú varst einstaklega barn-
góður og natinn við þau þegar þau
voru í kringum þig.
Þegar stundin þín rann upp var það
aðeins þremur vikum eftir að þú
komst út í Eyjar til þess að fylgja Júl-
íu tengdadóttur minni til grafar.
Ég kveð þig með söknuði og þakk-
læti en ég veit að þú varst saddur líf-
daga. Það hefur verið tekið vel á móti
þér á nýjum stað. Þórunn, Stína, Addi
og aðrir sem á undan eru gengnir
hafa tekið þér opnum örmum.
Þín tengdadóttir,
Anna Jóhannsdóttir.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Með þessum orðum Valdimars
Briem kveð ég þig, minn kæri tengda-
faðir og vinur, Baldvin Skæringsson.
Þegar sú stund kemur að ástvinur
kveður er það ótrúlega sárt, eitthvað
svo endanlegt. Ekkert verður sem
fyrr. Maður fyllist söknuði, sérstak-
lega yfir þessum hversdagslegu hlut-
um s.s. að þú sitjir ekki við eldhús-
borðið á Arnartanganum, að þú
birtist ekki með þitt breiða bros og
bjóðir góðan dag eða gott kvöld,
laumir smánammi í krakkana eða í
hundinn og fáir þér síðan sæti fyrir
framan sjónvarpið og kötturinn
stökkvi í fang þér.
Það sem einkenndi þig var áhugi á
lífinu. Þú varst rólyndur en glaðvær
og hinn mesti dugnaðarforkur til allr-
ar vinnu. Það lék allt í höndunum á
þér og lausnirnar oft á tíðum sniðug-
ar. En umfram allt varstu góður mað-
ur, sérstaklega við börn og dýr.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
(V. Briem.)
Minningarnar leita á hugann, hver
á eftir annarri, ljúfsárar sumar en
aðrar skondnari. Minningar um sam-
verustundir í gleði og sorg og ekki síst
ferðalögin. Ferðalagið um Klettafjöll-
in á Vesturströnd Kanada og Íslend-
ingabyggðir í Markerville var frá-
bært og það var í þeirri ferð sem við
kynntumst vel. Þú hafðir unun af því
að ferðast og skoða þig um í framandi
löndum en ekki síðri þóttu þér ferð-
irnar undir Eyjafjöllin á æskustöðv-
arnar, þangað fórum við á hverju
sumri. Þú hafðir einnig taugar til
Laugarvatns, hafðir unnið við smíði
Héraðsskólans og þar valdir þú þér
stað fyrir hjólhýsið þitt. Þær voru ófá-
ar ferðirnar þangað. Oft komu hring-
ingar frá þér þar sem þú sagðir okkur
að hitinn væri um 30°C við hjólhýsið
og hvort við ætluðum ekki að kíkja og
Lyngdalsheiðin væri bara í góðu
ástandi.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Ég vil þakka þér fyrir að hafa verið
mér samferða í tæpan aldarfjórðung
og fyrir að standa ávallt með mér og
hvetja mig til góðra verka. Mest af
öllu vil ég þakka þér fyrir að hafa ver-
ið börnum mínum frábær afi; nálæg-
ur, þolinmóður, áhugasamur og kær-
leiksríkur.
Þú fræddir þau um liðna tíð með
skemmtilegum sögum, þær voru allt-
af skemmtilegar en e.t.v. voru þær ör-
lítið ýktar sumar og þá kom hakan oft
langt fram! Þú sýndir barnabörnun-
um áhuga og því sem þau tóku sér
fyrir hendur og þú fylgdist vel með
öllu, hvort heldur sem það var námið,
fótboltinn, píanóið eða hvaðeina. Þú
mættir á fótboltaleiki og tónleika. Þú
hlustaðir á hvað þau höfðu að segja og
þau búa vel að því að hafa verið í góð-
um tengslum við þig. Þeirra söknuður
er mikill en minningarnar um góðan
afa eru dýrmætar og gott veganesti.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þín tengdadóttir,
Halldóra Björnsdóttir.
Jæja, afi minn, nú ert þú búinn að
fá hvíldina þína en þú ert nú búinn að
vera tilbúinn að fara í nokkur ár eða
eins og þú sagðir sjálfur þá varstu bú-
inn að skila þínu og vel það í þessu lífi.
Það voru nú margar ferðirnar sem
ég tölti niður Illugagötuna til að heim-
sækja þig og ömmu, þú niðri í kjallara
að smíða og amma í eldhúsinu tilbúin
með mjólk og kökur handa mér í
kaffitímanum. Síðan eru nú ógleym-
anleg jólaböllin niðri í Gefjun sem þú
hélst fyrir fjölskylduna þína, börn og
barnabörn, en þá vorum við öll sam-
ankomin enginn smáhópur enda áttuð
þið amma níu börn og þvílíkan haug af
barnabörnum. Var þá farið í ýmsa
leiki eins og að vera með appelsínu
bundna við mittið sem hékk niður að
gólfi og reka eldspýtnastokk með
appelsínunni í mark og gekk mikið á
enda er keppnisskap Baldaranna
þekkt langt út fyrir Eyjarnar.
Þið amma fluttuð síðan upp í Mosó
og var alltaf jafn gaman að koma
þangað enda gafstu þér ævinlega
mikinn tíma til að vera með okkur
krökkunum og segja okkur sögur og
leyfa okkur að koma með þér í vinn-
una í Íþróttahúsinu þar sem þú varst
húsvörður. Þú komst síðan ófáar ferð-
irnar ofan úr Mosó til Eyja til að
hjálpa mér við smíðar hérna heima og
var alltaf jafn gaman að vinna með
þér. Þú varst svo ofboðslega klár
smiður og gafst þér alltaf tíma til að
kenna mér um leið og við vorum að
vinna saman. Mér er það líka sérstak-
lega minnisstætt þegar ég keypti mér
sjoppu hérna úti í Eyjum og ætlaði að
stækka veitingasalinn um helming.
Þá hringdi ég í þig og bað þig um að
aðstoða mig þegar ég færi í þessar
breytingar og var það alveg sjálfsagt.
Síðan fimm dögum seinna þá hringd-
irðu til að athuga hvort ég ætlaði ekki
að fara að byrja. Ég ætlaði nú ekki að
fara í það alveg strax en þegar þú
varst búinn að hringja fjóra daga í röð
og reka á eftir mér þá bara mættirðu
og ruslaðir þessu af á nokkrum dög-
um.
Þegar ég kom í bæinn núna hin
seinni ár, fór ég oft upp í Mosó til að
ná í þig í bíltúr. Komum við þá yf-
irleitt við á kaffihúsi eða bara á
Kringlukránni þar sem ég fékk að
bjóða þér upp á eitt eða tvö sérrí-
staup. Þá var sko sögustund. Þú varst
óþreytandi að segja mér sögur úr for-
tíðinni, frá því að þú varst ungur og
upp á þitt besta, af hverju þú fékkst
viðurnefnið Baddirot á Siglufirði þeg-
ar síldarævintýrið var upp á sitt besta
þar, þegar þú varst handtekinn sem
njósnari í Bretlandi í seinni heims-
styrjöldinni, þegar þú varst talinn lát-
inn og varst kominn inn í líkhús en
þar gastu hreyft litla puttann og sást
þá að þú varst lifandi.
Okkar síðustu samverustund átt-
um við fyrir þremur vikum, en þá var
útför hennar Júlíu minnar og þú
mættir og varst alla helgina hérna hjá
okkur. Eftir útförina var matarboð
hjá mömmu og pabba og voru öll
börnin þín þar. Þú lékst á als oddi og
var mikið hlegið. Mikið er ég þakk-
látur fyrir að hafa átt þessa kvöld-
stund með þér. Takk fyrir allt, elsku
afi minn, mikið er ég ríkur að eiga all-
ar þessar minningar frá samveru-
stundum okkar í gegnum lífið.
Jóhann Freyr Ragnarsson
(Jói Ragg).
Afi er farinn. Hann sagði okkur
krökkunum sögur. Sögur af því, er
hann var lítill drengur. Ein sú eftir-
minnilegasta var skráð af henni Dóru
og við viljum gera hana að okkar
minningu um hann afa. Sagan gerðist
fyrir rúmlega 80 árum:
Níu ára gamall drengur var í vist á
bæ einum undir Eyjafjöllunum. Bær-
inn var gamall torfbær eins og þeir
voru í gamla daga, burstabær. Brött
hlíð var fyrir ofan bæinn en mikið og
fallegt útsýni fyrir neðan hann. Úti
var snjór og fallegt um að litast. Úti-
húsin stóðu nokkurn spöl frá bænum,
þar voru skepnurnar.
Drengurinn var fátækur og gat
ekki verið með fjölskyldu sinni. En
þetta kvöld hafði verið öðruvísi en
venjulega, það voru jól. Hann var
saddur því að hann hafði fengið góðan
jólagraut að borða. Þar sem hann sat
við gluggann á bænum og hugsaði
heim til mömmu sinnar, pabba og
systkina, varð honum litið upp til him-
ins. Hann saknaði þeirra sárt.
Stjörnurnar voru óvenju tærar og
fallegar, en ein vakti sérstaka athygli
hans. Drengurinn hugsaði með sér:
„Skyldi þetta vera jólastjarnan?“
Jólastjarnan hans, sem sendi geisla
sína inn um litla gluggann til þess að
minna hann á jólin? Sama stjarnan og
beindi fjárhirðunum á Jesúbarnið fyr-
ir 2000 árum?
Honum leið strax betur. Honum
fannst hann öruggari, þegar hann
hugsaði til stjörnunnar. Skyldi hún
vísa honum eitthvert í hans lífi?
Drengurinn sofnaði vært með þessar
hugsanir í kollinum.
Um miðja nótt vaknaði hann við
miklar drunur. Hann leit út um
gluggann og sá ekkert nema blautan
snjó. Það hafði komið snjóflóð. Snjór-
inn hafði runnið niður hlíðina um nótt-
ina þegar allir voru sofnaðir. Flóðið
hafið tekið með sér stór björg sem
höfðu brotnað og runnið með. Snjór-
inn braut húsið og stóru björgin lentu
ofan á. Allt fólkið flaut út og gömul
kona sem var rúmliggjandi flaut með.
Það var dimmt, kalt og blautt svo erf-
itt var að sjá. Drengurinn fann bara,
að flóðið þreif hann með sér og kast-
aði honum til og frá. Allt varð svart,
en skyndilega sá hann glitta í stjörn-
una fögru á himninum. Hann missti
ekki sjónar á henni. Reyndi að teygja
hálsinn og leita hana uppi þar sem
hann lá ósjálfbjarga. Margar hugsan-
ir þutu í gegnum höfuð hans. Skyldi
hann ekki lifa af, þar sem hann sá enn
stjörnuna sína?
Vinnumaður á bænum hafði fyrstur
náð að komast upp úr flóðinu, og hann
sótti hjálp á næstu bæi. Menn komu
með hesta og byrjuðu að tína upp
fólkið þar sem það lá meira og minna
grafið í blautum snjónum. Allt í einu
var drengurinn gripinn sterkum
höndum og settur á hestbak. Hann
nötraði og skalf af kulda. Þegar búið
var að koma fólkinu til næstu bæja
kom í ljós að allir höfðu bjargast. Mik-
ill fögnuður greip um sig þegar fólki
varð þetta ljóst. Allir voru rennblautir
og fengu hlý og þurr föt til skiptanna.
Drengurinn var settur í rúm, þar sem
honum hlýnaði og hann var fljótur að
sofna. Úti skein stjarnan og seinasta
hugsun hans var sú, hvort þessi
stjarna hefði leitt hann og fólkið á
bænum lifandi úr flóðinu. Skyldi hún
eiga eftir að leiða hann í gegnum lífið,
vernda hann og vísa honum í örugga
höfn?
Í Mosfellsbæ gengur níræður mað-
ur út í jólanóttina, eins og hann hefur
gert í áratugi. Hann hefur eignast
langt líf og horfir til himins eins og
hann hefur gert ótal sinnum á jóla-
nótt. Stjarnan er þarna, eins og hún
hefur alltaf verið. Hún var ljósið, þeg-
ar snjóflóðið kastaði honum út í
myrkrið, úr litla bænum undir Eyja-
fjöllum. Hún er ennþá ljósið hans, og
hann hverfur inn í jólanóttina. Þetta
er hann er afi minn.
Þegar við horfum til himins, sjáum
við stjörnuna hans afa. Stjörnuna,
sem hann missti aldrei sjónar á. Hún
var ljósið í lífi hans og lýsir honum nú
inn í eilífðina. Hún verndaði hann fyr-
ir 80 árum og mun áframvaka yfir
honum. Takk fyrir allt, elsku afi. Takk
fyrir ljósið, sem þú varst okkur.
Halldóra, Kjartan,
Sigríður og Kristín.
Það er erfitt að reyna að finna rétt
orð til að minnast afa. Afi var sá sem
kenndi okkur svo margt en þó fyrst
og fremst að takast á við lífið með
bros á vör. Hann kenndi okkur að
spila á spil. Það var sjaldan sem við
náðum að vinna en þá var ekki langt í
hláturinn hjá afa. Baldvin afi skemmti
sér vel þegar hann var að spila við
okkur barnabörnin og segja okkur
sögur úr fortíðinni.
Afi var mikill smiður og árin sem
hann dvaldi mest hjá okkur í Eng-
landi smíðaði hann ýmislegt handa
okkur krökkunum, m.a. dúkkuhús,
sandkassa og ávallt þegar eitthvað
þurfti að laga eða smíða sögðum við
einfaldlega: „Afi lagar þetta.“ En síð-
ustu árin þegar eitthvað var verið að
smíða sat afi bara hjá og var mikill
eftirlitsmaður. Þegar pabbi og Ragn-
ar bróðir hans tóku til handa við að
smíða eitthvað stóð afi gjarnan hjá og
fylgdist með hverri einustu hreyf-
ingu. Honum fannst alltaf gaman að
segja þeim til því þeir kunnu nú ekki
alltaf vel til verka.
Eitt sem einkenndi afa var að vasa-
hnífurinn var ávallt á sínum stað. Allt-
af fannst okkur það fyndið þegar
hann tók upp hnífinn til þess að skafa
allar matarleifar af kjammanum þeg-
ar svið voru á borði.
Þegar var farið í heimsókn til afa
var hann ætíð með nóg af góðgæti til
að bjóða okkur. Alltaf hafði hann
áhyggjur af að það væri ekki nóg til
handa okkur en það kom sjaldan fyr-
ir.
Á sumrin kom afi oft vestur á Ísa-
fjörð með okkur og var búinn að eign-
ast sitt eigið herbergi í sumarbú-
staðnum og honum fannst æðislegt að
fara í bíltúr eða í berjamó. Á kvöldin
þegar hann var að fara að sofa heyrð-
um við alltaf í honum inni hjá sér raul-
andi, sem var merki um að hann væri
mjög ánægður því honum fannst svo
gaman að vera með okkur fjölskyld-
unni. Hann var í essinu sínu þegar við
keyrðum frá Ísafirði til Reykjavíkur
og hann gat sagt okkur sögur af flest-
um merkisstöðum á leiðinni.
Í sorginni gleður það okkur að vita
að afi er kominn til elskulegrar konu
sinnar, hennar Þórunnar ömmu, og
elstu börnin hans, þau Stína og Addi,
munu taka vel á móti honum. Minning
þín verður björt í hjarta okkar og
munum við segja börnum okkar og
barnabörnum frá þér.
Ástkærar saknaðarkveðjur.
Lára, Salka, Orri og Hrefna.
Svona er gangur lífsins, nú er hann
Baldvin föðurbróðir minn búinn að
kveðja þennan heim. Það er óhætt að
segja að andlát þessa sómamanns hafi
orðið fyrr en maður hefði óskað, sér-
staklega í ljósi þess að ég hafði hlakk-
að mikið til að hitta þennan indæla
frænda minn á ættarmóti fjölskyld-
unnar sem er framundan. En hann
BALDVIN
SKÆRINGSSON