Morgunblaðið - 25.06.2006, Síða 18
18 SUNNUDAGUR 25. JÚNÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Það er sérstæð og í aðra röndina ævin-týraleg lífsreynsla að fylgjast með þvísem er að gerast í Þýskalandi þessadagana. Þjóðverjar, sem löngum hafa
með réttu verið álitnir fremur formfastir og
settlegir, virðast á örfáum vikum hafa tekið al-
gjörum hamskiptum. Í stað hins stífa og á
stundum þurra viðmóts ganga menn nú bros-
andi og með glettni í augum um stræti og torg.
Og þegar svitastorknum tyrkneskum verka-
manni verður það á að reka olnbogann í jakka-
fataklæddan þýskan skrifstofumann sem
stendur við hliðina á honum í lestarvagni upp-
sker hann ekki andúðarfullt og allt að því fjand-
samlegt hornauga, heldur einungis alúðlegt
bros og jafnvel létta athugasemd á borð við
„kein Problem“.
Á ölstofum þar sem til skamms tíma sátu
ekki aðrir en þybbnir og rauðnefjaðir þýskir
bjórvinir sitja nú innan um og saman við gestir
af ólíku þjóðerni og litarhætti og kneyfa ölið af
miklum móð í kapp við innfædda.
Endrum og sinnum ber það svo við að allir
viðstaddir rísa úr sætum, æpa hástöfum hver
upp í annan, skála með miklum tilþrifum og
fallast jafnvel í faðma, þegar best lætur.
Ástæðan fyrir öllum þessum leikrænu og
áhrifamiklu uppákomum í daglega lífinu er að
sjálfsögðu heimsmeistarakeppnin í fótbolta
sem nú er haldin víðs vegar um Þýskaland.
Það er ekki ofsögum sagt að þessi mikli
íþróttaviðburður hafi á undraskömmum tíma
gjörbreytt hinu þjóðfélagslega andrúmslofti í
Þýskalandi.
Fyrir fáeinum vikum voru fréttatímar
þýskra fjölmiðla undirlagðir af þrúgandi fregn-
um af vaxandi atvinnuleysi, vanhæfni þýskra
stjórnvalda til að koma laskaðri og hálfsokkinni
þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl, auk þess
sem kastljósinu var endrum og sinnum beint að
litlum öfgahópum og ofbeldissinnuðum kyn-
þáttahöturum sem létu töluvert að sér kveða,
einkum í austurhéruðum Þýskalands, þar sem
vofa atvinnuleysisins leikur lausum hala og
menn búa við bágust kjör.
En nú er tónninn allur annar. Eftir að bolt-
inn fór að rúlla í heimsmeistarakeppninni var
eins og þjóðfélagsástandið færðist sjálfkrafa í
betra horf. Fáar sem engar fréttir bárust leng-
ur af slæmu atvinnuástandi, hefðbundinn bar-
lómur fjölmiðla og almennings yfir öllu því sem
miður fer í þjóðlífinu var allt í einu á bak og
burt. Það var eins og Þýskaland breyttist í einu
vetfangi úr gróðrarstíu öngþveitis og óleysan-
legra vandamála á öllum sviðum – í sannkall-
aðan paradísarreit.
Með fánann á lofti
Þessi óvæntu hamskipti lýstu sér m.a. í því
að menn fóru nú skyndilega að flagga því tákni
á almannafæri sem til þessa hafði varla sést
nema á fáeinum opinberum byggingum: þýska
þjóðfánanum.
Og Þjóðverjar létu sér ekki nægja að arka
um götur og torg, veifandi þýska fánanum,
heldur tóku fjölmargir ökumenn líka upp á því
að skreyta bílana sína með þessu þrílita þjóð-
artákni. Þegar hér var komið sögu tóku hug-
vitssamir fatahönnuðir við sér og fóru að
sauma alls kyns flíkur í þýsku fánalitunum.
Þannig fór maður allt í einu að rekast á fólk á
götum úti í bolum og skyrtum með svörtum,
rauðum og gulum röndum. Konur fóru að
klæða sig í fánapils, bæði stutt og síð, auk þess
sem sokkar í þýsku fánalitunum slógu í gegn.
Og þá má ekki gleyma nærskornum undirföt-
um kvenna sem jafnframt komu á markaðinn í
svörtu, gulu og rauðu.
Það hefði fyrir fáeinum vikum þótt saga til
næsta bæjar í Þýskalandi, ef einhver hefði
haldið því fram í alvöru að nærföt í þýsku fána-
litunum væru líkleg til að hafa örvandi áhrif á
samlíf kynjanna. Slíkur maður hefði að líkind-
um verið álitinn hreinræktaður öfuguggi.
En nú er öldin önnur. Þýski fáninn er ekki
lengur tákn sem menn eru að pukrast með á
lögboðnum hátíðarstundum, heldur er hann
þvert á móti talinn vera „sexý“.
Og kannski er þessi staðreynd einmitt dæmi-
gerð fyrir þær hræringar sem hafa verið að
eiga sér stað í þýskri þjóðarsál.
Kemur róti á sjálfsmyndina
Heimsmeistarakeppnin hefur á örskömmum
tíma náð að koma miklu róti á sjálfsskilning og
sjálfsmynd Þjóðverja.
Það þekkja allir sem hafa alið manninn í
Þýskalandi að Þjóðverjar eru oftar en ekki of-
urgagnrýnir á sjálfa sig og eigið þjóðerni. Þessi
sjálfsgagnrýni gengur á köflum jafnvel svo
langt að það er eins og þeir fyrirverði sig bein-
línis fyrir þjóðerni sitt.
Og þó að sá sem þetta skrifar hafi hlýjar
taugar til Þjóðverja eftir að hafa eytt um fjórð-
ungi ævinnar í Þýskalandi fer ekki hjá því að
manni þyki á stundum nóg um barlóm þeirra,
kvíða og vantrú á eigið ágæti.
Þessi þáttur í fari Þjóðverja er okkur Íslend-
ingum býsna framandi. Og þá ekki síður hin
víðfræga skipulagsárátta þeirra, samfara
(óhóflegri) nákvæmni og mikilli stundvísi.
Án þess að unnt sé að alhæfa nokkuð í þess-
um efnum hefur það löngum loðað við okkur Ís-
lendinga að við séum oftar en ekki óskipulagð-
ir, ónákvæmir og hóflega stundvísir. Það er
í.þ.m. sá dómur sem maður hefur oft heyrt af
munni Þjóðverja sem hafa kynnst Íslendingum
nánar.
Í ljósi alls þessa hlýtur það því að sæta tíð-
indum að Þjóðverjar skuli nú skyndilega
sleppa fram af sér beislinu og dansa og syngja
á götum úti, vafðir inn í þjóðfánann sinn.
Og þessi mikla „þjóðarkæti“ nær ekki aðeins
til alþýðunnar, heldur hefur hún jafnframt náð
að grafa um sig í efri lögum samfélagsins.
Þannig er til þess tekið að sjálfur Þýska-
landskanslari, Angela Merkel, hafi upp á síð-
kastið verið mun glaðlegri og brosmildari en
kjósendur hafa áður átt að venjast. Og þá
benda menn líka á að „Angie“ – eins og kansl-
arinn er oftast nefndur í daglegu tali – hafi sýnt
meiri tilfinningahita og ríkari geðbrigði en
nokkru sinni fyrr á almannafæri, þegar hún
þaut upp úr sæti sínu í heiðursstúkunni á
íþróttaleikvanginum í Frankfurt fyrir skömmu
til að fagna sigurmarki Þjóðverja í leiknum
gegn Pólverjum.
Og heimsmeistarakeppnin hefur haft fleiri
áhrif á stjórnmálin en þau að hleypa nýju lífi í
kanslarann.
Til þess að þingmenn geti fylgst með afrek-
um landa sinna í fótboltanum hefur dagskrá
þingfunda verið breytt og umræðum um fjár-
lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem nú
standa sem hæst, jafnvel verið slegið á frest.
Síðast en ekki síst má svo nefna að velgengni
þýska landsliðsins í heimsmeistarakeppninni
hefur orðið til þess að létta ríkisstjórninni róð-
urinn í erfiðum ágreiningsmálum.
Þannig nýtti Angela Merkel kanslari sér
vaska framgöngu landsliðsins og sigurvímu
landa sinna eftir sigur Þjóðverja í viðureign
þeirra við Ekvadorbúa á dögunum til þess að
bauna því á stjórnarandstöðuna í þinginu að
hún væri miklu neikvæðari í afstöðu sinni til
þjóðmála en allur þorri þýsku þjóðarinnar.
Kanslarinn lét það fylgja með að sú þjóð-
arvakning sem orðið hefði í Þýskalandi að und-
anförnu hefði fyllt þjóðina af bjartsýni sem aft-
ur gæti haft jákvæð áhrif á efnahagsástandið í
landinu.
Þetta sjónarmið er um margt athyglisvert.
Þannig hafa sérfræðingar í efnahagsmálum
haldið því fram að ástandið í þeim efnum ráðist
að nokkru af því almenna hugarfari sem
ríkjandi er í landinu hverju sinni. Og það gefur
augaleið að þjóð sem hefur ekki nægilegt
sjálfstraust og ekki nógu heillega sjálfsmynd
er ekki vel í stakk búin til að lyfta grettistökum
í efnahags- og viðskiptalífi. Þó að það sé auðvit-
að barnaleg einföldun að rekja ástand efna-
hagsmála til þess „andlega“ andrúmslofts sem
ríkir hjá einstökum þjóðum, þá eru flestir á því
að trú hverrar þjóðar á eigin ágæti sé á þessu
sviði sem öðrum mikilvæg lyftistöng.
Það er ekki vafamál að heimsmeistara-
keppnin hefur þjappað þýsku þjóðinni saman
og gert hana samstilltari en áður, þótt auðvitað
sé um það deilt hvort þetta nýja einingarband
eigi eftir að halda þegar keppninni lýkur.
Bætt ímynd erlendis
Og það er ekki einungis að þýska landsliðið
hafi með framgöngu sinni og árangri á fótbolta-
vellinum stappað stálinu í þjóðina og eflt þýska
þjóðerniskennd, heldur hefur keppnin líka haft
jákvæð áhrif á ímynd Þjóðverja í öðrum lönd-
um.
Í frásögnum erlendra fjölmiðla af heims-
meistarakeppninni hefur Þjóðverjum verið lýst
sem vingjarnlegum og glaðsinna gestgjöfum.
Það er áætlað að um ein milljón erlendra gesta
heimsæki Þýskaland meðan á keppninni stend-
ur.
Í viðtölum við hina erlendu gesti sem birst
hafa í þýskum fjölmiðlum hafa þeir yfirleitt
lokið upp einum munni um að Þjóðverjar séu
lausir við hvers kyns hleypidóma og taki fólki
af öllu þjóðerni fagnandi. Þessu til stuðnings
hafa verið sýndar myndir af þýskum fótbolta-
unnendum sem stíga villtan dans á götum stór-
borganna, ásamt leikbræðrum sínum frá fjar-
lægum heimsálfum, bæði svörtum og gulum.
Þessi vinsemd í garð hinna erlendu gesta er
mjög jákvæð fyrir ímynd Þjóðverja út á við og
hjálpar þeim sjálfum líka til að gleyma hátterni
einstakra landa sinna og ofbeldi í garð útlend-
inga sem nokkur brögð voru að í landinu fyrr á
þessu ári.
Þýskir fræðimenn hafa að sjálfsögðu sýnt
þessari nýju þjóðernisvakningu mikinn áhuga,
enda eðlilegt í landi sem forðum ól af sér ýmsa
merkustu hugsuði sögunnar að menn vilji
„brjóta til mergjar“ fyrirbæri af þessu tagi – og
skoða slíkar hræringar frá ólíkum sjónarhorn-
um.
Þannig hafa raunvísindamenn komist að því
að sú almenna kæti sem hefur gagntekið Þjóð-
verja vegna heimsmeistarakeppninnar sé lík-
leg til að hafa jákvæð áhrif bæði á andlegt og
líkamlegt heilsufar þjóðarinnar. Þessi tíðindi
eru í augum hagspekinga mjög ánægjuleg, því
þeir benda á að batnandi heilsufar hljóti að
leiða til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu, en fjár-
hagsvandi heilbrigðiskerfisins hefur einmitt
verið mikið áhyggjuefni í Þýskalandi að und-
anförnu.
Þá telja fræðimenn líka einsýnt að mikil úti-
vera þjóðarinnar í blíðviðrinu síðustu vikurnar
leysi úr læðingi ákveðin hormón sem hafi m.a.
örvandi áhrif á kynhvötina. Þetta telja hags-
pekingar sömuleiðis góð tíðindi, enda hefur
barneignum Þjóðverja fækkað svo mjög á síð-
ustu árum að ýmsir óttast beinlínis að þjóðin sé
að deyja út. Fari svo að heimsmeistarakeppnin
leiði til þess að barneignum fjölgi hefur það
ótvírætt jákvæð áhrif á þjóðarhag á komandi
tímum.
Í ætt við íslenska þjóðernishyggju?
Það sem er þó kannski einna ánægjulegast
við hina nýju þjóðernisvakningu í Þýskalandi
er sú staðreynd að hún er sprottin af allt ann-
arri rót en sú þjóðernishreyfing sem setti
svartan blett á sögu þjóðarinnar á síðustu öld.
Blaðamaðurinn og Íslandsvinurinn Henryk
M. Broder segir í grein sem birtist í glæsilegu
Íslandshefti tímaritsins MERIANs á síðasta
ári að það hafi löngum loðað við þýska þjóðern-
ishyggju að hún hafi verið „frávísandi“ og bein-
línis stefnt til höfuðs öðrum þjóðflokkum.
Þjóðernishyggja Íslendinga – sem séu miklir
þjóðernissinnar – einkennist á hinn bóginn að
dómi Broders af því að hún sé „aðlaðandi“,
þ.e.a.s. opin, eða vinsamleg, gagnvart öðrum
þjóðflokkum.
Hin nýja þjóðarvakning í Þýskalandi sver sig
í þessu tilliti alfarið í ætt við íslenska þjóðern-
ishyggju og á ekkert skylt við hina sem veitti
þjóðum heimsins þungar búsifjar á síðustu öld.
Ný þjóðernisvakning í Þýskalandi
Reuters
Þjóðverjar ærast af
fögnuði undir berum
himni í Berlín yfir marki
þýska landsliðsins í
leiknum gegn Ekvador.
Angela Merkel þykir hafa verið venju fremur
broshýr og sýnt á sér nýja hlið eftir að HM hófst
í Þýskalandi. Gáskinn leynir sér í ekki í fasi henn-
ar fyrir leik Þýskalands gegn Ekvador 20. júní.
Í Þýskalandi stendur yfir
samkvæmi. Þjóðverjar
ganga um götur brosandi
út að eyrum og það er
eins og þjóðin hafi tekið
stakkaskiptum. Getur
verið að það eitt að halda
fótboltamót geti leyst
heila þjóð úr viðjum for-
tíðar? Arthúr Björgvin
Bollason fjallar um nýja
þjóðernisvakningu í
Þýskalandi.
Höfundur fæst við ritstörf og
almannatengsl í Þýskalandi.