Morgunblaðið - 17.07.2006, Síða 10

Morgunblaðið - 17.07.2006, Síða 10
10 MÁNUDAGUR 17. JÚLÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR S tíf suðvestanátt, 10–15 m/ sek. (á móti hlaupurum), skúrir til að byrja með en gæti breyst í samfellda lít- ilsháttar rigningu þegar líður á daginn. Hiti 8–11°C.“ Svona hljóðaði veðurspáin sem keppendur í Laugavegshlaupinu fengu í hendurnar á föstudaginn, daginn fyrir hlaupið. Á þessum tíma- punkti stóð mér eiginlega á sama um veðurspána sem hafði hvort sem er haldist óbreytt frá byrjun vikunnar. Ég vildi heldur alls ekki að hlaupinu yrði frestað um einn sólarhring. Frestun hefði nefnilega þýtt að ég yrði að halda áfram að hlaða mig af kolvetnum og trúið mér; kolvetna- hleðsla er ekkert grín. Maganum misboðið Samkvæmt hlaupafræðunum á hlaupari sem ætlar að keppa í mara- þoni að auka orkubirgðir líkamans með sérstökum kolvetnadrykkjum fyrir hlaupið. Ég byrjaði að hlaða á miðvikudag og af einlægri skyldu- rækni fékk ég mér kolvetna- hleðsludrykk 3–4 sinnum á dag. Ofan á þetta bættist síðan kolvetnaríkur matur sem ég borðaði í miklum mæli. Þessi ofneysla kolvetna varð til þess að á föstudaginn var ég orðinn veru- lega undarlegur í höfðinu. Ég var með seiðandi höfuðverk, mér fannst rödd mín hljóma sérkennilega og eig- inlega var ég alveg úti á þekju. Ein- kennin minntu helst á svæsna flensu en af fenginni reynslu (ég hafði einu sinni áður prófað kolvetnahleðslu) vissi ég að þetta var afleiðing hleðsl- unnar. Það þýddi ekkert að vorkenna sjálfum sér, ég yrði bara að pína ofan í mig nokkra drykki í viðbót og vona að ég fengi ekki magapínu. Ég var að öðru leyti vel stemmdur fyrir hlaupið. Frá febrúar hafði ég stundað markvissar æfingar með Sig- urði Skarphéðinssyni, félaga mínum, og við höfðum sett okkur háleitt markmið; að klára hlaupið á undir sex klukkutímum. Sigurður ætlaði þar með að bæta tíma sinn um hátt í 40 mínútur frá því í fyrra þegar hann staulaðist draghaltur í mark á 6:38, búinn að kasta upp nokkrum sinnum á leiðinni og glíma við svæsna krampa á síðasta legg hlaupsins. Ég hafði aldrei áður tekið þátt og vonaði bara að maginn myndi þola allt vatnið, orkudrykkina, orkugelin, bananana, samlokuna, súkkulaðið og kókið sem ég ætlaði að setja ofan í mig á leiðinni til þess að ég hefði næga orku til að komast í mark. Þar að auki ætlaði ég að borða saltlakkrís og gleypa nokkr- ar magnesíumtöflur til að fyrirbyggja krampaköst. Mestar áhyggjur hafði ég samt af veðrinu. Samkvæmt einni spánni gætum við lent í mótvindi upp á 18 m/s og rigningu ofan í kaupið. Það var líka vel hugsanlegt að það yrði svartaþoka í Hrafntinnuskeri en þar með yrðu aðstæðurnar orðnar í meira lagi varasamar. Mér létti því töluvert þegar við Sigurður komum upp í Landmannalaugar um klukkan 8:15 á laugardagsmorguninn. Það var bara léttur úði og smá sólarglenna. Kannski yrði þetta í lagi. Ekki of hratt og ekki of hægt „Það erfiðasta við hlaupið er að taka það rólega upp að Hrafntinnu- skeri, já og svo er það auðvitað rest- in,“ sagði reyndur hlaupari við mig skömmu áður en skotið reið úr rás- byssunni. Ég játti því, vissi vel að það borgaði sig ekki að fara of hratt af stað. Vegalengdin upp í Hrafntinnu- sker er 10 km og hækkunin 500 metr- ar. Loks reið skotið af og við hlupum af stað. Allt gekk eins og í sögu. Mag- inn var í lagi, höfuðverkurinn horfinn og veðrið alveg ágætt. Þetta skot- gekk. Það eina sem ég hafði áhyggjur af var að við höfðum stungið af nokkra hlaupara sem við vissum að stefndu líka á að klára hlaupið á tæp- lega sex tímum. Vorum við kannski að fara of hratt? Nei, það þýddi ekk- ert að hugsa svona. Sigurður var kominn töluvert fram úr og ég varð að herða á mér. Svifið niður brekkur Eftir því sem ofar dró versnaði veðrið, nokkur högl féllu úr lofti og heldur bætti í rigninguna og rokið. Ekki bætti úr skák að skaflinn á leið- inni upp í Hrafntinnusker var óvenju stór og snjórinn sums staðar svo blautur að maður óð krapann upp fyr- ir ökkla. Þrátt fyrir þetta vorum við á fínum tíma í Hrafntinnuskeri; 1:17. Nú var rokið orðið verulegt og við Sigurður ákváðum að skiptast á um að hlaupa í fararbroddi en þannig myndaðist skjól fyrir þann aftari. Skammt frá Hrafntinnuskeri hlupum við uppi Einar Ólafsson, gamlan skíðagöngukappa, og varð úr að hann hljóp með okkur langleiðina í mark. Þetta var auðvitað hið besta mál því nú var einum vindbrjótnum fleira. Raunar þurftum við að hafa okkur alla við að halda í við Einar, sér- staklega þegar við hlupum niður brekkurnar en það var greinilega hans sérgrein. Þessi styrkur Einars kom berlega í ljós í lengstu brekku leiðarinnar, Jökultungunum, þegar hann lét sig gossa á fullu niður. Hrað- inn var í raun meiri en góðu hófi gegnir og ég var dauðhræddur um að ég myndi misstíga mig eða hlaupa á einhvern bakpokaferðalanginn. Ég varð því ekki lítið undrandi þegar gráhærð ung kona tók fram úr okkur en hún var svo léttstíg að undrum sætti og var engu líkara en hún svifi niður brekkuna. „Þetta var álfkona sem var að taka fram úr okkur,“ sagði Einar. Síðar áttuðum við okkur á að þarna var Jackie Bale, sigurvegarinn í kvennaflokki, að sýna flotta hlaupa- takta. Draumurinn fauk út í veður og vind Við vorum komnir að Álftavatni eftir tveggja og hálfs klukkutíma hlaup, nákvæmlega á þeim tíma sem við höfðum gert ráð fyrir. Þetta gekk svo vel að við Sigurður fórum að ræða hvort við kæmumst ekki í mark á vel undir sex tímum, kannski 5:50? Veðr- ið við Álftavatn var skaplegt, þ.e. fremur lítill vindur og allt í einu virt- ist þetta raunhæfur möguleiki. Sú von gufaði þó fljótt upp í loftið. Fljótlega eftir Álftavatn er komið að Bláfjallakvísl og þar á eftir taka Sandarnir við. Það var á Söndunum sem möguleikinn á að klára á undir sex tímum gekk okkur úr greipum. Eftir að við hlupum út á Sandana herti vindinn svo um munaði og það gekk á með dimmum skúrum. Við reyndum eftir mætti að hlaupa en í sterkustu byljunum var það gjör- samlega ómögulegt og raunar var varla stætt. Við urðum því að ganga mun meira en við höfðum ætlað okk- ur. Við Útigönguhöfða skall á skæð hagldrífa og það var verulega sárs- aukafullt þegar höglin smullu í andlit- ið og á berar hendurnar. Þegar élið stytti loks upp tók við sandrok og auðvitað þurfti sandurinn að fjúka í augun á mér. Ég gat varla ímyndað mér að hægt væri að hlaupa í verri aðstæðum, ætlaði þessu aldrei að linna? Ég hafði tekið eftir því að í rás- markinu voru sumir í stuttbuxum og stuttermabol. „Hvernig skyldi þeim líða þegar þeir hlaupa hér,“ hugsaði ég og prísaði ég mig sælan að hafa ákveðið að hlaupa í síðbuxum og góð- um hlaupastakk. Veðrið tók sinn toll, á Söndunum fór Einar að tala um að hann myndi nú ekki halda í við okkur öllu lengur og Sigurður var farinn að kvarta und- an magaverk, kúgaðist og var marg- oft kominn að því að kasta upp. Ég fann líka fyrir stífleika í kálfunum sem gat verið fyrirboði krampa og vissi að ég gat ekki með nokkru móti farið hraðar. Allt varð þetta til þess að millitíminn í Emstrum var 4:20, 20 mínútum lakari en að var stefnt. Sandarnir voru tvímælalaust erfiðasti hluti leiðarinnar og ég skil vel þá hlaupara sem ákváðu að hætta eftir þennan legg og leita skjóls í skál- anum í Emstrum. Súkkulaði og kók á lokaspretti Þegar komið er í Emstrur hafa hlauparar lagt 39 km að baki og eiga því eftir 16 km áður en komið er í Þórsmörk. Á þessum legg dró í sund- ur með okkur félögunum. Þegar svona langt er liðið í hlaupi vilja flest- ir hlaupa einir. Þreytan er farin að segja verulega til sín og menn hlaupa því á mjög misjöfnum hraða. Maður þarf auk þess á allri sinni orku og ein- beitingu að halda og það getur verið truflandi að hlaupa með öðrum. Ég tróð í mig Snickers og drakk kók á síðustu vatnsstöðvunum, hló upp í opið geðið á láréttri rigningunni og rokinu (15m/s) á Kápunni. Ég var alveg að komast í mark. Ég yrði ekki stöðvaður úr þessu. Ég var að klára Laugavegshlaupið. Og tíminn? Hann var ekkert til að skammast sín fyrir: 6:12 og tólfta sæti. Ekki slæmt fyrir mann sem fyrir þremur árum komst varla Seltjarnarnesshringinn. Heildarúrslit má nálgast á www.marathon.is. 119 hlauparar hlupu Laugaveginn um helgina í roki, rigningu, éljum og sandfoki Í vondum málum á Söndunum Laugavegshlaupið var haldið í tíunda skipti á laugardaginn og luku 119 manns hlaupinu, af þeim 138 sem lögðu af stað. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í hlaupinu og veðrið hefur heldur sjaldan ver- ið eins óþyrmilega leiðinlegt. Rúnar Pálmason var einn þeirra sem lögðu af stað frá Landmanna- laugum og barðist við veðurofsann. Ljósmynd/Torfi H. Leifsson Nú er stutt eftir að skálanum í Emstrum þar sem boðið var upp á orku- drykk, vatn, súkkulaði og banana. Sjálfsagt veitti hlaupurunum ekki af orkunni eftir að hafa lagt Sandana erfiðu að baki. Ljósmynd/Hafsteinn Óskarsson Sigurður Þórarinsson, sigurvegari í karlaflokki, sveipaði sig fána við komuna í mark. Morgunblaðið/Rúnar Pálmason Jackie Bale sigurvegari kvenna- flokksins kemur í mark á góðum tíma en hún tók nú þátt í þriðja skipti. Hlaupið Laugaveginn frá Landmannalaugum runarp@mbl.is METFJÖLDI hlaupara tók þátt í Laugavegshlaupinu að þessu sinni. 152 voru skráðir í hlaupið, 145 lögðu af stað frá Landmannalaug- um en 26 hættu við og því komust alls 119 manns í mark. Mikill vindur og rigning setti strik í reikninginn hjá flestum hlauparanna enda var vindurinn í fangið nær allan tím- ann. Sumir voru þó nálægt sínum besta tíma. Frímann Ari Ferdin- andsson, framkvæmdastjóri Lauga- vegshlaupsins var ánægður með hvernig til tókst, þó að hann tæki jafnframt fram að alltaf mætti gera betur. „Aðalmálið er að allir kom- ust heilir á húfi til byggða,“ sagði Frímann. Fyrstu karlar í mark voru: 1. Sigurður Þórarinsson, Íslandi, 5:26:05. 2. Hagenbach Pascal, Þýskalandi, 5:30:12. 3. Sveinn Ásgeirsson, Íslandi, 5:38:37. 4. Daníel Smári Guðmundsson, Íslandi, 5:45:11. 5. Nigel Jenkins, Bretlandi, 5:49:41. Fyrstu konur í mark voru: 1. Jackie Bale, Bretlandi, 6:16:06. 2. Helen Johnson, Bretlandi, 6:30:57. 3. Ásdís Kristjánsdóttir, Íslandi, 6:45:13. 4. Þóra Jóhanna Hjaltadóttir, Íslandi, 6:46:27. 5. Guðbjörg Margrét Björnsdóttir, Íslandi, 6:46:41. Allir komust heilir til byggða Ljósmynd/Aron Birkir Guðmundsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.