Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2007, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2007, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 10. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is Leikstjórinn og nýbakaði Ósk-arsverðlaunahafinn Martin Scorsese hyggst leikstýra sjón- varpsmynd um Atlantic City á næstunni. Svæðið er sem kunnugt er í New Jersey og er þekktast fyrir fjörugan skemmtanaiðnað og spilavíti. Á fréttavef BBC kemur fram að söguþráður myndarinnar muni byggjast að einhverju leyti á bók Nelson Johnson um borgina. Það er HBO sjónvarpsstöðin sem hyggst sýna myndina en aðal- hlutverkið verður í höndum Mark Wahlberg, sem fór með hlutverk í The Departed og fékk fyrir tilnefn- ingu til Óskarsverðlaunanna.    Nú stendur til að endurgeraþýsku myndina Das Leben der Anderen (Líf annarra) sem var valin besta erlenda myndin á nýaf- staðinni Óskarsverðlaunahátíð. Myndin verður endurgerð á ensku fyrir Bandaríkjamark- að enda hafa þar- lendir kvik- myndahúsagestir ekki þótt par hrifnir af texta- lestri við kvik- myndaáhorf. Yfirmenn Miramax sam- steypunnar, Bob og Harry Wein- stein, hafa, að sögn Guardian, yf- irumsjón með gerð myndarinnar ásamt þeim Anthony Minghella og Sidney Pollack. Leikstjóri og handritshöfundur Das Leben der Anderen er Florian Henckel von Donnersmarck. Það kom trúlega mörgum á óvart að myndin var valin sú besta af er- lendum vettvangi á Óskarsverð- launahátíðinni þar sem meðal til- nefndra var Pan’s Labyrinth, sem hlaut tvenn verðlaun á hátíðinni og þótti sigurstranglegust. Das Leben der Anderen gerist í Austur-Þýskalandi í bláenda kalda stríðsins. Hún segir af útsendara Stasi sem er falið það verkefni af menningarmálaráðherra Austur- Þýskalands að koma fyrir hler- unarbúnaði á heimili ljóðskálds.    Fyrir sex árum síðan var hand-ritshöfudurinn Eric Roth feng- inn til að skrifa handrit byggt á framhaldssögu um Forrest Gump, sem nefnist Gump & co, og rituð var af Winston Groom. Roth lauk við vinnuna en ein- hverra hluta vegna hefur myndin enn ekki verið gerð. Þó virðast horfur á því að handritið gæti loks ratað upp á hvíta tjald- ið. Viðræður standa að sögn yfir við þá Tom Hanks og Gary Sinise, sem fóru sem kunnugt er með aðal- hlutverkin í Óskarsverðlaunamynd- inni frá árinu 1994, en ekkert er frágengið ennþá. Í sögunni er fylgst með Forrest Gump eftir að við skildum síðast við hann. Eftir að Jenny deyr og rækjufyrirtæki hans fer á hausinn stendur Gump eftir sem einstæður faðir án atvinnu. Hann deyr þó ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn og áhorfendur fá sem fyrr að fylgjast með honum verða vitni að og taka þátt í mörgum sögufrægum við- burðum á áttunda og níunda ára- tugnum. Meðal þeirra sem Gump hittir fyrir í sögunni er leikarinn Tom Hanks. KVIKMYNDIR Martin Scorsese Tom Hanks sem Forrest Gump. Florian Henckel von Donnersmarck Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Ein frægasta lýsing á eðli og eigindumkvikmyndaborgarinnar Hollywood til-heyrir William Goldman, handritahöf-undi með meiru, en fyrir rúmum tveim- ur áratugum lét hann gullmolann, „enginn veit neitt“ falla og finnst sumum ekki meira þurfa að segja um rökvísi kvikmyndaframleiðslunnar. Yf- irlýsingin, sem birtist í bókinni Adventures in the Screen Trade, er þó lengri og Goldman bætir við: „Ekki einn einasti maður í öllum kvikmyndabrans- anum veit nokkurn skapaðan hlut um hvað í raun eigi eftir að njóta vinsælda. Um ágiskun er að ræða í hvert skipti sem farið er af stað með kvikmynd.“ Máli sínu til stuðnings benti Goldman á þá stað- reynd að ein vinsælasta kvikmynd allra tíma, Raid- ers of the Lost Ark, stóð helstu kvikmyndaverum Hollywood til boða á ólíkum tímabilum en þau öll, utan Paramount, höfnuðu verkefninu. „Af hverju?“ spyr Goldman. Vegna þess að enginn veit neitt. Og hvers vegna sagði Paramount „já“? Vegna þess að enginn veit neitt. Og hvers vegna greip Universal ekki gullgæsina sem nefnist Star Wars þegar fyr- irtækinu stóð hún til boða? Sama ástæða. „Þegar kemur að vinsældum,“ segir Goldman, „þá veit eng- inn, nákvæmlega enginn, nokkurn skapaðan hlut“. Þeir eru þó til sem telja sig vita. Nick Meany og Dick Copaken standa saman að fyrirtækinu Epagogix sem er í tölvubransanum. Ekki hefur far- ið hátt um þetta fyrirtæki fram til þessa en sumir í Bandaríkjunum vilja meina að það kunni að breyt- ast í nánustu framtíð. Fyrirtækið hefur búið til tölvuforrit sem að þeirra sögn getur móttekið hvaða handrit sem er og metið hversu vinsælt það mun reynast í endanlegri birtingarmynd sinni á hvíta tjaldinu. Galdurinn er víst grunnur sem sund- urliðar nákvæmlega alla þætti handritsins í af- skaplega smásmugulega flokka. Fáum kæmi svo sem á óvart ef tölvuforritið tæki tillit til þess hvort hetjan reynist sigurvegari að leikslokum, eða hvort plottpunktarnir sem Sid Field gerði fræga fyrir margt löngu séu á sínum stað. Næsta skref væri kannski að meta vinningslíkur ólíkra kvikmynda- greina og viðfangsefna. Gamanmyndir virðast til að mynda vinsælli þessa dagana en vestrar, og barna- myndir slá öllu við. Kvikmyndaverkið sem leitast við að fjalla af nærgætni um raunir ólöglegra inn- flytjenda á ekrum úti mun sennilega lúta lægra haldi fyrir myndinni þar sem Harrison Ford í hetjulíki drepur helling af hryðjuverkamönnum um borð í hrapandi flugvél (stundum er ekki einu sinni þörf á tölvuforriti). Þá kemur rúsínan í pylsuend- anum, það sem í raun þarf að punga út fyrir þegar gerð er almennileg bandarísk kvikmynd, en það eru stjörnurnar, „talentið“, og hér er eins og svart- hol skapist inni í fjármagnsskipuritinu. En maður mælir gildi stjarna á borð við Tom Cruise eða Ni- cole Kidman ekki bara með peningum, þau eru gangandi og andandi forsíðugleypandi auglýsing fyrir allt sem þau taka þátt í. Slíkur kynning- armáttur er vitanlega ómetanlegur og sú staðreynd að áhorfendur um allan heim elska sínar uppá- haldsstjörnur réttlætir víst allt mótlætið sem felst í því að blanda þeim inn í gerð kvikmynda. Hérna vaknar að vísu tölvan til lífsins og pípir í mótmælaskyni. Nokkrir af áðurnefndum stöðlum eru vissulega forritaðir inn í stafræna markaðs- tröllið hjá Epagogix, en það sem viljandi vantar í alla lógórytmana er stærð sem stendur fyrir stjörn- ur. Forritið sleppir þeim en gengur samt prýðilega, skilst mér, að spá fyrir um vinsældir kvikmynda. Ef rétt er mun jarðskjálfti á kvikmyndakortinu vera væntanlegur, stjörnur hafa jú löngum verið eina móteitrið sem amerískir framleiðendur hafa haft undir höndum til að mæta bergmálinu frá Gold- man: „Enginn veit neitt.“ En ef stjörnur eru ekki teknar með í reikninginn, hver eru þá markaðs- hnitin sem tölvuforritið miðar sig við? Eins og áður segir er þar um að ræða sérlega smálega sund- urgreiningu á handritum, atriði, sem engum dytti í hug að skiptu máli, reynast gera gæfumuninn í miðasölunni, liturinn á bindinu sem söguhetjan skartar, hvernig hetjan kemur fram við fjölskyldu- meðlimi við matarborðið. Slíkum atriðum taka áhorfendur eftir, kannski ómeðvitað, og þau hafa áhrif á hvort þeim líkar við myndina. Ef söguhetjan er karlmaður sem kemur heim til sín að rjúkandi kvöldverði en veitir börnunum athygli á undan eig- inkonunni er hætt við að mörgum kvenkyns áhorf- endum finnist myndin sýna hlutverki lífsförunaut- arins vanvirðingu, og snúa við henni baki, hvað svo sem hún hefur annað upp á að bjóða. Eða svo segir tölvan. Í raun veit maður ekki hvað maður á að halda. Að sumu leyti hljómar þetta eins og tölvu- vædd útgáfa af þekktri handritahjálparbók Chri- stopher Voglers, The Writer’s Journey (sem þýdd hefur verið á íslensku af Sigurgeiri Orra Sig- urgeirssyni) en virðist óneitanlega taka því ágæta goðsögulega leiðarkorti fram hvað nákvæmni varð- ar. Viðmiðin sem notuð eru í forritinu skipta tugum þúsunda. Markmiðið hér er sem sagt engin yf- irskilvitleg, frumspekileg eða ósannanleg hugmynd um gæði eða áhrifamátt heldur aðsókn. Góðu tíð- indin virðast hins vegar vera þau að við erum öll, af formúlunni fyrir öllu klabbinu að dæma, miklu gagnrýnni áhorfendur en mér hefði nokkru sinni dottið í hug. Formúlan fyrir öllu klabbinu »En maður mælir gildi stjarna á borð við Tom Cruise eða Nicole Kidman ekki bara með peningum, þau eru gangandi og andandi forsíðugleypandi auglýsing fyrir allt sem þau taka þátt í. SJÓNARHORN H eilinn er flóknasta fyrirbæri al- heimsins og hann er beint fyrir aftan nefið á þér.“ Þessi hugleið- ing Stephanes Miroux, að- alsögupersónu nýjustu kvik- myndar franska leikstjórans Michel Gondry, er lýsandi fyrir þær áherslur sem einkennt hafa list Gondry á sviði kvikmynda-, tón- listarmyndbanda- og auglýsingaleikstjórnar. Gondry hefur lýst sjálfum sér sem 12 ára að eilífu, en gríðarlega fjölhæf og vönduð en á sama tíma barnsleg sköpunargleði einkennir þau verkefni sem hann hefur komið nálægt. Gondry hefur feng- ist við tónlist, skrif og myndlist samhliða leik- stjórnarferli sínum sem tókst á loft eftir að hann leikstýrði tónlistarmyndbandinu við Debut-lag Bjarkar, Human Behavior. Kvikmyndin sem um ræðir nefnist Vísindi svefnsins (La Science des rêves) og er sú fyrsta sem Gondry leikstýrir og skrifar jafnframt einn handritið að.Um er að ræða fjórðu kvikmynd Gondrys, en tvær fyrri mynda hans, Human Nat- ure (2001) og Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004), eiga það sameiginlegt með Vísindum svefnsins að kanna samspil lifaðs veruleika og innri vídda mannshugans. Hugmyndina að Vís- indum svefnsins segist Gondry hafa gengið með í hausnum um árabil, þar sem hún hafi marínerast og gerjast, en fram til þessa hafi hann ekki treyst sér til að skrifa kvikmyndahandrit einn og óstudd- ur. Kvikmyndinni mætti lýsa sem sjálfsævisögu- legum óði til ímyndunaraflsins og hugarflugsins. Aðalsöguhetjan er listamaðurinn Stephane sem býr yfir sams konar sköpunarhæfileikum og Gondry sjálfur, en ólíkt leikstjóranum hefur hon- um ekki tekist að beisla og virkja hugmyndir sínar. Frá barnæsku hefur Stephane nefnilega átt í vandræðum með að greina muninn á draumi og vöku. Þetta ástand hefur gert hann að alvarlegu tilfelli af sveimhuga sem er afskaplega utan við sig og hrekkur inn í og út úr draumkenndu ástandi í tilraun sinni til að lifa eðlilegu lífi. Eftir að faðir Stephanes deyr flytur hann til móður sinnar í Par- ís og hefur störf hjá fyrirtæki sem framleiðir daga- töl. Stephane lítur á sjálfan sig sem listamann og uppfinningamann og veldur nýja starfið honum því vonbrigðum, en það er innantómt með afbrigðum og veitir enga útrás fyrir sköpunargleði hans. Þeg- ar Stephane verður hins vegar ástfanginn af lista- konunni Stephanie, sem býr í næstu íbúð við hann, tekur ofvirkt ímyndunarafl hans kipp og fer úr böndunum sem aldrei fyrr. Stephanie heillast í fyrstu af Stephane og hugmyndaríkum uppá- stungum hans, en stendur engu að síður hálf- ráðalaus gagnvart óstöðugum veruleikatengslum hans og barnslegum tilfinningasveiflum. Stór hluti kvikmyndarinnar á sér beinlínis stað inni í hausnum á Stephane, þar sem hann hefur komið sér upp myndveri þar sem hann stendur sjálfur fyrir útsendingu á sjónvarpsþættinum Stephane TV. Þannig leitar Stephane gjarnan í draumaheima til þess ráða gátur lífsins og eigin til- finningalífs. Þar beitir hann „strangvísindalegum“ aðferðum, hugtökum og formúlum er hann efna- greinir innhald drauma, og reynir að skýra ástina með hugtökum á borð við „samsíða samstilltan óregluleika“ (Parallel Synchronized Randomness) en þar er að mati Stephane um að ræða sjaldgæft fyrirbrigði sem lýsir því þegar tveir einstaklingar deila sams konar hugsanamynstri sem mun leiða til samfunda þeirra. Við útfærslu draumaatrið- anna notast Michel Gondry talsvert við hreyfi- myndatækni, auk þess sem ýmsar frumlegar sjón- rænar brellur setja mark sitt á söguheim myndarinnar. Gondry er þekktur fyrir einstaka útsjónarsemi og snilld á tæknibrellusviðinu, en hér ræður ákveðinn næfismi, eða barnsleg sköp- unargleði, ríkjum. Myndverið hans Stephans er t.d. smíðað úr bylgjupappa og öðrum áþreif- anlegum föndurefnum, en í öðrum draumaatriðum skapar Gondry litlar hreyfimyndir, jafnvel heilar borgir, úr efni á borð við sellófan, papparúllur og baðmull. Drauma- og hreyfimyndskeiðin, sem eru mörg hver flókin og áhrifarík í einfaldleika sínum, voru unnin áður en tökur á kvikmyndinni hófust. Þannig var myndin spunnin í kringum draumana að sögn Gondrys, og kallast sú vinnuaðferð skemmtilega á við viðfangsefni myndarinnar sem segir sögu persónu sem lætur stjórnast af draum- um og hugdettum. Mexíkóski leikarinn Gael Garcia Bernal fer með hlutverk Stephanes, og birtist þar í hlutverki sem er langt frá hjartaknúsaraímyndinni sem stundum hefur loðað við han. Í hlutverkinu skautar hann á milli veruleikasviða og þriggja tungumála, þ.e. ensku, spænsku og brenglaðrar frönsku, svo úr verður heillandi og á stundum átakanlegur hræri- grautur. Mótleikkona Bernal í hlutverki Stephanie er fransk-breska leikkonan Charlotte Gainsbourg en þar kemur einnig fyrir í hlutverki kunningja og vinnufélaga Stephane Alain Chabat, einn þekkt- asti gamanleikari Frakka. Í nýlegu viðtali sem tekið var í tengslum við myndina viðurkennir Michel Gondry að fjölmargir eiginleikar Stephanes séu sóttir til hans sjálfs. Þannig er kvikmyndin t.d. tekin upp í byggingu í París sem Gondry bjó sjálfur í þegar hann vann við dagatalaframleiðslu líkt og sögupersónan. Þá eru draumarnir sem birtast í myndinni draumar sem Gondry hefur beinlínis dreymt. Gondry bendir þó á að þótt persónan feli í sér ákveðið sjónarhorn á hann sjálfan hafi Gael Garcia Bernal komið með sína eigin eiginleika inn í persónuna og bætt við hana nýju lagi. Enda lítur Gondry á kvikmynda- gerð sem samspil margra þátta og margra ein- staklinga, og í þessu samspili felst galdur kvik- myndalistarinnar að hans mati. Margt skrýtið í kýrhausnum Nýjasta kvikmynd franska leikstjórans Michel Gondry, Vísindi svefnsins, verður lokamynd Frönsku kvikmyndahátíðarinnar sem nú stendur yfir í Háskólabíói. Myndin er sú fyrsta sem Gondry bæði leikstýrir og skrifar en um mjög persónulega kvikmynd er að ræða. Etienne George Svefnvísindi Gael García Bernal og Charlotte Gainsbourg sem Stephane og Stephanie í mynd Gondrys. Eftir Heiðu Jóhannsdóttur heida@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.