Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2007, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2007, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. MARS 2007 15 Eftir Ivor Cutler | Óskar Árni Óskarsson þýddi Langafi minn átti fjórar eiginkonur. Ég hitti hann aðeins einu sinni.Hann var ættfaðirinn, og þótt hann hafi reynt að vera vingjarn-legur, gat jafnvel ég séð að það var bara á yfirborðinu. Ég efast umað hann hafi haft hugmynd um hver ég var. Fjórða konan hans, sem mér var sagt löngu seinna að hefði verið meiri ráðskona en eiginkona, fór með mig inn í eldhús og rétti mér heita kjötsin úr laukkássu. Hún var afar gómsæt og ég tuggði hana löngu eftir að bragðið var horfið og vonaði að það kæmi aft- ur. Þetta var einhver sú dimmasta íbúð sem ég hef nokkurntíma komið í, en myrkrið var vinalegt og ég skynjaði, frekar en að ég sæi, flöktandi gullna birtu. Kannski var það ljósgeisli frá sólinni sem hafði brotist gegnum loftið í Gorbalhverfinu í Glasgow til að milda fátækt ævafornra hjóna með örmagna glætu. Ég er upptekinn Ég vildi fá að vita það svo ég bankaði á hurðina. Hvers vegna varstu að banka á hurðina? Þú veist það! Nei. Ég veit það ekki. Það hefur enginn bankað áður. Fékkstu ekki að vita það þegar þú tókst þetta starf að þér? Neibb. Passaðu hurðina. Fullt starf 50 pund. Spurðirðu ekki fyrir hvað? Neibb. Sjáðu til, mig langar að vita það. Ég kem bara til dyra. Mig hrjáir einhver sljóleiki. Þetta er það eina sem ég get gert. Er einhver annar þarna? Láttu ekki eins og hálfviti. Hér er ég. Þarna er hurðin. Það er allt og sumt. Það eru engar hjarir. Þetta er bara sjálfstæð hurð. Þú getur bankað þangað til blæðir úr hnúunum. Ég sagði þér að ég væri hálfsljór. Ég þurfti á fullu starfi að halda. Ég reyki pípu. Það hentar vel. Þú hefur bankað á hurðina. Farðu nú í burtu. Ég þarf að sinna starfi mínu. Vonbrigði Kona spurði mig hvernig það væri að vera karlmaður. Hvers konar karl- maður? spurði ég. Hún útskýrði það allt fyrir mér svo að ég fór úr fötunum og sýndi henni. Á meðan ég klæddi mig aftur í fötin fann ég að hún hafði orðið fyr- ir vonbrigðum. Er þetta allt og sumt? andvarpaði hún. Ég er hræddur um það, svaraði ég. Til að gleðja mig, sagði hún mér hvernig það væri að vera kona og ég var hamingjusamur maður í um það bil þrjá daga þar til minningin dofnaði. Bragðið var horfið Ivor Cutler (1923–2006) var Skoti frá Glasgow af gyðingaættum, lagasmiður, skáld, teiknari, útvarpsmaður og grínisti, svo fátt eitt sé nefnt. Úrval af smáprósum Cut- lers kemur út hjá Smekkleysu síðar á þessu ári í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar. Morgunblaðið/Þorkell Jórunn Hún rifjar upp nokkra eftirminnilega útvarpsþætti sem gaman væri að heyra aftur. Hlustarinn Það stendur mér auðvitað nærri að hlustaþar sem ég starfa við að búa til hlust- unarefni. Reyndar tel ég eyrun vanmetnasta skynfærið. Um leið álít ég ábyrgð þeirra sem vinna efni sem ætlað er að meðtakist með hlustun ósegjanlega mikla því ef búið er að kveikja á útvarpinu eða hljómflutningsgræj- unum kemst enginn í nágrenni við þessa hljóð- gjafa hjá því að heyra. Þótt einhver opni blað eða bók klórar það ekkert upp á annað fólk í sama herbergi. En að heyra er ekki það sama og að hlusta, meðtaka allan pakkann. Þagnir, ræskingar, innöndun og útöndun þess sem mælir skapar nánari tengingu viðtakanda við hið sagða en raunin er þegar lesið er í hljóði. Hugsunin heyrist nefnilega. Já, eða ekki. Frómt frá sagt á ég mér samt enga eftirlæt- ishlustun, ég vil alltaf fá eitthvað nýtt, en að orðinu slepptu koma þó nokkur eftirlæti upp í hugann: útvarpsþáttur Viðars Eggertssonar, svokallaður fléttuþáttur um bernsku hans á vöggustofu Thorvaldsen á sjötta áratugnum, Dýr í búri heitir þátturinn, sem er full ástæða til að endurflytja einmitt núna. Mjög minn- isstæðir eru líka vikulegir þættir Björns Th. Björnssonar fyrir margt, margt löngu, Á hljóðbergi, þar sem m.a. frábærir lesarar lásu heimsbókmenntir á ólíkum tungumálum. Ég skildi ekki allt, líklega mjög lítið, en hljóm- urinn og tónlistin í tungumálinu magnaði örugglega áhuga minn á erlendum tungu- málum og leik orðanna. Einnig útvarpsleikrit, sérstaklega gömul leikrit, þ.e. gamlar upp- tökur sem að mínu mati búa yfir meiri nánd við hlustandann en nýrri upptökur. Nýrri leik- rit eru hins vegar oft áhugaverðari hvað um- fjöllunarefnið varðar. Bjarni Jónsson hefur gert nokkrar frábærar leikgerðir á síðustu ár- um að ógleymdum þáttum hans, Maríu Krist- jánsdóttur og Hafliða Arngrímssonar um ís- lenska leikritun sem hafa verið á dagskrá í vetur. Á hugann sækir líka þátturinn Ég er ekki einu sinni skáld sem Bjarni Jónsson og Eiríkur Guðmundsson gerðu árið 2000 um portúgalska skáldið Fernando Pessoa. Stór- kostlegur bókmenntaþáttur með tónlist og hljóðum sem tekur hlustandann með í ferða- lag um rangala gamalla hverfa í Lissabon, sem um leið verða rangalar ferils Pessoa og rangalar einlægrar aðdáunar umsjónarmann- anna á orðanna nið í skáldskap hans. Kannski væri réttara að tala um völundarhús en rang- ala.Verst er að allt þetta efni skuli hvergi vera aðgengilegt, virkilega er kominn tími til að fá aðgang að efni Ríkisútvarpsins með „pod- cast“-tækninni. Jórunn Sigurðardóttir útvarpsmaður. Lesarinn Síðasta bók sem ég las heitir La Classe deneige eða Skíðaferðin eftir Emmanuel Carrère og er frá árinu 1995. Bókin er býsna áhrifamikil en hún fjallar um 10 ára dreng, Nicolas, sem fer í skíðaferðalag með bekkn- um sínum. Nicolas fellur ekki inn í hópinn og er hálfsmeykur og óöruggur frá upphafi og ber þess merki að hafa fengið strangt og þrúgandi uppeldi. Óhugnaður liggur í loftinu frá upphafi bókarinnar. Í fyrstu birtist hann einkum í hugsunum Nicolas sem er heltekinn af sögum sem faðir hans hefur sagt honum af börnum sem hafa fundist myrt á víðavangi og búið að skera úr þeim ýmis líffæri. Þegar líð- ur á söguna raungerist óhugnaðurinn þegar ungur drengur finnst myrtur í nágrenni skíðaskálans og böndin berast að fjölskyldu Nicolas. Sagan er ekki síst athyglisverð vegna þess að sögumanni tekst að segja ekki of mikið en þó nógu mikið til þess að lesand- inn geti sett sig inn í hugarheim 10 ára drengs um leið og hann áttar sig á þeirri at- burðarás sem stendur utan við skilning aðal- persónunnar. Þóra Sigríður Ingólfsdóttir ritstjóri Morgunblaðið/G.Rúnar Þóra Hún hefur verið að lesa Skíðaferðina eftir Emmanuel Carrère sem er frá árinu 1995. Bókaskápur Ingibjargar Haraldsdóttur Morgunblaðið/Einar Falur Ingibjörg „Maður getur alltaf á sig bókum bætt.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.