Lesbók Morgunblaðsins - 19.05.2007, Qupperneq 5
sveit eða hafa lært á blokkflautu. Það er rosa-
lega mikilvægt í lífinu að komast í snertingu
við tónlist eða búa á heimili þar sem tónlist
hljómar. Ég held að við myndum fljótlega
verða vör við það ef tónlistarskólum yrði lok-
að, því tónlistarmeðvitundin í samfélaginu
skiptir svo miklu máli, það að tónlist sé sjálf-
sagður hluti af lífinu,“ segir hún og Kjartan
samsinnir henni eftir smá umhugsun: „Þótt
það þurfi ekki menntun til að stunda tónlist er
hún mikilvæg til að halda tónlist í samfélag-
inu.
Byrjuðu bráðung
Þau byrjuðu bæði að fást við tónlist bráðung,
fimm ára gömul. Kjartan segir að hvað hann
varði hafi það verið ósköp eðlilegt, enda hafi
alltaf verið músík í hans fjölskyldu, pabbi
hans spilar á harmonikku og hann á fjögur
eldri systkini sem lærðu á hljóðfæri.
„Sjálfur gat ég ekki beðið eftir því að fá að
læra líka, byrjaði á blokkflautu og skipti síðan
á píanó sex ára. Það var reyndar ekki mikið
annað í boði heima á Blönduósi á þeim tíma,
ekki gítarkennsla til dæmis, en svo kom lúðra-
sveit seinna og ég spilaði á saxófón með henni,
lærði svo á þverflautu og óbó og seinna á selló
og gítar, það er svo gott að þekkja hljóðfæri
þegar maður er að útsetja verk fyrir hljóm-
sveit.“
María er líka komin af tónlistarfólki og hún
segir að það hafi aldrei verið spurning um
hvort hún lærði á hljóðfæri heldur hvaða
hljóðfæri hún ætlaði að læra á. „Fiðlan var
málið af mjög undarlegum ástæðum. Það var
stelpa með mér í forskóla sem mér fannst
svakalega skemmtileg. Þegar ég frétti svo að
hún hefði farið að læra á fiðlu langaði mig svo
rosalega mikið til að vera eins og hún,“ segir
María, kímir og bætir svo við að síðar hafi
þessi fyrirmynd hennar endað í amiinu, „en
hún muni ekkert eftir þessum örlagaríku
kynnum“.
Lítill tími fyrir æfingar
Píanóið varð fyrir valinu hjá Kjartani og hann
lærði á það í mörg ár. Hann segist þó eig-
inlega ekki vera góður á neitt hljóðfæri leng-
ur. „Þegar við erum á ferðalögum í Sigur Rós
spila ég eiginlega ekkert nema lögin okkar og
ég hætti smám saman að þekkja hljóðfærið.
Það fara kannski tvö ár í tónleikaferðir og á
meðan impróvíserar maður ekkert eða gerir
nokkuð sérstakt á hljóðfærið. Ég hef reyndar
aldrei verið góður tæknilega, en í dag finnst
mér ég eiginlega ekki eiga neitt hljóðfæri
lengur.“
„Það er mjög tímafrekt að halda við hljóð-
færatæknikunnáttu,“ segir María. „Maður
verður að æfa reglulega og dettur úr formi ef
maður tekur sér frí í of langan tíma.“
„Það sem ég geri með Sigur Rós er mjög
naumhyggjulegt,“ heldur Kjartan áfram, „og
aldrei krefjandi tæknilega. Ég hef því komið
mér upp allskonar dóti svo ég hafi nóg að gera
á tónleikum, eins og að setja af stað hljóðbúta
um leið og ég er að spila eitthvað annað, spila
með höndunum og setja eitthvað af stað með
fótunum, hlaupa á milli hljóðfæra og svo fram-
vegis, svona til að gera þetta meira spennandi.
Ég æfi mig aldrei þótt mig langi til þess,
mér finnst gaman að fást við hljóðfærið og
einhvern tímann þegar ég hef tíma ætla ég að
grípa í það. Mig langar að spila Bach, en ég á
sennilega aldrei eftir að spila Liszt,“ segir
Kjartan og María skýtur inn í: „Það gera það
bara einhverjir aðrir,“ og heldur svo áfram:
„Ég æfi mig stundum, þarf að gera það
vegna þess að það koma verkefni þar sem
maður þarf að geta spilað vel og lesið nótur
þannig að ég kemst ekkert upp með það að
láta þetta drabbast niður, en það er langt í frá
að ég sé í sama formi og ég var þegar ég tók
einleikarapróf.
Það er nefnilega rosalega mikilvægt að
halda áfram að spila og alltof margir hætta al-
veg þegar þeir hætta í námi, en það er eins og
að hætta að lesa bækur, hætta að rækta sjálf-
an sig. Ég æfi mig ekki nema þegar ég neyðist
til þess, en það er rosalega gott að spila og
það er ekkert betra fyrir sálina en að spila
smá Bach, þetta er alger íhugun, að týna sjálf-
um sér í heimi sem er ofan og utan við núið.“
Spilað saman og samið saman
Þau María og Kjartan hafa eytt drjúgum tíma
saman á sviðinu á síðustu árum og spilað víða
um heim. Í ljósi þess að þau semja bæði tón-
list kviknar sú spurning hvort þau eigi ekki
eftir að vinna eitthvað að músík saman í fram-
tíðinni. Það kemur líka í ljós að þau hafa velt
því fyrir sér og meira að segja haft það á dag-
skránni í einhvern tíma. „Við þurfum að kom-
ast að því hvort það rústar sambandinu ger-
samlega,“ segir Kjartan og kímir.
„Við gerðum reyndar jóladisk okkur til
skemmtunar fyrir ein jólin, sungum jólalög,
og það var skemmtilegt,“ segir María. „Við
höfum líka samið smá saman,“ segir Kjartan,
„þegar við gerðum Hrafnagaldur og unnum
vel saman,“ segir hann og María tekur undir
það; segir að hún hafi alltaf verið hrædd um
að það myndi ekki ganga ef þau færu að vinna
saman en svo hafi það gengið mjög vel.
„Tónlistin sem maður er að semja er svo
mikið prívat, eitthvað sem maður á út af fyrir
sig og það getur verið erfitt að sýna það öðr-
um sem vill kannski gera það öðruvísi eða
finnst það ekki gott,“ segir Kjartan. „Ég leita
samt mikið til Maríu þegar ég er að semja
tónlist og hef fengið góð ráð frá henni,“ segir
Kjartan og María bætir við að þau hafi haft
mikinn stuðning hvort af öðru á undanförnum
árum, „og það er mjög mikilvægt þegar mað-
ur stendur í svo mörgu að hafa einhvern sem
talar sama tungumál þegar maður kemur
heim.“
Ekkert nema músík
Í rúma tvo áratugi hafa þau María og Kjartan
lifað og hrærst í tónlist og ekki er annað að
merkja en að svo verði um ófyrirsjáanlega
framtíð. Reyndar áttu þau sín uppljóm-
unarskeið hvað tónlistina varðar, ólík en þó
með sömu niðurstöðu – að tónlistin væri
þeirra líf.
Þannig ætlaði María alltaf að verða fiðlu-
leikari og komst aldrei annað að, annað kom
aldrei til greina. Í mörg ár skildi hún fiðluna
ekki við sig og lífið snerist um hana. Svo kom
þó að hún ákvað að hætta við þessi áform,
leggja drauminn á hilluna, og hún segist hafa
lent í smá tilvistarkreppu í kjölfarið.
„Þá hugsaði ég minn gang og ákvað að fara
í spænskunám, fór fyrst til Spánar og síðan í
háskólann. Þetta akademíska nám, að sitja
bara með bókina og hlusta, var hins vegar allt
of óhlutbundið fyrir mig, það gerðist ekkert,
það var ekkert skapandi við það og ég gaf það
upp á bátinn og fór aftur í túr með Sigur Rós,“
segir hún og hlær við.
„Ég sannfærðist endanlega um að tónlist
væri mín örlög og uppgötvaði líka að ástæðan
fyrir því að ég hætti með fiðluna var að fiðlu-
leikarastarfið var ekki nógu skapandi, of
formfast – ég vildi nota tónlistina í sjálfri mér,
semja eigin músík.“
Kjartan segir að þótt hann hafi alltaf fundið
hjá sér þörfina til að fást við tónlist hafi hann
alltaf efast um sjálfan sig. „Ég spyr sjálfan
mig oft hvað í fjandanum ég sé að gera en ég
veit ekki hvað annað ég ætti að vera að gera.
Eini efinn hefur verið þessi daglegi og oft full-
mikið af honum.
Þegar ég var kominn á gelgjuna áttaði ég
mig á því að ég myndi aldrei hafa agann til að
verða konsertpíanisti, en ég var byrjaður að
búa til lög og fannst ég geta gert eitthvað af
því.“
„Við stelpurnar vorum allar í klassísku
námi,“ segir María, „þar sem maður hafði
ekki tíma til neins annars og þess vegna ekki
tíma til að prófa sig áfram. Þegar við svo fór-
um að vinna með hljómsveitum kviknaði á
öðru elementi – það var eins og maður væri að
fæðast upp á nýtt með hljóðfæri í höndunum
sem maður þekkti rosalega vel en samt ekki
þá hliðina á því. Það var skemmtileg end-
urnýjun, eins og að byrja alveg upp á nýtt.“
„Þetta var eiginlega öfugt hjá mér,“ segir
Kjartan, „því ég áttaði mig á því þegar ég
flutti til Reykjavíkur fjórtán ára og fór í pí-
anónám að ég kunni ekki að lesa nótur. Ég var
búinn að spila á píanó frá sjö ára aldri og
komst upp með það að spila alltaf eftir eyr-
anu. Þegar ég svo kom til píanókennara sem
lét mig spila prelúdíu og inversíon eftir Bach
komst ég að því að ég kunni ekki að lesa nótur
og á endanum gafst ég upp á píanónáminu.“
Þegar hér er komið sögu gefst ekki meiri
tími til að spjalla, Kjartan er á leið til Berlínar
að hljóðblanda Hrafnagaldur og María á leið
til Skotlands að hefja tónleikaferð amiinu um
Bretland. Næstu vikur og mánuðir eru því
skipulögð út í hörgul, en þó að þau séu bæði
að gera það sem þau dreymir um eiga þau þó
aðra drauma í framtíðinni, eins og María
orðar það: „Ég held að það sem okkur er efst í
huga sé að fá frí, frí til að semja músík.“
alnum
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. MAÍ 2007 5