Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2007, Page 12
12 LAUGARDAGUR 16. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Sigrúnu Sigurðardóttur
sigrun@akademia.is
D
raumur, martröð, frásögn eða
veruleiki. Þetta eru þau hug-
tök sem koma fyrst upp í hug-
ann þegar ég virði ljósmyndir
Katrínar Elvarsdóttur fyrir
mér. Ljósmyndirnar má sjá á
sýningunni Af þessum heimi sem stendur yfir í
Listasafni ASÍ fram til 24. júní næstkomandi. Í
viðtali sem ég átti við Katrínu staðfestir hún
þessa upplifun: „Með ljósmyndunum er ég að
skapa ákveðna stemningu. Ég vil skapa eitt-
hvað sem er fallegt og óhugnanlegt í senn. Að
því leyti minna ljósmyndir Katrínar á kvik-
myndir eftir leikstjóra á borð við David Lynch
eða Dominik Moll þar sem við hrífumst af fram-
andleikanum augnabliki áður en óttinn nær tök-
um á okkur.
Frá árinu 2002 hefur Katrín Elvarsdóttir
verið með átta einkasýningar hér á landi, eina í
New York og tekið þátt í hátt í 30 samsýningum
á Íslandi, í Bandaríkjunum, Rússlandi, Þýska-
landi og Frakklandi á síðasta áratug. Sýning
hennar Mórar vakti töluverða athygli þegar
hún var sýnd í Listasafni Akureyrar vorið 2002
en á þeirri sýningu mátti sjá svarthvítar ljós-
myndir af yfirgefnum stöðum víðs vegar um
landið. Sýningunni var síðan fylgt eftir með
sýningunni Mórar – nærvídd í Gallerí Skugga
síðar sama ár og bókverkinu Mórar sem var
samstarfsverkefni Katrínar og Matthíasar
M.D. Hemstock sem samdi tónlist við ljós-
myndir Katrínar.
Í Mórum spilar Katrín á þá svörtu og hvítu
goðsögn sem hefur fylgt ljósmyndinni alla tíð og
endurspeglast í orðræðunni um að ljósmyndin
birti okkur veruleikann annaðhvort eins og
hann raunverulega er (hvíta goðsögnin) eða að
ljósmyndin sé ekki heimild um neitt annað en
túlkun og sýn ljósmyndarans á veruleikann
(svarta goðsögnin). Ljósmyndin endurspeglar
hið flókna samband manns og náttúru, veru-
leika og túlkunar. Ljósmyndarinn hefur ætíð
áhrif á niðurstöðu verksins, hann velur sér sjón-
arhorn, hagræðir jafnvel veruleikanum, ákvarð-
ar þann tíma sem sólarljósið fær til að skilja eft-
ir sig ummerki á ljósnæmum fleti og mótar að
lokum niðurstöðuna í myrkraherberginu eða
tölvunni. Engu að síður verður því ekki neitað
að það er náttúran sjálf, sólarljósið, sem skilur
eftir sig ummerki og er forsenda þess að það sé
yfir höfuð hægt að taka ljósmynd. Flestir þeir
sem tekið hafa myndir hafa þurft að horfast í
augu við að þeir hafi ekki fulla stjórn á mynd-
efninu, sjónsvið þeirra er annað en þess sem
ekki horfir í gegnum linsuna, og það eitt veldur
því að oft á tíðum birtast okkur á ljósmynd brot
af veruleikanum sem við höfðum aldrei tekið
eftir eða áttað okkur á. Allt frá upphafi hafa
ljósmyndarar verið meðvitaðir um þetta. Hinn
ytri veruleiki (það sem er) og hinn innri veru-
leiki (það sem við sjáum) fléttast saman í ljós-
myndinni svo að úr verður myndverk sem leysir
upp andstæðuparið veruleiki/túlkun.
Umræðan einskorðast um of
við tæknileg atriði
Katrín Elvarsdóttir nýtir sér flókið samband
ljósmyndarinnar við veruleikann. Síðustu árin
hefur hún nær eingöngu notað einfaldar plast-
myndavélar sem gera þetta margslungna sam-
band við veruleikann næstum áþreifanlegt.
Sjálf segir Katrín að hún hafi hrifist af þeim
draumkenndu áhrifum sem unnt er að kalla
fram með plastmyndavélinni. „Þar fyrir utan
hentar vélin mér mjög vel. Hún er mjög létt, að-
eins um 100 grömm, og því auðvelt að taka hana
með hvert sem er. Fast ljósop og lokunarhraði
hennar krefst annars konar hugsunar við
myndsköpunina – ég er ekki að leita eftir
skerpu eða öðru slíku heldur er ég að fanga
stemningu, miðla hugmyndum og búa til frá-
sögn. Katrín bendir jafnframt á að alls ekki
megi takmarka umræðuna um ljósmyndun við
tæknileg atriði eins og oft vill verða. Aukinn
skilningur á listrænni ljósmyndun felist í dýpri
hugsun. „Það skortir skilning á ljósmyndinni
sem listmiðli á Íslandi og umræðan um við-
fangsefni ljósmyndara er oft einhæf. Flestir
sem heyra að ég sé ljósmyndari virðast til dæm-
is ganga út frá því að ég sé með stofu og taki
fermingarmyndir. Að þessu leyti er erfiðara að
vera ljósmyndari á Íslandi en annars staðar
sem ég hef starfað, til dæmis í Bandaríkjunum
og í Danmörku.“ Katrín segir að nýstofnaður
félagsskapur íslenskra samtímaljósmyndara sé
viðbragð við þessu. „Við viljum auka skilning og
umræðu um samtímaljósmyndun. Víða erlendis
er mikið að gerast á því sviði og við viljum taka
beinan þátt í þeirri þróun. Ég get nefnt sem
dæmi að mikil vakning hefur átt sér stað í Finn-
landi á undanförnum árum. Finnska mennta-
málaráðuneytið styrkir ljósmyndara ekki síður
en aðra listamenn. Þetta hefur skilað miklum
árangri og Finnar eru mjög framarlega á sviði
ljósmyndunar. Það sama má segja um lista-
heiminn í New York, þar er mikið að gerast í
samtímaljósmyndun sem sést einna best á því
að flest áhugaverðustu galleríin sýna ekki síður
verk eftir ljósmyndara en þá sem fást við aðra
miðla í myndlist.“
Tilbúinn heimur
Katrín er menntuð í Bandaríkjunum. Hún lauk
reyndar BA-gráðu í frönsku við Háskóla Ís-
lands áður en hún hélt til Bandaríkjanna. Katr-
ín lærði ljósmyndun í tvö ár við Brevard Comm-
unity College í Flórída og settist síðan á skóla-
bekk við The Art Institute of Boston þaðan sem
hún lauk BFA-gráðu árið 1993. „Þetta gerðist
allt mjög hratt,“ segir hún þegar ég spyr hvers
vegna hún hafi ákveðið að leggja ljósmyndun
fyrir sig. „Ég var orðin 23 ára þegar ég byrjaði
að taka myndir. Ég keypti myndavél í fríhöfn-
inni, fór á námskeið í Iðnskólanum þar sem far-
ið var yfir grunnatriði er varða ljósop og hraða
og þess háttar, og fór síðan að prófa mig áfram.
Mér fannst þetta svo ótrúlega gaman og ákvað
því að sækja um skólann í Bandaríkjunum. Ég
kunni strax mjög vel við mig þar. Fann að þetta
hentaði mér vel.“ Hún bætir því við að ef ljós-
myndun hefði ekki orðið fyrir valinu þá hefði
hún að öllum líkindum farið út í kvikmyndun.
„Fyrir mér er ljósmyndun tengdari kvikmynda-
gerð en öðrum listgreinum, bætir hún við og
segist sækja innblástur og hugmyndir í heim
kvikmyndanna.“ Það sem heillaði hana einna
mest við ljósmyndun í upphafi var einnig mögu-
leikinn á að geta skapað ímyndaðan heim, sviðs-
mynd, stemningu og brotakennda frásögn.
Katrín ætlaði upphaflega að leggja tísku-
ljósmyndun fyrir sig og starfaði mestmegnis við
tískuljósmyndun eftir að hún lauk námi. „Það
sem heillaði mig við tískuheiminn var að þar sá
ég fyrir mér að geta unnið með eigin hugmynd-
ir, búið til eins konar leikþátt eða frásögn í
myndum í samstarfi við aðra. Þetta gekk líka
vel í Boston og var gaman. Tískuheimurinn þar
er frekar lítill, ég var fljót að kynnast öllum sem
voru í þessum bransa og gat valið með hvaða
hönnuðum ég starfaði. Ég áttaði mig þó smám
saman á því að listrænt frelsi tískuljósmyndara
er ekki eins mikið og ég ímyndaði mér. Þegar
maður er farinn að nálgast þennan „alvöru“
tískuheim og farinn að starfa með stórum hönn-
uðum eða fyrir stærstu tímaritin eru önnur lög-
mál sem gilda. Þá þarf að taka tillit til fjölda
annarra hagsmuna, ekki síst peninga og kúnna-
hóps og þá fellur ljósmyndunin sjálf í skuggann.
Auðvitað eru þó einstaka tískuljósmyndarar
sem ná að standa þetta allt af sér og halda sínu
listræna frelsi innan tískuheimsins, ég get í því
sambandi nefnt Jürgen Teller.“
Blekking og veruleiki
Bakgrunnur Katrínar í tískuljósmyndun kemur
ef til vill einna sterkast fram í ljósmyndaröðinni
Lífsandi sem sýnd var í Ljósmyndasafni
Reykjavíkur og á Mokka árið 2003. Í þeirri ser-
íu eru fallegar svarthvítar myndir sem virðast
við fyrstu sýn vera af kvenlíkömum en eru þeg-
ar betur er að gáð ljósmyndir af gínum. „Þessi
ljósmyndasería er unnin undir sterkum áhrifum
frá ljósmyndum súrrealistanna, ekki síst Man
Ray, en einnig Hans Belmer og Cindy Sherm-
an. Ég gekk um alla New York og myndaði gín-
ur inn um glugga. Áhorfandinn heldur í fyrstu
að hann sé að horfa á kvenmannslíkama af holdi
og blóði en áttar sig smám saman á því að þetta
eru allt dauðar gínur. Þrátt fyrir að það fari
ekki mikið fyrir því sést í samskeyti á gínunum
á flestum myndunum. Ég er því ekki að blekkja
heldur að hvetja fólk til að horfa betur. Hug-
myndin var að skapa ákveðið rof, að áhorfand-
inn þyrfti að horfa lengi á myndina til að átta sig
á því hvað hann væri að horfa á. Stundum þarf
að horfa lengi á hlutina til að sjá þá í nýju ljósi.“
Í nýjustu myndaröð sinni af afmörkuðu
landslagi sem við horfum á út um glugga vinnur
Katrín einnig með blekkingu sjónarinnar. „Ég
vinn mikið með sjónarhorn og þá ekki síst hið
blekkjandi sjónarhorn. Fólk er oft lengi að átta
sig á því hvað er að gerast í myndunum mínum
og finnst það óþægilegt. Fyrstu spurningarnar
sem ég fæ eru alltaf: „Hvað er þetta? Hvar er
þetta? Hver er þetta?“ Fólk hefur mikla þörf
fyrir að tengja ljósmyndir við ákveðna staði,
persónur og augnablik í veruleikanum. En á
sama tíma loka þessar staðreyndir dálítið fyrir
persónulega túlkun áhorfandans. Ef fólk sér
eitthvað út úr þessu þá er það mjög jákvætt,
jafnvel þó að enginn sjái það sama eða upplifi
það sama þegar hann horfir á myndirnar. Ljós-
myndirnar mínar fjalla ekki um eitthvert
Fegurð og háski
Katrín Elvarsdóttir „Það skortir skilning á ljósmyndinni sem listmiðli á Íslandi og umræðan
um viðfangsefni ljósmyndara er oft einhæf,“ segir Katrín.
LJÓSMYNDIN á í flóknu sambandi við veru-
leikann sem hún bæði miðlar og endurskapar
á sama augnabliki. Hún felur því í sér ótal
möguleika á að fjalla um þann veruleika sem
var, er og gæti verið og skapa eitthvað nýtt.
Umræða um ljósmyndun á Íslandi snýst oftar
en ekki um tæknibyltingar eða heimildagildi.
Að þessu leyti má segja að umræðan sé helst
til einhæf og skorti mjög á skilning á listrænu
gildi ljósmyndarinnar og stöðu hennar í sam-
tímalist. Með það að markmiði að efla sam-
tímaljósmyndun á Íslandi og stuðla að aukn-
um skilningi og fjöbreyttari umræðu um
ljósmyndun hafa íslenskir samtímaljósmynd-
arar stofnað með sér félagsskap. Næsta sum-
ar verða þeir með samsýningu í Ljósmynda-
safni Íslands í Þjóðminjasafninu en í sumar
og haust vinna þeir að ólíkum verkefnum.
Fyrirhugaðar eru að minnsta kosti fjórar
einkasýningar hjá meðlimum hópsins og tvær
bækur eru í burðarliðnum. Á næstu mán-
uðum munu birtast í Lesbók viðtöl við ís-
lenska samtímaljósmyndara sem eiga með
verkum sínum í áhugaverðum samræðum við
listheiminn og samtíma sinn.
»Ég áttaði mig þó smám
saman á því að listrænt
frelsi tískuljósmyndara er ekki
eins mikið og ég ímyndaði mér.
Þegar maður er farinn að nálg-
ast þennan „alvöru“ tískuheim
og farinn að starfa með stórum
hönnuðum eða fyrir stærstu
tímaritin eru önnur lögmál
sem gilda.
Bias 2 Úr myndaröð Katrínar frá árninu 2004. „Ég er ekki að leita eftir skerpu eða öðru slíku heldur er ég að fanga stemningu, miðla hugmyndum og búa til frásögn.“