Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2007, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2007, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2007 15 lesbók „ÉG ÆTLA að skapa ófullgerða hluti“, hugsar sögumaður og aðal- persóna nýlegrar þýskrar skáldsögu eftir Saša Stanišic, Hermaður gerir við grammófón, og heldur síðan áfram: „Ég er ekki húsasmiður og ég er ömurlegur í allri stærðfræði. Ég kann ekki að búa til múrsteina. En ég kann að mála. Ég ætla að verða listamaður hins ófullgerða!“. Í þessum ásetningi sögumanns leyn- ast margflóknir þræðir sem rekja má í gegnum skáldverkið allt, bæði söguframvinduna og bygginguna, en einkum tengist óskin harminum sem felst í forgengileika andartaksins og endanleika liðinnar reynslu. Þegar litið er um öxl og fortíðinni gaumur gefinn reynist vitanlega allt sem við blasir fullgert og óbreytanlegt. Þetta er ákveðin tegund af dauða og (van)máttur frásagnarlistarinnar til að yfirstíga hann, að láta vatnið „renna til baka“ eins og það er orðað undir lok bókarinnar, er eitt helsta viðfangsefni Stanišics. Jafnvel mætti lýsa efnistökunum sem svo að um beina uppreisn gegn endanleika af þessum toga sé að ræða. Uppreisn sem kjarnast í meðvitundinni um að fortíðin, fullgerð sem hún kann að vera og ófullkomin sem slík, getur auðveldlega glatast, og verkefni sögumannsins er að koma í veg fyrir það. Þótt hinu liðna verði ekki breytt er hægt að syrgja sjálfan endanleik- ann og minnast þess sem var og hefði getað orðið. Skáldsaga Stanišic er þannig fyrst og fremst afskaplega sorgleg bók þótt hún sé vissulega gamansöm á köflum, og stundum bráðfyndin. Minningum um fortíðina er haldið á lofti en jafnfætis og samhliða er grafið undan veruleika þeirra, jafn- vel tilgangi, og verknaðurinn sem blæs þeim líf í brjóst, sjálf skrifin, eru sviðsett og framsett á þver- sagnakenndan hátt. Andspænis þeim hildarleik sem stríðið í fyrrum Júgóslavíu var stendur bókin t.d. nær mállaus og algjörlega skilnings- vana. Þetta er meðvitað bragð og framkvæmt af heilmikilli list af hálfu höfundar, vitundarmiðjan er jú lengstum unglingur sem hefur tak- markaða yfirsýn yfir samtíma- atburði og sitt nánasta umhverfi, en hér mætti líka segja að lesanda birt- ist Balkanstríðið sem hið ófullgerða stríð, það er atburður sem ekki er hægt að ramma inn eða draga fram í heildstæðri mynd. Stríðið reynist því hin síðasta og endanlega „ófull- gerða“ mynd í langri röð slíkra mynda sem varða leið sögunnar, en þegar sögumaður snýr aftur til Bosníu undir lok verksins gerir hann það einmitt til að klára ófullgerðu myndirnar sem hann skildi eftir. Uppgjörið á sér stað en eins og áður segir er fátt uppörvandi við framgang þess, ekki er hægt að tala um lausn af neinu tagi. Sundruð þjóð, sundraðar fjölskyldur, leiftur- myndir af hræðilegu ofbeldi og inn- sýn er gefin í viðvarandi þjáningu. Þrátt fyrir þetta er ákveðin léttleiki yfir verkinu framan af, jafnvel upp- haf stríðsins er framsett í gegnum áhyggjulaus augu barnsins en form- gerð bókarinnar er flóknari en virð- ist í fyrstu. Áfallið sem virtist að sumu leyti yfirstigið með þessum léttleika hverfur ekki heldur reynist það viðvarandi, eitthvað sem krefst þess að vera endurtekið í huganum, endurskoðað þar til þráhyggja og aðímyndunarafl mæta veruleikanum í sprengingu sjálfsins. Þótt sögu- maður flýi úr landi og stríðinu ljúki að lokum er það alltaf til staðar innra með honum og í seinni hluta bókarinnar er atburðanna vitjað á nýjan leik, en nú er sagan mun harmrænni en áður og frásagnar- gleðin hefur tekið nokkrum breyt- ingum. Átökin við fortíðina eru kom- in upp á yfirborðið, bókin tekur að fjalla um ferlið sem liggur að baki því að skrifa um stríðið, og slík skrif eru jafnvel gagnrýnd óbeint innan í bókinni sjálfri. Sögumaður snýr aft- ur í gamla heimabæinn en hann reynist ókunnugur og mætir fjand- skap fyrrum vina. Hér er um harð- neskjulegt raunsæi að ræða – bókin hafnar sögulausn sem horfir fram hjá þeim skilum sem harmleikurinn olli í þjóðarsálinni, sá sem hefur ver- ið fjarverandi í áratug getur sann- arlega aldrei snúið heim aftur. Hér er um knýjandi og krefjandi skáld- sögu að ræða sem tekst á við „öld öfganna“ af metnaði og dirfsku, kímni og hugrekki til að vera „ófull- gerð“ andspænis því sem aldrei skyldi klárað. Aðalfélagi hins ófullgerða Morgunblaðið/Kristinn Sasa Stanisic „Hér er um knýjandi og krefjandi skáldsögu að ræða sem tekst á við „öld öfganna“ af metnaði og dirfsku, kímni og hugrekki til að vera „ófullgerð“ andspænis því sem aldrei skyldi klárað,“ segir í dómnum. Björn Þór Vilhjálmsson BÆKUR Þýdd Skáldsaga Eftir Saša Stanišic. Þýðing eftir Bjarna Jónsson. Veröld. Reykjavík. 2007. 259 bls. Hermaður gerir við grammófón Morgunblaðið/Einar Falur Eiríkur „Einkum hlusta ég á þessi lög í bílnum þar sem ég bruna um götur borgarinnar í óg- urlegum stormi og hvílíku myrkri og heyri hvorki í bílvélinni né sjálfum mér og vona að lög- reglan sé ekki á eftir mér.“ Hlustarinn Ég er að hlusta til skiptis á lögin Beautyand the Beast og The Secret Life of Arabia með David Bowie. Einkum hlusta ég á þessi lög í bílnum þar sem ég bruna um götur borgarinnar í ógurlegum stormi og hvílíku myrkri og heyri hvorki í bílvélinni né sjálfum mér og vona að lögreglan sé ekki á eftir mér. Bæði lögin eru á plötunni Heroes en svo heppilega vill til að hún á þrjátíu ára afmæli um þessar mundir. Það mun hafa verið í október árið 1977 sem upptökustjór- inn Tony Visconti laumaðist út úr Hansa- hljóðverinu í Berlín til að stela kossi upp við Berlínarmúrinn. Bowie sá þetta út um gluggann og þar með var titillag plötunnar komið; lag sem enn í dag ætlar mann lifandi að drepa og vonlaust er að hlusta á í bíl nema maður sé staddur á stofnæð, til dæmis kominn vel út á Miklubrautina. En vegna þess að ég keyri mest um Vesturbæinn læt ég mér nægja fegurðina, villidýrið og hið leyndardómsfulla líf sem menn lifa í Arabíu. Og fer svo bara með bænina sem hann Bowie kenndi mér: „Nothing will corrupt us/ Nothing will compete/Thank God heaven left us/Standing on our feet.“ Eiríkur Guðmundsson, rithöfundur og útvarpsmaður. Lesarinn Ég er farinn að lesa töluvert með því aðhlusta núorðið. Sportið mitt er að þramma í Laugardalnum, svona áður en hann verður endanlega jarðaður í steypu, malbiki og bílastæðum, og hlusta á góðar skáldsögur og leikrit. Ég var að klára Stiller eftir Max Frisch, þetta er mögnuð saga um ást án sjálfs- myndar og frábærlega lesin af Ulrich Matthes sem lék Göbbels í Der Untergang. Núna er ég að byrja á leikritsútgáfu af frægum þríleik Peters Weiss, Die Ästhetik des Widerstands eða Fagurfræði andspyrnunnar. Þetta verk Weiss er kannski eitt af mikilvægustu bók- menntauppgjörum Þjóðverja við 20. öldina, en ef einhver kann að gera upp fortíðina í skáld- skap eru það Þjóðverjar. Ég trimma því á nýrri öld með þá síðustu í eyrunum. Gauti Kristmannsson, lektor í þýðingafræðum við Háskóla Íslands. Gauti „Ég trimma því á nýrri öld með þá síðustu í eyrunum.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.