Morgunblaðið - 31.12.2007, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 31.12.2007, Blaðsíða 6
6 MÁNUDAGUR 31. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ B arnum hefur verið lokað. Partíið er búið og það er verið að kveikja ljósin. Menn munu verða mjög timbraðir á næstunni.“ Þannig komst einn viðmælenda Agnesar Bragadóttur að orði í nýlegri frétta- skýringu hennar í Morgunblaðinu um hrær- ingar og hlutafjáraukningu innan FL Group. Á einfaldan, stuttan og myndrænan hátt hefur þessum ágæta manni sennilega tekist að lýsa í hnotskurn því sem gerðist í íslensku viðskipta- lífi árið 2007, ekki aðeins fyrir FL Group held- ur alla aðra fjárfesta á hlutabréfamarkaði, hér á landi sem erlendis. Útrásinni virðist vera lokið í bili, að minnsta kosti verður ekki sami kraftur í henni árið 2008 og fyrri ár. Minna verður um skuldsettar yfirtökur og samruna en á heimvísu hefur verið spáð allt að 30% samdrætti á því sviði. Fjárfestar höfðu fyrir um ári fullar hendur fjár sem þeir höfðu ýmist grætt eða fengið að láni á ódýrum kjörum og bjartsýnin var alls- ráðandi. Partíið var í fullum gangi. Það fór hins vegar eins og margir raunsæir og lífsreyndir menn höfðu varað við, að það sem fer upp mun á endanum koma niður. Flestar hlutabréfa- vísitölur heims voru fram eftir árinu á hraðri uppleið þegar fór að bera á vandræðum í Bandaríkjunum vegna vanskila á svonefndum ótryggum húsnæðislánum, sem bankar höfðu lánað ótæpilega til „lélegra“ skuldara. Sá vandi hlóðst upp líkt og snjóbolti á fleygiferð niður brekku og nú í árslok hafa tapast risa- fúlgur. Afskriftir helstu banka heims nema hundruðum milljarða króna. Stormasamt ár Síðastliðið ár hefur verið stormasamt og tíð- indamikið en flest allir „dílarnir“ falla þó í skuggann af þeim óróa sem ríkt hefur á mörk- uðunum undanfarna mánuði. Hér verða helstu tíðindi ekki rakin lið fyrir lið heldur frekar reynt að rýna fram á veginn, með áherslu á stóru viðskiptabankana þrjá. Sé tæpt á nokkrum helstu fréttum ársins þá nægir að nefna hræringarnar kringum FL Group, tap félagsins og sala á AMR og brott- hvarf Hannesar Smárasonar úr forstjóra- stólnum, yfirtöku Kaupþings á hollenska bank- anum NIBC, yfirtöku Novators á Actavis og afskráningu félagsins af markaði, for- stjóraskipti hjá Glitni, Straumi, Baugi og Ice- landair, aukin umsvif smærri fjárfestinga- banka eins og Askar Capital, Saga Capital og Icebank, sölu Björgólfs Thors á stórum eign- um í A-Evrópu, velgengni Landsbankans með Icesave-reikninginn í Bretlandi, yfirtöku Mar- els á hollenska Storkinum, áherslubreytingar hjá Straumi, skráningu SPRON á hlutabréfa- markað (og slæmt gengi eftir það), kaup Mile- stone á sænska bankanum Invik, kaup Exista í Sampo, yfirtöku FL Group á Trygginga- miðstöðinni, breytingu Kauphallar Íslands yfir í OMX Nordic Exchange. Lætin kringum Geysi Green og REI og þannig mætti lengi telja. Óvissan aldrei meiri Erfitt hefur jafnan þótt að spá fyrir um þró- un á fjármálamörkuðum en líklegast hefur óvissan um næstu framtíð aldrei verið meiri en nú, hvort sem við erum að tala um íslenskan eða alþjóðlegan markað. Ísland hefur á seinni árum tengst alþjóðamarkaði það mikið að nú eru hlutabréf hér á landi farin að sveiflast í takt við helstu kauphallir heims. Fáir treysta sér til að spá fyrir um hluta- bréfamarkaðinn, enda eru greiningardeild- irnar brenndar af reynslu sinni eftir þetta ár þegar hagnaður fyrri hluta ársins hvarf á þeim seinni og gott betur en það. Sérfræðingum á markaði ber mörgum saman um að fjár- málaóróinn sem verið hefur vegna undirmáls- lánanna í Bandaríkjunum muni ríkja áfram fram eftir árinu 2008 og jafnvel út árið. Á móti hafa sumir nefnt að óróinn taki snöggan endi og markaðurinn fyllist fljótt bjartsýni á nýjan leik, því lögmálin geta jú líka virkað á þá leið að það sem fer niður getur komið upp aftur! Janúar og febrúar koma til með að ráða miklu um hvernig árið þróast. Takist fjár- málastofnunum að endurfjármagna sig fyrstu vikurnar á hagstæðum kjörum þá gæti það smitað út frá sér. Takist það ekki er það ávísun á enn meiri vanda. Sömuleiðis bíður markaðurinn spenntur eft- ir ársuppgjörunum. Reynist þau verri en væntingar segja til um, er hætt við að lengist enn í óróanum, lánsfjármagn verður dýrara og fjárfestar og neytendur svartsýnni. Fleiri þættir munu hafa áhrif, eins og verð á olíu og hrávöru og undirliggjandi þættir í helstu hag- kerfum heims. Fjármálastofnanir í Bandaríkj- unum og víðar hafa sem fyrr segir þurft að af- skrifa hundruð milljarða króna vegna undirmálslánakreppunnar og nokkur óvissa ríkir um hvort botninum hafi verið náð þar. Í öllu falli er því spáð að íbúðaverð vestanhafs eigi eftir að lækka enn meir. Íslenska álagið Á seinni hluta ársins lentu íslensku bank- arnir í erfiðleikum með að fjármagna sig á hagstæðum kjörum á skuldabréfamarkaði þegar skuldatryggingaálagið fór upp í hæstu hæðir, mun hærra en aðrir bankar á mark- aðnum þurftu að sæta. Var farið að tala um hið íslenska álag, en hækkunin var ekki skýrð á annan veg en að hún væri vegna uppruna bankanna í norðurhöfum. Þá er yfirtaka Kaup- þings á NIBC talin hafa haft áhrif á álag hinna bankanna. Þegar álagið var sem hæst héldu bankarnir að sér höndum og bíða þeir nú færis á að leita sér fjármagns. Lægri upphæðir koma á gjalddaga hjá bönkunum á komandi ári en því sem nú er að renna sitt skeið, eða alls um 518 milljarðar króna. Hjá Kaupþingi er um 148 milljarða króna að ræða, um 70 milljarða hjá Lands- bankanum (voru um 240 milljarðar á þessu ári) og 300 milljarðar króna hjá samstæðu Glitnis. Þar af eru um 200 milljarðar fyrir móð- urfélagið og 100 milljarðar fyrir starfsemi bankans í Noregi, sem er fjármögnuð sjálf- stætt á norskum skuldabréfamarkaði. Hins vegar er hætt við að stærri fjárhæðir verði á gjalddaga hjá bönkunum árið 2009. Að auki eru 174 milljarðar á gjalddaga árið 2008 hjá FIH í Danmörku, dótturfélagi Kaup- þings, en þau bréf eru fjármögnuð sjálfstætt. Til samanburðar þá nam langtímafjármögnun Kaupþings á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs um 418 milljörðum króna og 185 milljörðum hjá FIH. Bankarnir hafa flestir verið að fjármagna sig í Bandaríkjunum og Evrópu en Kaupþing hefur reynt fyrir sér í fleiri löndum, m.a. Kan- ada, Ástralíu, Mexíkó og Japan. Glitnir hefur einnig verið að fjármagna sig utan Bandaríkj- anna og Evrópu en í mjög litlum mæli. Bankarnir tóku sig á Hætt er við að íslensku bankarnir hefðu komið verr út úr fjármálaóróanum í ár, hefðu þeir ekki fengið á sig gagnrýni erlendra grein- ingardeilda á síðasta ári. Þeir tóku til í sínum ranni, stórbættu sitt kynningarstarf, losuðu sig við eignir og juku lausafjárstöðuna. Innan Landsbankans er einna mesta ánægj- an með hvað innlánsreikningurinn Icesave hef- ur slegið í gegn, og halað inn milljarða á millj- arða ofan á innlánahliðinni, eða alls um 600 milljarða króna. Er hlutfall innlána af útlánum nú orðið um 75%. Þar á bæ er staðan líklegast einna sterkust meðal íslensku bankanna en engu að síður ætla Landsbankamenn að halda að sér höndum og sjá hvernig markaðurinn þróast. Bankinn hefur verið orðaður við yf- irtöku á fjármálafyrirtækjum í Bretlandi og á Írlandi en óvíst er hvað verður úr þeim áform- um. Síðasta stóra skuldabréfaútgáfa bankans var í október, þegar gefnir voru út 400 millj- ónir dollara í Bandaríkjunum, jafnvirði um 25 milljarða króna. Þar áður hafði aðeins ein stór útgáfa farið fram á árinu, eða upp á 500 millj- ónir evra til fimm ára á evrópskum banka- markaði í maí sl. Til marks um hækkandi skuldaálag þá voru kjörin á þeim tíma 26 punktar hjá Landsbankanum en álag bankans nú er kringum 200 punkta. Tímamót urðu hjá Glitni á árinu þegar mikl- ar breytingar urðu á eignarhaldinu og Bjarni Ármannsson hætti sem forstjóri í kjölfarið. Landsbankamaðurinn Lárus Welding tók við og gerði ýmsar breytingar. Líkt og fleiri bank- ar þarf Glitnir að bæta lausafjárstöðu sína og draga úr kostnaði. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um uppsagnir en hætt við að lítið verði um ráðningar í stað þeirra sem hætta. Og talandi um það í upphafi pistilsins að veislu- höldum fjárfesta væri lokið í bili þá er það nokkuð táknrænt um ástandið á markaðnum að Glitnir býður ekki til nýársveislu núna í jan- úar eins og hann hefur gert undanfarin tvö ár. Bankinn jók enn sókn sína á Norðurlönd- unum með kaupunum á finnska fjárfestinga- bankanum FIM Group, sem starfar einnig í Svíþjóð og Rússlandi. Glitnir mun einbeita sér að rekstri núverandi eigna og samþætta þær betur. Áfram verður lögð áhersla á þær tvær atvinnugreinar sem bankinn hefur sérhæft sig í, þ.e. sjávarútvegi og orkugeiranum. Þar sjá Glitnismenn gríðarleg tækifæri í Asíu og Bandaríkjunum og engin teikn um að hægja muni á, bankinn veit sem er að fólk þarf áfram á sjávarafurðum og orkugjöfum að halda, ekki síst vistvænum orkugjöfum. Skrifstofur bank- ans í Sjanghæ og New York hafa farið vel af stað og miklar vonir eru bundnar við starfsemi Glitnis á þessum svæðum, sem og á Norð- urlöndunum. Kaupþing að kyngja NIBC Hjá Kaupþingi er aðhald í rekstri einnig framundan eftir mikinn vöxt á árinu. Sett verður í hæga gírinn á meðan skuldabréfa- markaðurinn er lokaður og meiri áhersla lögð á að auka innlánin. Enn er verið að kyngja stóra bitanum sem NIBC var fyrir bankann, fjármögnun á þeim kaupum er lokið og hluta- fjárútboð er framundan. Helsta verkefni Kaupþings verður að samþætta þau kaup inn í reksturinn, og auka samstarf dótturfélaga milli landa. Eins og áður segir hefur bankinn sótt sér fjármagn á nýjar og framandi slóðir, eins og með svonefndum samúræjabréfum í Japan og kengúrubréfum í Ástralíu, þar sem markmiðið hefur verið að dreifa áhættunni sem mest. Bankinn hefur einnig verið að stækka innlána- grunninn í öllum sínum starfslöndum og m.a. sett upp Netbanka í Svíþjóð og Finnlandi, Kaupthing Edge, sem svipar til Icesave hjá Landsbankanum. Stefnir bankinn með þá af- urð á fleiri markaði. Kaupþing fór inn í Mið- austurlönd á árinu með opnun starfsstöðva í Dubai og Katar en ekki munu vera áform um að opna formlegt útibú í Asíu, heldur treysta frekar á samskiptin við þann markað gegnum Kaupþing í London, auk þess sem NIBC er með starfsstöð í Singapore. Þá á Kaupþing fimmtungshlut í fjármálafyrirtæki á Indlandi. Fyrir utan stóru viðskiptabankanna verður fróðlegt að fylgjast með Bretanum William Fall og hvernig hann heldur áfram að breyta Straumi-Burðarási og skapa honum fótfestu sem öflugum fjárfestingabanka í Evrópu. Einnig verða augu markaðarins áfram á fjár- mála- og fjárfestingafélögum eins og FL Gro- up, Exista, Novator og Milestone og ekki ólík- legt að þau muni halda áfram að losa um eignir sínar og vaka yfir nýjum kauptækifærum. Þá má reikna með frekari tíðindum af aukn- um umsvifum Askar Capital, Saga Capital, MP fjárfestingabanka og Icebank, sem hafa verið að gera sig meira gildandi á markaðnum. Óvissa um evruna Óvissa er á fleiri sviðum en alþjóðlegum mörkuðum. Hér heima fyrir heldur óvissa áfram um hvort íslensk fyrirtæki fái að skrá hlutafé sitt í evrum. Þeim fyriráætlunum hefur í tvígang verið frestað, nú síðast þegar ekki tókst að fá Deutsche Bank til samstarfs um skráninguna. Óútskýrð tregða hefur einkennt þetta ferli og verður ekki hægt að segja annað en umburðarlyndi íslensku útrásarfyrirtækj- anna gagnvart íslenskum fjármálayfirvöldum sé aðdáunarvert. Af orðum viðskiptamanns ársins hjá Viðskiptablaðinu, Björgólfi Thor, má þó merkja vaxandi óþolinmæði. Einnig voru athygliverð þau ummæli Björgólfs að við hefðum ekkert að gera í Evrópusambandið en ættum að kasta krónunni fyrir evru. Svo vitnað sé í upphafsorð þessa pistils þá liggur nokkuð ljóst fyrir að fjárfestar eru að vakna upp með timburmenn eftir langa veislu. Hvenær barinn opnar á ný og veislan hefst veit enginn, en það verður að segjast að engin sér- stök stemning virðist ríkja fyrir komandi ári. Þannig skálaði ónefndur bankamaður, sem greinilega hefur afskrifað árið 2008, í veislu á dögunum með þessum orðum, sem verða loka- orðin: „Skál fyrir árinu 2007, megi árið 2009 verða skemmtilegt.“ Óvissa að veislu lokinni » Fjárfestar höfðu fyrir um ári fullar hendur fjár sem þeirhöfðu ýmist grætt eða fengið að láni á ódýrum kjörum og bjartsýnin var allsráðandi. Partíið var í fullum gangi. Það fór hins vegar eins og margir raunsæir og lífsreyndir menn höfðu varað við, að það sem fer upp mun á endanum koma niður. VIÐSKIPTI Björn Jóhann Björnsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.