Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2008, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2008, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 10. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is Leikstjórinn Ang Lee er líklegaeinhver óútreiknanlegasti leik- stjóri Hollywood og því fullkomlega rökrétt að í kjölfar tregafullrar ástar- og njósnasögu í Sjanghaí komi gam- anmynd um þekktustu tónleika mann- kynssögunnar. Taking Woodstock er byggð á samnefndri bók Elliots Ti- bers. Tiber þessi var einn að- alskipuleggjandi tónleikanna, sá um að finna þeim stað og reddaði þeim leyfum sem þurfti. Tiber sjálfur hélt raunar að hann væri að skipu- leggja ósköp hefð- bundna tónleika og virðist ekki hafa verið mikill byltingarleiðtogi, en mannkynssagan atti tónleikunum hans fram í sviðsjósið þar sem þeir hafa verið síðan. Ekkert hefur enn frést um hverjir fara með aðalhlut- verkin en miðað við lýsingarnar á Ti- ber þá virðist Tobey Maguire (sem hefur sjaldan verið betri en þegar Lee leikstýrði honum í The Ice Storm) ein- hvern veginn vera tilvalinn.    Ef marka má væntanlega myndStevens Soderberghs, The Girl- friend Experience, þá hefur Pretty Woman kveikt athyglisverðar hug- myndir innan kynlífsiðnaðarins. Myndin fjallar nefnilega um vændis- konur sem fá borg- aðar nærri milljón krónur á dag, ekki bara fyrir kynlíf heldur einnig fyrir að látast vera unn- ustur viðskiptavina sinna. Leikstjórinn segist ætla að ráða óþekkta leikara í aðalhlutverkin og fregnir herma að aðalhlutverkið verði líkast til í höndum raunverulegrar klámmyndastjörnu. Ólíkt aðalpersón- unum er myndin sjálf í ódýrari kant- inum og áætlar Soderbergh að taka hana upp á aðeins 14 dögum – en áður en hann getur hafist handa þarf hann að klára The Informat, spennumynd með Matt Damon í aðalhlutverki, og í augnablikinu situr hann væntanlega sveittur við að klippa Che fyrir áhorf- endur í Cannes.    Heimurinn fær loks að frétta afástarævintýri Michaels Jack- sons og Marilyn Monroe í Mister Lo- nely, fyrstu bíómynd Harmony Kor- ine (Gummo og Julien Donkey-Boy) í níu ár. Þetta er að vísu ástarævintýri tveggja eftirherma, en áhorfendur fá aldrei að vita þeirra raunverulegu nöfn – en Marilyn-eftirherman er leik- in af Samönthu Morton og Diego Luna leikur Jack- son-eftirhermuna. Fleiri eftirhermur koma við sögu í myndinni, sem gerist að stórum hluta í eftirherm- ukommúnu í Skot- landi, þar sem Charlie Chaplin, Elvis Presley, Sammy Davis jr., James Dean, Ma- donna, Shirley Temple, Rauðhetta, Abraham Lincoln, Elísabet Eng- landsdrottning og páfinn eiga einnig sína staðgengla í kommúnunni og það verður spennandi að komast að því hvort drottningin og páfinn eigi ekki líka vingott. Samtímis fylgir myndin einnig óvenjulegum ævintýrum nokk- urra nunna sem læra merkilegt nokk að fljúga.    Breskir gagnrýnendur hafa lengihælt myndum Shanes Meadows mjög en það var ekki fyrr en með This is England sem hróður hans náði að einhverju ráði út fyrir Bretlandseyj- ar. Meadows mun fylgja henni eftir með Somers Town, sem fjallar um óvenjulegt vinasamband uppreisnar- unglings í London og pólsks innflytj- anda á níunda áratug síðustu aldar. KVIKMYNDIR Shane Meadows Samantha Morton Steven Soderbergh Eftir Björn Norðfjörð bn@hi.is Kvikmyndasafn Íslands býður nú upp ásýningu myndarinnar The Prodigal Sonsem hluta af hátíðardagskrá í tilefni af30 ára afmæli sínu en þessi mynd var tekin upp hérlendis að stórum hluta árið 1922. Þótt The Prodigal Son verði seint jafnað við þau mörgu sígildu listaverk er prýða dagskrá hátíðarársins er þetta lykilverk í íslenskri kvikmyndasögu og mikill fengur að fá að berja það augum á hvíta tjaldinu. The Prodigal Son er ensk kvikmynd sem leikstýrt var af A. E. Coleby nokkrum og er um að ræða að- lögun á samnefndri skáldsögu Hall Caine frá 1904, sem mun hafa notið vinsælda víða, en er nú flestum gleymd. Sagan snýst um tvær vel stæðar fjöl- skyldur í Reykjavík en atburðarásinni vindur líka til London, Nice og Þingvalla (sem eru nokkurs konar samnefnari fyrir íslenska sveit í myndinni). Söguþráðurinn er á þá leið að fyrirhugað brúðkaup Magnúsar (Stewart Rome) og Þóru (Colette Bret- tel) sem sameina mun fjölskyldurnar tvær verður að engu er bróðir Magnúsar Óskar (Henry Victor) kemur til landsins og þau Þóra falla hvort fyrir öðru. Magnús fórnar sér fyrir elskendurna og læt- ur sem hann slíti trúlofuninni með stærilegum kaupmálskröfum og er fyrir vikið sendur í útlegð til Þingvalla. Hið nýja par er þó enn ekki gift er systir Þóru Helga (Edith Bishop) mætir á svæðið og þau Óskar fella hugi saman. Allt fer á versta veg er Helga slæst í för með Þóru og Óskari í brúðkaups- ferð þeirra til Suður-Frakklands, en hún reynist vera hið mesta skaðræðiskvendi enda með stutt hár í anda „vamp“ eða „flapper“ stúlkna þessa tíma. Óskar snýr til baka stórskuldugur eftir spilavít- isferðir hans og Helgu, Þóra deyr eftir að barn þeirra hjóna er tekið frá henni sakir andlegrar van- líðanar, og Óskar er loks sendur í útlegð til London. Sextán árum síðar snýr hann til baka til Íslands sem tónskáldið fræga Kristján Kristjánsson… Þessi rómantíska atburðarás kallast óneitanlega á við skáldsögu Gunnars Gunnarssonar Sögu Borg- ættarinnar sem hafði þá nýverið verið kvikmynduð (en svo öllu sé haldið til haga þá var skáldaga Caine skrifuð á undan sögu Gunnars). Bræðurnir Magnús og Óskar eru náskyldir þeim Ormari og Katli, en sá síðarnefni hlýtur einmitt uppreisn æru á svipaða máta og Óskar sem Gestur eineygði undir lok at- burðarásarinnar. Framanaf er einnig þónokkuð um rómantískar landslagssenur og skaplyndi Magn- úsar er að einhverju leyti rakið til íslenskrar nátt- úru með svipuðum hætti og Ormars. Þessar róm- antísku áherslur eru þó fjarri því að vera jafn mikilvægur í The Prodigal Son og svipar henni fremur til hefðbundins melódrama. Persónur myndarinnar virðast eiga heima í evrópskri borg- arastétt frekar en íslenskri sveit, og koma þá ekki síst til innisenurnar sem væntanlega hafa verið teknar í stúdíói í Englandi, og eiga lítt skylt við inn- viði íslenskra hýbýla. Meira að segja sveitabýli Magnúsar á Þingvöllum minnir fremur á evrópska kastaladýflissu auk þess sem Þingvellir hafa tekið á sig ásýnd framandi landslags. Ekki er annað að sjá en að kvikmyndagerðarmönnunum hafi láðst að mynda lokasenuna er þeir voru við upptökur hér- lendis. Það verður þó að segjast að þessi hádrama- tíska saga er sögð með heldur tilþrifalitlum hætti. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að kvikmynda- tökuvélin sé aldrei hreyfð úr stað og uppsetningar leikara eru oft heldur sviðslegar. Leikurinn sjálfur er þó mestmegnis fínn og einnig má sjá bregða fyr- ir vel heppnuðum myndblöndunum. Hvað sem líður listfengi myndarinnar er þó um að ræða líkt og áð- ur segir lykilverk í íslenskri kvikmyndasögu, og ekki á hverjum degi sem gefst færi á að sjá The Prodigal Son í bíó. Franskur textinn hefur verið ís- lenskaður af Oddnýju Sen og er honum varpað á tjaldið til hliðar við myndina. Þá fylgir með bíómið- anum útprent af blaðagrein um upptökur mynd- arinnar frá 30. júlí 1922, auk upplýsandi greinar um The Prodigal Son eftir Erlend Sveinsson frá árinu 1977. Þessi sýning er Kvikmyndasafninu til mikils sóma, undirleikur hefði þó mögulega verið við hæfi (jafnvel á bandi), og fólk hvatt til að láta hana ekki framhjá sér fara.The Prodigal Son er sýndur í Bæj- arbíói, Hafnarfirði, kl. 16.00 í dag. Glataði sonurinn SJÓNARHORN » Þótt The Prodigal Son verði seint jafnað við þau mörgu sí- gildu listaverk er prýða dagskrá hátíðarársins er þetta lykilverk í íslenskri kvikmyndasögu og mikill fengur að fá að berja það augum á hvíta tjaldinu. Eftir Sæbjörn Valdimarsson saebjorn@heimsnet.is A LLT frá því að Peter L. Jackson frumsýndi þriðja og síðasta hluta Hringadróttinssögu, ósk- arsverðlaunamyndina Hilmir snýr heim – Return of the King (’03), hafa kvikmyndaunnendur beðið með öndina í hálsinum eftir fleiri verkum úr smiðju J.R.R. Tolkiens. Augu þeirra hafa einkum beinst að Hobbitanum – The Hobbit (var gefin út hér- lendis undir nafninu Hobbitinn eða: Út og heim aftur (Fjölvi 2007)). Nýsjálendingurinn Jackson framdi að margra mati kraftaverk þegar hann filmaði Hringadróttins-þríleikinn, sem flestir töldu ógjörning. Hann flutti áhorfendur hnökralaust inn í dulúðugan heim enska ævintýraskáldsins og þeir tóku honum fagnandi, því allar urðu myndirnar með þeim mest sóttu á frumsýningarárinu. Tíminn leið, en fátt jákvætt fréttist af áframhaldandi kvik- myndagerð Tolkien-bóka, þótt markaðurinn væri fyrir hendi og myndin eða myndirnar forseld met- sölustykki. Það var undir lok apríl sl. að loksins fékkst staðfest að hreyfing væri komin á málin og undirbúningur að hefjast á ekki einni, frekar tveimur kvikmyndum byggðum á The Hobbit. Hitt kom á óvart að Jackson mun ekki verða við stjórn- völinn, sem hefur verið settur í hendurnar á Mexíkóanum Guillermo del Toro (El Laberinto del fauno, Blade II., Hellboy), og á hann að skila The Hobbit 2010 og The Hobbit 2 ári síðar. Myndirnar verða sem fyrr segir byggðar á grundvallarverk- inu The Hobbit: or There and Back Again (1937), sem segir af Hobbitanum Bilbo Baggins, frænda Frodo Baggins. Sá síðarnefndi varð sem frægt er orðið ein aðalpersóna Hringadróttinssögu, sem höfundurinn skrifaði nokkru síðar, fyrsta bindið kom út 1954. Bilbo lifir friðsemdarlífi uns Gandalf bankar upp á í slagtogi við dvergaflokk og dregur Hobbitann út í langa og stranga baráttu við menn, tröll og skrímsli og leit að töfragrip sem mun hafa áhrif á framtíð heimsins. Þessi tröllaslagur við forynjur er mikilúðlegur og hentar vel stafrænni kvikmyndatækni samtím- ans, en það má segja að áralöng baráttan við að koma kvikmyndagerð Hobbitans á koppinn sé litlu tilkomuminni. Þar tókust á reginöfl kvikmynda- borgarinnar og náðist loks lending í síðasta mán- uði. Deiluaðilarnir voru kvikmyndaverið New Line Cinema og leikstjórinn Jackson, sem lýstu því sameiginlega yfir að friður væri kominn á í Mið- heimum og árangurinn kæmi í ljós á jólum 2010. Sættirnar kostuðu mikinn tíma og fé en deil- urnar eiga langan aðdraganda sem hófust eftir að Jackson lauk við Hringadróttins-þríleikinn. Mörg- um á óvart kostaði hann sannkallaða „smáaura“ og tók mun skemmri tíma í framleiðslu en nokkurn óraði fyrir. Þakka ber völundinum Jackson, frá- bæru kvikmynda– og brelluveri hans og ódýru vinnuafli á Nýja- Sjálandi. Allir voru hæst- ánægðir – til að byrja með. Jackson tók myndirnar þrjár í einum áfanga, sem var enn veigamesti sparnaðarþátturinn. Til að kóróna vel lukkaða kvik- myndagerð, sem hlaut hvar- vetna góða dóma og hrúgu af Óskurum og öðrum eftirsóttum kvikmyndaverðlaunum, flykktist almenningur á myndirnar. Þegar upp var staðið höfðu Fróði og félagar heldur betur malað gull; 2,9 milljarða dala (sem er álíka upphæð og þrjú tekjuhæstu kvik- myndaverin taka inn á góðu ári). En þrátt fyrir alla velgengnina mun Jackson hvergi koma nálægt leikstjórn Hobbit-myndanna, þess í stað stýrir hann Tinna-myndinni hans Stevens Spielbergs, sem verður frumsýnd 2009. Samkomulegið fól í sér að Jackson verður einn af framleiðendunum og fær litlar 40 milljónir dala fyrir að bera þann þunga kross. Hann mun verða með í ráðum hvað snertir útlit, handritsgerð, leik- ara- og tæknimannaval, tökustaði og flesta þá þætti sem skipta meginmáli. Jackson fékk það auð- veldlega í gegn að myndirnar verða teknar á Nýja- Sjálandi og öll brelluvinna unnin í kvikmynda- verinu hans – til að tryggja að auðsætt svipmót verði með Hobbita-tvennunni og Hringadróttins- þríleiknum. Samningar náðust loks á milli New Line Ci- nema, sem er rétthafi bókarinnar, og Metro Gold- wyn Mayer, sem á dreifingarréttinn, um helm- ingaskipti á framleiðslukostnaði og dreifingarumfangi. NLC verður titlað framleið- andi og dreifingaraðili í Vesturheimi, en gamla stórveldið MGM fær dreifingarréttinn annars staðar í heiminum. Upphaf ósættisins á milli Jacksons og NLC má rekja til velgengni þríleiksins og blossaði upp árið 2003, þegar ljóst var að ágóðinn af Hilmir snýr heim og fyrri myndunum tveimur var orðinn stjarnfræðilegur. Jackson, sem var meðframleið- andi þrennunnar, sagðist ekki vera mikill reikn- ingsbógur en hvert barn sæi það skýrt og greini- lega að hann væri hlunnfarinn af NLC, sem hækkaði að bragði hagnaðarhlut hans, en ekki nóg. Jackson fékk aftur á móti þá Bob Shaye og Mich- ael Lynne, stjórnendur NLC, gjörsamlega upp á móti sér. Stríðið varð opinbert árið 2005, þegar Jackson, studdur af endurskoðendum sínum, fór í mál við kvikmyndaverið sem hann sagði hunsa nið- urstöður sinna manna. Hvað sem er hæft í því þá lýsti Shaye því yfir að hann væri búinn að greiða Jackson yfir 250 milljónir fyrir hans hlut sem með- framleiðandi og málatilbúningur leikstjórans/ framleiðandans ætti sér enga stoð. Hann væri bú- inn að fá sinn skerf og það rausnarlegan. Það gerðist næst í þrætumálinu að á Cannes- kvikmyndahátíðinni 2007 ræddust þeir við í fyrsta skipti í tvö ár Shaye og Jackson. Í vetur var stjórn MGM orðin friðlaus yfir aðgerðarleysinu í væn- legri gullnámunni, fyrirtækið hefur verið með böggum hildar í áratugi og sjálft hefur NLC aðeins átt tvær aðsóknarmyndir á jafnmörgum árum; Rush Hour 3 og Hairspray. Það var því kominn tími til að slíðra sverðin og hefja gröftinn. Þessa dagana er undirbúningurinn að hefjast á Nýja- Sjálandi og einn leikari hefur þegar verið ráðinn; enginn annar en sir Ian McKellen, sem mun að sjálfsögðu fara með hlutverk Gandalfs. Tökur eiga að hefjast í kringum áramótin 2008/9, en ferlið við gerð myndanna er um fjögur ár. Hreyfing komin á Hobbitann Í síðasta mánuði var byrjað að undirbúa gerð tveggja mynda byggðra á fyrstu ævintýrasögu Tolkiens. Guillermo del Toro Úr Hobitanum Undirbúningur er að hefjast á tveimur kvikmyndum byggðum á Hobitanum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.