Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2008, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2008, Blaðsíða 10
Eftir Þorvald Þorsteinsson kennsla@kennsla.is Á rið 1995 var al- þjóðaár póstkortsins sem kunnugt er. Af því tilefni varð með- al annars til verkið 5 íslensk lykilsvör þar sem fólki gafst færi á að senda vin- um og ættingjum áminningu á póst- korti um nokkur mikilvægustu prófsvör íslenskrar menningar- og trúarbragðasögu ásamt einu sígildu svari úr landafræði. Það hvarflaði ekki að mér þegar kortið var prentað, að nokkurn tíma þyrfti að draga trúverðugleika svaranna í efa. Þetta hefur alltaf verið á hreinu; Jónas fótbrotnaði, Nýja testamentið var þýtt úti í fjósi, holdsveikin kláraði Hallgrím, Þorgeir Ljósvetningagoði dvaldi undir feldi nóttina fyrir kristnitöku og Hvannadalshnúkur er hæsti tindur landsins, 2119 metrar. Þetta eru svör sem gott var að hafa á reiðum höndum af þeirri einföldu ástæðu að þau voru rétt. Öll önnur svör voru röng. Líka rétta svarið við spurningunni um Hvannadals- hnúk; 2.109,6 metrar, en sú ein- kennilega framandi tala reyndist niðurstaða nýjustu mælinga Land- mælinga Íslands, kynnt af tveimur ráðherrum á blaðamannafundi hinn 4. ágúst 2005. „Einhverjir metrar til eða frá skipta kannski ekki öllu máli,“ sagði þáverandi umhverfisráðherra og Halldór Ásgrímsson forsæt- iráðherra sló á létta strengi, sam- kvæmt fréttum Mbl. Það vill hins vegar til að ein- hverjir metrar til eða frá skipta öllu máli. A.m.k. fyrir þá sem aldir eru upp í þeirri trú að það séu til rétt svör við nánast öllu og þar með röng líka. Þá sem hafa gengist und- ir það að þessi sömu réttu og röngu svör séu nokkurn veginn eini mark- tæki mælikvarðinn þegar kemur að því að meta hæfni barna og ung- linga í námi og taka ákvarðanir um námsleiðir þeirra – finnist þær á annað borð á kortinu. Sem getur brugðið til beggja vona, reynist meira af röngum svörum en réttum á prófblöðum grunnskólaáranna. Í ljósi þessa rétta/ranga póst- korts er freistandi að velta fyrir sér hversu mikið af meintum stað- reyndum námsbókanna reynist ekki eiga við rök að styðjast? Og það sem er ennþá áhugaverðara; hversu margar spurninganna sem skilja að feigan og ófeigan í skyndiprófum, áfangaprófum, vetrarprófum, vor- prófum og samræmdum prófum skólanna, reynast vera rangar, ef vel er að gáð? Það er ýmislegt í námsefni skól- anna sem menn ættu að fara var- lega í að spyrja nemendur út í. Þar á meðal ýmislegt sem kennt er við stærðfræði og íslensku. Sjálfar kjarnagreinar grunnskólakerfisins. Ég nefni dæmi: Einhvers staðar er verið að spyrja 16-17 ára nem- endur í þaula um fyrirbæri sem kallað er „föll, afleiður og heildi“. Sjálfur kynntist ég þessum hug- tökum í menntaskóla, og þó ekki, því enn þann dag í dag hef ég ekki hugmynd um hvað þessi orð eru að reyna að segja mér, hvað þá meira. Eftir hálfs vetrar vonlitla leit að skilningi urðu spurningar vorsins mér að falli og þrátt fyrir góðan vilja einkakennara í hálft sumar, neyddist ég til að svindla á upp- tökuprófinu um haustið til að helt- ast ekki úr lestinni. Fyrir nokkrum árum hitti ég ungan og skarpan stærðfræðikenn- ara sem reyndist vera uppálagt að spyrja nemendur nokkurn veginn sömu spurninga og höfðu næstum gert út um námsferil minn á sínum tíma. Ég stóðst ekki mátið og spurði hann í mestu einlægni hvers vegna þetta „föll, afleiður og heildi“ væri svona mikilvægt? Eftir grunsamlega langa um- hugsun kom svarið: „Ef þú hefðir farið í verkfræði hefðirðu kannski þurft að nota þetta einhvern tíma.“ Annað dæmi, opnara: Má ekki með nokkrum rétti halda því fram að það hafi verið vitlaust spurt þegar bráðskemmtilegir og mælskir unglingar segja mér að þeir séu „svaðalega lélegir í ís- lensku“ vegna þess að það var alltaf verið að spyrja þá út í málfræði, beygingafræði, setningafræði og hljóðfræði? Það var alltaf verið að láta þá taka þátt í greiningu verk- færisins stað þess að gefa þeim færi á að uppgötva og njóta notk- unarmöguleika þess. Þetta er ekkert ósvipað því að taka bílpróf án þess að hafa lært að keyra bíl vegna þess að tíminn fór allur í að taka bifreiðina í sundur. Það er sjálfsagt gott fyrir þá sem enda sem bifvélavirkjar en ekki beint til þess fallið að skila nemand- anum út í umferðina sem hæfum ökumanni. Hvað þá að hann njóti akstursins. Og svo við höldum okkur við ís- lenskuna. Hvaðan kemur sú hugmynd að tjáning fólks á móðurmáli sínu sé háð þekkingu þess á málfræði? Eða sést á textanum að sá sem þetta skrifar hefur aldrei náð þessu með frumlagið og andlagið? Hvernig gerðist það að rannsókn- arþættir tungumálsins, sem sjálf- sagt er að menn sinni í þar til gerð- um stofnunum, urðu að skyldunámsefni barna og unglinga, á kostnað þjálfunar í skapandi notkun þessa dásamlega verkfæris? Hvernig gat það gerst að mál- fræði, setningafræði, hljóðfræði og beygingafræði öðlaðist slíkt vægi í móðurmálskennslu að ætla mætti að íslenskt mál væri ekki almenn- ingseign heldur mælitæki til þess ætlað fyrst og fremst að greina að hæfa og óhæfa? Ég hef lengi velt fyrir mér ástæðu þess að greining verkfær- anna hefur orðið jafn ráðandi hluti í skólastefnunni og raun ber vitni. Það virðist að við séum orðin svo háð mælingum, skiltum og sann- anlegum staðreyndum að við séum tilbúin að fórna ævintýrinu, sköp- unareðlinu og uppgötvuninni ef það má verða til þess að koma tilver- unni undir hatt hins skilgreinanlega og mælanlega. Málvísindi verða þannig mikilvægari en málið. Bók- menntafræðin verður forsenda skáldskaparins. Skýrsla um mann- leg samskipti verður marktækari en mannleg samskipti. Skólastefnan viðheldur og end- urspeglar í senn ótta okkar við til- veruna sem óskilgreinda heild, stefnulausan leik eða einfaldlega eitthvað sem er í eðli sínu rétt. Og við sjálf þar á meðal. Til þess að komast hjá slíkri upplifun erum við þjálfuð til að vantreysta því nátt- úrulega og sjálfsprottna. Þessu sem er fullkomið í sjálfu sér. Svo frekar en að njóta þess, leggjumst við í að skilgreina allt sem er og helst að taka það í sundur í leiðinni. Kannski er það fyrst og fremst óttinn við sköpunareðli okkar og þennan skömmustulega grun um að við séum í raun nógu góð, sem veldur því að við treystum ekki því sem er skemmtilegt, auðvelt og einfalt. Sköpum þess í stað skyldu- námsefni sem byggist á þekktum staðreyndum (2.119), rökréttum kerfum, margreyndum formúlum og viðurkenndum stöðlum. Lítum svo á að því meira sem nemandi til- einkar sér af slíku efni, því betur hefur til tekist. Þessi ótti við hið óskráða þýðir hins vegar að það sem nemandinn uppgötvar, reynir, upplifir, skapar, safnar, ímyndar sér, leggur til, efast um, fagnar, hlúir að og gefur af sér verður ómerkingur í ein- kunnagjöfinni. Það er nefnilega ekki þetta sem skólanum er ætlað að draga fram. Það er ekki nem- andinn sjálfur og það sem hann býr yfir sem ætlunin er að fjalla um heldur hitt; það sem nemandinn hefur ekki. Kann ekki. Þekkir ekki. Samt er það svo að stór hluti þeirra verkfæra sem skólar lands- ins notast við til að bæta úr skorti nemenda sinna er sóttur beint í eiginleika og náttúrulega hæfni þeirra sjálfra. Verkfæri eins og áhugi, forvitni, samtengingarhæfni, rýmisskynjun, heildarsýn, vinarþel, hlustun, næmi, innsæi, húmor og tímaskyn, allt eru þetta eiginleikar sem okkur eru gefnir og hvert barn býr yfir, hversu vel eða illa sem því gengur að lesa bók, muna nöfn eða leysa stærðfræðiformúlur. En í stað þess að hlúa að því sem við bú- um yfir er okkur gert að einblína á það sem ekki er til staðar, líkt og lífið liggi við. Og það er sannarlega mikið í húfi í samfélagi sem metur fólk eftir mælanlegum viðmiðunum annarra fremur en raunverulegum eiginleikum þess sjálfs. Móðurmál hvers manns er magnað verkfæri svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sem tjáningartæki og skapandi afl er tungumálið í senn staðfesting á einstökum heimi og sameiginlegum grundvelli hverrar manneskju. Það er allt í senn; sjálfsagt, gjöfult og óend- anlega margbrotið sem verkfæri í samskiptum manna, mótun og við- haldi samfélags. Það er skapandi verkfæri í stöðugri þróun og við höfum það öll á valdi okkar. Fyrir mörgum árum flutti ég fyrirlestur í Hollandi sem kallaðist „Geta tungumálaörðugleikar verið skapandi afl?“ Þar velti ég fyrir mér hvað gerist þegar fólk situr í fyrirlestrasal og hlustar á erindi flutt á tungumáli sem það skilur ekki orð í. Hvernig skynfærin byrja að taka við sér á nýjum for- sendum þegar hinn viðtekni skiln- ingur er ekki fyrir hendi, engin vitsmunaleg merking að styðjast við. Hvernig við förum fremur að skynja en skilja, jafnvel af meiri nákvæmni en þegar hið rökrétta stelur senunni. Fyrirlesturinn flutti ég á ís- lensku og var þess vandlega gætt að enginn íslenskumælandi gestur væri í salnum. Fyrstu 12-15 mín- úturnar ríkti mött þögn, líkt og ég talaði inn í svarthol, en upp úr því tók að losna um axlir og einhverjir hölluðu sér fram til að hlusta betur. Eftir rúmlega 20 mínútna tölu féll lokasetningin, sem var u.þ.b. svona: „Lengra verður þetta ekki en ég er tilbúinn að svara spurningum ef einhverjar eru.“ Tveir fyrirlestragestanna réttu samstundis upp hönd. 5 lykilsvör Póstkort, 1995, Þorvaldur Þorsteinsson. Mál er að mæla Óttinn við hið óskráða þýðir að það sem nemandinn uppgötvar, reynir, upplifir, skapar, safnar, ímyndar sér, leggur til, efast um, fagnar, hlúir að og gefur af sér verður ómerkingur í einkunnagjöfinni. Það er nefnilega ekki þetta sem skólanum er ætlað að draga fram. Það er ekki nemandinn sjálfur og það sem hann býr yfir sem ætlunin er að fjalla um heldur hitt; það sem nemandinn hefur ekki. Kann ekki. Þekkir ekki. Höfundur er myndlistarmaður. 10 LAUGARDAGUR 10. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók|tækifærið manneskjan

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.